Leita í fréttum mbl.is

Þetta er s.s. "þroskuð umræða" um Evrópumálin?

Eins og kunnugt er hefur umræðan um Evrópumálin á undanförnum vikum og mánuðum einkennst af tilraunum Evrópusambandssinna til þess að hagnýta sér þá tímabundnu efnahagserfiðleika sem við er að etja hér á landi (og raunar miklu víðar) því áhugamáli sínu til framdráttar að Ísland skuli ganga í Evrópusambandið og afsala sér þar með sjálfstæði sínu. Seint verður sagt að málflutningur þeirra í því skyni hafi verið yfirvegaður heldur miklu fremur einkennst af upphrópunum og hræðsluáróðri um að allt sé að fara norður og niður hér á Fróni og því þurfi íslenzka þjóðin að gefast upp á að standa á eigin fótum og segja sig til sveitar. Nokkuð sem þó er svo óralangt frá öllum tengslum við raunveruleikann. En eðlilega vilja skósveinar Evrópusambandsins draga upp sem allra dekksta mynd af stöðunni, enda ljóst að fátt er líklegra til að verða þeirra málstað til framdráttar en að staðan í efnahagsmálum þjóðarinnar verði sem allra, allra verst. Það þarf því ekki að segja mér að ófáir í þeirra röðum hlakki ekki yfir ástandinu.

Í 24 stundum í dag segir Valgerður Sverrisdóttir að umræðan um Evrópumálin hafi "þroskast gríðarlega mikið á tiltölulega fáum vikum." Á sínum tíma talaði Halldór Ásgrímsson mikið um að umræðan um málaflokkinn þyrfti að þroskast og einhverjar umræður voru um það þá hvað fælist í því orðalagi hans. Flestum var þó væntanlega ljóst að um var að ræða hefðbundið tal í anda Evrópusambandssinna sem telja víst að ekki sé um að ræða vitiborna umræðu um Evrópumál, eða umræðu yfir höfuð, nema hún hafi þann útgangspunkt að Ísland skuli ganga í Evrópusambandið. Þeir sem eru annarrar skoðunar eru þ.a.l. alls ekkert að ræða málin! Gott ef slíkir aðilar eru þá ekki bara óþroskaðir í skoðanamyndun sinni á málaflokknum í ofanálag? Enginn hroki þar á ferð og allt saman mjög í anda lýðræðislegrar hugsunar.

En nú þarf enginn að velkjast í vafa um, í ljósi þessara orða Valgerðar sem hefur verið einhvers konar pólitískur merkisberi Halldórs Ásgrímssonar í íslenzkri stjórnmálaumræðu eftir að hann sneri sér að öðrum viðfangsefnum, að þetta var nákvæmlega það sem Halldór átti við með svokallaðri "þroskaðri umræðu" um Evrópumálin. Þó það hafi vitanlega legið fyrir.

Hjörtur J. Guðmundsson

(Birtist áður á bloggsíðu höfundar)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hallur Magnússon

Það er rétt hjá Hirti að ákvörðun um inngöngu í ESB á ekki að byggja á tímabundnum efnahagserfiðleikum. Ákvörðun um slíkt á að byggja á heildarhagsmunum Íslendinga til framtíðar

Hins vegar eiga "tímabundnir efnahagserfiðleikar" ekki að verða til þess að fresta umræðu og ákvörðun um inngöngu í ESB.

Auðvitað á íslenska þjóðin að kjósa um það í þjóðaratkvæðagreiðslu hvort ganga skuli til samninga við ESB - og síðan ef samningar nást - að kjósa um það í þjóðaratkvæðagreiðslu hvort ganga eigi að samningnum.

Rétti tíminn til umræðunnar er núna - þrátt fyrir efnahagslega erfiðleika - og rétti tíminn til þjóðaratkvæðagreiðslu eru  við næstu sveitarstjórnarkosningar.

Meira um þetta í blogginu:

Síðasta flokksþing kaus Jón Sigurðsson talsmann aðildarviðræðna við ESB!

Hallur Magnússon, 30.4.2008 kl. 09:45

2 Smámynd: Hjörtur J. Guðmundsson

Hallur:
Það hefur enginn verið að fresta umræðu um þessi mál. Hún hefur staðið lengi og til þessa hefur hin pólitíska niðurstaða verið sú að aðild sé ekki hagstæð Íslendingum. Það þarf ekki að vera framundan þjóðaratkvæðagreiðsla um þessi mál til þess að hægt sé að ræða þau þó þú virðíst halda að það sé einhver bráðnauðsynleg forsenda. Umræðan hefur farið fram og mun fara fram algerlega óháð því hvort sótt verði um aðild eða ekki eða hvort þú teljir þig ekki færan til að ræða málin án þess að hafa slíkt framundan. Óþreyja ykkar Evrópusambandssinna og óþolinmæði eftir Euro-Íslandi sem þið spyrjið í sífellu hvenær komi (á hliðstæðan hátt og sumir hér áður fyrr) er í bezta falli brosleg.

En fyrst þú nefnir aðildarviðræður við Evrópusambandið eins og þær muni hafa svarið við öllu þá er það fjarri raunveruleikanum. Samningssvigrúmið í slíkum aðildarviðræðum er mjög þröngt og um flest mikilvæg hagsmunamál okkar yrði einfaldlega ekki samið um í þeim, s.s. um matvælaverð og vexti svo ekki sé talað um vægi Íslands innan Evrópusambandsins sem yrði lítið sem ekkert enda vægi aðildarríkja sambandsins miðað út frá íbúafjölda þeirra. Nokkuð sem eitt og sér er í reynd næg ástæða til að hafna aðild. Í raun færu aðildarviðræður þannig fram, eins og fulltrúar í Evrópunefnd forsætisráðherra urðu áskynja í samtölum sínum við talsmenn Evrópusambandsins, að fyrst yrði farið yfir þau skilyrði sem sambandið setti fyrir aðild sem við uppfyllum nú þegar og krossað við þau og síðan snerust viðræðurnar um það hversu langan aðlögunartíma við þyrftum til að uppfylla afganginn. Varanlegar undanþágur í einhverju sem máli skiptir eru einfaldlega ekki í boði.

Hjörtur J. Guðmundsson, 30.4.2008 kl. 10:10

3 Smámynd: Hallur Magnússon

Ágæti Hjörtur!

Það er fjarri lagi að ég hafi nokkurn tíma haldið fram að aðildarviðræður að Evrópusambandinu - hvað þá innganga leysi allan okkar vanda!

Hins vegar held ég því fram að þjóðin eigi að taka þessa veigamiklu ákvörðun. Auðvitað á að ganga til þjóðaratkvæðagreiðslu um hvort þjóðin vilji ganga til aðildarviðræðna eða ekki.

Ef svarið er já - þá á þjóðin líka að ákveða hvort niðurstöður samningaviðræðna séu þess eðlis að þjóðin vilji ganga í Evrópusambandið!

Ég hef ekki tekið afstöðu til inngöngu í Evrópusambandið og mun ekki gera það fyrr en niðurstöður aðildarviðræðna liggja fyrir - og gera það á grundvelli þeirrar niðurstöðu!

Það er merkilegur andskoti hvað þið andstæðingar aðildarviðræðna eruð hræddir við þjóðina og að fá úr skorið vilja hennar!

Eruð þið hræddir við lýðræði sem byggir á einum manni - eitt atkvæði?

Hallur Magnússon, 30.4.2008 kl. 11:13

4 Smámynd: Hjörtur J. Guðmundsson

Hallur:
Við skulum nú anda með nefinu. Því fer fjarri að við sjálfstæðissinnar séum hræddir við lýðræðið og hvað þá þjóðina í þessum efnum. Hins vegar sjáum við engan tilgang í aðildarviðræðum við Evrópusambandið enda ljóst að okkar mati að ekki verður náð viðunandi samningi fyrir Ísland. Vægi okkar innan sambandsins yrði þannig t.a.m. lítið sem ekkert og yfirráðin yfir aulind Íslandsmiða færðust til Brussel.

Ef hér yrði einhvern tímann pólitískur vilji til að fara í aðildarviðræður bæri svo sannarlega að leggja afrakstur þeirra í dóm þjóðarinnar. Það eru vonandi allir sammála um. En sá vilji er einfaldlega ekki til staðar og ekki einu sinni hjá þjóðinni enda hafa skoðanakannanir um Evrópumálin lengi verið talsvert flöktandi.

Það er alveg ljóst að við gerðum okkur enga greiða með því að fara í aðildarviðræður ef líklegt væri að aðild yrði hafnað. Það er t.d. skoðun norskra Evrópusambandssinna að þjóðaratkvæðagreiðslurnar tvær þar í landi um aðild að Evrópusambandinu hafi skaðað möguleika Norðmanna á slíkri aðild. Evrópusambandið sé mun tortryggnara gagnvart norskri umsókn um aðild en áður eftir tvö nei. Fyrir vikið hafa lykilmenn í röðum Evrópusambandssinna í Noregi lýst því yfir að ekki sé hættandi á aðra aðildarumsókn nema næsta öruggt sé að hún verði samþykkt. Ekki sé hættandi á að fá þriðja nei-ið.

Hjörtur J. Guðmundsson, 30.4.2008 kl. 11:45

5 Smámynd: Hallur Magnússon

Ágæti Hjörtur!

"....Hins vegar sjáum við engan tilgang í aðildarviðræðum við Evrópusambandið enda ljóst að okkar mati að ekki verður náð viðunandi samningi fyrir Ísland"

Þótt ykkar persónulega skoðun sé sú að ekki verði náð viðunandi samningi við Evrópusambandið, þá benda skoðanakannanir til að meirihluti þjóðarinnar vilji láta reyna á slíkar viðræður. 

Það að berjast gegn slíkri þjóðaratkvæðagreiðslu - vegna þess að ykkar fyrirfram skoðun er sú að ekki náist viðunandi niðurstaða - undirstrikar að þrátt fyrir að þið haldið fram að:

 "... Því fer fjarri að við sjálfstæðissinnar séum hræddir við lýðræðið og hvað þá þjóðina í þessum efnum."

Þá erið þið hræddir við vilja þjóðarinnar hvað aðildarviðræður varðar!

Hallur Magnússon, 30.4.2008 kl. 12:07

6 Smámynd: Hjörtur J. Guðmundsson

Hallur:
Svo sannarlega ekki. Það er enginn að koma í veg fyrir slíka þjóðaratkvæðagreiðslu ef raunverulegt tilefni gefst fyrir henni. Þú leikur þér ekkert að því að halda þjóðaratkvæðagreiðslu sí svona sem síðan kann hugsanlega að skaða hagsmuni okkar til lengri tíma eins og dæmið frá Noregi sýnir. Ef Evrópusambandsaðild er fólki virkilega hjartans mál þá liggur beinast við að kjósa stjórnmálaflokka til setu á Alþingi sem eru hlynnt aðildarviðræðum við Evrópusambandið. Flokkar ganga einfaldlega til kosninga með ákveðin stefnumál og í síðustu þingkosningum var aðeins einn þeirra sem vildi slíkar aðildarviðræður þó hann guggnaði reyndar á því sem fyrr að gera málið að kosningamáli. Kannski ekki sízt vegna þess að a.m.k. ein skoðanakönnun á vegum Stöðvar 2 sýndi í miðri kosningabaráttunni að þegar kjósendur voru beðnir að raða 10 málaflokkum upp eftir mikilvægi þeirra þá var niðurstaðan að Evrópumálin voru mjög neðarlega. Þetta er ekkert ýkja flókið.

Ég hélt annars að það væri bara Samfylkingin sem dansaði eftir skoðanakönnunum hvað sem liði stefnu eða öðru slíku (ekki það að sá flokkur hafi verið þekktur fyrir mikla stefnumótun). Ég get því eiginlega ekki stillt mig um að spyrja: Ertu viss um að þú ert í réttum flokki?

Hjörtur J. Guðmundsson, 30.4.2008 kl. 12:25

7 Smámynd: Hallur Magnússon

Tja, réttum flokki?

Já, ég er reyndar í Framsóknarflokknum frá gamalli tíð.  Þar er reyndar að öllum líkindum meirihluti fyrir því að rétt geti verið að skoða aðildarviðræður - og taka afstöðu þegar niðurstaðan liggur fyrir.

sbr. td: Síðasta flokksþing kaus Jón Sigurðsson talsmann aðildarviðræðna við ESB!

Hallur Magnússon, 30.4.2008 kl. 12:52

8 Smámynd: Hjörtur J. Guðmundsson

Hallur:
"Þar er reyndar að öllum líkindum meirihluti fyrir því að rétt geti veriðskoða aðildarviðræður - og taka afstöðu þegar niðurstaðan liggur fyrir."

Ég hef séð fáar setningar hlaðnar eins miklum efa og þessa. Alveg einstaklega afgerandi afstaða þarna á ferðinni  

Hjörtur J. Guðmundsson, 30.4.2008 kl. 13:23

9 Smámynd: Guðbjörn Guðbjörnsson

Sæll Hjörtur!

Ég held satt best að segja að þessi umræða, sem þú lýsir sé komin mun lengra en þú veist. Á fundi sjálfstæðismanna í Reykjanesbæ um sl. helgi gekk ég svo langt að koma út úr skápnum með skoðun mína, sem er þess efnis að skynsamlegt sé að skilgreina samningsmarkmið Íslendinga og fara í aðildarviðræður við ESB. Það er algjör misskilningur hjá þér að þetta sé einungis vegna efnahagsörðugleika undanfarinna mánuða. Hins vegar urðu þessir erfiðleikar til þess að margir - ég, Þorsteinn Pálsson, Jón Sigurðsson og fleiri mætir menn  - hafa þorað að koma fram í sviðsljósið og lýsa sinni skoðun á málinu.

Margir tóku þessu reyndar frekar illa, en þú værir hissa á hversu margir þögðu og ég sá undrun og hugsandi svip á andlitum margra í kringum mig og aðrir þorðu jafnvel að lýsa yfir stuðningi við mig. Ég er ansi hræddur um að margir muni koma út skápnum á næstu dögum, vikum og mánuðum.

Við verðum að brjóta niður þann þagnarmúr, sem byggður hefur verið í kringum þetta mál innan Sjálfstæðisflokksins. Það er alveg ljóst að a.m.k. 50% flokksmanna - sennilega fleiri - aðhyllast aðildarviðræður og okkur fer fjölgandi. Stór samtök atvinnulífsins hafa lýst yfir að aðildarviðræður séu nauðsynlegar og sama hafa stærstu fjármálafyrirtæki landsins gert.

Það sem ég er hræddur við er að flokkurinn vakni upp við þann slæma draum, að þeir, sem ekki eru jafn harðir hægri menn og ég, séu stokknir yfir til Samfylkingarinnar og hinir, sem eru harðir hægri menn skili auðu í næstu kosningum. Næstu kosningar mun klárlega snúast um aðild Íslands að ESB - ekki ljúga að sjálfum þér, það þýðir ekki að lemja hausnum við steininn.

Stærsti misskilningurinn er að íslenskir hægri menn virðast halda að ESB séu einhverskonar "kommasamtök"! Það er öðru nær, þar sem fyrstu forvígismenn samvinnu innan Evrópu voru hægri menn.

 Kær kveðja,

 Guðbjörn Guðbjörnsson

Guðbjörn Guðbjörnsson, 30.4.2008 kl. 17:44

10 Smámynd: Hjörtur J. Guðmundsson

Heill og sæll Guðbjörn,

Þorað að segja þína skoðun segirðu. Hver hefur bannað þér það til þessa? Hver bannaði þér það í utanríkismálanefnd Sjálfstæðisflokksins á síðasta landsfundi þar sem við sátum báðir og ræddum þessi mál? Enginn mér vitanlega. Í það minnsta ekki ég. Ég skal ræða þessi mál hvenær sem er við þig og þú mátt hafa hverja þá skoðun á þeim sem þú kýst. En ekki hvað? Enda höfum við rætt þessi mál a.m.k. einu sinni síðan. Ég hef allavega þá reynslu af þér að þú takir rökum.

Það er auðvitað vitað að ýmsir í Sjálfstæðisflokknum eru áhugasamir um Evrópusambandsaðild, en ég hef enga trú á að þeir séu eins margir og þú vilt af láta. Landsfundir flokksins hafa alls ekki bent til þess heldur einmitt hins gagnstæða. Ég var á vel sóttum fundi í gærkvöldi hjá Sjálfstæðisfélagi Grafarvogs þar sem Pétur Blöndal, alþingismaður, ræddi um efnahagsmálin og Evrópumálin. Hann fór ekki leynt með þá skoðun sína að aðild að Evrópusambandinu myndi ekki henta okkar hagsmunum að hans mati, færði góð rök fyrir þeirri afstöðu sinni og var vægast sagt góður rómur gerður að þeim orðum hans. Margir lögðu orð í belg í umræðum um Evrópumálin og nánast undantekningarlaust voru menn á því að Evrópusambandsaðild væri ekki fýsileg. Fundurinn í Reykjanesbæ hefur án efa verið ágætur, en hvort hann er lýsandi fyrir stemninguna í flokknum eins og þú virðist telja leyfi ég mér að efast stórlega um. Ég held einmitt að fundurinn í Grafarvogi hafi frekar verið lýsandi í þeim efnum.

Næstu þingkosningar kunna hæglega að snúast að einhverju leyti um Evrópumálin, en ég hef enga trú á að flokkar sem hafa það að stefnu að sækja um aðild að Evrópusambandinu muni ríða fleitum hesti frá þeim. Samfylkingin gerði það nú síðast og tapaði verulegu fylgi þrátt fyrir langa veru í stjórnarandstöðu. Þeir tveir flokkar sem hafa markað sér hvað eindregnasta afstöðu gegn aðild voru sigurvegarar kosninganna, Sjálfstæðisflokkurinn og Vinstri-grænir. Vissulega hafa fleiri mál spilað þar inn í, en einörð afstaða þessara flokka í Evrópumálum skemmdi í það minnsta ekki fyrir þeim. Evrópusambandshyggja Samfylkingarinnar virðist í það minnsta ekki hafa hjálpað þeim flokki mikið.

Fróðlegt væri annars að vita út af hverju hvað annað en efnahagsmálin hafa hér áhrif á málin? Eru menn allt í einu orðnir svona hrifnir af því að gera Ísland að nær áhrifalausum hreppi í sameinuðu evrópsku stórríki? Er skriffinska Evrópusambandsins allt í einu orðin svona heillandi? Eða spillingin innan þess? Ósamþykkt bókhald sambandsins í 13 ár í röð? O.s.frv. Hefurðu kynnt þér skýrslu Evrópunefndar forsætisráðherra sem komu út fyrir rúmu ári? Ég bara spyr í mestu vinsemd að sjálfsögðu vegna þess að ég einfaldlega sé ekki hægrimennskuna við Evrópusambandið ef þú vilt meina að það sé hægrisinnað. Það var það að mörgu leyti einu sinni eins og þú nefnir réttilega, svona fyrir 20-30 árum eða svo þegar forveri sambandsins var fyrst og fremst bara sameiginlegur markaður og Tony Blair og Verkamannaflokkurinn brezki hafði það að stefnu sinni að Bretlandi skyldi yfirgefa það sem allra fyrst. Síðan fór Evrópusamabandið að vinda sífellt upp á sig og samruninn varð ekki bara fyrst og fremst efnahagslegur heldur einnig félagslegur og pólitískur með tilheyrandi miðstýringu og sósíalisma. Þá fóru að renna fyrir alvöru tvær grímur á brezka hægrimenn með Margaret Thatcher í broddi fylkingar. Þetta var í lok 9. áratugarins en þó einkum í byrjun þess tíunda og sérstaklega í kringum samþykkt Maastricht-sáttmálans. Og það var ekki að ástæðulausu.

Í dag hafa ófáir Evrópusambandssinnaðir vinnstrimenn og fleiri sem áður voru á móti innri markaði Evrópusambandsins tekið hann í sátt og hvers vegna? Jú vegna þess að þeir sjá hann ekki lengur fyrir sér sem fríverzlun á milli landa (að vísu er Evrópusambandið tollabandalag en ekki fríverzlunarsvæði), sem gjarnan er eitur í þeirra beinum, heldur sem innanlandsmarkað hins nýja evrópska stórríkis.

Ég gæti auðveldlega haldið lengi áfram enn en læt hér staðar numið - a.m.k. að sinni. 

Kær kveðja að sama skapi félagi,

Hjörtur 

Hjörtur J. Guðmundsson, 30.4.2008 kl. 20:44

11 Smámynd: Kári Harðarson

Þú skrifaðir: Því þurfi íslenzka þjóðin að gefast upp á að standa á eigin fótum og segja sig til sveitar.

Að segja sig til sveitar þýðir að hætta að vinna fyrir sér en lifa á ölmusu. Ég sé ekki að samlíkingin eigi við. Íslendingar munu vafalítið vinna áfram eins og skepnur þótt þeir gangi í sambandið...

Þú skrifaðir: Í 24 stundum í dag segir Valgerður Sverrisdóttir að umræðan um Evrópumálin hafi "þroskast gríðarlega mikið á tiltölulega fáum vikum."

Sammála, það er ekkert sem gefur tilefni til að segja að umræðan hafi þroskast, þótt fleiri vilji íhuga að ganga í sambandið.

Þú skrifaðir: Ísland skuli ganga í Evrópusambandið og afsala sér þar með sjálfstæði sínu.

Þarna er stóra spurningin í mínum huga. Erum við að afsala okkur sjálfstæði með því að ganga í sambandið? Ég veit ekki svarið, en hef tvær athugasemdir.

Sú fyrri: Ég afsalaði ég mér sjálfstæði þegar ég kvæntist, og aftur þegar við eignuðumst son. Ég hef séð eftir hvorugum "sjálfstæðismissinum". Ég er að reyna að segja að sjálfstæðismissir þarf ekki að vera slæmur.

Seinni athugasemdin er að þegar systir mín þurfti að ákveða hvort hún flytti heim eftir mörg ár í útlöndum sagði pabbi: "Sumar ákvarðanir verður maður að taka með hjartanu". Ég er að reyna að segja að við munum aldrei vita allar staðreyndir málsins áður en við ákveðum okkur.

Kári Harðarson, 30.4.2008 kl. 22:37

12 Smámynd: Hjörtur J. Guðmundsson

Kári:
Takk fyrir þessa punkta. Þeir sem sögðu sig til sveitar samþykktu í raun með því að verða sviptir sjálfstæði sínu og að vera eftirleiðis upp á aðra komnir.

Og varðandi sjálfstæðið. Heldur þú að Ísland muni ráða miklu um þau fjölmörgu mál okkar, sem féllu undir yfirstjórn Evrópusambandsins við aðild að því, með 5 fulltrúa af 785 á þingi sambandsins? Eða 3 fulltrúar af um 350 í ráðherraráðinu? Og ekkert vægi í þeim stofnunum þess sem eru meira eða minna sjálfstæðar gagnvart aðildarríkjunum eins og framkvæmdastjórninni? Er þetta sjálfstæði? Svo sannarlega ekki.

Hjörtur J. Guðmundsson, 30.4.2008 kl. 23:26

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Heimssýn

Heimssýn

hreyfing sjálfstæðissinna í Evrópumálum, eru þverpólitísk samtök þeirra sem telja hagsmunum Íslendinga best borgið með því að halda áfram að vera sjálfstæð þjóð utan Evrópusambandsins.

 

Sími 895 5334 (Haraldur Ólafsson, formaður)


Nánar um Heimssýn

Vertu með!

Frjáls framlög

Eldri færslur

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (15.1.): 17
  • Sl. sólarhring: 368
  • Sl. viku: 1952
  • Frá upphafi: 1184359

Annað

  • Innlit í dag: 17
  • Innlit sl. viku: 1680
  • Gestir í dag: 17
  • IP-tölur í dag: 17

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband