Leita í fréttum mbl.is

Tungumál smáþjóðar þarf að sanna sig og búa yfir lífslöngun

Ögmundur Jónasson, þingmaður Vinstri grænna, segir tungumál smáþjóðar, sem vill vera til, þurfi að hafa fyrir því ; þurfi að sanna sig nánast upp á hvern dag og búa yfir lífslöngun. Það sé ávallt alþýða manna sem beri tunguna áfram milli kynslóða. Þess vegna sé nauðsynlegt að alþýða manna búi við góðan kost og sjái framtíð sína hér. Annars endi íslenskan sem skarutgripur á fornminjasafni.

Ögmundur ritar um þetta pistil sem Morgunblaðið birti í síðasta sunnudagsblaði. Pistlinum lýkur Ögmundur á þessum orðum: 

Ef efnamenn eignast Ísland að fullu, mun ekki líða á löngu þar til þeir manna landið með ódýrum innflytjendum sem tala þá tungu sem ódýrast er að láta þá tala. Baráttan fyrir íslensku er um leið baráttan um landið. Tungan er dýrmætasta þjóðareignin.

 

Pistill Ögmundar er aðgengilegur hér í heild sinni:

 

Dagur íslenskrar tungu

Er margbreytileikinn einhvers virði? Skiptir máli að varðveita fjölbreytileika flórunnar og fánunnar? Væri í lagi að hafa bara eina trjátegund? Til dæmis velja ösp fyrir Ísland, hraðvaxta og tiltölulega harðgert tré? Láta kræklótt birkið gossa og víðinn?

Eflaust mætti fækka dýrategundum að skaðlausu - gott að losna við eitthvað af pöddunum. Og svo eru það tungumálin. Einu sinni bundu menn vonir við esperantó sem heimstungumál. Tungu sem risi yfir allar hinar. Esperantistarnir vildu þó ekki útrýma öðrum málum.

Svo gæti þó farið að enskan gerði það og kannski tvær þrjár aðar tungur. Yrði missir að því að grisja í heimi tungumálanna? Slá af smæstu tungurnar; þær sem fáir tala? Þá fyki íslenskan fljótt. Ekki svo að skilja að íslenskan sé smá þótt fáir tali hana. Færa má rök fyrir því að hún sé á meðal heimsmálanna - því fengu fornbókmenntir okkar áorkað - og fyrir Íslendinga er íslenskan lífsorkulind eins og Jón Helgason lýsir í kvæði sínu, Í Árnasafni: »Undrandi renndi ég augum með bókanna röðum:/eljuverk þúsunda, varðveitt á skrifuðum blöðum;/hvar sem ég fletti, við eyru mér ólguðu og sungu/uppsprettulindir og niðandi vötn minnar tungu./« En gefum okkur að íslenskan væri ekki heimsmál, skipaði ekki þann sess sem hún gerir í bókmenntasögunni, hver væri tilveruréttur hennar? Tungumál smáþjóðar, sem vill vera til, þarf að hafa fyrir því; þarf að sanna sig nánast upp á hvern dag, búa yfir lífslöngun.

Þetta hafa Íslendingar löngum vitað. Og til að minna okkur á það varð til dagur íslenskrar tungu. Það var við hæfi að velja afmælisdag Jónasar Hallgrímssonar til að gegna þessu hlutverki. Nær öll ljóð hans eru áminning um mikilvægi íslenskrar tungu.

Jónas Hallgrímsson var næmari á tilbrigði náttúrunnar en flestir menn og kannski leynast einhverjir þræðir þar á milli og ljóðlistar hans. Hann staðnæmdist við hið smáa í náttúrunni, kom þar auga á smávini sína fagra.

Páll Valsson segir í frábærri bók sinni um ævi Jónasar að hann hafi að sínu mati »farið framúr« sjálfum Heine í þýðingu sinni á Álfareiðinni. Heinrich Heine og Jónas Hallgrímsson voru báðir snillingar. Annar orti á tungu milljóna, hinn á tungu þúsunda. Sagt hefur verið að hugsunin tengist tungumálinu, blæbrigðamunur tungumála feli í sér ólíka áferð hugsunar. Það getur verið kostur að þurfa að flytja sig á milli tungumála, eins og smáþjóðin þarf að gera. Það krefst umhugsunar um merkingu þess sem sagt er; hver sé munurinn á hugsun á einu máli og öðru. Þannig auðgar og frjóvgar margbreytileikinn og skerpir hugsun.

En tunga er líka pólitík. Sjálfstæði þjóðarinnar stendur á grundvelli sögu og menningar. Og það er ávallt alþýða manna sem ber tunguna áfram milli kynslóða. Þess vegna er nauðsynlegt að alþýða manna búi við góðan kost og sjái framtíð sína hér. Annars endar íslenskan sem skrautgripur í fornminjasafni.

Ef efnamenn eignast Ísland að fullu, mun ekki líða á löngu þar til þeir manna landið með ódýrum innflytjendum sem tala þá tungu sem ódýrast er að láta þá tala. Baráttan fyrir íslensku er um leið baráttan um landið. Tungan er dýrmætasta þjóðareignin.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Helga Kristjánsdóttir

Íslensk tunga er fágæt um leið og hún er okkur dýrmæt,sannarlega rétt hjá Ögmundi.

Helga Kristjánsdóttir, 20.11.2014 kl. 01:35

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Heimssýn

Heimssýn

hreyfing sjálfstæðissinna í Evrópumálum, eru þverpólitísk samtök þeirra sem telja hagsmunum Íslendinga best borgið með því að halda áfram að vera sjálfstæð þjóð utan Evrópusambandsins.

 

Sími 895 5334 (Haraldur Ólafsson, formaður)


Nánar um Heimssýn

Vertu með!

Frjáls framlög

Eldri færslur

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.11.): 121
  • Sl. sólarhring: 288
  • Sl. viku: 2490
  • Frá upphafi: 1165118

Annað

  • Innlit í dag: 100
  • Innlit sl. viku: 2123
  • Gestir í dag: 97
  • IP-tölur í dag: 95

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband