Leita í fréttum mbl.is

Evrópusambandið gegn sjálfstæði

kristinn-h-gunnarssonMikið er rætt um hvort Ísland eigi að ganga í Evrópusambandið. Óumdeilt er að aðild mun fylgja framsal valds til stofnana Evrópusambandsins. Með aðild að ESB skerðist sjálfstæði þjóðarinnar en ákveðnum þáttum fullveldisins yrði deilt með öðrum þjóðum. Eitt er að leggja mat á kosti og galla aðildar að Evrópusambandinu eins og málum er fyrir komið nú, en annað og mikilvægara er að meta kostina og gallana við það Evrópusamband er stefnt er að. Tillögur um það liggja fyrir nokkuð skýrt í samningi sem kenndur er við Lissabon.

Nú eru 27 þjóðir í Evrópusambandinu og nokkrar til viðbótar hafa sótt um. Almenna reglan við afgreiðslu mála er sú að hvert ríki hefur neitunarvald. Augljóst er að slíkt gengur illa þegar nærri 30 ríki eru kominn í ESB og undanfarin ár hefur verið unnið að breytingum á stofnsáttmála Evrópusambandsins.

Kjarninn í þeim breytingum er afnám neitunarvalds hvers ríkis. Í stað þess koma reglur um mismunandi vægi þjóðanna innan ESB og að mál verði afgreidd með meirihluta atkvæða. Fjölmennu þjóðirnar verða mun áhrifameiri en hinar fámennu. Það þýðir einfaldlega að þjóð geti orðið að una því að búa við löggjöf sem hún er andvíg eða sæta refsiaðgerðum ella. Þrautaráðið gæti orðið að ganga úr Evrópubandalaginu.

Þessar nýju reglur um meirihluta atkvæða ná til fjölmargra málaflokka og verða í raun meginreglan innan Evrópusambandsins. Að auki er lagt til að auka miðstýringuna svo sem með því að taka upp embætti forseta og utanríkisráðherra ESB, og komið verði á fót utanríkisþjónustu bandalagsins.

Greinilegt er að forysturíki Evrópubandalagsins hafa komist að þeirri niðurstöðu að ESB með mörgum aðildarríkjum gangi ekki nema það þróist í átt að ríkjabandalagi, nokkurs konar evrópskri útgáfu af Bandaríkjum norður Ameríku.

Lissabon samningurinn er borinn undir þjóðþing aðildarlandanna nema á Írlandi en þar fór fram þjóðaratkvæðagreiðsla í síðustu viku. Írarnir hafa verið beittir þrýstingi og franski utanríkisráðherrann lýsti því yfir að ekkert yrði af samningnum ef hann yrði felldur í þjóðaratkvæðagreiðslunni. En það gerðist einmitt að Írar felldu samninginn.

Breska blaðið The Times telur enga vafa leika á því að kjósendur hafi komist að þeirri niðurstöðu að með breytingunum væri gengið of nærri fullveldi þjóðarinnar og að Írar yrði of áhrifalitlir innan sambandsins. Það er afar merkileg niðurstaða í því ljósi að Írar hafa notið verulega aðildarinnar að Evrópusambandinu og eru taldir styðja áframhaldandi aðild á þeim forsendum sem verið hafa. En írska þjóðin styður greinilega ekki hið nýja Evrópusamband. Það er kannski kjarni málsins.

Nú er samningurinn úr sögunni miðað við gildandi reglur Evrópusambandsins. En varla hafði talningu verið lokið á Írlandi þegar forseti Frakklands og kanslari Þýskalands gáfu út sameiginlega yfirlýsingu og hvöttu þjóðir ESB til þess að staðfesta samninginn þrátt fyrir afstöðu Íra. Forsætisráðherra Bretlands hringdi í báða ofangreinda þjóðarleiðtoga og tilkynnti þeim að Bretar myndu ljúka við að staðfesta samninginn. Þessum leiðtogum er full alvara í því að samningurinn skuli ná fram hvað sem ein aðildarþjóð segir.

Þetta segir okkur að nei þýðir ekki nei. Fjölmennu og valdamiklu þjóðirnar í Evrópusambandinu fara sínu fram hvað sem líður afstöðu Íra. Þetta hefur því miður áður gerst í öðrum atkvæðagreiðslum og því ekkert einsdæmi. Það er ekki nóg að sitja við borðið til þess að hafa áhrif. Það er til annað borð sem er fyrir útvalda. Að því borði munu Íslendingar ekki komast að frekar en Írar eða aðrar fámennar þjóðir. Þessi staðreynd veikir verulega rökin fyrir því að ganga í ESB.

Á þjóðhátíðardaginn sjálfan er hollt að muna að sjálfstæðið hefur gefist okkur Íslendingum best.

Kristinn H. Gunnarsson,
þingmaður Frjálslynda flokksins

(Birtist áður í 24 stundum og á heimasíðu höfundar)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Heimssýn

Heimssýn

hreyfing sjálfstæðissinna í Evrópumálum, eru þverpólitísk samtök þeirra sem telja hagsmunum Íslendinga best borgið með því að halda áfram að vera sjálfstæð þjóð utan Evrópusambandsins.

 

Sími 895 5334 (Haraldur Ólafsson, formaður)


Nánar um Heimssýn

Vertu með!

Frjáls framlög

Eldri færslur

Des. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (25.12.): 44
  • Sl. sólarhring: 77
  • Sl. viku: 2007
  • Frá upphafi: 1176861

Annað

  • Innlit í dag: 39
  • Innlit sl. viku: 1827
  • Gestir í dag: 39
  • IP-tölur í dag: 38

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband