Leita í fréttum mbl.is

Uppreisn innan Seðlabanka Evrópu

DraghiSvo virðist sem Mario Draghi aðalbankastjóri Seðlabanka Evrópu eigi nú á brattann að sækja með hugmyndir sínar um næstu aðgerðir til björgunar evrunni. Fjölmiðlar í álfunni greina frá því að um helmingur af æðstu framkvæmdastjórn bankans hafi snúist gegn hugmyndum Draghis, þar á meðal fulltrúar Þýskalands og Frakklands. Þeir hafi neitað að skrifa undir síðustu yfirlýsingar Draghis.

Draghi hefur haldið því fram að til að evran standist til frambúðar þurfi eina ríkisstjórn fyrir evrusvæðið og evrópskt stórríki til að styðja við gjaldmiðilinn. Bankastjórinn hefur þótt skeleggur í framgöngu sinni og höfðu t.d. ummæli hans fyrir fáeinum misserum um að Seðlabanki Evrópu myndi gera það sem þyrfti til að bjarga evrunni mjög jákvæð áhrif á gang evrumála.

 

Frakkland, Lúxemborg og Þýskaland gegn Draghi

Nú virðist sem áhrifamáttur Draghis fari þverrandi. Það gæti haft veruleg áhrif á þróun fjármálamarkaða í álfunni og á langtímahorfur fyrir evruna. Andstöðuhópur innan Seðlabanka Evrópu er sagður samanstanda af Sabine Lautenschläger, fulltrúa Þýskalands, Yves Mersch, fulltrúa Lúxemborgar og Benoît Cœuré, fulltrúa Frakklands. Í þessu sambandi er bent á að Draghi hafi ekkert komist áfram með hugmyndir sínar sem hann lýsti nýlega um trilljón evra innspýtingu frá Seðlabanka Evrópu í atvinnulíf í álfunni til þess að draga úr hættu á verðhjöðnun og frekari samdrætti og atvinnuleysi. Að líkindum er það fyrst og fremst hörð andstaða Þjóðverja sem setur Draghi stólinn fyrir dyrnar í þessu máli. Því er jafnvel haldið fram að hann muni hverfa úr stóli aðalseðlabankastjóra ESB og sækjast eftir embætti forseta Ítalíu þegar hinn 89 ára gamli Giorgio Napolitano dregur sig í hlé.

 

Úrillur Draghi

Þjóðverjar eru sagðir þreyttir á Draghi, hann er sakaður um að missa stjórn á skapi sínu, neiti að hlusta á andsstæð sjónarmið, útiloki seðlabankastjóra Þýskalands, Jens Weidmann og styðjist fyrst og fremst við þröngan hóp já-bræðra. Seðlabanki Evrópu er meðal þeirra banka þar sem fundargerðir stjórnarnefnda eru leynilegar og þess vegna hefur fjölmiðlafólk orðið að grafa upp eftir öðrum leiðum hvar skoðanir skerast í stjórn peningamála. Samkvæmt þýskum og breskum fjölmiðlum sem hér er vitnað til er mikil kergja hlaupin í deilur innan bankans um hvort og hversu hratt Seðlabanki Evrópu eigi að veita fé út í hagkerfið til að koma vélum þess í gang (kallað quantitative easing á ensku). Svokallaðir haukar, þeir sem harðast standa gegn slíkum lausatökum í peningamálum, koma frá Þýskalandi. Þannnig hefur Lautenschläger haldið því fram að hugmyndir Draghis um kaup seðlabankans á ríkisskuldabréfum jafnist á við bein fjárframlög bankans til ríkjanna, sem eru bönnuð í ESB, og að slíkt myndi bara auka hegðunarvanda í fjármálalífinu. Bankastjóri Bundesbank, Jens Weidmann, segir að lausatökin í peningamálunum séu þegar orðin of mikil fyrir aðstæður í Þýskalandi (jafnvel þótt þar í landi sé ekki spáð nema 1% hagvexti á næsta ári). Weidmann segir að nýleg olíuverðslækkun eigi að duga til að koma atvinnulífinu í gang og því eigi ekki að vera þörf á peningainnspýtingu frá Seðlabanka Evrópu.

 

Offramboð af skuldabréfum

Nú þegar er talsvert framboð af ríkisskuldabréfum á evrópskum fjármálamörkuðum vegna mikilla skulda ríkissjóðanna. Ítalir óttast að þetta mikla framboð muni leiða til verulegrar lækkunar á verði bréfanna á næstu árum. Tekist er meðal annars á um það hve langt Seðlabanki Evrópu eigi að ganga sem lánveitandi til þrautavara fyrir viðskiptabanka í álfunni sem gætu lent í erfiðleikum vegna mögulegs verðfalls á skuldabréfaeignum sínum. 

 

Vatn á myllu evruandstæðinga

Svo virðist sem sjónarmið þeirra sem mest takast á séu annars vegar ættuð frá Ítalíu sem er stórskuldug og hins vegar frá Þýskalandi þar sem sparnaður hefur verið í fyrirrúmi undarnfarna áratugi. Draghi hefur látið í veðri vaka að hann gæti bara í krafti meirihluta keyrt yfir Þjóðverjana. Nýlegar fréttir benda þó ekki til þess að meirihlutinn að baki Draghis yrði rúmur, auk þess sem það myndi grafa mjög undan samstarfinu í Seðlabanka Evrópu ef aflsmunar yrði neytt gagnvart stærsta efnahagsveldinu í álfunni, Þýskalandi. Slíkt gæti orðið vatn á myllu evruandstæðinga í Þýskalandi í AFD-flokknum (Alternative fur Deutschland).

 

Nýjar stjórnarskrárdeilur í uppsiglingu

Jafnframt er minnt á að enn séu ekki allar lagaflækjur leystar fyrir stjórnarskrárdómstóli í Þýskalandi varðandi nýlega vegferð ESB og Seðlabanka Evrópu. Búist er við nýjum dómsmálum vegna áforma um peningaútflæði frá Seðlabankanum til stuðnings ríkissjóðum sem andstæðingar slíkra aðgerða segja að verði skuldbindandi fyrir skattgreiðendur og að það brjóti gegn sáttmálum og reglum í ESB. Sumir halda því jafnvel fram að ef Seðlabanki Evrópu myndi grípa til jafn stórtækra peningainnspýtinga og Draghi hefur boðað þá myndi þýski seðlabankinn, Bundesbank, koma í veg fyrir að slík framkvæmd næði að fullu fram að ganga í Þýskalandi.

 

Nauðsyn á sameiginlegri skattheimtu í ESB

Það er einmitt þarna sem hnífurinn stendur í kúnni þegar kemur að frekari samruna á evrusvæðinu. Ýmsir telja að til að evran eigi að hafa möguleika á því að standast til frambúðar verði að koma til sameiginleg ríkisstjórn, sameiginlegt skattlagningarvald og sameiginlegt stórríki - og að Seðlabanki Evrópu verði að geta gripið til stórtækra aðgerða til stuðnings gjaldmiðlinum. Þjóðverjar og fylgiríki þeirra standa fast gegn öllum slíkum áformum. Allar tilraunir til að velta vanda bankakerfisins yfir á skattgreiðendur eru eitur í þeirra beinum. 

Það verður mjög fróðlegt að fylgjast með þróun þessara mála. Í fyrsta lagi hversu langlífur Mario Draghi verður á stóli seðlabankastjóra og í öðru lagi hvernig deilan á milli þeirra sem vilja annars vegar beita stífum aðhaldsaðgerðum og svo hinna sem vilja leyfa meiri lausatök í fjármálum kemur til með að þróast. 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Heimssýn

Heimssýn

hreyfing sjálfstæðissinna í Evrópumálum, eru þverpólitísk samtök þeirra sem telja hagsmunum Íslendinga best borgið með því að halda áfram að vera sjálfstæð þjóð utan Evrópusambandsins.

 

Sími 895 5334 (Haraldur Ólafsson, formaður)


Nánar um Heimssýn

Vertu með!

Frjáls framlög

Eldri færslur

Des. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (26.12.): 1
  • Sl. sólarhring: 95
  • Sl. viku: 1740
  • Frá upphafi: 1176913

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 1578
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband