Leita í fréttum mbl.is

Skoðanakönnun um stöðu Íslands

Alþingismaður nokkur sagði mér, að í hann hefði verið hringt um daginn vegna almennrar skoðanakönnunar og hann spurður, hvort rétt hefði verið að vísa manni nokkrum héðan til Ítalíu. Hann spurði: Má ræða málið? Nei, hann átti að svara já eða nei. Þannig vilja margir hafa það að leyfa aðeins tvo kosti til umræðu og afgreiðslu. Hér verður þvert á móti athugað, hvort leita megi álits þjóðarinnar um stöðu Íslands í Evrópu með raðvali. Eins og lesendum Morgunblaðsins má vera kunnugt, má með því móti meta rökvíslega afstöðu til fleiri en tveggja kosta.
 
Í áliti alþingisnefndar í fyrra var það rætt af stillingu, að líf gæti verið utan Evrópska efnahagssvæðisins og Evrópusambandsins. Þetta kom fram á aðalfundi Heimssýnar í tali tveggja nefndarmanna, Illuga Gunnarssonar og Katrínar Jakobsdóttur. Ég segi af stillingu, því að lengst af hefur verið fjallað um aðild Íslands að Evrópska efnahagssvæðinu af þeim trúboðshita, sem fylgdi tali utanríkisráðherrans, þegar tekist var á um aðildina. Þá er það góðs viti um rökræður, þótt þess gæti lítið í fjölmiðlum, að í nefnd stjórnar ríkisins um stöðu Íslands, sem nú er að störfum, er Illugi Gunnarsson enn og raunar í forystu ásamt manni úr Brüssel-fylkingunni.
 
Hér raða ég kostum um stöðu Íslands eftir fjarlægð þeirra frá vilja ráðastéttarinnar. Þá verður fyrstur sá kostur, að Ísland hafi samskipti við Evrópusambandið samkvæmt EFTA-samningnum; það gerist með því að segja EES-samningnum upp. Um það eru skýr ákvæði, að þá taka EFTA-ákvæði gildi. (Það verður síðan viðfangsefni stjórnvalda að móta samskiptin á þeim grundvelli).
 
Annar kostur væri að halda EES-samningnum. Þar gætu raunar verið tvö sjónarhorn, annars vegar það, að hann verði takmarkaður við fjórskilyrðin. Hitt sjónarhornið væri að eyða sem mestu af því, sem greinir að Ísland og Evrópusambandið; þetta er vitaskuld sjónarhorn ráðastéttarinnar, sem hefur um áratugi unnið að slíkri aðlögun til þess svo að geta lagt aðild að Evrópusambandinu fyrir þjóðina með þeim orðum, að munurinn sé nánast enginn. Hér má nýjast vísa í orð viðskiptaráðherra, að ekki eigi að leggja aðild fyrir þjóðina, fyrr en um hana geti orðið býsna breið samstaða.
 
Þriðji kosturinn væri að sækja um aðild með skilyrðum um forræði auðlinda til lands og sjávar; það má hafa á fleiri stigum, og þar koma sér vel eiginleikar raðvals, að það truflar ekki málsmeðferð, þótt lögð séu fram sex-sjö afbrigði. Fjórði kosturinn væri að sækja um aðild án skilyrða.
 
Ráðamenn hafa lagt mál fyrir þjóðina til atkvæðagreiðslu annars vegar í máli, sem flokkarnir voru í vandræðum með, þar sem skoðanir voru sterkar og þvert á flokka, nefnilega heimild til sölu áfengis, og hins vegar þegar það hefur styrkt málstaðinn að fá fram einróma stuðning, nefnilega við stofnun lýðveldis. Nýleg eru tvö dæmi, þar sem ráðamenn lögðu mál fyrir með aðeins tveimur afbrigðum, þótt þau væru vissulega þannig vaxin, að minnst þrjú afbrigði áttu við. Annað var almenn atkvæðagreiðsla í Reykjavík um flugvöll, en hitt tengdist stækkun álversins í Straumsvík. Þar var leitað afstöðu um breytingu á deiliskipulagi, sem gaf færi á stækkun álversins, án þess að lagt væri fyrir, hvort stækka ætti álverið. Mikils háttar maður í Hafnarfirði kom fram sem andstæðingur stækkunar, en studdi breytinguna á deiliskipulagi. Það gat hann ekki tjáð í atkvæðagreiðslunni, en með raðvali var einfalt að hafa kostina þrjá, og þá hefði hann getað tjáð sig í atkvæði í samræmi við orð sín.
 
Sem stendur er það kjarni málsins um stöðu Íslands, hvernig stjórn ríkisins, í hinum ýmsu ráðuneytum, mótar lög landsins til að eyða fyrirstöðu við aðildarstefnu, eins og hefur verið markmið ráðastéttarinnar í hálfa öld. Sem stendur vinna verslunarkeðjur meginlandsins að því að auka svigrúm sitt í Evrópusambandinu og veikja samtök bænda. Hér er einmitt til umfjöllunar lagafrumvarp, sem gefur íslenskum verslunarkeðjum færi á að ryðja úr hillum sínum íslenskum afurðum. Frumvarpið á upptök sín í Brüssel. Umræða um þjóðaratkvæðagreiðslu, eins og hún hefur verið, beinir athyglinni frá slíku starfi ráðastéttarinnar. Öðru máli gegndi, ef umræðan yrði um raðval sex-sjö kosta um stöðu Íslands. Þá yrði hún með þeirri breidd, sem efni standa til.
 
Björn S. Stefánsson
 
(Birtist áður í Morgunblaðinu 8. ágúst 2008)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Heimssýn

Heimssýn

hreyfing sjálfstæðissinna í Evrópumálum, eru þverpólitísk samtök þeirra sem telja hagsmunum Íslendinga best borgið með því að halda áfram að vera sjálfstæð þjóð utan Evrópusambandsins.

 

Sími 895 5334 (Haraldur Ólafsson, formaður)


Nánar um Heimssýn

Vertu með!

Frjáls framlög

Eldri færslur

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (27.1.): 308
  • Sl. sólarhring: 473
  • Sl. viku: 2389
  • Frá upphafi: 1188525

Annað

  • Innlit í dag: 270
  • Innlit sl. viku: 2166
  • Gestir í dag: 256
  • IP-tölur í dag: 254

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband