Leita í fréttum mbl.is

Evran er aukaatriði

Jón Daníelsson prófessor í hagfræði við London School of Economics einn fremsta hagfræðiskóla í heimi, fer yfir fjölmargt í fjögurra síðna viðtali við Viðskiptablaðið sem kom út 23. janúar. Þar segir hann m.a.:

“Ég fæ þá tilfinningu að umræðan á Íslandi sé þannig að það sé hægt að ganga inn í ESB og taka upp evruna einn, tveir og þrír, og öðlast lága vexti og stöðugleika á svipstundu. Þessi umræða virðist því miður ekki vera í tengslum við raunveruleikann.”

Aðild að Efnahags- og myntbandalag Evrópu (EMU) segir hann ekki verða fyrr en eftir "...svokallað aðlögunarferli sem tekur nokkur ár. Þá taka við gildandi reglur ESB um gjaldmiðla sem eru nokkuð skýrar.”

Til þess að ný aðildarlönd geti tekið upp Evru þurfa þau að sýna fram á að þau geti mætt skilyrðum um verðbólgu, stöðugleika gengis og afkomu hins opinberra. Reynslan sýnir að það geti tekið mörg ár, jafnvel 10 til 20 ár, fyrir ný aðildarlönd að mæta þessum skilyrðum.

Umræða sem drifin er af röngum fullyrðingum eða óbeinum skilaboðum hvað þetta varðar er óábyrg. Viðtal Viðskiptablaðsins við Jón er mikilvægt innlegg í málefnalega umræðu.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Vextir eru skrifaðir á lánasamninga, ekki peningaseðla.

Guðmundur Ásgeirsson, 24.1.2025 kl. 15:37

2 identicon

En ef við bindum gengi krónunar við evru, væri það ekki ákvörðun okkar og kæmi í raun EU ekkert við? Ef það yrði gert gætu þá erlendar bankastofnanir og tryggingafélög, sem dæmi,boðið Íslendingum kjör sem Evrópubúum bjóðast í dag? Gengisáhætta engin lengur og hvað væri þá því til fyrirstöðu að þetta gengi upp? Væri til svör frá þeim sem hafa vit á þessum spurningum. 

Víðir Gunnlaugsson (IP-tala skráð) 25.1.2025 kl. 08:29

3 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Víðir. Alveg sjálfsagt.

Krónan hefur verið mjög stöðug gagnvart evru undanfarin ár, það hefur ekki verið vandamál í sjálfu sér.

Íslenskir lánveitendur sem lána íslenskar krónur verða ekki fyrir neinum áhrifum af gengisáhættu í þeirri starfsemi.

Þó tekið yrði upp myntráð og gengi krónu fest við evru er ekkert sjálfgefið að þá myndu erlendir bankar bjóða Íslendingum aðgang að lánsfé yfir höfuð. Meira að segja innan evrusvæðisins er ekki algengt að bankar séu að lána yfir landamæri, a.m.k. ekki húsnæðislán. Það hefur ekkert með gjaldmiðla að gera heldur ólíkar aðstæður á húsnæðismarkaði í hverju landi fyrir sig. Bankar fara ekki svo glatt inn á ókunnuga markaði. Jafnvel þó að erlendur banki myndi hefja starfsemi á Íslandi er ekki heldur sjálfgefið að hann myndi bjóða kjör sem væru mjög frábrugðin þeim sem fyrir eru, hann gæti allt eins ákveðið að aðlaga sig að þeim kjörum sem hér tíðkast. Sú hugmynd er tálsýn að erlendir bankar muni skyndilega taka upp á því að koma færandi gjafir. Það hefur ekki gerst í neinu ríki innan ESB sem hefur tekið upp evru.

Það athugist líka að hvorki íslenskir né erlendir bankar mega lána í öðrum gjaldmiðli en lántakandi hefur tekjur í, nema með mjög ströngum skilyrðum. Til dæmis gætu þeir aldrei lánað upp að 80% kaupverðs fasteignar þannig heldur yrði hámarkið miklu lægra. Auk þess myndu þeir þurfa að verðleggja slík lán þannig að þau yrðu ekki samkeppnishæf hvort sem er.

Það er líka falskenning að það sé beint samhengi milli útbreiðslu gjaldmiðils eða stærðar myntsvæðis og vaxtakjara. Ef sú kenning væri sönn þá ættu vextir í Bandaríkjunum sem hafa stærsta og sterkasta gjaldmiðil í heimi að vera mjög lágir. Það er samt ekki raunin, meðalvextir á húsnæðislánum þar eru núna rúmlega 7% sem er talsvert hærra en t.d. 3-4% í Þýskalandi.

Gjaldmiðlar bera ekki vexti sem slíkir. Það eru lánsamningar sem kveða á um vaxtakjör og þau eru ákvörðun. Vextir eru þeir sem þeir eru á Íslandi vegna þess að það eru þau kjör sem er ákveðið að bjóða. Ef við viljum önnur kjör þarf einfaldlega að breyta þeim ákvörðunum. Með öðrum orðum er aðferðin við að lækka vexti einfaldlega að lækka vexti en ekki gera eitthvað annað.

Ef það er ógangur í vélinni í bílnum þínum vegna þess að hún er eitthvað vanstillt þá lagast það ekki á meðan þú veltir vöngum yfir því hvort þú eigir að skipta um dekk á bílnum eða gera einhverjar aðrar breytingar. Það lagast ekki fyrr en þú ferð með hann í vélarstillingu og lætur laga það sem er að.

Þetta endalausa tal um gjaldmiðil og hvað hann skuli heita eða hvort taka eigi upp handstýringu á gengi hans gerir ekkert nema afvegaleiða umræðuna frá því sem máli skiptir sem eru vaxtakjörin. Flestum finnst vextir vera háir á Íslandi og þá ætti umræðan að snúast um að lækka þá en ekki eitthvað annað. Vextir eru ákvörðun og til að breyta þeim þarf ekkert annað en ákvörðun.

Ef það eru vextir sem skipta máli hættum þá að ræða um liti eða myndskreytingar á peningaseðlum og ræðum um vexti.

Guðmundur Ásgeirsson, 25.1.2025 kl. 17:30

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Heimssýn

Heimssýn

hreyfing sjálfstæðissinna í Evrópumálum, eru þverpólitísk samtök þeirra sem telja hagsmunum Íslendinga best borgið með því að halda áfram að vera sjálfstæð þjóð utan Evrópusambandsins.

 

Sími 895 5334 (Haraldur Ólafsson, formaður)


Nánar um Heimssýn

Vertu með!

Frjáls framlög

Eldri færslur

Mars 2025
S M Þ M F F L
            1
2 3 4 5 6 7 8
9 10 11 12 13 14 15
16 17 18 19 20 21 22
23 24 25 26 27 28 29
30 31          

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (6.3.): 90
  • Sl. sólarhring: 222
  • Sl. viku: 2265
  • Frá upphafi: 1202606

Annað

  • Innlit í dag: 74
  • Innlit sl. viku: 2039
  • Gestir í dag: 72
  • IP-tölur í dag: 72

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband