Sunnudagur, 2. desember 2018
Nauðsynlegt að ræða EES-samninginn
Eirik Faret Sakariassen, borgarfulltrúi Sósíalíska vinstriflokksins í Stavanger, var gestur á fullveldishátíð Heimssýnar í gærkvöldi og flutti við það tilefni ræðu sem fylgir hér með í þýðingu Bjarna Jónssonar rafmagnsverkfræðings. Í ræðunni fjallar Eirik um mikilvægi fullveldis, þess að ákvarðanir séu teknar sem næst fólkinu hverju sinni en ekki í fjarlægum borgum á borð við Brussel, að nauðsynlegt sé að ræða um galla EES-samningsins ekki síður en kosti og um afsal fullveldis í tengslum við þriðja orkupakkann. Ræðan fylgir hér með.
Ræða Eiriks Farets Sakariassen 01.12.2018 á fundi Heimssýnar
(Í þýðingu Bjarna Jónssonar)
Kæru vinir !
Það er indælt að vera boðið hingað til Íslands, og einkum eftir að ég og margir aðrir Norðmenn hvöttu íslenzka liðið á HM áfram Ísland ! Ég vil líka segja, að Sosialistisk Venstreparti (SV) fagnar því að vera boðið hingað, og ég á að skila kærri kveðju frá flokksformanni okkar, Audun Lysbakken.
Ég óska ykkur öllum til hamingju með fullveldisdaginn, og að í dag eru 100 ár liðin frá því, að Ísland var viðurkennt fullvalda ríki. Sjálfstæði og sjálfsstjórn er mikilvægt fyrir marga og er miðlæg röksemd fyrir andstöðu SV við aðild Noregs að Evrópusambandinu, ESB, og sama gildir um ACER, Orkustofnun ESB. Um hana ætla ég að ræða við ykkur nú.
Við á Norðurlöndunum höfum margháttuð sterk tengsl. Við eigum talsvert tengda sögu, mörg okkar hafa myndað tengsl, samfélög okkar eru lík og tungumálin skyld. Norðmönnum og Íslendingum rennur víkingablóð í æðum, og knattspyrnuliðið í heimabæ mínum, Stafangri, heitir reyndar Viking. Norðurlöndin eiga margt sameiginlegt og svipað. Og það er margt fagurt á Norðurlöndunum.
Hið fegursta við Norðurlöndin fæst ekki við að þræða götur Kaupmannahafnar að sumarlagi.
Hið fegursta við Norðurlöndin upplifir þú ekki á bátsferð meðfram Helgelandsströnd Noregs, þar sem fjöll gnæfa við himin og voldugt hafið er allt um kring.
Hið fegursta við Norðurlöndin upplifir þú heldur ekki, þegar þú ekur í fögru íslenzku landslagi og sérð hinn volduga Eyjafjallajökul úti við sjóndeildarhring.
Hið fegursta við Norðurlöndin er jöfnuður samfélaganna og mikið gagnkvæmt traust íbúanna.
Þetta snýst um samfélagslíkan, en einnig um sjálfstæði. Að ákvarðanir skuli taka sem næst flestum, að það sé í Noregi og á Íslandi, þar sem ákvarðanir um málefni landanna eru teknar, og ekki í Brüssel. Ég er þeirrar skoðunar, að mikilvægt sé að varðveita sjálfstæðið og sjálfstjórnina, sem okkur býðst utan ESB og EES.
Ég er eiginlega óttalegur sérvitringur, og þess vegna á ég mér uppáhalds stjórnarskrárákvæði. Og ég vil endilega deila með ykkur þessu uppáhaldsákvæði:
Í upphafi norsku stjórnarskrárinnar, í 1. grein hennar, stendur þetta:
Konungsríkið Noregur er frjálst, sjálfstætt, óskiptanlegt og óafhendanlegt ríki.
Þetta finnst mér fín málsgrein.
SV hefur alla tíð verið andvígur aðild Noregs að ESB. Noregur hefur tvisvar hafnað aðild, fyrst að Evrópubandalaginu 1972 og síðan að Evrópusambandinu 1994. Mikill meirihluti Norðmanna er á móti. Í þessari viku voru 24 ár síðan Noregur hafnaði aðild síðast. Þá var ég 3 ára. En ég var örugglega á móti ESB þá líka !
Um þessar mundir á SV frumkvæði að umræðu um allan Noreg um EES, og í þessari viku lagði SV fram þingsályktunartillögu í Stórþinginu um rannsókn á valkostum Noregs við EES-aðild. Við þetta er stuðningur almennings í Noregi ekki jafnmikill og við andstöðuna gegn ESB. Samt teljum við umræður um EES-aðild mikilvægar, og það mun verða gagnlegt að greina möguleikana, sem Noregur og Ísland eiga, og hvað góð tengsl við önnur ESB-lönd geta falið í sér. Innan SV höfum við núna komizt að þeirri niðurstöðu, að viðskiptasamningur sé betri valkostur en full EES-aðild. EES er áskriftaruppskrift að hægri-stefnu. Hana vill SV ekki.
EES-samningurinn er ólýðræðislegur. Noregur og Ísland taka við tilskipunum frá ESB, án þess að við höfum áhrif á þær, og samningurinn veitir minna svigrúm en ella til að stýra mörkuðunum. SV vinnur þess vegna að því að leysa EES-samninginn af hólmi með viðskiptasamningi, sem er nægilega víðtækur til að tryggja norskt markaðsaðgengi að Evrópu, og tryggir samtímis norskt sjálfstæði. Vinna mín er í borgarráði Stafangurs, og við rekumst oft á fullyrðingu um, að við megum ekki taka hina eða þessa mikilvægu ákvörðunina, af því að hún stangist á við EES-samninginn. EES-aðildin setur ekki aðeins sjálfstæði ríkisins skorður, heldur einnig sjálfsákvörðunarrétti byggðanna.
SV vill reka nýja viðskiptastefnu. Meira frelsi fyrir markaðina á ekki að verða mál málanna; vinna handa öllum og minni ójöfnuður eiga að njóta forgangs. Noregur á nú möguleika á að semja um betri samning við ESB en EES-samningurinn er og að hafna samningum, sem skylda okkur að innleiða meira markaðsfrelsi.
ACER-umræðan geisaði í Noregi og í Stórþinginu í marz í ár. Að tengjast Agency for the Cooperation of Energy Regulators, sem er skammstafað ACER, var samþykkt með miklum meirihluta á Stórþinginu, þar sem Hægri, Framfaraflokkurinn, Verkamannaflokkurinn, Vinstri og Umhverfisflokkurinn hinir grænu mynduðu meirihlutann.
Aðalröksemd SV á Stórþinginu gegn aðild að ACER er fullveldisframsal. ACER felur í sér afsal nokkurs norsks fullveldis til skamms tíma, en mestar áhyggjur vekur, að enginn veit, hversu mikið fullveldisafsal er í vændum til langs tíma litið.
Innan SV er fólk þeirrar skoðunar, að mikilvægt sé, að lýðkjörnir aðilar ráði stýringu raforkukerfisins og raforkumarkaðarins. ACER verður ógnun við þá lýðræðislegu stýringu, sem við nú höfum.
Eins og sjálfsagt margir vita, er ACER samstarfsvettvangur reglusetningaryfirvalda landanna í ESB fyrir rafmagn og jarðgas, landsreglaranna. ACER á að leggja framlag að mörkum í vinnunni við að semja sameiginlegt regluverk fyrir viðskipti með rafmagn og gas á milli landanna. Á vissum málefnasviðum getur ACER tekið bindandi ákvarðanir í ágreiningsmálum á milli landsreglara, eða ef þeir í sameiningu óska slíks úrskurðar.
Í Noregi er landsreglarinn innan vébanda norsku orkustofnunarinnar, NVE. Landsreglarar EES/EFTA-ríkjanna fá rétt til fullrar þátttöku í ACER, en án atkvæðisréttar við ákvarðanatöku í stofnuninni.
Samstarf á sviði evrópskra orkumála er og verður nauðsynlegt á komandi árum, en það er mikilvægt, að við höfum opinbera stjórn á stýringu stofnrafkerfisins og á rafmagnsmarkaðinum. ACER ógnar þessari stjórnun.
Vatnsorkan er endurnýjanleg auðlind, og hana verður að nýta til að skapa atvinnu og til að leysa jarðefnaeldsneyti af hólmi. Orkusæknum grænum iðnaði verður að tryggja góða langtíma rafmagnssamninga og starfsumgjörð. Ríkiseign og samfélagsleg hagkvæmni verður að vera skilyrði fyrir hugsanlegum viðbótar millilandatengingum. Ný sæstrengsverkefni verður að vega og meta á móti norskri iðnþróun, atvinnutækifærum og möguleikanum á að losna við brennslu jarðefnaeldsneytis í Noregi.
Í ESB-gerðinni er lagt upp með, að ACER muni hafa ákvörðunarvald varðandi spurningar um aðgang að innviðum á milli landa, ef viðkomandi landsyfirvöld verða ósammála. Þetta getur m.a. snúizt um úthlutun á flutningsgetu og ráðstöfun hagnaðar af flutningum rafmagns á milli landa. ACER verður þar með ógn við eigin opinbera stjórnun, sem við nú höfum á þessum málum.
Þar að auki er óljóst, hvað aðild nú að ACER mun hafa í för með sér fyrir fullveldisframsal í framtíðinni, og hversu mikla eigin stjórnun við munum missa til langs tíma litið. Þessi óvissa um, hvað þetta orkusamstarf mun hafa í för með sér í framtíðinni, hefur ríkisstjórnin, sem lagði málið fyrir þingið, fjallað svo lítið um, að undrum sætir.
ACER-málið fjallar ekki um samþykki á einhverju alþjóðasamstarfi eða ESB-tilskipun, heldur þá tilhneigingu ESB að veita eftirlitsstofnunum ESB völd í auknum mæli til að taka ákvarðanir, sem eru bindandi fyrir norsk yfirvöld og fyrirtæki, og til að stjórna stjórnvaldsstofnunum innan ríkjanna. Á síðasta kjörtímabili gerðist þetta með fjármálaeftirlit ESB. Nú gerist það á orkusviðinu. Ný mál kunna að koma fram á sviði fjarskipta og gagnasamskipta, en alvarlegast: innan vinnumarkaðarins.
Slíkt getur leitt til frekara markaðsfrjálsræðis og veikingar öryggisfyrirkomulags vinnumarkaðarins, og slíkt getur opnað fyrir valdframsal á stýringu og framkvæmd á leikreglum atvinnulífsins frá Noregi og til Brüssel. Slíkt vill SV ekki sjá.
Þegar Noregur gerist aðili að þessum eftirlisstofnunum, látum við af hendi fullveldi til stofnana, þar sem við höfum ekki meðákvörðunarrétt og ekki atkvæðisrétt. Til að Noregur geti stundað þetta valdframsal, eru búnar til norskar stjórnvaldsstofnanir, sem norskir kjörnir fulltrúar þjóðarinnar mega ekki stjórna. Þetta stjórnunarfyrirkomulag er með annmörkum verulegs lýðræðishalla.
Auk stjórnunarítaka, sem Noregur missir strax, þá er óljóst, hversu mikil eigin opinber stjórnunarítök við missum til langframa. Að ESB-samstarfið er kvikt og vaxandi, höfum við séð mörg dæmi um í EES-sögu Noregs. Regluverk, sem Stórþingið nú fjallar um að tengja Noreg við, er þegar gamalt og í frekari þróun.
Það er t.d. óljóst, hver mun verða þróun evrópska regluverksins um ráðstöfun hagnaðar af orkuflutningum á milli landa, hagnaður, sem nú fer í mörgum tilvikum til að lækka flutningsgjald Statnetts (norska Landsnets). Þá geta einnig reglur um ákvarðanatökur í ACER verið breytingum undirorpnar. SV ályktaði, að ACER-málinu (Þriðja orkupakkanum) yrði að fresta, þar til innihald Fjórða orkupakka ESB sæi dagsins ljós, og að þá skyldi gera rækilega áhættugreiningu.
Sumir hafa varað við, að þetta muni setja allt okkar orkusamstarf við ESB-lönd í hættu. Sá umtalsverði fjöldi millilandatenginga, sem er við Noreg, sýnir á hinn bóginn greinilega, að það er mögulegt að koma á millilandasamstarfi um raforkuviðskipti, án þess að það þýði, að láta verði fullveldi af hendi, eins og Stórþingið hefur nú lagt grunn að í ACER-málinu.
Við í Sosialistisk Venstreparti vonumst eftir, að vinir okkar á Íslandi dragi okkur upp úr: ef Ísland beitir neitunarvaldi gagnvart ACER, þá sleppur líka Noregur við tengsl við Þriðja orkupakkann. SV og ég vona, að íslenzka ríkisstjórnin setji sjónarmiðið um sjálfstjórnarrétt og sjálfstæði á oddinn fyrir Ísland og neiti að tengjast ACER.
Það er mikilvægt á fullveldisdeginum og alla aðra daga að virða sjálfræðisrétt þjóðarinnar og mikilvægi þess, að við stjórnum sjálf málefnum eigin lands. Það á ekki að vera forréttindastétt í Brüssel, sem tekur mikilvægar ákvarðanir á okkar vegum; það verður hver ríkisstjórn, þjóðkjörin þing og sveitarstjórnir að gera.
Kærar þakkir fyrir athyglina !
Nýjustu færslur
- Jólakveðja
- Friðarganga og Evrópusamband
- Nokkur hundruð milljarðar út um gluggann
- Við bíðum enn, Þorsteinn
- Skyggnigáfa Össurar?
- Villugjarnt á Kögunarhóli
- Tollabandalag eða tollfrelsi á grundvelli fríverslunarsamninga
- Nýtt örlagatímabil fer nú í hönd. Hver vinnur að þessu sinni?
- Eruð þið ekki örugglega staðföst í Flokki fólksins?
- Alltaf sama blíðan í Eyjum eða hvað?
- Mýtan um vexti
- Hörmungarsagan
- Vont, og versnar líklega
- Gott fyrir svefninn
- Lokuð leið
Eldri færslur
- Desember 2024
- Nóvember 2024
- Október 2024
- September 2024
- Ágúst 2024
- Júlí 2024
- Júní 2024
- Maí 2024
- Apríl 2024
- Mars 2024
- Febrúar 2024
- Janúar 2024
- Desember 2023
- Nóvember 2023
- Október 2023
- September 2023
- Ágúst 2023
- Júlí 2023
- Júní 2023
- Maí 2023
- Apríl 2023
- Mars 2023
- Febrúar 2023
- Janúar 2023
- Desember 2022
- Nóvember 2022
- Október 2022
- September 2022
- Ágúst 2022
- Júlí 2022
- Júní 2022
- Maí 2022
- Apríl 2022
- Mars 2022
- Febrúar 2022
- Janúar 2022
- Desember 2021
- Nóvember 2021
- Október 2021
- September 2021
- Ágúst 2021
- Júlí 2021
- Júní 2021
- Maí 2021
- Apríl 2021
- Mars 2021
- Febrúar 2021
- Janúar 2021
- Desember 2020
- Nóvember 2020
- Október 2020
- September 2020
- Ágúst 2020
- Júlí 2020
- Júní 2020
- Maí 2020
- Apríl 2020
- Mars 2020
- Febrúar 2020
- Janúar 2020
- Desember 2019
- Nóvember 2019
- Október 2019
- September 2019
- Ágúst 2019
- Júní 2019
- Maí 2019
- Apríl 2019
- Mars 2019
- Febrúar 2019
- Janúar 2019
- Desember 2018
- Nóvember 2018
- Október 2018
- September 2018
- Ágúst 2018
- Júlí 2018
- Júní 2018
- Maí 2018
- Apríl 2018
- Mars 2018
- Febrúar 2018
- Desember 2017
- Nóvember 2017
- Október 2017
- September 2017
- Ágúst 2017
- Júlí 2017
- Maí 2017
- Apríl 2017
- Mars 2017
- Febrúar 2017
- Janúar 2017
- Desember 2016
- Nóvember 2016
- Október 2016
- September 2016
- Ágúst 2016
- Júlí 2016
- Júní 2016
- Maí 2016
- Apríl 2016
- Mars 2016
- Febrúar 2016
- Janúar 2016
- Desember 2015
- Nóvember 2015
- Október 2015
- September 2015
- Ágúst 2015
- Júlí 2015
- Júní 2015
- Maí 2015
- Apríl 2015
- Mars 2015
- Febrúar 2015
- Janúar 2015
- Desember 2014
- Nóvember 2014
- Október 2014
- September 2014
- Ágúst 2014
- Júlí 2014
- Júní 2014
- Maí 2014
- Apríl 2014
- Mars 2014
- Febrúar 2014
- Janúar 2014
- Desember 2013
- Nóvember 2013
- Október 2013
- September 2013
- Ágúst 2013
- Júlí 2013
- Júní 2013
- Maí 2013
- Apríl 2013
- Mars 2013
- Febrúar 2013
- Janúar 2013
- Desember 2012
- Nóvember 2012
- Október 2012
- September 2012
- Ágúst 2012
- Júlí 2012
- Júní 2012
- Maí 2012
- Apríl 2012
- Mars 2012
- Febrúar 2012
- Janúar 2012
- Desember 2011
- Nóvember 2011
- Október 2011
- September 2011
- Ágúst 2011
- Júlí 2011
- Júní 2011
- Maí 2011
- Apríl 2011
- Mars 2011
- Febrúar 2011
- Október 2010
- September 2010
- Júlí 2010
- Júní 2010
- Maí 2010
- Apríl 2010
- Mars 2010
- Febrúar 2010
- Janúar 2010
- Nóvember 2009
- Október 2009
- September 2009
- Ágúst 2009
- Júlí 2009
- Júní 2009
- Maí 2009
- Apríl 2009
- Mars 2009
- Febrúar 2009
- Janúar 2009
- Desember 2008
- Nóvember 2008
- Október 2008
- September 2008
- Ágúst 2008
- Júlí 2008
- Júní 2008
- Maí 2008
- Apríl 2008
- Mars 2008
- Febrúar 2008
- Janúar 2008
- Desember 2007
- Nóvember 2007
- Október 2007
- September 2007
- Ágúst 2007
- Júlí 2007
- Júní 2007
- Maí 2007
- Apríl 2007
- Mars 2007
- Febrúar 2007
- Janúar 2007
- Desember 2006
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (25.12.): 43
- Sl. sólarhring: 76
- Sl. viku: 2006
- Frá upphafi: 1176860
Annað
- Innlit í dag: 39
- Innlit sl. viku: 1827
- Gestir í dag: 39
- IP-tölur í dag: 38
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.