Leita í fréttum mbl.is

Herkvaðning Bjarna Jónssonar

Bjarni Jónsson gerir sér glögga grein fyrir mikilvægi fullveldis og sjálfstæðis Íslendinga.  Hann brýnir Íslendinga í nýlegri grein í Morgunblaðinu, sem menn ættu ekki að láta framhjá sér fara.  Bjarni segir m.a.:

 

Ekkert hefur enn komið fram sem skýrir hvers vegna það liggi svo á að afgreiða frumvarp vegna bókunar 35 í samningnum um Evrópska efnahagssvæðið eftir tíðindalítil 30 ár. Svo sannarlega er ekki að finna naglfastan rökstuðning fyrir slíku í þeirri samantekt sem lögð var fyrir Alþingi á síðasta þingi.

 

Spyrja þá sumir hvers vegna málið var ekki afgreitt fyrir 30 árum eins og núna á að gera.  Því er til að svara að þá gekk það gegn stjórnarskrá.  Stjórnarskráin er í meginatriðum óbreytt og augljóst að málið hlýtur að brjóta jafn mikið gegn stjórnarskránni núna og það gerði þá.  

 

Grein Bjarna í heild sinni er svohljóðandi:

 

Ísland áfram sjálfstæð þjóð?


Á síðasta þingi var lögð fram skýrsla utanríkisráðherra vegna bókunar 35 við EES-samninginn, sem felur í sér frekara fullveldisframsal til Evrópusambandsins. Fátt nýtt var þar að finna; snyrtileg samantekt, sögubútar og valdar lögskýringar. Órökstuddar fullyrðingar um að framsal löggjafarvalds sé eiginlega ekki framsal löggjafarvalds. Eftir stendur að við erum enn og aftur minnt á að fullveldið er aldrei sjálfgefið og kostar sífellda baráttu.

 

ESB stjórni íslenskri löggjöf

Tilgangurinn með bókun 35 er að setja ákvæði inn í íslensk lög til að geta tekið evrópskar reglur fram yfir íslenskar lagareglur öllum stundum. Á fyrri þingvetri kom einmitt fram frumvarp sem ætlað var að hnykkja á forgangi laga sem eiga uppruna sinn í lögum frá Evrópusambandinu og fjalla af einhverjum ástæðum einnig um stjórnvaldstilskipanir af sama tagi, sem eru jafnvel til þess fallnar að auka flækjustig í stjórnsýslunni hér heima. Frumvarp frá utanríkisráðherra til laga um breytingu á lögum um Evrópska efnahagssvæðið, sem varðar bókun 35 um forgangsröð laga í íslenskum rétti, fór sannarlega óvenju lágt þá, þó það væri mál af þeirri stærðargráðu að þarfnaðist vandaðrar umfjöllunar, mál sem vekur spurningar um hvort farið sé gegn stjórnarskrá Íslands.

 

Bókun 35: Eitt mesta afsal löggjafarvalds frá því Ísland varð lýðveldi


Sú samantekt um bókun 35 sem lögð var fram á síðasta þingi bætti litlu við það sem kom fram í fjölmörgum umsögnum og máli gesta utanríkismálanefndar í umfjöllun um málið þar sem skilið var við það vorið 2023. Þá átti enn eftir að kalla fyrir um helming þeirra sérfróðu gesta sem óskað hafði verið eftir fyrir nefndina og þeirra sem höfðu skilað umsögnum um málið. Þá var mikil vinna enn óunnin við yfirferð málsins. Ekki einungis svo nefndarmenn gætu tekið málefnalega afstöðu til þess.  Það auðveldaði sannarlega ekki vinnuna að ljóst var frá upphafi að frumvarpið þyrfti veigamikilla lagfæringa við svo íslenskum hagsmunum væri ekki kastað enn frekar fyrir róða en þeim sem málið fluttu virtist ganga til.

 

Hefur verið gætt að hagsmunum Íslands?


Ekkert hefur enn komið fram sem skýrir hvers vegna það liggi svo á að afgreiða frumvarp vegna bókunar 35 í samningnum um Evrópska efnahagssvæðið eftir tíðindalítil 30 ár. Svo sannarlega er ekki að finna naglfastan rökstuðning fyrir slíku í þeirri samantekt sem lögð var fyrir Alþingi á síðasta þingi.

 

Hrekkleysi þingmanna, eða meintur blekkingaleikur um fullveldið?


Málið varðar stjórnarskrá Íslands og því mikilvægt að stíga varlega til jarðar. Ein stór spurning stendur enn þá eftir: Hvers vegna voru slíkar þjóðréttarlegar skuldbindingar ekki uppi á borðum þegar fjallað var um EES-samninginn á sínum tíma og hann samþykktur á Alþingi 12. janúar 1993, með minnsta mun, eða 33 atkvæðum? Að setja yrði ákvæði inn í íslensk lög til þess að geta tekið evrópskar reglur fram yfir íslenskar lagareglur? Nú tala jafnvel fyrrverandi þingmenn sem þá sátu á þingi, og hafa síðan gerst sjálfskipaðir sérfræðingar um EES-samninginn og skuldbindingar honum tengdum, um vonum seinni efndir á meintri skuldbindingu sem íslenska ríkið tók á sig við samþykkt EES- amningsins, skuldbindingu sem hvorki þeir eða aðrir sem til þekktu færðu orð að þegar málið var til umfjöllunar. Voru menn ekki að segja satt, vissu þeir ekki betur, eða voru einfaldlega á villigötum?

 

Eitt er ljóst, sjálfstæðisbaráttu Íslands lýkur aldrei.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Það er ekki rétt að frumvarpið feli í sér tillögu um að "evrópskar reglur" gangi framar íslenskum lögum því evrópskar reglur hafa sem slíkar ekkert lagagildi á Íslandi eins og Hæstiréttur Íslands hefur margítrekað staðfest.

Evrópskar reglur öðlast ekki gildi á Íslandi nema þær séu innleiddar í lög og verði þar með hluti af íslensku lagasafni. Það eru þá íslensk lög sem gilda eins og hver önnur. Rétt eins og ef Alþingi myndi samþykkja að lögfesta einhverja reglu sem á sér hliðstæðu í Bandaríkjunum, þá myndi það ekki þýða að bandarísk lög tækju gildi á Íslandi heldur þau íslensku lög sem yrðu samþykkt til að setja hliðstæða reglu hér á landi.

Alþingi sem handhafi löggjafarvalds samkvæmt stjórnarskrá hefur fullt vald til að ákveða að tiltekin íslensk lög gildi framar öðrum íslenskum lögum ef þau rekast á. Það er ekki andstætt stjórnarskrá heldur leiðir beinlínis af 2. grein hennar. Slíkar reglur um forgang tiltekinna laga fram yfir önnur hefur lengi verið að finna víða í íslenskum lögum sem eru alls ótengd EES og hafa aldrei verið talin andstæð stjórnarskrá.

Svo er það alveg sjálfsagt mál að hafa skoðanir á og ræða um kosti og galla þess að lögfesta slíka forgangsreglu eins og er lagt til með margumræddu frumvarpi sem er kennt við bókun 35, en þá er líka best að ræða það á grundvelli réttra staðreynda. Það þjónar ekki upplýstri umræðu að halda því ranglega fram að eitthvað stangist á við stjórnarskrá og nota það sem ástæðu til að finna hugmyndinni allt til foráttu. Það eru bara strámannsrök.

Guðmundur Ásgeirsson, 14.9.2024 kl. 17:04

2 identicon

Komið þið sæl; Haraldur og þið önnur, Heimssjáendur / að

ógleymdum fornvini mínum:: Guðmundi Ásgeirssyni !

Síðan hvenær; ætti að taka eitthvert sjerstakt mark á því, sem frá Bjarna Jónssyni kemur, manni:: sem hefur gerst valhoppari hryðjuverka flokks Steingríms J. Sigfússonar, og hans skítugu fylgjara ?

Bjarni Jónsson; er af svona álíka smæðar °, og Hjörtur J. Guðmundsson, velunnari Katrínar Jakobsdóttur og hennar illkvittnis framboðs til Bessastaða setunnar, s.l. sumar.

Út á hvaða brautir eruð þið komin Haraldur - og þið önnur Heimssýnarinnar sjáenda, með hverju öfugmælinu og illa heppnuðum útúrsnúningunum, að taka eitthvert minnsta mark á þessum mönnum, sem þeim Bjarna og Hirti J.:: yfirleitt ? ? ?

Með; fremur ljelegum kveðjum af Suðurlandi, að þessu sinni / 

Óskar Helgi Helgason (IP-tala skráð) 15.9.2024 kl. 14:38

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Heimssýn

Heimssýn

hreyfing sjálfstæðissinna í Evrópumálum, eru þverpólitísk samtök þeirra sem telja hagsmunum Íslendinga best borgið með því að halda áfram að vera sjálfstæð þjóð utan Evrópusambandsins.

 

Sími 895 5334 (Haraldur Ólafsson, formaður)


Nánar um Heimssýn

Vertu með!

Frjáls framlög

Eldri færslur

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (15.1.): 17
  • Sl. sólarhring: 369
  • Sl. viku: 1952
  • Frá upphafi: 1184359

Annað

  • Innlit í dag: 17
  • Innlit sl. viku: 1680
  • Gestir í dag: 17
  • IP-tölur í dag: 17

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband