Leita í fréttum mbl.is

Sjálfstæðisflokkurinn er grjótharður á móti aðild að ESB

hjortur jStefna Sjálfstæðisflokksins er sú að best sé fyrir Íslendinga að vera utan ESB. Það var síðast áréttað af flokksráði Sjálfstæðisflokksins nýverið.

Hjörtur J. Guðmundsson blaðamaður ritar um stöðu flokksins í þessu máli og eru skrif hans birt í Morgunblaðinu í dag. Grein Hjartar eru endurbirt hér. Heiti greinarinnar er Stefnan er skýr:

 

 

Flokksráð Sjálfstæðisflokksins samþykkti á dögunum ályktun þar sem ítrekuð er andstaða flokksins við inngöngu í Evrópusambandið líkt og áður. Ennfremur var áréttað að viðræðum um inngöngu í sambandið hefði verið hætt á síðasta ári og engin áform væru um að taka þær upp að nýju. Einhverjir hafa gagnrýnt að ekki sé kveðið á um það með beinum hætti að draga eigi umsókn Íslands að Evrópusambandinu til baka. Það er skiljanlegt en hins vegar er slíkt orðalag með öllu óþarft.

Fyrir því er einföld ástæða. Ekki þarf annað að koma fram en að Sjálfstæðisflokkurinn sé andvígur inngöngu í sambandið enda felur það orðalag vitanlega um leið í sér andstöðu við það að tekin verði skref í þá átt og ennfremur að slík skref sem kunna að hafa verið tekin verði stigin til baka. Þannig hefur stefna Sjálfstæðisflokksins í Evrópumálum ætíð verið. Einfaldlega hefur verið tekið fram að flokkurinn sé andvígur því að gengið sé í Evrópusambandið. Engum datt í hug að þar með gæti Sjálfstæðisflokkurinn eftir sem áður staðið að umsókn um inngöngu í sambandið. Ekki einu sinni hörðustu stuðningsmönnum þess.

Sama var að segja um Vinstrihreyfinguna - grænt framboð áður en flokkurinn settist í ríkisstjórn árið 2009, seldi stefnu sína í Evrópumálum fyrir ráðherrastóla og gerði að sínum þann málflutning að einhvern veginn væri hægt að vera andvígur því að ganga í Evrópusambandið en samt standa að umsókn um inngöngu í þetta sama samband. Málflutning sem forystumenn VG höfðu áður margítrekað hafnað. Eðli málsins samkvæmt.

Sjálfstæðisflokkurinn hefur ekki tekið þátt í þeim blekkingarleik sem á upphaf sitt í þeirri niðurstöðu stuðningsmanna inngöngu í Evrópusambandið fyrir um það bil 15 árum síðan að líklega tækizt aldrei að tryggja nægjanlegan stuðning á meðal þjóðarinnar við inngöngu í sambandið. Meiri líkur væru á því að hnika málinu áfram ef hægt yrði að samfæra nógu marga um að umsókn um inngöngu í Evrópusambandið og eiginleg innganga væri tvennt ólíkt. Þaðan kom síðan orðalagið um að kíkja í pakkann, pakka sem alltaf hefur verið opinn, sem og skoðanakannanir þar sem sérstaklega hefur verið spurt um afstöðuna til umsóknar eða aðildarviðræðna.

Skemmst er frá því að segja að slíkar skoðanakannanir þekkjast hvergi nema hér á landi. Þannig er aldrei spurt um annað í Noregi en afstöðu fólks til inngöngu í Evrópusambandið. Enda líta Norðmenn svo á, rétt eins og sambandið sjálft, að umsókn um inngöngu feli í sér yfirlýsingu um að ætlunin sé að ganga þar inn. Þar er ekkert til sem heitir að kíkja í pakkann.

Sjálfstæðisflokknum er þannig nákvæmlega ekkert að vanbúnaði að standa að því að umsóknin um inngöngu í Evrópusambandið verði dregin til baka. Stefnan er skýr, inngöngu er hafnað.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Helga Kristjánsdóttir

Það er hið besta mál og þætti okkur flestum þá öruggast að umsókninni sé eytt. Stjórnmálamönnum finnst e.t.v.óþægilegt að auðsýna ESB tortryggni með þeim hætti,en við höfum lært að allur sé varinn góður. 

Helga Kristjánsdóttir, 7.11.2014 kl. 15:34

2 Smámynd: Friðrik Friðriksson

Vitum alveg hvaða stefna Sjálfstæðisflokksins er í þessum málum og líka aðra flokka og af hverju þá ekki að láta þjóðina ráða í þessum málum?

Friðrik Friðriksson, 7.11.2014 kl. 22:25

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Heimssýn

Heimssýn

hreyfing sjálfstæðissinna í Evrópumálum, eru þverpólitísk samtök þeirra sem telja hagsmunum Íslendinga best borgið með því að halda áfram að vera sjálfstæð þjóð utan Evrópusambandsins.

 

Sími 895 5334 (Haraldur Ólafsson, formaður)


Nánar um Heimssýn

Vertu með!

Frjáls framlög

Eldri færslur

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.1.): 157
  • Sl. sólarhring: 413
  • Sl. viku: 2071
  • Frá upphafi: 1186927

Annað

  • Innlit í dag: 154
  • Innlit sl. viku: 1842
  • Gestir í dag: 152
  • IP-tölur í dag: 151

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband