Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, ágúst 2023

Haldið til haga

Skattur á útblástur kolefnis er til umræðu þessa dagana.  Rétt er að halda því til haga að hluti af skattinum ratar í verkefni í heimahéraði.   Sé lesið í línuritið sem fylgir í hjálögðu skjali eru það rúm 60% sem rata „heim“, árið 2021, og stór hluti af því fer einhvers konar umhverfis- og orkuverkefni. Eftir standa tæp 40%.  Hvað skyldu það vera margir milljarðar íslenskra króna?

Hvað flugið varðar má segja að þeim milljörðum mun líklega fækka fremur hratt. Það verður svo dýrt að millilenda á Íslandi á leið milli Evrópu og N-Ameríku, svo líklega fækkar þeim farþegum töluvert.  Þeir munu velja beint flug eða að fljúga frá Bretlandi.  Vera má að draga megi úr útblæstri frá farskipum, en eftir sem áður er um að ræða skatt sem leggst mun þyngra á Íslendinga en aðra Evrópubúa og að drjúgur hluti skattsins hverfur úr landi.

https://www.eea.europa.eu/ims/use-of-auctioning-revenues-generated?fbclid=IwAR3LMb2mNJMneHk3bXs-IvEm0j-Ik7BRQfNF4ypjj5J03gVitO-PwIYccwY

 


Maðkur í mysu

EES-samningurinn margfrægi hefur jafnan verið kenndur við fjórfrelsi og er þar vísað til viðskipta með vörur, þjónustu, flutning á fjármagni og fólki.  Smám saman hefur fimmti liðurinn bæst við, það er frelsi Evrópusambandsins til að innheimta skatta af atvnnulífi í löndum EES.

Þessir nýju skattar sem tengjast samgöngum leggjast miklu, miklu þyngra á Ísland en önnur ríki í EES.

Látum liggja milli hluta hvort það sé til góðs fyrir umhverfið að leggja á tiltekna umhverfisskatta, en leitum svara við þessari spurningu:

Hvernig má það vera umhverfinu og samfélaginu til góðs að flytja skattféð frá Íslandi til Brussel?

https://www.ruv.is/frettir/innlent/2023-08-07-horfa-fram-a-milljarda-kostnad-vegna-losunarheimilda-i-skipaflutningum-389342


Ómönnuð vakt

Enn er barist í Austur-Evrópu.  Í tengslum við stríðið rifja menn upp fyrri stríð og fjöldadráp. Það þarf ekki að rifja upp lengi til að komast að því að saga Evrópu er saga nánast viðstöðulausra manndrápa og furðu oft í gríðarlega stórum stíl.  Það virðist alltaf hafa verið vilji til að lagfæra landamæri, eða ná einhverju öðru fram, með skipulögðum mannfórnum.  Jafnan hefur tekist að manna fallbyssurnar, jafnvel þótt slíkt starf hafi oft verið sjálfsmorðsleiðangur.  Það er undarlegt.  

Menn eru ósammála um margt í sambandi við stríðið, en flestir virðast þó sammála um að manndrápin muni halda áfram, ýmist í sama eða í enn hraðari takti.

Stundum er gott að setja sig í spor annarra.  Hvað mundu menn gera, ef Eyjamenn segðu öðrum Íslendingum að eiga sig, eða ef Danir tækju þar völdin, og stjórnvöld í Reykjavík reyndu að skipuleggja vaktir á fallbyssur á Landeyjasandi? 

Hver mundi mæta á vakt? 

Auðvitað enginn.

Sú einfalda staðreynd minnir okkur á að það er yfir allan vafa hafið að farsælast sé að færa stjórnvaldið ekki úr landinu og allra síst í hendur fólks sem fórnar hálfri milljón manna eins og að drekka vatn.

 


Hæg er leið til helvítis

Það fer ekki framhjá neinum að þróunin í stjórnmálum til langs tíma hefur verið á þann veg að raunverulegar ákvarðanir um samfélag á Íslandi hafa í sívaxandi mæli verið teknar í útlöndum.  Hlutverk stjórnmálamanna líkist sífellt meira hlutverki leikara á sviði.  Helstu kröfurnar til hans eru að hann komi sæmilega fram og hagi sér þokkalega vel innan og utan Alþingis. 

Arnar Þór Jónsson hefur öðrum fremur vakið athygli á þessu og hann er iðulega kjarnyrtur.  Arnar Þór segir m.a. á bloggi sínu:

Hið nýja valdboðsfyrirkomulag ESB (og nú íslenskra stjórnmála) hefur engan tíma fyrir umræður, umber engan skoðanamun, og jaðarsetur þá sem ekki vilja spila með. Mismunandi sjónarmið eiga sér ekki tilvistarrétt í slíku kerfi. Í nafni hagkvæmni, tímasparnaðar, skilvirkni o.fl. er valtað yfir minnihlutasjónarmið og hagsmuni smáríkja. Undir forystu þingflokks Sjálfstæðisflokksins eiga Íslendingar nú að undirgangast slíkt ok sjálfviljugir og aðlagast hinum nýja pólitíska veruleika valdboðsins, en kasta um leið frá sér hugsjónum um frjálst val, fullveldi og sjálfsákvörðunarrétt. 

Þetta er alveg satt.   

Góðu fréttirnar eru að mörg þúsund manns lesa skrif Arnars Þórs og það er ástæða til að ætla að stjórnmálamenn sem feta leið þjónkunar við hið erlenda vald séu með því að fremja pólitískt sjálfsmorð.

https://arnarthorjonsson.blog.is/blog/arnarthorjonsson/entry/2292810/

 

Og við minnum á Fasbók Heimssýnar.  Það vantar alltaf fleiri áskrifendur:

https://www.facebook.com/groups/heimssyn


Erlent ríkjasamband leggur nýjan skatt á íslenskt atvinnulíf

Örlítil umræða er að hefjast um vegabréfsáritunargjaldið sem Evrópusambandið vill innheimta.  Bretar, Bandaríkjamenn, Kanadamenn, Kínverjar og margir fleiri munu þurfa að borga Evrópusambandinu gjald, vilji þeir fara til Íslands.

 

Gott er að rifja upp nokkur helstu atriði málsins:

 

1. Hið erlenda ríkjasamband mun ráða hverjir utan Schengen fái að fara til Íslands.  Enginn veit hvernig þær valdheimildir verða notaðar í framtíðinni. 

2. Hið erlenda ríkjasamband ætlar að innheimta skatt af utansveitarfólki sem ferðast til Íslands.  Ríkjasambandið ætlar sjálft að hirða skattinn.

3. Skatturinn á að "mæta kostnaði".  Allir skattar mæta einhverjum kostnaði.  Ótal leiðir eru til að reikna "kostnað".  Sú algengasta er að finna fyrst útkomuna og bæta svo tölum inn í dæmið eftir hentugleikum.  

4. Engin veit hversu hár skatturinn verður eftir 10 eða 20 ár og ekki heldur í hvað peningarnir munu fara.  

5. Atvinnulíf á Íslandi er með þeim hætti að skatturinn leggst margfalt, margfalt þyngra á íslenskt atvinnulíf, en á venjulega hreppa í Evrópu. 

6. Áritunarmál í öðrum löndum eru málinu óviðkomandi.  Fyrirkomulagið í Bretlandi, BNA eða Kína, kemur þessari skattheimtu ekki við.  Ekkert kallar á gagnkvæmni, tal um slíkt þjónar einungis þeim tilgangi að afvegaleiða umræðuna. 

Og ef menn telja í alvöru að það skipti engu máli fyrir atvinnulífið að leggja á nýjan, en hóflegan skatt, er þá ekki einboðið að gera það strax, og sjá til þess að hann renni allur í fjárhirslur íslenska ríkisins, en ekki til Brussel?

 https://www.visir.is/g/20232445414d/bandarikjamenn-thurfa-ad-greida-gjald-adur-en-komid-er-til-islands

 


Ekki galið stjórnarfyrirkomulag

Í fyrra sendi stjórn Evrópusambandsins aðildarríkjunum lista yfir vefsíður sem stjórninni líkaði ekki.  Fyrirmælin sem fylgdu voru að koma skyldi í veg fyrir að íbúar viðkomandi ríkis gætu séð síðurnar.  Það var gert. 

Vitað er að ríkisstjórn Noregs þykir gott að gera eins og Evrópusambandið vill og hafði í hyggju banna vefsíðurnar.  Þá varð umræða í landinu.  Fjölmargir, þar á meðal samtök blaðamanna og rithöfunda mótmæltu.  Ríkisstjórnin ákvað að reyna ekki að koma á ritskoðun að hætti Evrópusambandsins, því þrátt fyrir allt þiggur hún vald sitt enn sem komið er frá kjósendum í Noregi, en ekki frá embættismönnum í Brussel. 

Lýðræði er ekki alveg galið stjórnarfyrirkomulag.

https://www.nrk.no/kultur/norge-vurderer-russisk-mediesensur_-_-skummel-utvikling-1.15888302


Hverju verður lokað næst?

Í ljós hefur komið að furðu fáir hafa frétt af kerfisbundinni ritskoðun og lokun á netsíðum í Evrópusambandinu. 

Hvernig ætli standi á því? Finnst fjölmiðlum á vesturlöndum og þar á meðal Íslandi ágætt að losna við samkeppni, eða eru fréttir rússneskra miðla á borð við rt.com of hræðilegar til að hægt sé að leyfa þær? Fólk á Íslandi getur sjálft dæmt um hið síðarnefnda, því stjórnvöld á Íslandi hafa ekki lokað fyrir tengingu við rússneskar fréttastofur, ólíkt yfirvaldinu í Evrópusambandinu. 

Reyndar er ekki augljóst að stjórnvöld á Íslandi hafi heimild til að loka fyrir aðgang að fréttasíðum sem þeim kunna að finnast vondar.  Ekki verður annað séð en að þeir sem hafa völdin í Evrópusambandinu hafi slíka heimild.  Þeir komast að minnsta kosti upp með að loka því sem þeim sýnist. 

Hverju skyldu þeir í Evrópusambandinu loka næst?  Bloggsíðum Arnars Þórs Jónssonar, Páls Vilhjálmssonar, Jóns Magnússonar, Heimssýnar eða síðum Samtaka hernaðarandstæðinga?

 

https://www.reuters.com/world/europe/eu-ban-three-russian-state-owned-broadcasters-von-der-leyen-2022-05-04/


Spá í vask

Hér á Heimssýnarbloggi var því spáð að 100% Pírata mundi leggjast gegn ritskoðun á borð við þá sem Evrópusambandið hefur gagnvart fréttasíðum sem það telur vondar, eða frá vondu fólki.  Umræða varð um málið á svokölluðu „Pírataspjallið 2“ á Fasbók og er skemmst frá því að segja að spáin er farin í vaskinn, Björn nokkur Leví sá til þess.  Líklega hugsa sumir að þar hafi krosstré brugðist. 

Eftir sem áður skulu aðrir Píratar, og allir aðrir Íslendingar, minntir á að Evrópusambandið heimilar þegnum sínum ekki að lesa fréttir frá aðilum sem eru í ónáð og að lítið ber á mótmælum þegnanna gegn þeim gjörningi yfirvalda.   Allur þorri íbúa Evrópusambandsins kemst með öðrum orðum ekki inn á „óæskilegar“ fréttasíður - og sættir sig við það.

Ætli íbúar V-Evrópu í gamla daga hefðu tekið því þegjandi ef þeir hefðu gerst áskrifendur að sovéska blaðinu Prövdu og blaðið verið gert upptækt af lögreglunni?  Líklega ekki.


Það er ekki núverandi kerfi sem skiptir mestu máli

heldur sú staðreynd að styrkjakerfi og lög um allt mögulegt í Evrópusambandi framtíðar verður ákveðið af öðrum en þeim sem búa í litlu samfélagi norður hjara, og skiptir þá engu hvort Ísland er í sambandinu eða ekki. 

Um þetta er fjallað í grein Haraldar Ólafssonar í DV 30. júlí.  Þar segir: 

Thomas Möller ræðir í löngu mál í DV 27. júlí sl. um landbúnað, styrki og hugsanlegan gróða við að segja sig til sveitar hjá Evrópusambandinu. Þá fer Thomas nokkrum orðum um frjálsa verslun.

Í styrkjaþokunni er stundum erfitt að sjá til og sumir villast. Lausnin er þá ekki að lesa reglurnar tíu sinnum til viðbótar og reyna svo að giska á hvað þær þýða heldur að rifja upp að styrkjakerfi Evrópusambandsins er fjarri því að vera meitlað í stein. Þegar nýtt ríki er innlimað getur kerfið verið orðið allt annað en það var, þegar það sama ríki sótti um aðild. Allar líkur standa til þess að árum eða áratugum seinna verði svo enn annað kerfi. Kannski verða þá engir styrkir, bara skattar. Hver veit? Allar slíkar breytingar koma að utan, enda væri mjög ólýðræðislegt að örþjóð innan stórveldisins fengi að ráða ferðinni í styrkjalöggjöf.

Hvað verslun varðar, þá verður að hafa í huga að Evrópusambandið er ekki félagsskapur um frjálsa verslun, nema milli ríkjanna sem að því standa, Þýskalands og Frakklands, og þeirra fylgiríkja. Gagnvart öðrum, sem eru um 95% af íbúum jarðarinnar er Evrópusambandið tollabandalag sem sinnir hagsmunum þeirra sem ráða ferðinni í sambandinu, og innheimtir tolla sem renna í fjárhirslurnar í Brussel. Enginn veit hversu háir þeir verða í framtíðinni.

Heldur svo einhver að það verði hægt um vik að hætta í félaginu þegar blæs á móti? Nei, þá er það orðið of seint, þá er bara að borga.

 

https://www.dv.is/eyjan/2023/07/30/haraldur-olafsson-skrifar-hverfull-er-grodinn-vid-fullveldisframsal/

 

 


« Fyrri síða

Heimssýn

Heimssýn

hreyfing sjálfstæðissinna í Evrópumálum, eru þverpólitísk samtök þeirra sem telja hagsmunum Íslendinga best borgið með því að halda áfram að vera sjálfstæð þjóð utan Evrópusambandsins.

 

Sími 895 5334 (Haraldur Ólafsson, formaður)


Nánar um Heimssýn

Vertu með!

Frjáls framlög

Eldri færslur

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (25.11.): 59
  • Sl. sólarhring: 515
  • Sl. viku: 2566
  • Frá upphafi: 1166326

Annað

  • Innlit í dag: 54
  • Innlit sl. viku: 2201
  • Gestir í dag: 53
  • IP-tölur í dag: 50

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband