Leita í fréttum mbl.is

Flaustur og flýtir í landbúnaðarsamningum

SindriJohannaJonÞað virðist hafa verið eitthvert flaustur og flýtir við undirbúning á þeim landbúnaðarviðskiptasamingum við ESB sem eru í farvatninu. Samráð við hagsmunaaðila virðist hafa verið í skötulíki og lítt hugað að því hve misjafnlega viðskiptasvæðin tvö, og auk þess framleiðendur og neytendur, standa að vígi í þessu máli. Þetta var meðal þess sem mátti skilja á því yfirliti sem Sindri Sigurgeirsson, formaður Bændasamtaka Íslands, flutti á opnum stjórnarfundi Heimssýnar í gærkvöldi.

Meðfylgjandi mynd var tekin eftir fundinn í gærkvöldi en hér eru þau Sindri Sigurgeirsson, formaður Bændasamtaka Íslands, lengst til vinstri, svo Jóhanna María Sigmundsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins og varaformaður Heimssýnar, sem var fundarstjóri á fundinum, og svo Jón Bjarnason, formaður Heimssýnar og fyrrverandi landbúnaðarráðherra, lengst til hægri.

Á fundinum flutti Sindri mjög greinargott yfirlit yfir aðdraganda og helstu efnisatriði væntanlegs samkomulags um gagnkvæman og aukinn tollkvóta með landbúnaðarafurðir sem byggir á EES-samningnum. Sindri sagði að samkomulagið fæli í sér tækifæri fyrir íslenska framleiðendur á skyri og lambakjöti en það tækifæri væri dýru verði keypt. Þótt kvóti fyrir útflutt kindakjöt til ESB ykist og yrði ríflega þrjú þúsund tonn virtist enn óljóst hvort hægt yrði að ná því marki. Enn fremur væru áhrif breyttra kvóta varðandi alifuglakjöt og svínakjöt óljós en meiri vonir virtust bundnar við mögulega aukinn útflutning á skyri. 

Fram kom að innflutningur á nauta- og svínakjöti væri að festa sig í sessi og talsverður þrýstingur væri á aukinn innflutning á alifuglakjöti. Hafa ber þó í huga að innflutningur á hráu kjöti er bannaður, heldur verður það að vera unnið eða frosið í ákveðinn tíma.

Á fundinum komu fram áhyggjur fundarmanna um sýkingarhættu vegna aukins innflutnings á kjöti en heilbrigði innlendra afurða og búfjár er mjög gott. Þá komu fram miklar áhyggjur yfir mismunandi aðstöðu innlendra framleiðenda og erlendra stórframleiðenda sem gætu fleytt rjómann ofan af í dýrustu vörunum. Þá kom einnig fram á fundinum að verslun og aðrir milliliðir skiluðu ekki til neytenda þeim verðlækkunum sem orðið hefðu í verði á sumum afurðum frá framleiðendum. Enn fremur komu á fundinum fram lýsingar á því hvernig innri markaðurinn í ESB hefur gert bændum erfitt fyrir á vissum svæðum á Norðurlöndunum.

Samantekið má segja um þessi drög að samkomulagi að þau hafi verið unnin á of skömmum tíma og án þess að áhrifin af samkomulaginu hafi verið greind með fullnægjandi hætti, en færa mætti rök fyrir því að áhrifin gætu orðið umtalsverð fyrir bændur og landbúnaðarframleiðslu hér á landi og að þau kæmu mjög misjafnlega niður á afkomu einstakra búgreina og héraða. Þá var bent á að ekki sæist betur en að þessi drög að samkomulagi gengju gegn þeirri stefnu ríkisstjórnarinnar að efla landbúnað hér á landi og styðja við fjölþætta innlenda matvælaframleislu. Þá væru þau á skjön við þá umhverfisstefnu að draga úr flutningum á matvælum á milli landa.

Þá var athyglisvert að ekki virtist vera hægt að svara því hvað eða hverjir knúðu á um það að íslensk stjórnvöld vildu með þessum hraða ganga til þessara samninga sem fælu í sér jafn mikla eftirgjöf í tollamálum og raun bæri vitni.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Heimssýn

Heimssýn

hreyfing sjálfstæðissinna í Evrópumálum, eru þverpólitísk samtök þeirra sem telja hagsmunum Íslendinga best borgið með því að halda áfram að vera sjálfstæð þjóð utan Evrópusambandsins.

 

Sími 895 5334 (Haraldur Ólafsson, formaður)


Nánar um Heimssýn

Vertu með!

Frjáls framlög

Eldri færslur

Des. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (26.12.): 205
  • Sl. sólarhring: 256
  • Sl. viku: 1944
  • Frá upphafi: 1177117

Annað

  • Innlit í dag: 187
  • Innlit sl. viku: 1764
  • Gestir í dag: 183
  • IP-tölur í dag: 180

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband