Leita í fréttum mbl.is

Ísland frjálst utan ESB

jon_bjarnason_1198010Það að Ísland er umsóknarríki að ESB veitir ESB rétt til ýmissa afskipta af innanríkismálum hér á landi svo sem að vera hér með sérstakan sendiherra og reka áróðursskrifstofu eins og Evrópustofu sem annars væri ekki heimilt.

Þetta er meðal þess sem fram kemur í grein sem Jón Bjarnason, formaður Heimssýnar, ritar og er birt í Morgunblaðinu í dag.

Greinin er birt hér í  heild:

 

Eitt af loforðum ríkisstjórnarflokkanna, Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks, var að afturkalla beiðni fyrrverandi ríkisstjórnar um aðild Íslands að Evrópusambandinu. Í skýrslu sem Hagfræðistofnun Háskólans vann á síðastliðnu ári var í raun staðfest það sem talsmenn ESB höfðu alltaf sagt að Ísland gæti ekki fengið neinar varanlegar undanþágur frá lögum og regluverki ESB. Einungis gæti verið um tímabundna aðlögun að ræða í einstaka tilvikum.

Úr handbók stækkunarferils ESB

Evrópusambandið hefur orðað sína hlið málsins skýrt frá byrjun:

»Í fyrsta lagi er mikilvægt að undirstrika það að hugtakið samningaviðræður getur verið misvísandi. Aðildarviðræður snúast um skilyrði fyrir og tímasetningar á upptöku umsóknarlands á reglum ESB, framkvæmd þeirra og beitingu - sem fylla 100 þúsund blaðsíður. Um þessar reglur... verður ekki samið.«

([1] »First, it is important to underline that the term »negotiation« can be misleading. Accession negotiations focus on the conditions and timing of the candidate's adoption, implementation and application of EU rules - some 100,000 pages of them. And these rules... are not negotiable.« (Sjá: http://ec.europa.eu/enlargement/pdf/publication/enl-understand_en.pdf)

Sáttmálar, lög og reglur Evrópusambandsins liggja fyrir og þeim getur litla Ísland að sjálfsögðu ekki breytt. Málið snýst því eingöngu um spurninguna: Vilt þú að Ísland gangi í ESB eða ekki?

Bjölluati í Brussel er lokið

Menn geta brugðið fyrir sig fávisku þegar þeir samþykktu beiðnina um aðild að ESB 16. júlí 2009. Í einfeldni héldu sumir að hægt væri að »kíkja í pakkann«, »hringja dyrabjöllunni í Brussel« svona til að athuga hvað væri í matinn. Nú geta þeir það ekki lengur. »Matseðill« ESB liggur fyrir og er öllum opinber eins og hann hefur reyndar ávallt verið.

Að vera áfram umsóknarríki veitir ESB rétt til ýmissa afskipta af innanríkismálum svo sem að vera hér með sérstakan sendiherra og reka áróðursskrifstofu eins og Evrópustofu sem annars væri ekki heimilt.

Meðan umsóknin liggur inni hefur aðildarviðræðum ekki verið hætt.

Þetta vafðist ekki fyrir landsfundarfulltrúum Sjálfstæðisflokksins á síðasta landsfundi 21.-24. febrúar 2013 í aðdraganda alþingiskosninga. En þá var ályktað mjög afdráttarlaust um að hætta aðlögunarviðræðum við ESB og loka Evrópustofu, áróðursmiðstöð sambandsins hér á landi. Orðrétt segir:

»Landsfundurinn mótmælir íhlutun sendiherra Evrópusambandsins á Íslandi í stjórnmálaumræðu þjóðarinnar og telur óhæfu að stækkunardeild ESB haldi úti starfsemi hér þar sem lagst er á sveif með einu stjórnmálaafli gegn öðrum. Evrópusambandinu verði gert að loka kynningarskrifstofu þess hér.«

 

Ákvæði stjórnarsáttmálans í þessu máli eru í samræmi við landsfundarsamþykktir beggja ríkisstjórnarflokkanna og ber að fylgja eftir.

Ríkisstjórnin standi við loforð sín

Þingmál um afturköllun umsóknarinnar er á málaskrá ríkisstjórnarinnar. Tillaga þess efnis var einnig lögð fram á síðasta þingi en hlaut ekki endanlega afgreiðslu. Hinsvegar var hún ítarlega rædd bæði á þingi og í utanríkismálanefnd og fjöldi umsagna barst.

Það má því segja að öll gögn liggi fyrir til skjótrar afgreiðslu málsins á Alþingi.

Nýlegar yfirlýsingar forsætisráðherra, utanríkisráðherra og formanns utanríkismálanefndar staðfesta að ríkisstjórnin muni nú á allra næstu dögum leggja tillöguna á ný fyrir Alþingi í samræmi við stefnu og loforð beggja ríkisstjórnarflokkanna:

»Hafi verið tilefni til þess að draga umsóknina til baka á síðasta ári hafa þeir atburðir og þróun sem átt hefur sér stað síðan orðið til þess að styrkja þá afstöðu að Ísland eigi ekki að hafa formlega stöðu umsóknarríkis,« sagði Birgir Ármannsson, formaður utanríkismálanefndar, í viðtali við Morgunblaðið 5. janúar síðastliðinn.

Brýnt að afturkalla ESB-umsóknina formlega

Óprúttin ESB-sinnuð ríkisstjórn getur virt lýðræðið að vettugi og sett aðildarferlið á fullt á ný hvenær sem er. Það getur hún gert án atbeina þjóðarinnar eins og raunin var í ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstri grænna vorið 2009.

Þess vegna verður að afturkalla núverandi umsókn. Þar með verði tryggt að nýtt aðildarferli verði ekki hafið nema með nýrri umsókn og að fengnum skýrum vilja þjóðarinnar til inngöngu í Evrópusambandið, sem vonandi verður aldrei.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Heimssýn

Heimssýn

hreyfing sjálfstæðissinna í Evrópumálum, eru þverpólitísk samtök þeirra sem telja hagsmunum Íslendinga best borgið með því að halda áfram að vera sjálfstæð þjóð utan Evrópusambandsins.

 

Sími 895 5334 (Haraldur Ólafsson, formaður)


Nánar um Heimssýn

Vertu með!

Frjáls framlög

Eldri færslur

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (12.1.): 19
  • Sl. sólarhring: 267
  • Sl. viku: 1681
  • Frá upphafi: 1183265

Annað

  • Innlit í dag: 14
  • Innlit sl. viku: 1473
  • Gestir í dag: 14
  • IP-tölur í dag: 14

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband