Leita í fréttum mbl.is

Hvað ef álið er næst, Kristrún?

Fjórfrelsið, frjáls flutningur vöru, þjónustu, fjármagns og fólks hefur lengi verið kynnt sem órjúfanleg stoð viðskiptasamstarfs bæði innan Evrópusambandsins og í gegnum EES-samninginn.

En nú hafa stjórnendur í Brussel stigið á bremsuna. Framkvæmdastjórn ESB hefur tilkynnt verndartolla á innflutning á járnblendi frá Íslandi og Noregi. Þetta eru ekki bara einhverjir tollar. Þetta eru aðgerðir sem beinast að ríkjum sem hafa í þrjá áratugi tekið þátt í sameiginlega evrópska markaðnum á grunndvelli EES samningsins.

Fjórfrelsið í framkvæmd
Tollar sem þessir vekja óþægilegar spurningar. Er fjórfrelsið raunverulega skilyrðislaust eða aðeins í gildi þegar það þjónar hagsmunum stærri ríkja innan sambandsins?

Í rökstuðningi framkvæmdastjórnarinnar segir að um sé að ræða "tímabundna vernd" gegn "alvarlegri röskun" á innri markaði. En þegar slík aðgerð beinist gegn EES-ríkjum sem eiga að njóta sama markaðsaðgangs og aðildarríki, án þess að þau hafi haft raunveruleg áhrif á ákvörðunina, þá er hætt við að "sameiginlegi markaðurinn" reynist vera markaður á forsendum sumra en ekki allra.

Og hvað tekur við?
Járnblendi er stór útflutningsvara, en ál og afleiddar vörur vega enn þyngra í íslenskum útflutningi. Báðar greinarnar byggja á nýtingu endurnýjanlegrar orku og eru nátengdar íslenskri atvinnuuppbyggingu.

Á sama tíma og ESB beitir verndartollum á hráefni frá EES-ríkjum, innleiðir það nýja reglugerð um svokallaða kolefnisjöfnun við ytri mörk sameiginlega markaðarins, svonefnt CBAM-kerfi (Carbon Border Adjustment Mechanism).

Markmiðið er að jafna samkeppnisstöðu með því að leggja kolefnisgjöld á innflutning frá ríkjum utan ESB sem ekki lúta sama kolefnisverðkerfi og aðildarríki sambandsins. Í reynd getur slík löggjöf orðið að tækni- eða tollamúrum sem bitna á ríkjum eins og Íslandi, ríkjum sem þegar hafa innleitt nær alla umhverfislöggjöf ESB, en teljast samt "utan við mörkin".

Samningar tryggja ekki jafnræði
Verndartollarnir á járnblendi minna okkur á að formlegar skuldbindingar og loforð um jafnan markaðsaðgang duga skammt þegar ESB ákveður að verja eigin hagsmuni. Þó Ísland hafi fylgt reglum sambandsins um vöruflæði og tekið þátt í sameiginlegum markaði af ábyrgð, þá reyndist það litlu skipta þegar verndarhagsmunir stórra ríkja komu til álita.
Þetta er ekki fyrsta dæmið um að reglur ESB nýtist fyrst og fremst þeim sem hafa völdin til að móta þær. Það er áminning um að fjórfrelsi Evrópusambandsins á ekki að vera frjálst aðeins þegar það þjónar hagsmunum sambandsins sjálfs.

Og þegar hagsmunir stórra ríkja ráða för í trássi við gerða samninga, hvernig eigum við þá að leggja trú á "trúboðið" um að sérlausnir bíði handan við aðildarborðið?


« Síðasta færsla

Bæta við athugasemd

Hver er summan af fjórum og sextán?
Nota HTML-ham

Heimssýn

Heimssýn

hreyfing sjálfstæðissinna í Evrópumálum, eru þverpólitísk samtök þeirra sem telja hagsmunum Íslendinga best borgið með því að halda áfram að vera sjálfstæð þjóð utan Evrópusambandsins.

 

Sími 895 5334 (Haraldur Ólafsson, formaður)


Nánar um Heimssýn

Vertu með!

Frjáls framlög

Eldri færslur

Ágúst 2025
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (7.8.): 218
  • Sl. sólarhring: 432
  • Sl. viku: 1726
  • Frá upphafi: 1243245

Annað

  • Innlit í dag: 196
  • Innlit sl. viku: 1533
  • Gestir í dag: 189
  • IP-tölur í dag: 184

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband