Leita í fréttum mbl.is

Horft í gegnum þokuna í bókunarmálinu

Frumvarp um valdaframsal frá lýðæðislega kjörnum fulltrúum til Evrópusambandsins er til umfjöllunar á Alþingi.   Einn flokkur virðist ekki ætla að bila í því máli.  Óvíst er með hina.   Rifjum upp nokkrar staðreyndir um þetta mál:

 

Um er að ræða valdaframsal sem klætt er í búning réttarbóta. Það eru álíka góð föt og þau sem allsberi keisarinn skrýddist.

Réttarbætur fást með löggjöf sem Alþingi setur.  Fráleitt er að leita réttarbóta með almennu valdaframsali til vandalausra með ófyrirsjáanlegum afleiðingum.

Meirihluti þjóðarinnar vill ekki bókun 35, samkvæmt skoðanakönnun prósents. 

Bókun 35 er ljómandi gott tækifæri fyrir ríkisstjórn Íslands að sýna í verki ást sína á lýðræði og þjóðaratkvæðagreiðslum.  Hvers vegna grípur hún ekki það tækifæri?  

Einn ríkisstjórnarflokkanna gekk til kosninga með þá afdráttarlausu og skýru afstöðu að hafna bæri bókun 35.  Meirihluti Alþingismanna hefur ekkert umboð frá kjósendum sínum til valdaframsalsins sem fylgir bókun 35.

Einn núverandi ráðherra ríkisstjórnarinnar sagði afdráttarlaust að bókun 35 stæðist ekki stjórnarskrá skömmu fyrir kosningar.  Það hefur líka landsliðið í lögfræði gert.

Bókun 35 stenst ekki stjórnarskrá.  Alþingi getur ekki leyft sér að setja lög sem ekki standast stjórnarskrá lýðveldisins.  Slíkt hefur óhjákvæmilega eftirmál.

Ekkert kallar á samþykkt bókunar 35.  Viðsnúningur stjórnvalda í málinu er óútskýrður.  Allt tal um réttarbætur er augljóslega yfirvarp.  Svara þarf spurningunum:  Hvaða hagsmunir liggja að baki og hverju hótaði eða lofuðu embættismenn Evrópusambandsins?

Ef bókun 35 er sett í salt gerist ekki neitt sem skiptir máli.

 

Að lokum er vert að velta fyrir sér hvernig á því stendur að þingmenn vilja iðulega fullveldi fyrir kosningar, en ganga í björg með þeim sem vilja framselja sem mest af völdum til gömlu nýlenduveldanna að kosningum loknum.  Hvað er það sem togar?  Von um disk kúfaðan baunum með floti?

 

 

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Frumvarpið kveður ekki á um neitt "valdaframsal frá lýðræðislega kjörnum fulltrúum til Evrópusambandsins", að minnsta kosti ekki umfram það sem hvort sem er gæti hugsanlega leitt af 7. gr. EES samningsins sjálfs sem hefur verið hluti af íslenskum lögum frá 1994. Þvert á móti er áréttað bæði í frumvarpinu og bókun 35 sjálfri að með hvorugu sé löggjafarvald framselt.

Réttarbætur geta vissulega fengist með löggjöf sem Alþingi setur enda hefur enginn annar vald til þess. Það getur Alþingi til dæmis gert með því að lögfesta reglu sem er til þess fallin að draga úr líkum á því að mistök við lagasetningu geti leitt til skerðingar á umsömdum réttindum almennra borgara. Það er hvorki skerðing né framsal löggjafarvalds heldur notkun þess.

Enginn hefur getað bent á neitt ákvæði í stjórnarskránni sem bannar Alþingi að samþykkja frumvarp þess efnis sem hér um ræðir. Þvert á móti hefur Alþingi fullt vald til þess samkvæmt 2. gr. stjórnarskrárinnar og heimild til að beita því.

Þó það eigi ekki við um þetta tiltekna mál ætti Alþingi vissulega ekki að setja lög sem ekki standa stjórnarskrá, að minnsta kosti ekki viljandi. Samt hefur það gerst oftar en einu sinni en oftast án þess að neinn brotavilji hafi legið að baki. Þegar svo ber undir kemur til kasta dómstóla að skera úr það hvort viðkomandi lög samrýmist stjórnarskrá eða ekki. Ekkert bannar þeim sem hafa slíka skoðun á þessu máli að leita úrlausnar dómstóla um hvort þeir hafi rétt fyrir sér ef þeir vilja það. Þá yrði fróðlegt að sjá hvaða einstaklingur fengist til að höfða mál til að krefjast skerðingar á umsömdum réttindum sínum.

Fullyrðingar eins og: "Ekkert kallar á samþykkt bókunar 35." - byggjast á misskilningi eða rangtúlkun. Bókunin er hluti af EES samningnum sem var samþykktur árið 1993 og öðlaðist lagagildi í ársbyrjun 1994 samkvæmt lögum frá Alþingi. Það sem er löngu búið að samþykkja þarf ekki að samþykkja aftur. Aftur á móti hefur dómaframkvæmd Hæstaréttar Íslands með tímanum leitt í ljós að innleiðing þeirrar reglu sem kemur fram í bókun 35 var ábótavant í upphafi. Það er sú staðreynd sem kallar á þær úrbætur á þeirri innleiðingu sem eru lagðar til í frumvarpinu.

Fullveldi er stundum misskilið hugtak. Án fullveldis hefði Ísland ekki getað gerst aðili að EES samningnum því fullveldi er forsenda þess að ríki geti gert gilda þjóðréttarsamninga samkvæmt meginreglum alþjóðaréttar. Aðild Íslands að EES er því staðfesting á fullveldi Íslands fremur en hið gagnstæða.

Þeirri spurningu hvaða hagsmunir liggja að baki er auðvelt að svara, það eru hagsmunir almennings á Íslandi af því að fá að njóta óskertra réttinda sinna samkvæmt EES samningnum.

Það er ósönnuð samsæriskenning að "embættismenn Evrópusambandsins" hafi hótað eða lofað einhverju í tengslum við þetta mál og ekkert hefur komið fram sem styður hana enda varðar málið ekki ESB heldur EES. Að sama skapi er það ósönnuð samsæriskenning að þeir sem hafi sig mest í frammi gegn málinu séu að reyna að grafa undan EES samningnum til að greiða fyrir inngöngu Íslands í ESB.

Guðmundur Ásgeirsson, 15.6.2025 kl. 19:57

2 Smámynd:   Heimssýn

Frumvarpið gerir lög og reglur sem eiga uppruna í Evrópusambandinu rétthærri en önnur lög.  Í því felst valdaframsalið.  

Markús fv. forseti hæstaréttar, Stefán Már, lagaprófessor, Jón Steinar fv. hæstaréttardómari og Arnar Þór, fv. dómari hafa rökstutt hvernig bókun 35 fellur illa að stjórnarskrá.  Um það er fjallað m.a. í þessu bloggi og nokkrum umsögnum til Alþingis.

Fullyrðingin um að ekkert kalli á samþykkt bókunar 35 vísasr til þess að EES-samningurinn án hennar er orðinn 30 ára, án þess að fjarvera bókunarinnar hafi valdið teljandi vandræðum. 

Áhersla sumra stjórnmálamanna á bókun 35 og viðsnúningur utanríkisráðuneytis í málinu hafa kallað á ýmsar samsæriskenningar um hagsmuni.  Þær er best að ræða, þó ekki væri nema til að slá þær út af borðinu, ef þær eru bara bull. 

Heimssýn, 16.6.2025 kl. 21:49

3 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

"Frumvarpið gerir lög og reglur sem eiga uppruna í Evrópusambandinu rétthærri en önnur lög."

Það á aðeins við um lög sem Alþingi hefur í krafti löggjafarvalds síns til að innleiða EES reglur eins og er skylt samkvæmt 7. gr. EES samningsins sem hefur verið hluti íslenskra laga frá 1994. Frumvarpið bætir engu nýju við þá innleiðingarskyldu heldur er aðeins ætlað að stuðla að skilvirkari framkvæmd hennar. Ef Alþingi setur "önnur lög sem aftengja EES réttindi er það aftur á móti brot gegn innleiðingarskyldunni sem getur leitt til skerðingar á rétindum almennings og skaðabótaskyldu ríkisns, en markmið frumvarpsins er að hindra að það gerist án vilja Alþingis. Samt sem áður munu engin lög gilda nema þau sem Alþingi setur og þess vegna er ekki um framsal löggjafarvalds að ræða.

Lagaprófessorar og fyrrverandi dómarar eru alls ekki allir á einu máli um hvert þetta falli að stjórnarskrá, ekki frekar en aðrir lærðir og leikir sem hafa skoðanir á því. Hér á eftir eru dæmi um nokkra lögspekinga sem hafa skrifað greinar eða álitsgerðir þar sem er komist að þeirri niðurstöðu að frumvarpið ógni alls ekki löggjafarvaldi Alþingis eða fullveldi Íslands:

Davíð Þór Björgvinsson, fyrrverandi lagapró­fess­or við Háskóla Íslands, Há­skól­ans í Reykja­vík og Há­skól­ans í Kaupmannahöfn, varadómari við EFTA dóm­stól­inn, dómari við Mannréttindadómstól Evrópu og varaforseti Landsréttar.

Róbert Spanó, fyrrverandi varahéraðsdómari, Umboðsmaður Alþingis, forseti lagadeilar Háskóla Íslands og forseti Mannréttindadómstóls Evrópu.

Þorgeir Örlygsson, fyrrverandi deildarforseti lagadeildar Háskóla Íslands, dómari við EFTA dómstólinn og forseti Hæstaréttar Íslands.

Sú fullyrðing að ekkert kalli á samþykkt bókunar 35 vegna þess að EES-samningurinn án hennar sé orðinn 30 ára, án þess að "fjarvera" bókunarinnar hafi valdið teljandi vandræðum, er röng af tveimur ástæðum. Í fyrsta lagi var bókunin aldrei "fjarverandi" heldur hluti af EES samningnum þegar hann var samþykktur í upphafi. Það sem er löngu búið að samþykkja þarf ekki að samþykkja aftur á meðan það hefur ekki verið fellt úr gildi. Í öðru lagi, var innleiðing þeirrar forgangsreglu sem bókunin kveður á um ekki fullnægjandi í upphafi. Til að byrja með olli það ekki teljandi vandkvæðum því dómstólar gátu oftast nýtt túlkunarreglu 3. gr EES laganna til að komast að niðurstöðum í samræmi við EES rétt. Síðustu 10-15 ár fór aftur á móti að bera í sívaxandi mæli á tilfellum þar sem íslensk lög viku að svo miklu leyti frá EES reglum að dómstólar gátu ekki teygt túlkunarregluna nógu langt til að komast að niðurstöðum í samræmi við EES rétt og urðu því að dæma fólki í óhag með tilheyrandi tjóni fyrir tugþúsundir Íslendinga sem nemur ómældum fjárhæðum (einna mest í lánamálum eftir hrunið). Þetta kallaði á þau viðbrögð sem fólust í vaxandi þrýstingi um úrbætur á innleiðingunni, eins og er nákvæmlega tilgangurinn frumvarpsins sem nú er rætt um.

Ef eitthvað við áherslur sumra stjórnmálamanna fyrr á árum og ráðuneyta undir þeirra stjórn kann að hafa kallað á ýmsar samsæriskenningar um hagsmuni, ekki síst í málferlum neytenda gegn föllnu bönkunum eftir hrun, er það sú spurning hvers vegna þeir voru þá í svo harðri andstöðu við réttindi og hagsmuni almennra borgara á Ísland? Eða allt þar til breyting varð á þeirri stefnu með endurnýjun á mannskap við stýrið. Þeirri spurningu þarf ekki að beina að þeim sem núna vilja rétta þá stefnu almenningi til hagsbóta heldur þeim sem áður tóku þá afstöðu gegn íslenskum almenningi sem er núna verið að reyna að leiðrétta.

Guðmundur Ásgeirsson, 17.6.2025 kl. 00:27

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Heimssýn

Heimssýn

hreyfing sjálfstæðissinna í Evrópumálum, eru þverpólitísk samtök þeirra sem telja hagsmunum Íslendinga best borgið með því að halda áfram að vera sjálfstæð þjóð utan Evrópusambandsins.

 

Sími 895 5334 (Haraldur Ólafsson, formaður)


Nánar um Heimssýn

Vertu með!

Frjáls framlög

Eldri færslur

Júlí 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30 31    

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (7.7.): 120
  • Sl. sólarhring: 400
  • Sl. viku: 1464
  • Frá upphafi: 1234160

Annað

  • Innlit í dag: 110
  • Innlit sl. viku: 1223
  • Gestir í dag: 107
  • IP-tölur í dag: 105

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband