Bloggfærslur mánaðarins, október 2017
Miðvikudagur, 25. október 2017
Flokkarnir svara spurningum Heimssýnar um afstöðu til ESB
Heimssýn sendi nýverið spurningar til þeirra stjórnmálaflokka sem bjóða fram lista til Alþingis í komandi þingkosningum um afstöðu þeirra til aðildar að ESB. Nú þegar hafa borist svör frá Alþýðufylkingunni, Samfylkingunni, Miðflokknum, Viðreisn, Framsóknarflokknum, Pírötum, Sjálfstæðisflokknum, Dögun og VG. Önnur svör verða birt um leið og þau berast (beðist er afsökunar á því að umbrotið er ekki fullkomið).
Spurningarnar sem sendar voru eru eftirfarandi:
1. Sé flokkurinn hlynntur þjóðaratkvæðagreiðslu um umsókn um aðild Íslands að Evrópusambandinu, hvernig telur flokkurinn að orða beri spurningu þar að lútandi?
2. Eftirfarandi spurningar eiga við, verði sótt um aðild að Evrópusambandinu á ný:
a) Mun flokkurinn gera að skilyrði að Íslensk stjórnvöld hafi algert forræði yfir auðlindum í sjó, undir hafsbotni og á landi?
b) Mun flokkurinn styðja öll lagafrumvörp á Alþingi sem verða til komin vegna krafna um aðlögun að lögum og reglum Evrópusambandsins?
c) Hvernig mun flokkurinn beita sér fyrir því að útganga Íslands úr ES yrði framkvæmanleg, en ekki allt gert til að bregða fyrir hana fæti eins og gert er í sambandi við Brexit?
d) Hversu lengi telur flokkurinn að umsóknarferli án niðurstöðu geti staðið til að fullreynt sé að ekki sé grundvöllur fyrir inngöngu Íslands í Evrópusambandið?
e) Telur flokkurinn að gera eigi að skilyrði að réttindi launþega og vinnuréttur verði ekki að neinu leyti lakari en hann er hverju sinni samkvæmt íslenskum lögum?
f) Telur flokkurinn að matvæla- og fæðuöryggi sé ófrávíkjanleg krafa?
g) Mun flokkurinn samþykkja allar þær kröfur frá Evrópusambandinu sem lúta að einka- og/eða markaðsvæðingu starfsemi sem nú er í höndum opinberra aðila?
h) Hvernig telur flokkurinn að bregðast eigi við hagsveiflum eftir að tekin hefur verið upp evra?
i) Mun flokkurinn samþykkja allar tilskipanir og kröfur Evrópusambandins sem lúta að ríkisfjármálum?
j) Hvernig telur flokkurinn að Ísland eigi að mæta kröfum Lissabonsáttmálans um hervæðingu?
k) Hversu mikið framlag telur flokkurinn að Ísland eigi að reiða fram í tengslum við stofnun og rekstur Evrópuhers, sbr. ályktun Evrópuþingsins í febrúar 2009.
Svör hafa borist frá Alþýðufylkingunni, svohljóðandi:
Góða kvöldið,
svar Alþýðufylkingarinnar við spurningum Heimssýnar:
- Alþýðufylkingin er fortakslaus andstæðingur ESB-aðildar. Við viljum bara slíta viðræðunum, punktur. Helst í eitt skipti fyrir öll. Við viljum ekki þjóðaratkvæðagreiðslu um áframhald viðræðnanna vegna þess að við teljum nú þegar of langt gengið inn í ESB og sjáum þjóðaratkvæðagreiðslu sem frekara skref í þá átt, frá því sem nú er. En ef atkvæðagreiðsla yrði knúin í gegn með meirihluta á Alþingi þætti okkur eðlilegast að spurt væri: Vilt þú að Ísland gangi í Evrópusambandið? Til skýringar á andstöðu okkar við ESB-aðild ber að nefna að til að okkar stefna, félagsvæðingin, gæti náð fram að ganga, væri markaðshyggja ESB mikil hindrun; félagsvæðing yrði miklum mun örðugri ef við værum með ESB-stjórnarskrá og ótal markaðsvæðingar-tilskipanir fyrir okkur; við viljum halda fast í fullveldið vegna þess að við þurfum að nota það til að byggja upp félagsvædda innviði í landinu. Og við skiljum að ESB kæmi í veg fyrir það.
- Ef sótt yrði um aðild að nýju mundi Alþýðufylkingin vinna þeirri umsókn og tilheyrandi aðlögun allt til óþurftar en halda hagsmunum landsins til streitu:
- a) Alþýðufylkingin mundi gera íslenskt forræði yfir íslenskum auðlindum að ófrávíkjanlegu skilyrði.
- b) Alþýðufylkingin mundi ekki styðja nein lagafrumvörp á Alþingi sem væru til komin vegna aðlögunarkröfu, nema svo ólíklega vildi til að þau lagafrumvörp bættu stöðu alþýðunnar gagnvart auðvaldinu.
- c) Alþýðufylkingin mundi krefjast skýrra uppsagnarákvæða sem væri gerlegt að framkvæma.
- d) Alþýðufylkingin telur að eftir því sem umsóknarferlið er lengur á ís, því fjarstæðukenndara sé að taka það upp aftur.
- e) Alþýðufylkingin gerir ófrávíkjanlega kröfu um að réttindi allra launþega í íslenskri lögsögu (og efnahagslögsögu) séu að minnsta kosti jafngóð og samningar íslenskra stéttarfélaga.
- f) Alþýðufylkingin telur að matvæla- og fæðuöryggi séu ófávíkjanleg krafa, sem og vernd íslenskra dýrastofna.
- g) Alþýðufylkingin mun ekki samþykkja neina kröfu frá Evrópusambandinu um aukna einka- eða markaðsvæðingu starfsemi sem nú er á höndum opinberra aðila.
- h) Alþýðufylkingin vill alls ekki taka upp evruna vegna þess að án sjálfstæðrar peningastefnu eru einu leiðirnar til að bregðast við hagsveiflum að lækka skatta, afnema regluverk, lækka laun eða auka atvinnuleysi.
- i) Alþýðufylkingin mun ekki samþykkja neinar tilskipanir eða kröfur Evrópusambandsins sem lúta að ríkisfjármálum nema svo ólíklega vilji til að þær þjóni hagsmunum alþýðunnar gegn auðvaldinu.
- j) Alþýðufylkingin vill ekki að Ísland mæti neinum kröfum Lissabonsáttmálans um aukna hervæðingu.
- k) Alþýðufylkingin vill ekki að Ísland reiði fram svo mikið sem eina krónu í tengslum við stofnun Evrópuhers.
Kv. Vésteinn Valgarðsson
varaformaður Alþýðufylkingarinnar
Svör Samfylkingarinnar við spurningum Heimssýnar
- Sé flokkurinn hlynntur þjóðaratkvæðagreiðslu um umsókn um aðild Íslands að Evrópusambandinu, hvernig telur flokkurinn að orða beri spurningu þar að lútandi?
Samfylkingin hefur ekki tekið eindregna afstöðu til orðalags spurningar í umræddri þjóðaratkvæðagreiðslu. Hvernig væri: Ertu hlynntur því að samningum um aðild að Evrópusambandinu verði haldið áfram?
- Eftirfarandi spurningar eiga við, verði sótt um aðild að Evrópusambandinu á ný:
- a)Mun flokkurinn gera að skilyrði að Íslensk stjórnvöld hafi algert forræði yfir auðlindum í sjó, undir hafsbotni og á landi?
Já. Forræði þessara auðlinda á að vera í höndum íslenskra stjórnvalda fyrir hönd eigenda þeirra, þjóðarinnar.
- b)Mun flokkurinn styðja öll lagafrumvörp á Alþingi sem verða til komin vegna krafna um aðlögun að lögum og reglum Evrópusambandsins?
Þessu er ómögulegt að svara fyrirfram, en hingað til hafa EES-frumvörp flest verið samþykkt án ágreinings, og ekki sennilegt að misklíð skapaðist um lög sem vörðuðu aðild eftir að sú stefna hefði verið mörkuð..
- c)Hvernig mun flokkurinn beita sér fyrir því að útganga Íslands úr ES yrði framkvæmanleg, en ekki allt gert til að bregða fyrir hana fæti eins og gert er í sambandi við Brexit?
Samfylkingin kannast ekki við alþjóðasamtökin ES. Sé átt við Evrópusambandið er flokkurinn ekki reiðubúinn að fallast á þá túlkun Heimssýnar að allt sé gert til að bregða fæti fyrir hana. Það kemur á hinn bóginn ekki á óvart að aðilar hafi misjafna sýn eftir samvinnu í hálfan fimmta tug ára. Ekki er þó að efa að aðskilnaðurinn talist að lokum, þótt hann verði líklega ekki Bretum ( Englendingum og Vallendingum?) til góðs.
- d)Hversu lengi telur flokkurinn að umsóknarferli án niðurstöðu geti staðið til að fullreynt sé að ekki sé grundvöllur fyrir inngöngu Íslands í Evrópusambandið?
Samfylkingin skilur ekki þessa spurningu. Ekki er líklegt að langur tími líði til samninga í framhaldsviðræðum Íslendinga við sambandið. Niðurstaðan yrði síðan ákveðin í þjóðaratkvæðagreiðslu.
- e)Telur flokkurinn að gera eigi að skilyrði að réttindi launþega og vinnuréttur verði ekki að neinu leyti lakari en hann er hverju sinni samkvæmt íslenskum lögum?
Já, það er eitt af því sem leggja þarf hvað mesta áherslu á í samningaviðræðunum.
- f)Telur flokkurinn að matvæla- og fæðuöryggi sé ófrávíkjanleg krafa?
Samfylkingin telur mikilvægt að Íslendingar búi við matvæla- og fæðuöryggi en á ekki von á að Evrópusambandið hyggist skerða það í aðildarsamningum.
- g)Mun flokkurinn samþykkja allar þær kröfur frá Evrópusambandinu sem lúta að einka- og/eða markaðsvæðingu starfsemi sem nú er í höndum opinberra aðila?
Þátttaka Lýðveldisins Íslands í EES hefur leitt til ýmissa breytinga á þessu sviði. Sumar þeirra hentuðu okkur ekki, a.m.k. á sínum tíma, svo sem um raforkunytjar. Flokkurinn á ekki von á því að fram komi einkavæðingar- eða markaðsvæðingarkröfur í aðildarviðræðum. Ljóst er hins vegar að landbúnaðurinn stendur frammi fyrir ýmiss konar áskorunum og kerfisbreytingum, meðal annars frá alþjóðasamtökum, svo sem viðskiptaþjóðum okkar í ESB og Alþjóða-viðskiptastofnuninni. Við þær breytingar yrði betra fyrir bændur og búalið að standa innan Evrópusambandsins en utan.
- h)Hvernig telur flokkurinn að bregðast eigi við hagsveiflum eftir að tekin hefur verið upp evra?
Hagsveiflum er hægt að mæta með ýmsum öðrum hætt en gengisfellingu, svo sem opinberri sjóðsöfnun í umsjá Seðlabanka til að jafna mestu sveiflurnar. Einn af helstu kostum ESB-aðildar nú er einmitt evran, sem smám saman kæmi í stað gömlu dönsku krónunnar, og mundi draga úr verðbólgu og ýktum hagsveiflum.
- i)Mun flokkurinn samþykkja allar tilskipanir og kröfur Evrópusambandsins sem lúta að ríkisfjármálum?
Við könnumst ekki við þessar stórfenglegu kröfur. Aðildarríkin leggja á skatta eins og þeim sýnist og ráðstafa tekjum á eigin vegum. Á evrusvæðinu er svo settur ákveðinn rammi um rekstur ríkissjóðs, sem flokkurinn telur sjálfsagðan þátt í gjaldmiðilssamstarfi af því tagi.
- j)Hvernig telur flokkurinn að Ísland eigi að mæta kröfum Lissabonsáttmálans um hervæðingu?
Engar slíkar kröfur eru uppi. Talað er um stofnun svokallaðrar hraðsveitar til skyndi-inngripa. Þær yrðu mannaðar úr her einstakra aðildarríkja. Íslendingar eru herlaus þjóð og taka því aldrei þátt í hraðsveitarstarfinu.
- k)Hversu mikið framlag telur flokkurinn að Ísland eigi að reiða fram í tengslum við stofnun og rekstur evrópuhers, sbr. ályktun Evrópuþingsins í febrúar 2009.
Ekkert. Öryggissamstarfi okkar er fyrirkomið með tilteknum hætti, án herrekstrarkostnaðar af Íslands hálfu, og engar breytingar yfirvofandi í þeim efnum næstu áratugi.
Sendandi: Sólveig Skaftadóttir.
Svör Miðflokksins
Sunna Gunnars Marteinsdóttir sendi eftirfarandi svar fyrir hönd Miðflokksins:
Við teljum að hagsmunum Íslands sé betur borgið utan Evrópusambandsins.
Fyrir hönd Miðflokksins,
Sunna
Svör Viðreisnar
Páll Rafnar sendi eftirfarandi svör Viðreisnar
- Sé flokkurinn hlynntur þjóðaratkvæðagreiðslu um umsókn um aðild Íslands að Evrópusambandinu, hvernig telur flokkurinn að orða beri spurningu þar að lútandi?
Ert þú samþykk/ur því að Ísland hefji á ný aðildarviðræður við ESB?
Já
Nei
- Eftirfarandi spurningar eiga við, verði sótt um aðild að Evrópusambandinu á ný:
- a) Mun flokkurinn gera að skilyrði að Íslensk stjórnvöld hafi algert forræði yfir auðlindum í sjó, undir hafsbotni og á landi?
ESB hefur ekkert um auðlindir á landgrunni (undir hafsbotni) og á landi að segja. Ísland hefur ekki í dag algert forræði yfir auðlindum í sjó enda aðili að Hafréttarsáttmála SÞ. Viðreisn hefur það ekki á stefnuskrá sinni að Ísland segi sig frá Hafréttarsáttmála SÞ.
- b) Mun flokkurinn styðja öll lagafrumvörp á Alþingi sem verða til komin vegna krafna um aðlögun að lögum og reglum Evrópusambandsins?
Ísland er nú þegar skuldbundið til þess að innleiða allar reglur ESB er varða innri markaðinn og hin ýmsu svið honum tengd. Viðreisn telur ekki ástæðu til þess að víkjast undan þeim skuldbindingum.
- c) Hvernig mun flokkurinn beita sér fyrir því að útganga Íslands úr ES yrði framkvæmanleg, en ekki allt gert til að bregða fyrir hana fæti eins og gert er í sambandi við Brexit?
Ferill útgöngu aðildarríkja er fastmótaður í sáttmála ESB. Heimatilbúinn vandi Breta hefur ekkert með það að gera.
- d) Hversu lengi telur flokkurinn að umsóknarferli án niðurstöðu geti staðið til að fullreynt sé að ekki sé grundvöllur fyrir inngöngu Íslands í Evrópusambandið?
Dæmin sýna að ríki geta haft stöðu umsóknarríkis áratugum saman.
- e) Telur flokkurinn að gera eigi að skilyrði að réttindi launþega og vinnuréttur verði ekki að neinu leyti lakari en hann er hverju sinni samkvæmt íslenskum lögum?
Íslenskur vinnuréttur er nú þegar samræmdur evrópskum rétti í krafti EES samningsins.
- f) Telur flokkurinn að matvæla- og fæðuöryggi sé ófrávíkjanleg krafa?
Ísland hefur þegar tekið upp matvælalöggjöf ESB í gegnum EES samninginn. Það var mikið framfaraspor.
- g) Mun flokkurinn samþykkja allar þær kröfur frá Evrópusambandinu sem lúta að einka- og/eða markaðsvæðingu starfsemi sem nú er í höndum opinberra aðila?
Ekki er gert ráð fyrir því að aðild að ESB muni breyta neinu varðandi skuldbindingar Íslands vegna EES samningsins um samkeppnisreglur og ríkisaðstoð.
- h) Hvernig telur flokkurinn að bregðast eigi við hagsveiflum eftir að tekin hefur verið upp evra?
Meginástæða þess að Viðreisn stefnir á upptöku evru er sú að með því móti muni hagsveiflum fækka og þær verði viðráðanlegri.
- i) Mun flokkurinn samþykkja allar tilskipanir og kröfur Evrópusambandins sem lúta að ríkisfjármálum?
Á Íslandi hefur undanfarin ár verið stefnt að því að uppfylla svonefnd Maastricht skilyrði, sem Viðreisn telur til mikilla bóta.
- j) Hvernig telur flokkurinn að Ísland eigi að mæta kröfum Lissabonsáttmálans um hervæðingu?
Með viðeigandiandi hætti.
- k) Hversu mikið framlag telur flokkurinn að Ísland eigi að reiða fram í tengslum við stofnun og rekstur evrópuhers, sbr. ályktun Evrópuþingsins í febrúar 2009.
Mátulegt framlag.
Svör Framsóknarflokksins
Einar Gunnar Einarsson sendi Heimssýn eftirfarandi svör:
Hér að neðan eru svör Framsóknarflokksins:
Við Framsóknarmenn höfnum aðild að Evrópusambandinu. Við teljum hagsmunum Íslands best borgið með því að vera áfram sjálfstæð þjóð utan Evrópusambandsins. Breska þjóðin hefur ákveðið að yfirgefa sambandið og því er komin upp gjörbreytt staða innan Evrópusambandsins. Framtíðarskipulag Evrópu mun taka breytingum á næstu misserum og því er brýnt að tryggja efnahags- og viðskiptalega hagsmuni Íslands gagnvart Bretlandi. Stefnumótun í utanríkismálum á miðast að þessu breyta heimi.
Við teljum EES-samninginn vera mikilvægasta og umfangsmesta efnahagssamningur Íslands og því þurfi að tryggja skilvirka framkvæmd hans í aukinni samvinnu við löggjafarvaldið. Brátt eru liðin 25 ár frá því Ísland gekk í EES. Samstarfið hefur tekið miklum breytingum á þeim tíma og frekari breytingar í vændum t.d. með útgöngu Bretlands úr ESB.
Svör Pírata
Björn Leví Gunnarsson sendi Heimssýn svör Pírata, svohljóðandi:
- Spurningin þarf að vera skýr á þann veg að fólk viti afleiðingar þess ef ákveðin niðurstaða fæst, þannig að eitthvað eins og:
"Á Ísland að ganga í Evrópusambandið?
Já - Nei
Ef meira en helmingur svaranna er "Já" þá mun sá samningur sem Ísland hefur undirritað við Evrópusambandið verða gildur og Ísland verður hluti af Evrópusambandinu. Ef meira en helmingur svaranna er "Nei" þá ógildist undirskrift Íslands að aðildarsamningi við Evrópusambandið strax"
Píratar vilja samt auðvitað kjósa fyrst um það hvort halda eigi áfram aðildarviðræðum til þess að sama hvaða ríkisstjórn sem situr hafi skýrt umboð til þess að sinna samningaviðræðum óháð eigin skoðunum á málinu.
- a) Auðvitað, meðal annars þess vegna er ný stjórnarskrá svo mikilvæg.
- b) Nei, Píratar myndu vilja undanþágu frá 2006/24/EC og 1869/2005/EC. Að auki er auðvitað ekki hægt að kvitta fyrirfram upp á samþykki við einu og öllu. Píratar horfa alltaf til grundvallarréttinda, gagnsæis, upplýsingaskyldu stjórnvalda og beins lýðræðis.
- c) Með því að gera umboðið til þess skýrara. Í staðinn fyrir að gera bara eina "allt eða ekkert" útgöngukosningu þá væru tekin smærri skref í einu þar sem þjóðin fengi fullt aðgengi að ferlinu og möguleikann á að segja sína skoðun. Vandamálið við Brexit var meðal annars að útkoman úr atkvæðagreiðslunni, hvað ákvörðunin þýddi, var ekki skýr þegar fólk greiddi atkvæði.
- d) Það myndi alltaf koma niðurstaða á einn veg eða annan. Hlutverk samninganefndar væri auðvitað að fá sem bestan samning fyrir Ísland. Ef fólki er haldið upplýstu um hvar ferlið er statt og hvernig horfurnar eru þá verðum við fljótt var við það hvort eitthvað sé teygjast óeðlilega mikið á langinn. Ef nýja stjórnarskráin væri til dæmis komin í gagnið þá gæti þjóðin stigið inn í slíkt ferli og slitið því. Tíminn sem það tekur á því ekki að vera vandamál, frekar að hafa upplýsingaflæðið í lagi.
- e) Það er hlutverk Alþingis að útfæra viðmið ESB, það fer að vísu eftir því hvaða tegund af viðmiðum er um að ræða, tilskipun, reglur, ákvarðanir, tilmæli eða skoðanir. Reglur virka sjálfkrafa alls staðar. Tilskipun setur ákveðin markmið sem lönd þurfa að ná í sínum lögum. Ákvarðanir eru bindandi en miðast yfirleitt að einhverju einu landi. Tilmæli eru ekki bindandi og skoðanir ekki heldur. Það sem helst hefur áhrif hérna eru þá tilskipanirnar, þær skilgreina "að minnsta kosti" þannig að þetta er ekki vandamál.
- f) Já auðvitað. Þetta er ekki eitthvað sem þyrfti að hafa áhyggjur af og líklegra en ekki að matvæla- og fæðuöryggi væri meira sem aðili að ESB.
- g) Spurningin verður að vera afmarkaðri en þetta. Við hvaða starfsemi er átt? Það er að minnsta kosti ekkert sem bendir til þess að neitt breytist hvað þetta varðar.
- h) Við tökum auðvitað ekki upp evruna fyrr en við erum búin að ná stöðugri lausbindingu við hana í langan tíma.
- i) Það þarf ekki að samþykkja tilskipanir óbreyttar. Það er þó nokkuð svigrúm í innleiðingu tilskipanna. Það er ekki hægt að gera neitt við reglunum (regulations) en allar aðrar kröfur um lagasetningu eða annað er hægt að aðlaga að íslenskum aðstæðum.
- j) Ísland þarf ekki að hervæðast út af ESB
- k) Ekki krónu (né evru ef það eru aðstæðurnar). Það er ekki til neinn ESB her, ennþá amk.
Svör frá Sjálfstæðisflokknum:
Hér að neðan má nálgast svör Sjálfstæðisflokksins við spurningum Heimssýnar.
1. Sé flokkurinn hlynntur þjóðaratkvæðagreiðslu um umsókn um aðild Íslands að Evrópusambandinu, hvernig telur flokkurinn að orða beri spurningu þar að lútandi?
Sjálfstæðisflokkurinn stefnir ekki að þjóðaratkvæðagreiðslu um aðild að Evrópusambandinu en ef til kæmi væri eðlilegast að spyrja beint um afstöðu til aðildar en ekki afstöðu til aðildarumsóknar, aðildarviðræðna eða aðlögunarferlis. Varðandi alla stafliði spurningarinnar hér á eftir eiga þær frekar við hjá þeim flokkum sem stefna að aðild. Sjálfstæðisflokkurinn telur að Ísland sé betur sett utan ESB en innan en ef til aðildarviðræðna kæmi er það afdráttarlaus krafa sjálfstæðismanna að íslenskra hagsmuna skuli gætt í hvívetna og sérstaða Íslands varin. Í því sambandi verður þó jafnan að minnast þess að aðildarferli felur ekki í sér eiginlegar samningaviðræður við Evrópusambandið heldur aðlögun umsóknarríkis að regluverki sambandsins.
2. Eftirfarandi spurningar eiga við, verði sótt um aðild að Evrópusambandinu á ný:
a) Mun flokkurinn gera að skilyrði að Íslensk stjórnvöld hafi algert forræði yfir auðlindum í sjó, undir hafsbotni og á landi?
b) Mun flokkurinn styðja öll lagafrumvörp á Alþingi sem verða til komin vegna krafna um aðlögun að lögum og reglum Evrópusambandsins?
c) Hvernig mun flokkurinn beita sér fyrir því að útganga Íslands úr ES yrði framkvæmanleg, en ekki allt gert til að bregða fyrir hana fæti eins og gert er í sambandi við Brexit?
d) Hversu lengi telur flokkurinn að umsóknarferli án niðurstöðu geti staðið til að fullreynt sé að ekki sé grundvöllur fyrir inngöngu Íslands í Evrópusambandið?
e) Telur flokkurinn að gera eigi að skilyrði að réttindi launþega og vinnuréttur verði ekki að neinu leyti lakari en hann er hverju sinni samkvæmt íslenskum lögum?
f) Telur flokkurinn að matvæla- og fæðuöryggi sé ófrávíkjanleg krafa?
g) Mun flokkurinn samþykkja allar þær kröfur frá Evrópusambandinu sem lúta að einka- og/eða markaðsvæðingu starfsemi sem nú er í höndum opinberra aðila?
h) Hvernig telur flokkurinn að bregðast eigi við hagsveiflum eftir að tekin hefur verið upp evra?
i) Mun flokkurinn samþykkja allar tilskipanir og kröfur Evrópusambandins sem lúta að ríkisfjármálum?
j) Hvernig telur flokkurinn að Ísland eigi að mæta kröfum Lissabonsáttmálans um hervæðingu?
k) Hversu mikið framlag telur flokkurinn að Ísland eigi að reiða fram í tengslum við stofnun og rekstur Evrópuhers, sbr. ályktun Evrópuþingsins í febrúar 2009.
Svör Dögunar:
- Sé flokkurinn hlynntur þjóðaratkvæðagreiðslu um umsókn um aðild Íslands að Evrópusambandinu, hvernig telur flokkurinn að orða beri spurningu þar að lútandi?
Svar: Varðandi framhald á mögulegum aðildarviðræðum, þá yrði þjóðin spurð álits, það er stefna Dögunar. En orðalag spurningar gæti mögulega verið: Vilt þú að haldið verði áfram með umsókn Íslands að ESB (Evrópusambandinu) ?
- Eftirfarandi spurningar eiga við, verði sótt um aðild að Evrópusambandinu á ný:
- a) Mun flokkurinn gera að skilyrði að Íslensk stjórnvöld hafi algert forræði yfir auðlindum í sjó, undir hafsbotni og á landi? Sökum veiðireynslu myndi Ísland halda forræði yfir auðlindum Íslands og ESB hefur ekki rétt til þess að sölsa undir sig auðlindir landsins (og ekki annarra aðildarríkja).
- b) Mun flokkurinn styðja öll lagafrumvörp á Alþingi sem verða til komin vegna krafna um aðlögun að lögum og reglum Evrópusambandsins? Ef Ísland myndi ákveða að sækja um aðild að ESB, þá myndi landið að öllum líkindum eins og önnur umsóknarlönd, en myndi væntanlega líka sækja um og reyna ná fram sérlausnum við hæfi, rétt eins og önnur lönd hafa gert.
- c) Hvernig mun flokkurinn beita sér fyrir því að útganga Íslands úr ES yrði framkvæmanleg, en ekki allt gert til að bregða fyrir hana fæti eins og gert er í sambandi við Brexit? Það er ekki á dagskrá innan flokksins að Ísland gangi úr EES og hefur s.s. ekki verið rætt. Hér væri líka hægt að spyrja þjóðina. En hverjir eru að bregða fæti fyrir hvern í Brexit? Um hvað er þessi spurning?
- d) Hversu lengi telur flokkurinn að umsóknarferli án niðurstöðu geti staðið til að fullreynt sé að ekki sé grundvöllur fyrir inngöngu Íslands í Evrópusambandið? Það er afstætt, út frá hvaða forsendum er gengið í þessari spurningu eiginlega? Að við séum eins og Tyrkland?
- e) Telur flokkurinn að gera eigi að skilyrði að réttindi launþega og vinnuréttur verði ekki að neinu leyti lakari en hann er hverju sinni samkvæmt íslenskum lögum? Það er eðlilegt.
- f) Telur flokkurinn að matvæla- og fæðuöryggi sé ófrávíkjanleg krafa? Um hvað er þessi spurning? Stærsti þátturinn í matvæla og fæðuöryggi Íslands eru tryggar samgöngur við landið, til sjós og lands. Án þeirra er fæðu og matvælaöryggi Íslendinga í mikilli hættu, þar sem stærstur hluti matvæla er innfluttur, bæði frá Evrópu og Bandaríkjunum.
- g) Mun flokkurinn samþykkja allar þær kröfur frá Evrópusambandinu sem lúta að einka- og/eða markaðsvæðingu starfsemi sem nú er í höndum opinberra aðila? Það mál þyrfti að skoða sérstaklega og þá komum við aftur inn að það sem kallast sérlausnir í samningum umsóknarríkis og ESB.
- h) Hvernig telur flokkurinn að bregðast eigi við hagsveiflum eftir að tekin hefur verið upp evra? Ekki með því að fella gengið, því það er ekki hægt með evru, en ákveðnar líkur eru á að hagsveiflur myndu minnka með upptöku evru, en þetta er annars mjög langsótt spurning. Það væri líka möguleiki á að fara dönsku leiðina og tengja íslensku krónuna við evruna.
- i) Mun flokkurinn samþykkja allar tilskipanir og kröfur Evrópusambandsins sem lúta að ríkisfjármálum? Ef Ísland myndi ganga í ESB myndi það þurfa að lúta sameiginlegum ákvörðunum í sambandi við ríkisfjármál og hefði þar væntanlega eitthvað um málið að segja í samstarfið við önnur ríki (annað en með EES-samningnum). Á undanförnum misserum hefur aðhald og ákvarðanir í ríkisfjármálum hér á landi að mörgu leyti verið á pari við það sem er að gerast í Evrópu og Ísland er hluti af regluverki ESB á mörgum sviðum fjármálalífs, í gegnum EES.
- j) Hvernig telur flokkurinn að Ísland eigi að mæta kröfum Lissabonsáttmálans um hervæðingu? Ísland var hlutlaust í báðum heimsstyrjöldunum og hefur verið herlaust síðan 2006 og vill/á að vera það áfram. Í stefnu Dögunar segir: Ísland á að vera herlaust og kjarnorkuvopnalaust land.
- k) Hversu mikið framlag telur flokkurinn að Ísland eigi að reiða fram í tengslum við stofnun og rekstur Evrópuhers, sbr. ályktun Evrópuþingsins í febrúar 2009.
Hér væri nú sniðugt að láta fylgja með slóð inn á þessa ályktun, en Ísland er friðelskandi land og vill vera það áfram. En við eru með í NATO og höfum verið frá upphafi.
Sendandi fyrir hönd Dögunar: Gunnar Hólmsteinn Ársælsson.
Svör frá VG:
Spurning 1:
"Stefna Vinstri grænna er sú að standa utan Evrópusambandsins. Vinstri græn eru hins vegar reiðubúin að leggja það mál í hendur þjóðarinnar enda um stórt mál að ræða sem eðlilegt er að allur almenningur taki ákvörðun um. Við teljum í ljósi stöðunnar, þar sem útganga Bretlands úr sambandinu stendur yfir, og Evrópusambandið hefur lýst því yfir að ekki sé stefnt að því að ræða frekari fjölgun ríkja fyrr en 2019, að slík þjóðaratkvæðagreiðsla sé vart raunsær kostur um þessar mundir. Hins vegar höfum við sagt að ekkert útiloki að þar sé spurt fleiri en einnar spurningar til að fá sem skýrasta leiðsögn þjóðarinnar."
Spurning 2:
"Vinstrihreyfingin grænt framboð telur að hagsmunum Íslands sé best borgið utan ESB, meðal annars vegna þeirra atriða sem nefnd eru undirliðum þessarar spurningar ykkar. Kannanir hafa sýnt að afgerandi meiri hluti þjóðarinnar er sammála þeirri afstöðu."
Kær kveðja,
Magnús Sveinn Helgason
Vinstrihreyfingin grænt framboð
Evrópumál | Breytt 28.10.2017 kl. 04:07 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þriðjudagur, 24. október 2017
Jón Baldvin flengir Ágúst Ólaf
Það var sjón að sjá Jón Baldvin Hannibalsson kratahöfðingja rasskella Ágúst Ólaf Ágústsson samfylkingarframbjóðanda í þættinum Tæpitungulaust á ÍNN rétt í þessu. Þegar Ágúst Ólafur hóf hinn hjárænulega söng Samfylkingar um ágæti evrunnar stoppaði Jón Baldvin þáttastjórnandi hann og sagði að evran væri ekki á dagskrá og ESB ætti nóg með að leysa eigin vandamál. Evran og ESB eru ekki á dagskrá sagði Jón Baldvin við Ágúst Ólaf. Segðu hvað þú ætlar að gera á næsta kjörtímabili. Lítið varð um svör frá Ágústi.
Evrópumál | Breytt s.d. kl. 22:21 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Laugardagur, 21. október 2017
Kristín ritstjóri haldin evruglýju
Kristín Þorsteinsdóttir, ritstjóri Fréttablaðsins, er haldin evruglýju. Hún telur að ef við skiptum út krónu fyrir evru í greiðslumiðlun muni vextir lækka og hagsæld aukast til frambúðar. Hið sama héldu Grikkir og ýmsir láveitendur þeirra þegar Grikkland fékk að fljóta með við upptöku evrunnar. Nú súpa Grikkir seyðið af því.
Svipað á við um Spánverja, Ítali, Portúgala, Íra, Finna og fleiri. Vissulega lækkuðu vextir hjá Grikkjum þegar þeir fengu sín evrulán eftir upptöku evrunnar. Það var vegna þess að markaðir misskildu stöðuna og töldu að með evru væri varla minni áhætta að lána grískum fyrirtækjum og gríska ríkinu en þýskum aðilum. Grikkir, Spánverjar, Ítalir, Kýpurbúar og fleiri fengu traust að láni um stund frá Þjóðverjum. Allt þar menn áttuðu sig á því er evrukreppan reið yfir að þetta voru stórhættuleg mistök. Vextir ráðast nefnilega að mestu leyti af aðstæðum í viðkomandi landi. Evrukreppan hefur undirstrikað að aðstæður í ólíkum löndum breytast ekki við það eitt að hafa sama gjaldmiðil. Að því leyti hafa hinir upprunalegu evrusmiðir kolfallið á eigin prófi. Flestir hafa áttað sig á þessu en ekki ritstjóri Fréttablaðsins sem enn er haldin mikilli evruglýju. Það eru nefnilega aðstæður hér á landi, fyrirkomulag og staða á hinum ýmsu mörkuðum og rekstur fyrirtækja, ekki hvað síst fjármálafyrirtækja, sem ræður mestu um vaxtastigið. Úrelt hókuspókus-stefna eins og lesa má um í leiðara Fréttablaðsins er stórhættuleg - og reyndar furðulegt að sæmilega læst fólk skuli enn halda í þessar bábiljur eftir nær tíu ára evrukreppu og þrautir Grikkja og fleiri vegna evrunnar og ESB.
Evrópumál | Breytt s.d. kl. 13:08 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Mánudagur, 16. október 2017
Andstaða við evruna
Fleiri landsmenn eru andvígir því að evran verði tekin upp sem gjaldmiðill á Íslandi í stað krónunnar en eru hlynntir því samkvæmt niðurstöðum skoðanakönnunar sem gerð var af Gallup fyrir samtökin Já Ísland sem hlynnt eru inngöngu í Evrópusambandið.
Þannig eru 43,3% andvíg því að taka upp evruna sem gjaldmiðil hér á landi en 39,4% eru því hlynnt. Sé aðeins miðað við þá sem eru hlynntir eða andvígir upptöku evrunnar eru 52,3% andvíg því að taka upp evruna en 47,3% því hlynnt.
Þetta kemur fram hjá mbl.is í dag
Mánudagur, 16. október 2017
Íslendingar vilja ekki aðildarviðræður við ESB
Fleiri eru andvígir því að taka upp aðildarviðræður við Evrópusambandið á nýjan leik en þeir sem eru því hlynntir samkvæmt niðurstöðum skoðanakönnunar sem gerð var af Gallup fyrir samtökin Já Ísland sem eru hlynnt inngöngu Íslands í sambandið.
Þannig eru 47,8% andvíg því að taka upp viðræður við inngöngu í Evrópusambandið en 38,3% eru því hlynnt. Ef aðeins er miðað við þá sem taka afstöðu með eða á móti eru 55,5% andvíg því að hefja slíkar viðræður en 44,5% því hins vegar hlynnt.
Þetta kemur fram á mbl.is í dag.
Evrópumál | Breytt s.d. kl. 18:05 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Mánudagur, 16. október 2017
Öruggur og stöðugur meirihluti gegn aðild að ESB
Mikill meirihluti landsmanna er andvígur því að Ísland gangi í Evrópusambandið samkvæmt niðurstöðum skoðanakönnunar sem Gallup gerði fyrir samtökin Já Ísland sem hlynnt eru inngöngu í sambandið. Samtals eru 59,8% andvíg inngöngu í Evrópusambandið og 40,2% henni hlynnt. Meirihluti hefur verið andvígur inngöngu í sambandið í öllum könnunum sem gerðar hafa verið frá því sumarið 2009 eða undanfarin átta ár.
Þar segir einnig:
Ef horft er til þeirra sem vilja ekki ganga í Evrópusambandið segist meirihluti þeirra vera örugglega á móti inngöngu eða 41,1% en 18,7% sennilega andvíg henni. Af þeim sem eru hlynnt því að ganga í sambandið segjast 15,6% örugglega hlynnt inngöngu en 24,6% hins vegar sennilega á móti inngöngu.
Skoðanakönnunin var gerð dagana 11.-24. september. Úrtakið var 1.435 manns á öllu landinu. Fjöldi svarenda var 854 og svarhlutfall 59,5%.
Evrópumál | Breytt s.d. kl. 15:26 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Mánudagur, 9. október 2017
Opinn stjórnarfundur Heimssýnar
Heimssýn, hreyfing sjálfstæðissinna í Evrópumálum, heldur opinn stjórnarfund næstkomandi fimmtudag, 12. október 2017, klukkan 17:30 í Ármúla 3 í Reykjavík, 2. hæð.
Atli Harðarson, heimspekingur og dósent við Menntavísindasvið Háskóla Íslands, flytur erindi.
Atli er þekktur áhugamaður um Grikkland og hefur nýlega birt mjög fróðlegar greinar um þróun mála í Grikklandi í Morgunblaðinu og á heimasíðu sinni, sjá: https://notendur.hi.is/atlivh/.
Það verður spennandi að hlýða á Atla fara yfir þróun mála í Grikklandi undanfarin ár.
Félagar eru hvattir til að mæta og taka með sér gesti.
Evrópumál | Breytt s.d. kl. 12:54 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Nýjustu færslur
- Stór hagkerfi hökta rétt eins og lítil
- Evran er aukaatriði
- Skólabókardæmi um fallbyssufóður og gildi sjálfstæðis
- Tæki 15 ár að fá evru og tapa fiskimiðunum og orkunni í lei...
- Spurningin í þjóðaratkvæðagreiðslunni
- Samkvæmisleikur Evrópusambandssinna
- Stóri misskilningurinn
- Uppeldisfræðileg nýlunda
- Yfir lækinn til að sækja sér vatn
- Það er ástæða
- Rýrt umboð, eina ferðina enn
- Það er augljóst
- 10 milljarðar eru lika peningar
- Alvöru spilling
- Alvöru sparnaður
Eldri færslur
- Janúar 2025
- Desember 2024
- Nóvember 2024
- Október 2024
- September 2024
- Ágúst 2024
- Júlí 2024
- Júní 2024
- Maí 2024
- Apríl 2024
- Mars 2024
- Febrúar 2024
- Janúar 2024
- Desember 2023
- Nóvember 2023
- Október 2023
- September 2023
- Ágúst 2023
- Júlí 2023
- Júní 2023
- Maí 2023
- Apríl 2023
- Mars 2023
- Febrúar 2023
- Janúar 2023
- Desember 2022
- Nóvember 2022
- Október 2022
- September 2022
- Ágúst 2022
- Júlí 2022
- Júní 2022
- Maí 2022
- Apríl 2022
- Mars 2022
- Febrúar 2022
- Janúar 2022
- Desember 2021
- Nóvember 2021
- Október 2021
- September 2021
- Ágúst 2021
- Júlí 2021
- Júní 2021
- Maí 2021
- Apríl 2021
- Mars 2021
- Febrúar 2021
- Janúar 2021
- Desember 2020
- Nóvember 2020
- Október 2020
- September 2020
- Ágúst 2020
- Júlí 2020
- Júní 2020
- Maí 2020
- Apríl 2020
- Mars 2020
- Febrúar 2020
- Janúar 2020
- Desember 2019
- Nóvember 2019
- Október 2019
- September 2019
- Ágúst 2019
- Júní 2019
- Maí 2019
- Apríl 2019
- Mars 2019
- Febrúar 2019
- Janúar 2019
- Desember 2018
- Nóvember 2018
- Október 2018
- September 2018
- Ágúst 2018
- Júlí 2018
- Júní 2018
- Maí 2018
- Apríl 2018
- Mars 2018
- Febrúar 2018
- Desember 2017
- Nóvember 2017
- Október 2017
- September 2017
- Ágúst 2017
- Júlí 2017
- Maí 2017
- Apríl 2017
- Mars 2017
- Febrúar 2017
- Janúar 2017
- Desember 2016
- Nóvember 2016
- Október 2016
- September 2016
- Ágúst 2016
- Júlí 2016
- Júní 2016
- Maí 2016
- Apríl 2016
- Mars 2016
- Febrúar 2016
- Janúar 2016
- Desember 2015
- Nóvember 2015
- Október 2015
- September 2015
- Ágúst 2015
- Júlí 2015
- Júní 2015
- Maí 2015
- Apríl 2015
- Mars 2015
- Febrúar 2015
- Janúar 2015
- Desember 2014
- Nóvember 2014
- Október 2014
- September 2014
- Ágúst 2014
- Júlí 2014
- Júní 2014
- Maí 2014
- Apríl 2014
- Mars 2014
- Febrúar 2014
- Janúar 2014
- Desember 2013
- Nóvember 2013
- Október 2013
- September 2013
- Ágúst 2013
- Júlí 2013
- Júní 2013
- Maí 2013
- Apríl 2013
- Mars 2013
- Febrúar 2013
- Janúar 2013
- Desember 2012
- Nóvember 2012
- Október 2012
- September 2012
- Ágúst 2012
- Júlí 2012
- Júní 2012
- Maí 2012
- Apríl 2012
- Mars 2012
- Febrúar 2012
- Janúar 2012
- Desember 2011
- Nóvember 2011
- Október 2011
- September 2011
- Ágúst 2011
- Júlí 2011
- Júní 2011
- Maí 2011
- Apríl 2011
- Mars 2011
- Febrúar 2011
- Október 2010
- September 2010
- Júlí 2010
- Júní 2010
- Maí 2010
- Apríl 2010
- Mars 2010
- Febrúar 2010
- Janúar 2010
- Nóvember 2009
- Október 2009
- September 2009
- Ágúst 2009
- Júlí 2009
- Júní 2009
- Maí 2009
- Apríl 2009
- Mars 2009
- Febrúar 2009
- Janúar 2009
- Desember 2008
- Nóvember 2008
- Október 2008
- September 2008
- Ágúst 2008
- Júlí 2008
- Júní 2008
- Maí 2008
- Apríl 2008
- Mars 2008
- Febrúar 2008
- Janúar 2008
- Desember 2007
- Nóvember 2007
- Október 2007
- September 2007
- Ágúst 2007
- Júlí 2007
- Júní 2007
- Maí 2007
- Apríl 2007
- Mars 2007
- Febrúar 2007
- Janúar 2007
- Desember 2006
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (26.1.): 55
- Sl. sólarhring: 259
- Sl. viku: 2157
- Frá upphafi: 1187938
Annað
- Innlit í dag: 52
- Innlit sl. viku: 1930
- Gestir í dag: 50
- IP-tölur í dag: 49
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar