Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, júní 2008

ESB-lýðræði á brauðfótum

arni_thor_sigurdssonÍrar ganga í dag að kjörborði til í þjóðaratkvæðagreiðslu um Lissabon-sáttmála Evrópusambandsins.  Sáttmálanum er ætlað að koma í stað "stjórnarskrárinnar" svonefndu sem Frakkar og Hollendingar felldu í þjóðaratkvæðagreiðslu um mitt ár 2005.  Írland er eina land ESB sem heldur þjóðaratkvæðagreiðslu um Lissabon-sáttmálann, öll hin ríkin 26 bera hann upp í þjóðþingunum.  Stjórnarskráin átti hins vegar almennt að fara í þjóðaratkvæðagreiðslu en því ferli var hætt þegar Frakkar og Hollendingar gerðu út um málið.  Þó er í raun sáralítill munur á Lissabon-sáttmálanum og stjórnarskránni sálugu.  Því til stuðnings má vísa í ummæli Valéry Giscard d'Estaing, fyrrum forseta Frakklands og forseta stjórnarskrárnefndar Evrópusambandsins, en hann sagði í fjölmiðlum sl. haust að: ”The Treaty of Lisbon is the same as the rejected constitution. Only the format has been changed to avoid referendums.” (Lissabon-sáttmálinn er hið sama og stjórnarskráin sem hafnað var.  Aðeins hefur verið breytt um form til að komast hjá þjóðaratkvæðagreiðslum).

Þetta er athyglisvert í ljósi þess að leiðtogar ESB-ríkjanna hafa hver um annan þveran reynt að selja landsmönnum sínum Lissabon-sáttmálann þar sem hann væri allt annar en stjórnarskráin og engin ástæða væri til að þjóðirnar fengju að kjósa um hann.

En Írar ganga sem sagt að kjörborði í dag.  Allir helstu flokkar, nema Sinn Fein, hafa lýst stuðningi við sáttmálann og leiðtogar þeirra draga upp dökka mynd, ef þjóðin hafnar sáttmálanum og í raun haft í hótunum við þjóðina.  Fyrir nokkrum vikum benti ekkert til annars en að sáttmálinn yrði samþykktur með miklum mun.  Undanfarna daga hefur sú mynd þó verið að breytast.  Skoðanakannanir sýna að mjög mjótt getur orðið á munum og allt að þriðjungur kjósenda kvaðst vera óráðinn í afstöðu sinni nú fyrr í vikunni.  Allt getur því gerst.

Sú staða sem uppi er í málinu varpar skýru ljósi á þá brauðfætur sem lýðræði innan Evrópusambandsins stendur á.  Engir þjóðarleiðtogar hafa þorað að bera málið undir þjóðina sína, Írar gera það einungis vegna þess að stjórnarskrá þeirra sjálfra krefst þess.  Það er umhugsunarvert á hvaða leið lýðræðisríki eru þegar leiðtoga þeirra skortir kjark til að horfast í augu við sína eigin þjóð og láta hana taka afstöðu til ákvarðana stjórnmálamannanna.  Sömuleiðis er það umhugsunarvert þegar þjóðarleiðtogar hafa hálfpartinn í hótunum við þjóðina.

Verði sáttmálinn samþykktur á Írlandi má segja að hótanirnar hafi borið árangur og með slíkum vinnubrögðum hafi stuðningsmenn sáttmálans unnið sigur.  Falli á hinn bóginn sáttmálinn er það áfellisdómur yfir öllum hinum ríkjunum sem ekki vildu gefa fólkinu sjálfu að eiga síðasta orðið um þær umfangsmiklu breytingar sem Lissabon-sáttmálinn hefur í för með sér, m.a. til að auka vægi stóru ríkjanna á kostnað hinna smærri.  En við sjáum hvað setur.

Árni Þór Sigurðsson,
þingmaður Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs

(Birtist áður á bloggsíðu höfundar)


Gallarnir yfirgnæfa kostina

c_ragnar_arnaldsSpurningin um aðild Íslands að ESB er margþætt álitamál sem bæði hefur kosti og galla. En í hálfa öld hefur mikill meirihluti Alþingis talið gallana svo yfirgnæfandi að óhyggilegt væri að sækja um aðild. Langflestir Íslendingar eru Evrópusinnar og vilja hafa gott samstarf við aðrar þjóðir álfunnar. Aðalkosturinn við aðild er sá að fulltrúar okkar fá sæti í stjórnarstofnunum ESB. Aðalágallinn felst hins vegar í þeirri samþjöppun og miðstýringu valds sem fylgir aðild. ESB er vísir að nýju stórríki sem sviptir aðildarríkin fullveldi og ákvörðunarrétti á fjölmörgum sviðum.

Yrði Íslandi betur stjórnað?
Sumir líta á framsal valds til ESB sem góðan kost vegna þess að þá fengjum við hlutdeild í ákvörðunum ESB og réðum yfir 5 atkvæðum af um 730 á þingi ESB og 3 atkvæðum af 345 í Ráðherraráðinu þar sem endanlegar ákvarðanir eru teknar. Atkvæðisréttur okkar næmi tæpu einu prósenti af samanlögðu atkvæðamagni. Spurningin sem svara þarf er einmitt sú hvort hyggilegt sé fyrir mjög fámennt ríki að framselja réttinn til töku ákvarðana á fjölmörgum sviðum í því skyni að fá í staðinn tæp 1% atkvæða á fjöldasamkomum í Brussel? Er víst að Íslandi yrði betur stjórnað af valdamönnum sem vegna fjarlægðar hafa litla þekkingu á sérþörfum okkar og staðbundnum vandamálum?

Við getum gagnrýnt íslenska stjórnmálamenn. Þeir hafa oft tekið rangar ákvarðanir og margt mætti vera á annan veg í landi okkar. En þrátt fyrir allt verðum við að játa, hvaða stjórnmálaskoðun sem við aðhyllumst, að Íslendingum hefur farnast býsna vel frá því að þeir unnu sér rétt til að stjórna sér sjálfir og hér hefur verið hraðari framþróun en víðast hvar í ríkjum ESB. Engar líkur eru á því að okkur hefði farnast betur sem aðildarríki ESB eða sem fylki í Þýskalandi eða Bretlandi.

Réttindi sem yrði að framselja
Hvaða réttindi eru það þá einkum sem við yrðum að framselja við aðild? Nefna má ótal dæmi á sviði löggjafarvalds, framkvæmdavalds og dómsvalds. Það skýrir jafnframt hvers vegna við þyrftum að breyta stjórnarskrá lýðveldisins ef framselja ætti fullveldisréttindi sem forfeður okkar endurheimtu frá Dönum í hund­rað ára sjálfstæðisbaráttu. Ég nefni fjögur dæmi um þessi réttindi til skýringar:

1)Rétturinn til að ráða yfir sjávarauðlindum innan 200 mílna lögsögu á hafsvæði sem er sjö sinnum stærra en landið sjálft. Þetta skapar Íslendingum, sem háðari eru sjávarútvegi en önnur Evrópuríki, algera sérstöðu. Oft hafa áhugamenn um ESB-aðild reynt að fá forsvarsmenn ESB til að lýsa því yfir að við fengjum undanþágu frá meginreglunni um úrslitavald ESB yfir sjávarauðlindum. En þeir hafa hafnað því. Ekki bætir úr skák að fiskveiðistjórn ESB þykir mjög misheppnuð.

2) Rétturinn til að gera sjálfstæða fríverslunarsamninga við ríki utan ESB. Þessi réttur hefur margoft komið sér vel fyrir okkur.

3) Rétturinn til að gera fiskveiðisamninga við önnur ríki um flökkustofnana en verðmæti þess afla nemur um 30% af heildarverðmæti sjávarafurða.

4) Rétturinn til að stjórna efnahagsmálum á þann hátt að hér verði ekki gríðarlegt atvinnuleysi sem verið hefur landlægt í ESB um áraraðir.

Þurfum okkar olnbogarými
Fréttablaðið spyr hvort fljótlega þurfi að taka ákvörðun um aðildarumsókn. Svarið er að mikill meirihluti Alþingis telur það ekki samrýmast hagsmunum þjóðarinnar. Ég er sammála því mati og sé ekki að á því verði nein breyting í náinni framtíð. Þótt tímabundnir erfiðleikar gangi nú yfir er ekkert sem bendir til að ESB-aðild sé lausn á vanda okkar. Margt er hér í ólagi en ekkert af því jafnast á við óreiðuna í ESB þar sem pólitísk spilling er svo alvarlegt vandamál að í rúman áratug hafa endurskoðendur ekki treyst sér til að skrifa upp á reikninga ESB.

Engu síður þurfum við að hafa góð samskipti við ESB og fylgjast grannt með því sem þar er að gerast því að margt af því er lærdómsríkt. En Íslendingar eru fámennir og þurfa sitt olnbogarými. Þeir gætu ekki gert meiri skyssu en þá að fórna mikilvægum þáttum sjálfstæðis síns í hendur skriffinnskubáknsins í Brussel sem auk alls annars er þunglamalegt, fjarlægt og ólýðræðislegt.

Ragnar Arnalds,
formaður Heimssýnar

(Birtist áður í Fréttablaðinu 6. júní 2008)


Gleyma verkalýðsflokkar í Evrópu verkalýðnum?

stefan_johann_558049Ég rakst nýlega á grein þar sem lýst er viðhorfum verkalýðs og launþega til þess sem er að gerast í Evrópusambandinu. Fram kemur að óánægju gætir hvað mest hjá þessum hópi samfélagsþegna sem jafnframt eru hefðbundnir kjósendur verkalýðs- og jafnaðarmannaflokka. Þessir hópar hafa verið í fararbroddi í andstöðunni gegn breytingum á stjórnarskrá sambandsins og verið almennt neikvæðari til þess sem er að gerast í Evrópusambandinu. Ástæðan er tiltölulega einföld. Viðvarandi atvinnuleysi, skert þjónusta og minna afkomuöryggi bitnar á þessum hópum.

Gjá á milli forystu og fylgjenda - vonleysi grefur um sig
Þetta kemur fram í nýlegri grein í tímaritinu Challenge og er eftir Vincent Navarro og John Schmitt, sem báðir eru fræðimenn á þessu sviði. Hér verður ekki lagt mat á gæði greinar þeirra, en umfjöllunin kemur þó ekki á óvart og er í líkum anda og hjá ýmsum öðrum. Þeir lýsa því í greininni sem er birt í upphafi þessa árs að kröfur Evrópusambandsins til aðildarríkja, m.a. er varðar opinber fjármál, hafi umræddar afleiðingar. Jafnframt hafi fjarlægðin á milli hinna ýmsu valdakjarna sambandsins og almennings í löndunum aukist og skilningur og samstaða minnkað. Það eigi ekki hvað síst við um forystumenn og fylgjendur jafnaðarmannaflokkanna, en þeir flokkar eru þó almennt fylgjandi auknum samruna og þeim kröfum sem frá sambandinu koma. Höfundarnir rekja niðurstöður þjóðaratkvæðagreiðslna í Frakklandi, Hollandi og Luxemborg um nýja stjórnarskrá, og greina auk þess frá skoðanakönnunum um sömu atriði í öðrum ríkjum, s.s. Svíþjóð, Danmörku og Þýskalandi. Þar kemur fram að fólk úr launþega- og verkalýðsstétt er almennt, og oft stór meirihluti, á móti aukinni samrunaþróun. Tekjuhæstu hóparnir eru hins vegar þessu almennt hlynntir. Ástæðurnar eru eins og að ofan greinir tiltölulega einfaldar. Þær má rekja til versnandi afkomu og vonleysis að ýmsu leyti vegna beinna eða óbeinna krafna frá Evrópusambandinu.

Vaxandi tekjumunur - afkomuóöryggi - minni þjónusta
Þannig hafi tekjubil á milli hópa aukist víða verulega, einkum þar sem tekjur lægri tekjuhópanna hafa staðið nokkurn veginn í stað á meðan tekjuháir hópar hafa rakað saman fé, m.a. vegna aukins hagnaðar. Þá hafi bætur vegna veikinda, slysa og atvinnuleysis víða verið lækkaðar. Að auki hafi afkomuöryggi minnkað með afnámi ýmissa reglna, sem áttu m.a. að draga úr atvinnuleysi, án þess að fullnægjandi árangur hafi náðst í þá átt. Atvinnuleysið, þriðja stóra ástæðan fyrir vonleysi verkalýðsstéttarinnar í Evrópu, var að jafnaði minna í álfunni en í Bandaríkjunum fram undir 1980, en þá jókst það og hefur verið meira í Evrópu, m.a. vegna samræmdra viðmiðana um efnahagsstjórn, eftir því sem þessir höfundar halda fram. Nú sé hliðstæð þróun að eiga sér stað í Austur-Evrópu.

Velferð almennings?
Upplýsingar á borð við þessar hljóta að vekja fólk til umhugsunar, ekki síst jafnaðarmenn sem telja að það sé lykilatriði í velferðarpólitík að tryggja sem best atvinnustig til lengdar. Jafnaðarmenn vilja að sjálfsögðu að atvinnulífið sé vel rekið, að bankarnir séu reknir af öryggi og að þeir dafni. Það er forsenda fyrir almennri velferð til framtíðar. En þegar jafnaðarmannaflokkar virðast vera farnir að setja hagsmuni fjármagnseigenda áberandi ofar hagsmunum launþega hljóta að vera farnar að renna tvær grímur á einhverja stuðningsmenn jafnaðarmannaflokkanna.

Stefán Jóhann Stefánsson,
hagfræðingur og varaborgarfulltrúi Samfylkingarinnar

(Birtist áður á heimasíðu höfundar á slóðinni www.stefanjohann.is)


Ný stjórn kjörin á aðalfundi Heimssýnar 2008

Aðalfundur Heimssýnar, hreyfingar sjálfstæðissinna í Evrópumálum, sem fram fór í dag tókst afar vel og mættu á hann rúmlega 30 manns. Þótti áberandi hversu margir forystumenn innan stjórnmálaflokkanna létu sjá sig. Einar K. Guðfinnsson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, flutti afar fróðlegt erindi um Ísland, Evrópusambandið og sjávarútvegsmálin. Að því loknu fóru fram áhugaverðar pallborðumræður með þátttöku fulltrúa úr öllum stjórnmálaflokkunum og bárust margar fyrirspurnir frá fundarmönnum.

Borin var upp tillaga um að fjölga í aðalstjórninni um tvo og var hún samþykkt einróma. Ragnar Arnalds var endurkjörinn formaður Heimssýnar, en hann hefur gegnt því embætti allt frá stofnun hreyfingarinnar árið 2002. Aðrir sem kjörnir voru í stjórn Heimssýnar starfsárið 2008-2009 eru:

Aðalstjórn:
Anna Ólafsdóttir Björnsson, sagnfræðingur.
Bjarni Harðarson, alþingismaður.
Gunnar Dofri Ólafsson, menntaskólanemi.
Heiðrún Lind Marteinsdóttir, lögfræðingur.
Hjörtur J. Guðmundsson, sagnfræðinemi.
Kolbrún Stefánsdóttir, framkvæmdastjóri.
Páll Vilhjálmsson, blaðamaður.
Sigurður Kári Kristjánsson, alþingismaður.
Stefán Jóhann Stefánsson, hagfræðingur.
Steingrímur Hermannsson, fyrrv. forsætisráðherra.

Varastjórn:
Árni Þór Sigurðsson, alþingismaður.
Brynja Björg Halldórsdóttir, menntaskólanemi.
Davíð Örn Jónsson, verkfræðinemi.
Eyjólfur Eysteinsson, fyrrv. útsölustjóri.
Hörður Guðbrandsson, forseti bæjarstjórnar Grindavíkur.
Illugi Gunnarsson, alþingismaður.
Ingvar Gíslason, fyrrv. menntamálaráðherra.


Aðalfundur Heimssýnar 2008

heimssyn_96527Aðalfundur Heimssýnar, hreyfingar sjálfstæðissinna í Evrópumálum, verður haldinn í Bertelstofu á Thorvaldsen Bar, Austurstræti 8, miðvikudaginn 4. júní n.k. og hefst kl. 17.

Dagskrá fundarins:

1. Venjuleg aðalfundarstörf og kosning stjórnar.

2. Einar Kr. Guðfinnsson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, flytur erindi um Ísland og Evrópusambandið: Sækjum við rök í sjávarútveginn?

3. Pallborðsumræða um Ísland og Evrópusambandið

Þátttakendur:
Árni Þór Sigurðsson, alþingismaður
Einar Kr. Guðfinnsson, sjávarútvegsráðherra
Höskuldur Þórhallsson, alþingismaður
Magnús Þór Hafsteinsson, varaform. Frjálslynda flokksins
Stefán Jóhann Stefánsson, hagfræðingur


Stjórn Heimssýnar


« Fyrri síða

Heimssýn

Heimssýn

hreyfing sjálfstæðissinna í Evrópumálum, eru þverpólitísk samtök þeirra sem telja hagsmunum Íslendinga best borgið með því að halda áfram að vera sjálfstæð þjóð utan Evrópusambandsins.

 

Sími 895 5334 (Haraldur Ólafsson, formaður)


Nánar um Heimssýn

Vertu með!

Frjáls framlög

Eldri færslur

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (24.11.): 123
  • Sl. sólarhring: 352
  • Sl. viku: 2532
  • Frá upphafi: 1165906

Annað

  • Innlit í dag: 106
  • Innlit sl. viku: 2197
  • Gestir í dag: 106
  • IP-tölur í dag: 104

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband