Leita í fréttum mbl.is

Týr tyftar Þorstein Pálsson

Thorstpals

Þorsteinn Pálsson fjallaði fyrir nokkru um þá niðurstöðu landsfundar Sjálfstæðisflokksins að hafna tillögu um þjóðaratkvæðagreiðslu um framhald aðildarviðræðna við ESB. Eftir sem áður hefur Þorsteinn látið eins og niðurstaða Sjálfstæðisflokksins hafi verið allt önnur.

Týr, dálkahöfundur í Viðskiptablaðinu, fjallar um framgöngu Þorsteins Pálssonar, sem valinn hefur verið Evrópumaður ársins af þeim samtökum sem helst vilja draga Ísland inn í ESB.

 

Skrif Týs, eins og þau birtast á vef Viðskiptablaðsins eru svohljóðandi:

 

Hver voru svikin í Evrópumálum þegar fylgt var ákvörðunum landsfundar Sjálfstæðisflokksins um að slíta viðræðum?

Nýlega tilkynntu Evrópusamtökin að þau hefðu valið Þorstein Pálsson, fyrrverandi ráðherra og ritstjóra Fréttablaðsins, sem Evrópumann ársins fyrir að hafa „um árabil bæði rætt og ritað um Evrópumál á vandaðan og yfirvegaðan hátt.“ Fetar Þorsteinn Pálsson þarna í spor manna eins og Benedikts Jóhannessonar og Þorvaldar Gylfasonar, sem Evrópusamtökin hafa áður sæmt sama titli.

***

Þegar ríkisstjórnin tilkynnti í vetur, og báðir þingflokkar hennar höfðu samþykkt, að hún ætlaði að leggja til á Alþingi að aðildarumsóknin að ESB yrði afturkölluð urðu ýmsir reiðir og stóryrtir. Meðal þess sem fréttamenn gerðu mest úr, voru stóryrtar yfirlýsingar Þorsteins Pálssonar um að það yrðu stærstu svik íslenskra stjórnmála ef ekki yrði haldin þjóðaratkvæðagreiðsla um slíka ákvörðun, því slíku hefðu flokkarnir lofað.

***

En auðvitað voru engin svik í þessu fólgin. Fyrir kosningar héldu sjálfstæðismenn til dæmis landsfund og þar var mörkuð mjög skýr stefna í ESB-málinu. Aðildarumsóknin skyldi afturkölluð strax en ekki látið nægja að gera á henni hlé.

***

Af Kögunarhóli sínum í Fréttablaðinu 2. mars 2013, vafðist ekki fyrir Þorsteini Pálssyni hvaða ákvörðun landsfundur Sjálfstæðisflokksins hefði tekið. Undir fyrirsögninni „Báðum endum lokað“ skrifaði Þorsteinn Pálsson: „Sjálfstæðisflokkurinn hefur lengst af haft forystu um ný skref Íslands í pólitísku og efnahagslegu samstarfi vestrænna lýðræðisríkja. Nú er hann í besta falli málsvari óbreytts ástands. Engar línur voru lagðar á landsfundi hans hvernig tryggja ætti stöðu Íslands í þeim miklu breytingum sem eru að verða í alþjóðlegri efnahagssamvinnu, meðal annars á milli Evrópu og Bandaríkjanna. Landsfundurinn gekk svo langt að hafna tillögu um þjóðaratkvæðagreiðslu um framhald aðildarviðræðnanna, sem hann á hinn bóginn sagði að væri forsenda þess að halda þeim áfram.“

***

Í mars 2013 skrifaði Þorsteinn Pálsson sem sagt að landsfundur Sjálfstæðisflokksins hefði „gengið svo langt" að hafna því að fram færi þjóðaratkvæðagreiðsla um framhald aðildarviðræðnanna. Þegar forysta Sjálfstæðisflokksins kom svo eftir kosningar og ætlaði að framfylgja stefnu flokksins, þá skrifaði sami Þorsteinn Pálsson að það væru hreinlega mestu svik sögunnar ef ekki yrði haldin þjóðaratkvæðagreiðslan, sem hann hafði áður skammað landsfundinn fyrir að hafa hafnað.

***

Þegar landsfundur Sjálfstæðisflokksins hefur gert þær samþykktir sem hann gerði vorið 2013 þá gat enginn lofað hinu gagnstæða fyrir hönd flokksins í kosningabaráttunni sama vor. Það ættu allir að skilja og fáir betur en Þorsteinn Pálsson sem er, eins og fréttamenn gleyma aldrei að taka fram þegar þeir vitna í hann aftur og aftur, fyrrverandi formaður Sjálfstæðisflokksins og forsætisráðherra (frá 8.júlí 1987 til 17.september 1988).

***

Týr hefur áður fjallað um þessar yfirlýsingar Þorsteins Pálssonar og bent á að í ESB-málinu voru raunveruleg svik og þau stór. En þau svik framdi ekki Sjálfstæðisflokkurinn heldur allt annar flokkur. Týr birti upptöku úr sjónvarpssal máli sínu til stuðnings. Þá höfðu íslenskir Evrópusinnar ekki miklar áhyggjur af sviknum loforðum. Fréttastofa Ríkisútvarpsins ekki heldur.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Þörf upprifjun. Það sem mér fannst alltaf skondið í öllum þessum upphrópunum að tala skyldi svona fjálglega um kosningasvik. (Sem reyndar voru efndir) það leiðir hugann að því hvort Guðmundur Andri og fleiri vinstrimenn sem bergmáluðu Þorstein hefðu kosið sjálfstæðisflokk eða Framsóknarflokk. Ef svo vildi til að þessir gengju bak orða sinna í kosningabaráttunni þá hlaut það að varða kjósendur þeirra, en ekki þá sem kusu þá ekki.

Þetta var hinsvegar þannig í tilfelli Steingríms og Vinstri grænna kjósenda, sem þurftu að horfa upp á öll prinsippmál stefnuskrárinnar svikin.

Jón Steinar Ragnarsson, 21.10.2014 kl. 12:36

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Heimssýn

Heimssýn

hreyfing sjálfstæðissinna í Evrópumálum, eru þverpólitísk samtök þeirra sem telja hagsmunum Íslendinga best borgið með því að halda áfram að vera sjálfstæð þjóð utan Evrópusambandsins.

 

Sími 895 5334 (Haraldur Ólafsson, formaður)


Nánar um Heimssýn

Vertu með!

Frjáls framlög

Eldri færslur

Des. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (27.12.): 376
  • Sl. sólarhring: 439
  • Sl. viku: 2116
  • Frá upphafi: 1177755

Annað

  • Innlit í dag: 336
  • Innlit sl. viku: 1872
  • Gestir í dag: 306
  • IP-tölur í dag: 304

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband