Leita í fréttum mbl.is

Verkefni handa háskólahagfræðingum

bjorn_s_stefansson
Gjaldmiðilsfræði, eins og háskólahagfræðingar fjalla um þau nú, eru eins og kartöflufræði búfræðinga fyrir 80-90 árum. Ef leitað var til búfræðings á fyrstu áratugum 20. aldar til að fá ráð um kartöflurækt hafði hann lítið að styðjast við annað en eigið hyggjuvit. Sumir búfræðingar voru glúrnir, aðrir virtust vera glúrnir, en hvort sem var gátu þeir ekki vísað til rannsókna. Nú getur búfræðingur, sem spurður er ráða um kartöflurækt, vísað til greinar í blaði, sem aftur vísar til tímaritsgreinar, sem aftur styðst við rækilegar rannsóknarskýrslur, og kartöflurnar verða góðar. Þessu ætti að vera líkt farið um gjaldmiðilsmálið, en því er ekki að heilsa.

Háskólahagfræðingar vísa ekki til rækilegrar greinargerðar, þar sem lesendur með ólík viðhorf um stöðu Íslands geta metið sjálfir, hvernig hugmynd hvers og eins um æskilega stöðu landsins fellur að hugmyndum um gjaldmiðil fyrir Ísland. Reyndar segir Thomsen, sem hér hefur verið á vegum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (AGS), að hér fari fram beinskeytt umræða um þessi mál. Sú umræða hefur ekki birst almenningi, en skot hafa vissulega verið mörg.

Ég set fram spurningar og óskir. Fyrst: Verður því yfirleitt svarað, hvernig megi koma gjaldmiðilsmálum Íslands vel fyrir, fyrr en heimurinn hefur mótað nýjar leikreglur um flutning fjármagns milli landa eftir þá raun, sem heimurinn er í?

Þó að þessu verði ekki svarað af raunsæi fyrst um sinn má fjalla um ýmsa reynslu. Meginkenningin hefur verið, að myntbandalag verði ekki farsælt, nema hlutar þess séu samstiga í efnahagssveiflum. Háskólahagfræðingar mættu gera grein fyrir því, meðan beðið er eftir því, að reglur mótist um gjaldmiðilsmál heimsins, hversu samstiga eða ósamstiga Ísland hefur verið evrubandalaginu. Evrubandalagið fullnægir reyndar ekki skilyrðinu um að vera samstiga innbyrðis, enda hefur því farnast lakar en hinum hluta Evrópusambandsins og Evrópska efnahagssvæðisins. Sömuleiðis þarf að vita vegna hugmyndar um að tengja krónuna við BA-myntina dollar, hversu samstiga Ísland hefur verið Bandaríkjum Ameríku (BA), og vegna trúar sumra á, að farsælt væri að gera norsku krónuna að gjaldmiðli hér, þarf að vita, hvort Ísland sé yfirleitt samstiga Noregi í efnahagsbylgjum.

Því er stundum haldið fram, að íslenska hagkerfið sé of lítið. Of lítið fyrir hvern er þá átt við? Var ef til vill helst að, nú þegar illa fór, að kvöð var á samkvæmt EES-samningnum, að ríkið skipti sér ekki af fjármagnsflutningum úr landi og til landsins? Það vildi ég, að fjallað væri um í greinargerð háskólahagfræðinga. Þá hefur verið talað um áhlaup á krónuna. Hvaða tök þarf að hafa til að varast þau? Mundu slík tök leyfast í nýjum alþjóðlegum reglum, þótt þau yrðu ekki leyfð samkvæmt EES-samningnum? Mætti þá ekki semja við Evrópusambandið um frávik? Dýrkeypt reynsla ætti að nægja til að fá að semja þannig. Þetta þarf að taka fyrir, meðal annars með tilliti til þess, að hér megi stunda fjármálastarf af viti.

Nefnd eru dæmi um farsæl myntbandalög, Hongkong með BA-dal og Ekvador sömuleiðis. Er reynslan í þessum löndum háð skipulagi kjaramála? Skyldu vera almennir kjarasamningar í löndunum? Skiptir það máli, ef vantar þann sveigjanleika, sem fæst með eigin gjaldmiðli, að kjarasamningar eru sveigjanlegir, jafnvel léttvægir? Er þá æskilegt, til að myntbandalagið heppnist, að aðilar vinnumarkaðarins séu lítils megnugir, sem sagt ekki neitt Alþýðusamband, sem skiptir máli?

Nú kom til álita, að Lettland, sem hafði tengt gjaldmiðil sinn evru, aftengdi hann og felldi gengið. Ekki varð af því, heldur fékk Lettland mikið evrulán til að bjarga sér úr vandræðum. Fróðlegt væri að fá það dæmi metið í víðtækri greinargerð, sömuleiðis muninn í núverandi þrengingum á Bretlandi með sitt pund og Írlandi með evru. Þá má ekki gleyma Færeyjum. Hagstofustjóri Færeyja var í opinberri heimsókn hér í haust og lýsti vandræðum þar fyrir hálfum öðrum áratug. Þar vantaði illa eigin gjaldmiðil til að leysa vandann, hélt hann fram. Hvað er til í því?

Þá vildi ég hafa með umfjöllun um myntráð; um það eru alþjóðlegar reglur. Loks hlýt ég að vænta þess, að menn meti, hvers virði sjóðval mætti verða til að draga úr hagsveiflum, sem aftur tengist gjaldmiðilsstjórn, sbr. grein mína „Að loknum fjármálasviptingum“ í Mbl. 16. október síðastliðinn.

Hér er því margs að gæta, og ekkert vit að ætla háskólahagfræðingunum nauman tíma. Hagfræði getur leitt til skarprar greiningar og úrræða, en getur líka orðið einfeldningslegt trúboð, jafnvel hjá sama manni. Háskólahagfræðingarnir stóðu heiðursvörð í þeirri hrakför, sem þjóðin er í, með glýju í augum (það er spurt, hvenær ferðin hófst). Samt verður ekki komist hjá því að setja þá í verk. Þegar þeir hafa skilað vandaðri álitsgerð í gjaldmiðilsmálinu þarf almenningur svigrúm til að meta hana með tilliti til nokkurra meginhugmynda um stöðu Íslands. Og heimurinn allur þarf að jafna sig til að ná áttum um farsæl fjármálasamskipti. Ætli veiti af skemmri tíma en kjörtímabili núverandi Alþingis til að komast að niðurstöðu?
 
Björn S. Stefánsson
 
(Birtist áður í Morgunblaðinu 4. janúar 2009) 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Heimssýn

Heimssýn

hreyfing sjálfstæðissinna í Evrópumálum, eru þverpólitísk samtök þeirra sem telja hagsmunum Íslendinga best borgið með því að halda áfram að vera sjálfstæð þjóð utan Evrópusambandsins.

 

Sími 895 5334 (Haraldur Ólafsson, formaður)


Nánar um Heimssýn

Vertu með!

Frjáls framlög

Eldri færslur

Des. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (27.12.): 24
  • Sl. sólarhring: 485
  • Sl. viku: 1764
  • Frá upphafi: 1177403

Annað

  • Innlit í dag: 22
  • Innlit sl. viku: 1558
  • Gestir í dag: 20
  • IP-tölur í dag: 20

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband