Leita í fréttum mbl.is

Staða og þróun Íslands og ESB mæla gegn aðild

Heimssýn, samtök sjálfstæðissinna í Evrópumálum, hvetur til þess að tillaga til þingsályktunar um að draga til baka umsókn Íslands um aðild að ESB verði samþykkt. Í umsögn Heimssýnar er fjallað talsvert um lýðræðislega þætti málsins en einnig um atriði er varða stöðu og þróun bæði Íslands og ESB. Hér er birtur sá kafli sem varðar fyrirkomulag, stöðu og þróun ESB sem mæla gegn aðild Íslands að sambandinu.
 
Umsögnin í heild er aðgengileg hér á vef Alþingis
 
 
Atriði sem varða fyrirkomulag, stöðu og þróun ESB sem mæla gegn aðild Íslands að sambandinu

Hvað þá með meginmálið sjálft, sem er það hvort það þjóni hagsmunum íslensku þjóðarinnar að Ísland gerist aðili að Evrópusambandinu. Eins og allir vita er það mál margslungið þótt helstu álitamálin séu nokkuð skýr.

 

B.1 Sjávarútvegsmál

Svo sem fram kemur í skýrslu Hagfræðistofnunar og fleiri skýrslum, meðal annars frá ESB og í yfirlýsingum æðstu embættismanna ESB þá flyttust formleg yfirráð yfir fiskveiðiauðlindinni frá Reykjavík til Brussel gerðist Ísland aðili að ESB. Sambandið lítur á lífverur hafsins á svæði ESB sem sameiginlega auðlind allra íbúa sambandsríkjanna og ljóst er að engar varanlegar undanþágur hafa fengist frá þeim meginreglum sem þar gilda. Jafnframt er ljóst að stofnanir ESB hafa vald til þess að setja afleidda löggjöf í fiskveiðimálum sambandsins í mjög víðtækum mæli.

Ljóst er að með aðild að ESB yrði að heimila erlendum aðilum fjárfestingu í sjávarútvegi hér á landi, en ljóst er að í því gæti falist mikil hætta fyrir efnahagslíf Íslendinga ef stórir erlendir aðilar næðu í krafti sterkrar fjárhagsstöðu að kaupa upp stóran hluta fiskveiði­heimilda hér við land.

Þá er ljóst að ástæðan fyrir því að kafli viðræðna við ESB um sjávarútvegsmál hefur ekki verið opnaður er sú að Íslendingar hefðu orðið að víkja frá þeim skilyrðum sem sett voru með þingsályktuninni frá 16. júlí 2009. Íslenska samninganefndin gat þar af leiðandi ekki komið með áætlun um aðlögun að stefnu ESB í sjávarútvegsmálum sem nauðsynleg var til að loka þeim kafla. Þetta sýnir klippt og skorið að það þjónar ekki hagsmunum Íslands að gerast aðili að ESB.

Auk þessa er ljóst að með aðild tæki ESB yfir gerð þjóðréttarlegra samninga við ríki utan sambandsins er snerta fiskveiðar sem og aðra samninga sem varða alþjóðleg hafsvæði.

Þá skal undirstrikað að með aðild að ESB tæki sambandið yfir forræði varðandi alla flökkustofna. Við hefðum því ekki getað veitt makríl í þeim mæli við höfum gert. Auk þess yrðum við að hætta öllum hvalveiðum ef Ísland gerðist aðili að ESB.

B.2 Landbúnaðarmál

Við það að Ísland verður hluti af innri markaði ESB munu tollar af búvörum frá ESB falla niður. Við það mun verð til bænda á afurðum lækka verulega frá því sem nú er, með tilheyrandi tekjumissi fyrir bændur. Þetta hefur komið fram í skýrslum sem unnar hafa verið um áhrif ESB aðildar á íslenskan landbúnað. Með óheftum innflutningi á búvörum, sem er krafa ESB, yrði fæðuöryggi og matvælaöryggi hér á landi minna, atvinna og byggðir hér á landi yrðu í hættu. Hætt yrði við því að aukinn innflutningur á landbúnaðarvörum myndi aðeins að óverulegu leyti skila sér í lægra vöruverði til neytenda. Reynsla erlendis frá bendir til þess að verðlækkun til neytenda sé aðeins lítill hluti af verðlækkun til bænda. Stuðningur við landbúnað er að auki byggður upp með allt öðrum hætti í ESB en á Íslandi. Upplýsingar um finnskan og sænskan landbúnað sýna að norrænar jaðarþjóðir í ESB njóta ekki ávinnings af sameiginlegri landbúnaðarstefnu sambandsins til jafns við þjóðir sunnar í Evrópu.

Íslenskir búfjárstofnar eru einstæðir í sinni röð og er þjóðin skuldbundin alþjóðlega til að varðveita þá. Fátt bendir til að með ESB-aðild verði hægt að tryggja sambærilega vernd gagnvart innflutningi á smitefnum, þekktum sem óþekktum, með banni við innflutningi á lifandi búfé.

B.3 Gjaldmiðlamál og efnahagsþróun

Hagfræðingar eru nú almennt sammála um að evrusvæðið uppfyllir ekki skilyrði um að teljast hagkvæmt gjaldmiðilssvæði, sem þó átti að vera forsenda þess að sameiginlegur gjaldmiðill var tekinn upp á svæðinu. Svæðið uppfyllir til dæmis ekki skilyrði um færanlegt vinnuafl frá svæðum með litla atvinnu til svæða þar sem eftirspurnin eftir vinnuafli er meiri. Þess vegna er atvinnuleysi nálægt þrjátíu prósentum á Spáni og í Grikklandi en aðeins nálægt fimm prósentum í Þýskalandi og Austurríki.

Innra ójafnvægi í hagþróun evrusvæðisins endurspeglar auk þess hversu ófullburða gjaldmiðilsbandalagið er þar sem Þjóðverjum hefur tekist að halda framleiðslukostnaði hjá sér í lágmarki og bjóða þannig upp á ódýrari vörur en ríkin í suðri með þeim afleiðingum að mikill viðskiptaafgangur er hjá Þjóðverjum og eignasöfnun á meðan viðskiptahalli hefur verið talsverður hjá jaðarþjóðunum með tilheyrandi skuldasöfnun, atvinnuleysi, ójafnvægi í búskap hins opinbera og vaxandi fátækt stórra hópa. Evrusamstarfið er sú spennitreyja sem tefur verulega fyrir bata vandræðaríkjanna sem stundum voru kennd við ákveðið húsdýr (PIGS-states: Portúgal, Ítalía, Írland, Grikkland og Spánn).

Skýrslur Seðlabanka Íslands og Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands hafa ítrekað bent á að hagsveiflur hér á landi séu það ólíkar hagsveiflum á evrusvæðinu að óhentugt væri að nota sama gjaldmiðil og sömu peningastefnu hér á landi og á evrusvæðinu. Hætt yrði við því að með sama gjaldmiðli, sem er ófrávíkjanleg stefna ESB fyrir aðildarlönd, gæti Ísland lent annað hvort í of miklum verðsveiflum og sveiflum í atvinnu þar sem hagsveiflur gerðu það að verkum að hér gæti verið niðursveifla þegar uppsveifla væri í evrulöndunum að meðaltali og því væru vextir hærri hér á landi en æskilegt væri út frá hagþróun hér á landi. Hið andstæða gæti þá átt sér stað þegar uppsveifla væri hér á landi, þ.e. að þá yrðu vextir of lágir miðað við ástandið hér á landi. Mismunandi aðstæður að þessu leyti gætu framkallað talsverðar sveiflur á vinnumarkaði, líkt og þekkist í Evrópusambandinu. Minna má á að Írar áttu í erfiðleikum af þessum sökum eftir að þeir gengu í Evrópusambandið og hliðstætt hefur gilt um fleiri lönd ESB. Þetta er vegna þess að vaxtastefna Seðlabanka Evrópu sem menn trúðu að myndi henta öllum hentar í raun engum svo vel sé.

Seðlabanki Evrópu (sem ætti náttúrulega að heita Seðlabanki evrusvæðisins) er einn hinn ólýðræðislegasti seðlabanki á heimssvæði okkar. Þar eru teknar ákvarðanir um stýrivexti út frá meðaltalsþróun á evrusvæðinu, fundargerðir frá ákvarðanatökufundum eru ekki birtar opinberlega og fulltrúum einstakra landa er óheimilt að tjá sig um eigin atkvæðagreiðslu eða skoðanir. Það má því segja að þar sé ákveðin skoðanakúgun í gangi. Gerðist Ísland aðili að ESB og tæki í fyllingu tímans upp evru þýddi lítið fyrir fulltrúa atvinnulífsins hér á landi að kvarta yfir vaxtaákvörðunum því á þá yrði ekki hlustað hvað þá að skoðanir þeirra yrðu eitthvert innlegg í næstu ákvarðanir. Aðstæður hér á landi myndu ekki skipta neinu máli hjá Seðlabanka evrusvæðisins vegna smæðar landsins.

Því skiptir máli að Íslendingar haldi sjálfir um efnahagsstjórn hér á landi og vandi vel til verka og betur en gert hefur verið hingað til. Eigin gjaldmiðill er miklu eðlilegri stuðpúði gegn mögulegum hagsveiflum en stórkostlegur niðurskurður í opinberum útgjöldum og miklar fjöldauppsagnir, svo vísað sé til þess sem gerst hefur í ESB-löndunum á síðustu árum.

B.4 Lýðræðismál

Í Evrópusambandinu er mikill lýðræðishalli og skortur á því sem kalla má lýðræðislegt lögmæti. Æ stærri hluti löggjafarvalds hefur verið færður frá þjóðþingum aðildarríkja til stofnana ESB. Mikil gjá hefur myndast á milli almennings í aðildarríkjum og stofnana ESB. Þátttaka í kosningum til ESB-þingsins er lítil og að jafnaði talsvert minni en í kosningum í viðkomandi löndum, og þingmenn og fulltrúar í framkvæmdastjórn þurfa lítið að standa reikningsskil gerða sinna gagnvart kjósendum.

Með aðild að ESB myndi forræði í einu stærsta hagsmunamáli Íslendinga, sjávarútvegsmálum, flytjast til ESB. Þar gætu ríflega 750 þingmenn frá ESB-löndunum sett lög um fiskveiðimál á Íslandi og þar hefðum við líklega fjögur sæti. Það er ansi hætt við því að boðleiðir yrðu torsóttari og seinfarnari en nú er. Bretar hafa ríflega sjötíu þingmenn en telja samt að ítrekað sé gengið fram hjá sjónarmiðum þeirra.

Svo er á það að líta að innan Evrópusambandsins sjálfs er valdinu að verulegu leyti komið fyrir hjá tiltölulega fámennri framkvæmdastjórn og nokkru fjölmennara ráðherraráði. Í framkvæmdastjórninni hefðu Íslendingar eitt sæti af um 30. Þessi tiltölulega fámenni hópur á mest frumkvæði að lagasetningu.

 

Niðurstöður og lokaorð

Samantekið er það niðurstaðan af þessari samantekt að það sé eðlilegt og rétt að samþykkja þá þingsályktun sem er kveikjan að þessari umsögn þar sem það þjónar illa hagsmunum Íslendinga að vera hluti af Evrópusambandinu. Við getum átt í eðlilegum og góðum samskiptum og viðskiptum við Evrópuþjóðir sem og aðrar þjóðir eftir sem áður. Það reyndist Íslendingum farsælt að gerast fullvalda þjóð og taka flest mál í eigin hendur árið 1918. Þá hófst hér á landi mikið framfaraskeið sem færði íslenska þjóð úr því að vera ein sú fátækasta í það að vera í hópi þeirra þjóða þar sem velmegun er hvað mest.

Það skiptir miklu máli að hafa forræði í eigin málum. Það veitir þá von að þjóðin geti sjálf breytt málum og komið þeim í farsælan farveg en slíkt blæs þjóðinni í brjóst það sjálfstraust og þann kraft sem hefur reynst okkur vel fram að þessu. Aðild að ESB myndi ekki aðeins vera hamlandi á ýmsa vegu heldur er hætt við að hún myndi smám saman draga úr þeirri framtakssemi sem hverri fámennri þjóð er nauðsyn, ekki síst þjóð sem býr við jafn erfiðar landfræðilegar aðstæður og Íslendingar hafa gert í gegnum aldirnar.

 

Það eru bjartir tímar framundan á Íslandi. Við erum að ná okkur upp úr þeirri efnahagskreppu sem varð möguleg meðal annars vegna samevrópskra reglna í fjármálalífi sem við urðum að undirgangast og gerðu íslenskum bönkum það kleift að vaxa íslenskum efnahag yfir höfuð. Við erum smám saman að koma styrkari stoðum undir íslenskt efnahagslíf. Það höfum við gert þrátt fyrir að ýmsar ESB-þjóðir hafi reynt að leggja stein í götu okkar, svo sem í Icesave-málinu. Þess vegna er mikilvægt að Íslendingar taki höndum saman um áframhaldandi uppbyggingu í íslensku atvinnu- og þjóðlífi. Því fyrr sem þingsályktunartillagan um að draga til baka umsókn um aðild að Evrópusambandinu verður samþykkt því fyrr getum við með sameinuðum kröftum og því sjálfstrausti og krafti sem einkennt hefur íslenska þjóð tekið höndum saman um að byggja hér áfram upp öflugt og gott velferðarsamfélag. 

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Elle_

Nú fyrir utan það að við eigum ekkert erindi þangað inn og það þjóni ekki hagsmunum landsins, ætti að stoppa þennan þjófnað Jóhönnu og co. á lýðræði núna strax, eins og hann hófst.  Þó löngu fyrr hefði verið og burtséð frá öllum skýrslum.

Elle_, 9.4.2014 kl. 19:39

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Heimssýn

Heimssýn

hreyfing sjálfstæðissinna í Evrópumálum, eru þverpólitísk samtök þeirra sem telja hagsmunum Íslendinga best borgið með því að halda áfram að vera sjálfstæð þjóð utan Evrópusambandsins.

 

Sími 895 5334 (Haraldur Ólafsson, formaður)


Nánar um Heimssýn

Vertu með!

Frjáls framlög

Eldri færslur

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.11.): 211
  • Sl. sólarhring: 272
  • Sl. viku: 2580
  • Frá upphafi: 1165208

Annað

  • Innlit í dag: 185
  • Innlit sl. viku: 2208
  • Gestir í dag: 174
  • IP-tölur í dag: 172

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband