Leita í fréttum mbl.is

Hjörleifur Guttormsson um flóttamannastrauminn í Evrópu

hjorleifur guttormssonHjörleifur Guttormsson, fyrrum ráðherra og þingmaður, ritar reglulega athyglisverðar blaðagreinar um þjóðfélagsmál líðandi stundar, af þekkingu og yfirvegun. Um síðustu helgi birti Morgunblaðið grein eftir hann um straum flóttamanna til Evrópu. Þar segir hann flest benda til þess að þetta sé aðeins upphafið að holskeflu sem ríða muni yfir vestanverða Evrópu af auknum þunga næstu árin. 

Hjörleifur segir að ólík viðbrögð ríkja ESB við flóttamannastraumnum bætist nú við háværa bresti sem fyrir voru í sambandinu. Regluverk um ytra landamæraeftirlit og um hælisleitendur hafi hrunið. Í Þýskalandi réðu hagsmunir þýsks vinnumarkaðar viðbrögðum stjórnvalda þar til í óefni stefndi. 

Þá segir Hjörleifur að þurrð auðlinda eins og ferskvatns samhliða loftlagsbreytingum og vaxandi efnahagsleg misskipting í heiminum hafi sín áhrif, einnig í hinum þróuðu ríkjum. Ef miklir og örir fólksflutningar bætist við slíkar aðstæður sé hætt við að það leiði til vaxandi spennu að viðbættum árekstrum af menningarlegum eða trúarlegum toga. Því blasi við gífurlegur vandi sem kalli á grundvallarbreytingar í samskiptum innan þjóðríkja og milli heimshluta. Þá segir Hjörleifur: „Mannúðarstefna er fögur hugsjón og nærtæk öllu heilbrigðu fólki. En hætt er við að hún endist skammt ef að þrengir efnahagslega og gefa þarf upp á nýtt í velferðarkerfi sem þegar berst í bökkum.“

Þá segir Hjörleifur að mikilvægt sé að Íslendingar meti sjálfir hvernig best sé að taka þátt í að leysa vanda flóttamanna. Í þeim efnum sé fyrirliggjandi endurskoðun á lögum um útlendinga í samvinnu innanríkisráðuneytis og þverpólitískrar þingmannanefndar jákvætt og tímabært skref. Þá ætti það að vera stefnan að ná sem fyrst því viðmiði Sameinuðu þjóðanna að framlag Íslands til þróunaraðstoðar verði 0,7% af árlegri þjóðarframleiðslu.

Greinin í heild er aðgengileg hér að neðan:

 

Hjörleifur Guttormsson

Flóttamannastraumurinn –  baksvið og horfur

Hreyfiafl flóttamannabylgjunnar sem risið hefur og borist að ströndum Evrópu af auknum þunga síðustu misseri er samsett af mismunandi þáttum. Stærsti áhrifavaldurinn eru styrjaldarátök sem rekið hafa fólk burt frá heimkynnum sínum á vergang út í óvissu þar sem flestir hafna í flóttamannabúðum, en hluti tekur sig síðan upp í leit að vænlegri framtíð. Styrjaldirnar í Afganistan, Írak, Sýrlandi og Líbíu, sem Vesturveldin bera höfuðábyrgð á, eru drýgsta undirrótin, en þar við bætast skærur, óstjórn og innanlandsátök í mörgum Afríkuríkjum sem magnast hafa frá síðustu aldamótum. Netvæðingin og fjölmiðlabyltingin í krafti hennar flytur fréttir um gull og græna skóga handan Miðjarðarhafs inn í neyðarbúðir og fátækustu hreysi. Smygl á fólki yfir hafið við hraklegustu aðstæður hefur á fáum árum orðið blómstrandi atvinnugrein sem minnir á þrælasölu fyrri alda. Flest bendir til að þetta sé aðeins upphafið að holskeflu sem ríða muni yfir vestanverða Evrópu af auknum þunga næstu árin. Athyglisvert er að Bandaríkin sem hvað mesta ábyrgð bera á upplausninni, taka aðeins við örfáum af þeim sýrlensku flóttamönnum sem leita vestur um haf.

Evrópusambandið í uppnámi

Ólík viðbrögð við flóttamannastraumnum í ríkjum Evrópusambandsins bætast nú við háværa bresti sem fyrir voru, síðast vegna Grikklands á efnahagslegri vonarvöl. Frjálst flæði fólks innan ESB var einn af marglofuðum hornsteinum fjórfrelsisins, en á móti skyldi koma hert og örugg landamæravarsla út á við. Schengen-kerfið um afnám landamæraeftirlits sem Ísland var vélað inn í um síðustu aldamót og Dyflinarreglugerðin um hælisleitendur áttu að vera meginstoðir til að tryggja framkvæmd þessa fyrirkomulags.  Nú er Schengenkerfið í uppnámi og alls óvíst um framtíð þess og Þýskaland hefur sagt sig frá Dyflinarreglugerðinni þegar sýrlenskir hælisleitendur eiga í hlut. Þótt þýsk stjórnvöld baði sig nú í sviðsljósi fjölmiðla fyrir meinta mildi í garð flóttamanna, saka margir þarlendis Merkel kanslara um sýndarmennsku og að hagsmunir þýsks vinnumarkaðar ráði för á kostnað viðleitni til einingar þarlendis og innan ESB. Hætt er líka við því að glansmyndin fölni þegar farið verður að vísa fjölda nýkominna flóttamanna til baka, en aðeins fáar vikur eru liðnar síðan þýska stjórnin með samþykki Bundestag herti á ákvæðum um hælisumsækjendur.   

Arðrán og efnahagsleg misskipting

Flutningar fjölda fólks landshorna og landa á milli eru ekki nýir af nálinni, sumpart vegna rýrnandi landkosta og harðinda sem og væntinga um betra líf annars staðar. Fjöldaflutningar fólks frá Norðurlöndum til Vesturheims á seinnihluta 19. aldar eru þar nærtækt dæmi. Ytri aðstæður mannkyns eru nú hins vegar gerbreyttar, íbúafjöldi jarðar hefur fjórfaldast á síðustu 100 árum, þurrð auðlinda eins og ferskvatns blasir við samhliða loftslagsbreytingum, og efnahagsleg misskipting fer ört vaxandi, einnig innbyrðis í þróuðum ríkjum. Ef miklir og örir fólksflutningar bætast við slíkar aðstæður er hætt við að það leiði til vaxandi spennu að viðbættum árekstrum af menningarlegum eða trúarlegum toga. Hér blasir því við gífurlegur vandi sem kallar á grundvallarbreytingar í samskiptum innan þjóðríkja og milli heimshluta. Mannúðarstefna er fögur hugsjón og nærtæk öllu heilbrigðu fólki. En hætt er við að hún endist skammt ef að þrengir efnahagslega og gefa þarf upp á nýtt í velferðarkerfi sem þegar berst í bökkum. Minnast má í því sambandi niðurlags kvæðis eftir Örn Arnarson um refinn: „En það, sem ei verður etið,/aldrei lagavernd fær./Svo langt kemst mannúð manna/sem matarvonin nær.“ 

Ísland svari hófstilltum kröfum

Brýnt er að íslensk stjórnvöld fylgist sem best með því sem er að gerast alþjóðlega í málefnum flóttamanna og marki sér stefnu sem taki mið af aðstæðum hérlendis. Nú þegar liggur fyrir mikilvæg og um margt farsæl reynsla af komu innflytjenda hingað og aðlögun þeirra. Íslensk stjórnvöld hafa hingað til ekki tekið við flóttamönnum nema þeim sé búin besta aðstaða, sem hlýtur að setja ákveðin takmörk um fjölda þeirra. Fyrirliggjandi endurskoðun á lögum um útlendinga í samvinnu innanríkisráðurneytis og þverpólitískrar þingmannanefndar er jákvætt og tímabært skref. Öllum má vera ljóst að Ísland leikur ekki stórt hlutverk í að leysa þann alþjóðlega vanda sem við blasir vegna aðstreymis flóttamanna norður á bóginn. Spurningar um árlegan tölulegan fjölda sem tekið verði við hérlendis geta verið misvísandi og beint athygli frá kjarna máls, sem er að vanda til verka til lengri tíma litið. Liður í framlagi Íslands ætti líka að vera að auka stig af stigi framlag okkar til þróunaraðstoðar þannig að það nái sem fyrst viðmiði Sameinuðu þjóðanna um 0,7% af árlegri þjóðarframleiðslu. Efnahagslegur jöfnuður og sjálfbært umhverfi er jafnframt það markmið sem vænlegast er til árangurs fyrir almannaheill og á því sviði hafa Íslendingar sem aðrir verk að vinna.

Hjörleifur Guttormsson


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Heimssýn

Heimssýn

hreyfing sjálfstæðissinna í Evrópumálum, eru þverpólitísk samtök þeirra sem telja hagsmunum Íslendinga best borgið með því að halda áfram að vera sjálfstæð þjóð utan Evrópusambandsins.

 

Sími 895 5334 (Haraldur Ólafsson, formaður)


Nánar um Heimssýn

Vertu með!

Frjáls framlög

Eldri færslur

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (27.1.): 28
  • Sl. sólarhring: 343
  • Sl. viku: 2109
  • Frá upphafi: 1188245

Annað

  • Innlit í dag: 23
  • Innlit sl. viku: 1919
  • Gestir í dag: 22
  • IP-tölur í dag: 22

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband