Leita í fréttum mbl.is

Lýðræði eða lýðskrum

ThorvaldurThorvaldssonÞað var aumkunarvert að horfa nýverið upp á Katrínu Jakobsdóttur, formann VG, mæla fyrir tillögu um að halda þjóðaratkvæðagreiðslu um áframhald viðræðna um aðild að Evrópusambandinu. Enn fremur að hún skyldi segja að þar sé um að ræða prófstein á lýðræðið í landinu.

Svo skrifar Þorvaldur Þorvaldsson, trésmiður og fulltrúi í framkvæmdastjórn Heimssýnar, í grein sem birt er í Fréttablaðinu í dag.

Þorvaldur segir þar enn fremur:

Þar talar Katrín annað hvort gegn betri vitund eða hún skilur ekki muninn á lýðræði og lýðskrumi. Þjóðaratkvæðagreiðsla er ekki endilega ávísun á lýðræði. Það ræðst af ýmsu. Það er t.d. frumskilyrði að kostirnir sem valið er um séu skýrir og báðir eða allir framkvæmanlegir. Þannig hlyti eina lýðræðislega atkvæðagreiðslan um þetta mál að snúast um viljann til að ganga í ESB eða ekki.

Þá þyrfti líka að liggja skýrt fyrir að fyrirvörum sem fylgdu þingsályktuninni um aðildarumsókn yrði vikið til hliðar og forræði þjóðarinnar yfir sjávarauðlindinni yrði gefið upp á bátinn. Sama á við um það skilyrði að setja skorður við innflutningi dýra- og landbúnaðarafurða til að koma í veg fyrir sjúkdóma og tryggja fæðuöryggi.

Þessi skilyrði komu fram bæði í greinargerð og nefndaráliti sem vísað er til í tillögunni sjálfri. Seint á árinu 2011 sigldu viðræðurnar við ESB í strand þar sem ESB neitaði að opna viðræður um sjávarútvegs- og landbúnaðarkaflann fyrr en fyrir lægi tímasett áætlum um aðlögun Íslands að stefnu ESB í málaflokkunum.

Það er tímabært að Katrín Jakobsdóttir og aðrir sem ákaft hafa reynt að blekkja þjóðina undanfarin misseri svari því hvort þeir vilja setja auðlindir Íslands á opinn evrópskan markað, koma á viðskiptahöftum við lönd utan ESB og lögfesta markaðsvæðingu allra innviða samfélagsins. Auk þess hangir margt fleira á spýtunni sem sumt kemur ekki í ljós fyrr en eftir mörg ár.

Ætlar Katrín og fylgjendur hennar kannski að sæta lagi til smokra sér fram hjá þeim fyrirvörum sem Alþingi setti við aðildar umsóknina svo lítið beri á, eða er meiningin að fyrirhugaðar viðræður verði eins konar störukeppni við ESB? Niðurstaða hennar yrði fyrirséð þar sem ESB hefur á að skipa her manna með langa reynslu af að stara.

Spurningin snýst um hvort við viljum ganga í ESB með því sem því fylgir en ekki um formsatriði eða óánægju með ríkisstjórnina. Með inngöngu í ESB yrðum við lokuð inni í ríkjasambandi sem mótaði allt líf okkar án þess að við gætum haft áhrif á hvert það þróast og það dylst fáum núorðið að það þróast á versta veg. Það er því kaldhæðnislegt að þeir sem þykjast tala fyrir lýðræði í þessu máli eru í raun að reyna að hjúpa það gerningaþoku og grafa þannig undan lýðræðinu. Ég krefst þess að minn lýðræðislegi réttur snúist um annað og meira en að greiða atkvæði um að afnema lýðræðið.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

"Trésmiður", það var auðvitað það sem skipti öllu máli. 

Haukur Kristinsson (IP-tala skráð) 11.5.2015 kl. 15:32

2 Smámynd:   Heimssýn

Það verður ekki séð að athugasemd Hauks sé liður í málefnalegri umræðu. Fólk er gjarnan kynnt með stöðu eða starfsheiti og var við það látið sitja hér eins og oftast.

Heimssýn, 11.5.2015 kl. 15:58

3 identicon

Jós.T. (IP-tala skráð) 11.5.2015 kl. 16:17

4 Smámynd: Eggert Sigurbergsson

Aðildarsinna hafa að sjálfsögðu engan áhuga á að vita af eða ræða heilar 60 síður af fyrirvörum sem fylgdu með aðildarumsókninni Samfylkingar og Vinstri Grænna. Þeir láta sem þeir séu ekki til og ætlast til að þeir gufi bara upp eins dögg fyrir sólu eftir að þjóðin ákveður að kíkja í pakkann eftir þjóðaratkvæðagreiðslu. Aumara og óheiðarlegra getur það varla verið.

Eggert Sigurbergsson, 11.5.2015 kl. 16:53

5 identicon

„Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að leggja inn umsókn um aðild Íslands að ESB og að loknum viðræðum við sambandið verði haldin þjóðaratkvæðagreiðsla um væntanlegan aðildarsamning. Við undirbúning viðræðna og skipulag þeirra skal ríkisstjórnin fylgja þeim sjónarmiðum um verklag og meginhagsmuni sem fram koma í áliti meiri hluta utanríkismálanefndar.”

Er undirbúningur viðræðna og skipulag þeirra það sama og framkvæmd þeirra og niðurstaða? Og er hægt að kalla sjónarmið um verklag og meginhagsmuni sem fram koma í áliti fyrirvara?

Jós.T. (IP-tala skráð) 11.5.2015 kl. 17:25

6 Smámynd:   Heimssýn

Ef þú hefur fylgst með umræðunni, Jós. T., þá áttu að hafa tekið eftir að í viðræðunum átti að fylgja tilteknum meginhagsmunum, m.a. í auðlindamálum. Það má jafna samþykkt um að fylgja tilteknum meginhagsmunum við fyrirvara. Á þeim meginhagsmunum, eða fyrirvörum, strönduðu viðræðurnar árið 2011. Þetta liggur nú fyrir þótt þáverandi utanríkisráðherra, Össuri Skarphéðinssyni, hafi tekist að leyna þessu um nokkurt skeið. Þetta liggur allt fyrir núna.

Heimssýn, 11.5.2015 kl. 18:07

7 Smámynd: Sigurður M Grétarsson

Það er niðurstaðan sem skiptir máli en ekki deilur um meginlínur meðan á aðildarviðræðum stendur. Reyndar er þaðsvo að það er engin krafa um það að hálfu ESB að Ísland láti af hendi neinar auðlindir hvorki fiskveiðiauðlindir né aðrar í aðildrviðræðunu. Það hefur ekkert ESB ríki nokkurn tíman verið krafið um slíkt enda eru ESB reglur ekki með þeim hætti að get sé ráð fyrir slíku.

Það er því ekkert til fyrirstöðu að halda áfram aðildarviðræðum og ef kjósendum finnst völd ESB varðandi stjórnun fiskveiða of mikil í aðildarsamningi þá einfaldlega fella þeir hann í þjóðaratkvæðageiðslu. En eitt er alveg á tæru. Það er engin krafa og þar með útilokað að það verði niðurstaða aðildaraviðræðna að Ísland láti á nokkurn hátt frá sér fiskveiðiauðlindna né nokkrar aðrar auðlindir.

Í mesta lagi og þá miðað við óbreyttar reglur ESB um stjórn fiskveiða og að við náum engu fram í aðildrsamningum þá mun ESB ráða heildarafla og öðrum verndaraðgerðum en við fáum allan kvótan og getum ráðstafað honum eins og við kjósum. Við fáum einnig að nota margar leiðir til að komast hjá kvótahoppi sem hafa gagnast öllum þeim ríkjum sem hafa nýtt sér þær heimildir. Þess vegna verða heiildir útlendinga til að fjárfesta í íslenskum sjávarútvegi ekkert vadamál enda veiðiheimildirnar ekki útgerðanna heldur þjóðarinnar og því kaupa menn ekki vieðiheimildir með því að kaupa útegðir.

Því er einnig ranglega haldið fram í þessari grein að ESB sé ríkjabandala. ESB er samstarfsvettvangur 28 sjálfstæðra og fullvalda lýðræðisríkja sem geta hvenær sem er sagt sig frá þeim samstarfsvettvangi líki þeim ekki þær reglur sem þessi 28 ríki hafa komið sér saman um að aðildarríkjum beri að hýta. 

Sigurður M Grétarsson, 12.5.2015 kl. 07:52

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Heimssýn

Heimssýn

hreyfing sjálfstæðissinna í Evrópumálum, eru þverpólitísk samtök þeirra sem telja hagsmunum Íslendinga best borgið með því að halda áfram að vera sjálfstæð þjóð utan Evrópusambandsins.

 

Sími 895 5334 (Haraldur Ólafsson, formaður)


Nánar um Heimssýn

Vertu með!

Frjáls framlög

Eldri færslur

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 253
  • Sl. sólarhring: 395
  • Sl. viku: 2733
  • Frá upphafi: 1164940

Annað

  • Innlit í dag: 218
  • Innlit sl. viku: 2347
  • Gestir í dag: 203
  • IP-tölur í dag: 202

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband