Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2024

Tryggingasvindl

Keypt auglýsing áhugamanna um innlimun Íslands í Evrópusambandið tröllríður nú netheimum.  Fjallað er um að Evrópusambandið sé ekki bara viðskiptabandalag, heldur einhvers konar tryggingafélag.

Rétt er að Evrópusambandið er ekki bara viðskiptabandalag.  Það snýst um ótalmargt fleira og það fleira á sér þann samnefnara að valdið hefur verið flutt frá þjóðríkjum í hallir bandalagsins og híbýli þeirra sem því stjórna.

En það er sjálfsagt að ræða tryggingafélagshugmyndina.  Þegar keypt er trygging liggur jafnan ljóst fyrir hver iðgjöldin eru hvað er bætt.  Í tilviki Evrópusambandsins má reikna iðgjöldin með ýmsum hætti, það er bæði beinn og óbeinn kostnaður við að gista þann stað.  Það er þó sama hvernig reiknað er, útkoman verður alltaf himinhá.  Verra er með bótaskylduna.  Hún er nefnilega í meginatriðum að það skuli bætt sem ráðamenn telja viðeigandi.  Það sem er viðeigandi er vitaskuld háð hugmyndum ráðamanna hverju sinni og ótalmörgu öðru sem smáríki í Evrópusambandi hafa ekkert um að segja.

Hverjum dettur í hug að kaupa sér svoleiðis tryggingu?


Hún fer ekki átakalaust í gegn

Saga bókunar 35 er sérkennileg og það rifjar Hjörtur J. Guðmundsson upp í grein í Vísi. Nokkuð ljóst er að Ísland hefði ekki gengið í EES ef bókunin hefði verið með í upphafi.  Samningurinn hefði þá tvímælalaust verið talinn ganga gegn stjórnarskrá. 

Síðan rennur mikið vatn til sjávar og allt í einu vaknar Evrópukerfið upp við vondan draum og krefst aukinnar undirgefni Íslendinga. Hjörtur minnir þjóðina á að standa vakt um lýðræðið.

Það eru fleiri en Arnar Þór á vakt. Vaktmenn skipta þúsundum. 

https://www.visir.is/g/20242521724d/hvad-gerir-bjarni-vid-bokun-35-

 


Gullhúðaður sproti af Evróputré

Sérkennilegur angi af Evrópumálunum er sá siður að hengja íþyngjandi ákvæði við Evrópureglur.  Svo rammt kveður að þessu að fyrirbærið hefur fengið nafn og er það "gullhúðun" og er það nú orðið sérstakt viðfangsefni stjórnsýslunnar. 

Hjörtur J. Guðmundsson ræðir málið og niðurstaða hans er skýr, sem fyrr:

Væri EES-samningnum hins vegar skipt út fyrir víðtækan fríverzlunarsamning, líkt og við gerðum í tilfelli Bretlands, annars stærsta viðskiptalands okkar, án þess að nokkuð færi á hliðina, og flest ríki heimsins kjósa að semja um í dag, þar á meðal stærstu efnahagsveldin með sína miklu viðskiptahagsmuni, væri mögulegt að setja minna íþyngjandi reglur í stað regluverks Evrópusambandsins eða alls engar.

https://www.visir.is/g/20242520539d/gullhudunin-gerir-illt-verra

 

 


Að kikna ekki

Í grein á visir.is ræðir Arnar Þór Jónsson málefni sem tengjast forsetaembætti.  Hann segir m.a.: 

Á hinu alþjóðlega sviði eru sumir þessara þrýstihópa svo stórir, valdamiklir og fjársterkir að smáríki eins og Ísland mega sín lítils í leiknum. Undan þrýstingi á slíkum vettvangi, t.d. meðal embættismanna ESB, meðal auðjöfra í Davos eða fulltrúa (ólýðræðislegra) stórvelda á vettvangi SÞ, mega fulltrúar Íslands ekki kikna. Þeirra hlutverk er ekki að starfa í þágu sérhagsmuna víða um heim heldur að verja stjórnarskrá lýðveldisins og standa vörð um þjóðarhag á breiðum faglegum, efnahagslegum og þjóðhagslegum grunni.

Það er einmitt áríðandi að hafa forseta sem ekki kiknar við minnstu ágjöf.  Arnar Þór Jónsson er ekki líklegur til þess. 

https://www.visir.is/g/20242520954d/sjalfstaett-folk-sjalfstaed-thjod


Lýsið og snákaolían

Á undanförnum árum hefur sambandið hins vegar samið við ríki eins og Kanada, Japan og Bretland um víðtæka fríverzlunarsamninga þar sem kveðið er á um fullt tollfrelsi með sjávarafurðir sem við Íslendingar höfum aldrei notið í gegnum EES-samninginn

segir Hjörtur J. Guðmundsson í grein í Morgunblaðinu.   Í sömu grein bendir hann á að EES-samningurinn er hýsill fyrir tæknilegar viðskiptahindranir við ríki utan EES, en í þeim ríkjum býr allur þorri mannkyns. 

Síðast en ekki síst bendir Hjörtur á að Bretar gengu úr EES, án þess að himnarnir hafi hrunið.

Hjörtur er kjölfesta í stjórnmálaumræðu á Íslandi. Hann hefur lag á að setja saman í hnitimiðuðu máli staðreyndir sem skipta máli.  Greinar Hjartar eru vörður í orðaþoku.  Þær eru lýsið innan um snákaolíuna.  

https://www.fullveldi.is/?p=14835&fbclid=IwAR1zqUoczdBMpRUmxuAJmlNVcgeZzpyy--xYuU3dKQWmp07hOag8xfMguFQ


Að stöðva lekann

Arnar Þór skrifar í Mogga og ræðir m.a. leka á valdi til erlendra aðila sem enga ábyrgð bera gagnvart íslenskum kjósendum. Forseti Íslands hefur tæki sem hægt er að beita til að stöðva leka af því tagi og það er ekki ónýtt að forsetaframbjóðandi átti sig á því. 

https://www.facebook.com/groups/heimssyn/?multi_permalinks=594655049493790&notif_id=1705750427571012&notif_t=feedback_reaction_generic&ref=notif


Ritskoðunarmenning

Í hvert sinn sem Íslendingar heimsækja Evrópusambandið gefst þeim tækifæri til að rifja upp að þeir stíga inn í annan menningarheim.  Heim þar sem ávallt hefur verið stutt í að stjórnvöld grípi til stórfelldra mannfórna.  Reyndar er það svo að ein af helstu ástæðum tilvistar Evrópusambandsins er að reyna að hafa hemil á manndrápunum og eyðileggingunni.  Það er reyndar með misjöfnum árangri, því þótt náttúran sé lamin með lurk, leitar hún heim um síðir.  Núna eiga stærstu ríki Evrópu í stríði með misbeinum hætti, og Evrópusambandið er þar líka, á bólakafi í drullunni.    

Þessi árátta á sér ýmsa anga, eins og t.d. að banna fjölmiðla sem gætu talað gegn stjórnvöldum, og stríðinu ef og þegar stjórnvöld eru í stríði.  Þegnar ólíkra landa eru í misgóðri aðstöðu til að mótmæla ritskoðun, en kannski skiptir það litlu máli.  Fáir, ef nokkrir, mótmæla ritskoðun Evrópusambandsins á rússneskum fjölmiðlum, þótt líklega kæmust menn upp með það. 


Fullveldissinni fallinn frá

Peter Ørebech er fallinn frá.  Peter var afar ötull fullveldissinni sem skrifaði ótal greinar og skýrslur til að útskýra fyrir Norðmönnum, og Íslendingum, mikilvægi fullveldis og hvílík ósvinna það væri að afhenda erlendu sambandsríki völd í Noregi, eða á Íslandi.  Peter kom oftar en einu sinni til Íslands, síðast í tengslum við umræðuna um þriðja orkupakkann.  Hann var andans maður, vel lesinn og kom vel fyrir.  Eins og títt er um Norðmenn hafði Peter mikinn áhuga á íslensku samfélagi og sögu Íslands.  Hann heimsótti ýmsa staði á landinu, en einn varð þó útundan, það var Eyrarbakki.  Peter hafði hug á að líta þann stað sem nafn hans væri dregið af, þó með nokkuð óbeinum hætti væri. Það fór því miður ekki svo að hann færi austur á Eyrarbakka í síðustu heimsókn sinni, þótt það stæði til.  Það minnir okkur á að ekki er alltaf gott að slá verkum á frest.  Heimssýn þakkar Peter Ørebech samfylgd og stuðning.  Blessuð sé minning hans. 

 

https://neitileu.no/aktuelt/peter-orebech-19482024


Maður veit aldrei hvenær það skiptir höfuðmáli

Hugsum okkur Ísland í Evrópusambandi árið tvö þúsund og súrkál.  Það byrjar að gjósa á Reykjanesi og allt flug er stöðvað.

 

Svona gæti fréttin hljóðað: 

 

Landstjóri Íslands hefur ítrekað beiðni um undanþágu frá reglum um flug.  Hann bendir á að ekki sé um að ræða öskugos og engin hætta á ferðum fyrir flug til og frá Keflavíkurflugvelli.

Ekki náðist í neinn í stjórn Evrópusambandsins, en talsmaður ráðuneytis flugmála í Frankfurt áréttaði að samkvæmt reglum væri óheimilt að fljúga nálægt eldgosi og skipti þá engu hvernig vindar blási eða hvað sé í stróknum.   Reglurnar væru settar til að tryggja öryggi þegna Evrópusambandsins og lausung í þeim málum mundi hefna sín.  Ekki kæmi til greina að víkja frá þeim. 

Ráðuneyti smærri ríkja í Evrópusambandinu hefur bent á að heimilt sé að fljúga til Egilsstaða og að Íslendingar geti sótt um stuðning í hamfarasjóð sambandsins.  Umsókn yrði afgreidd strax á næsta ári og hægt verður að greiða úr sjóðnum um leið og nauðsynlegar ráðstafanir til að afla sjóðnum tekna hafa verið gerðar.

 

Maður veit aldrei hvenær fullveldi skiptir höfuðmáli

 


Ólýðræði

Stundum koma upp hugmyndir um að Íslendingar ættu að ganga í Evrópusambandið til að "hafa áhrif".   Hjörtur J. Guðmundsson fer skilmerkilega yfir þessi "áhrif".  

Íslendingar hafa vitaskuld mest "áhrif" með því að halda valdinu í landinu. Ef því er deilt með Evrópusambandinu yrðu áhrif Íslendinga á eigin málefni núllkommaeitthvað prósent.  Annað væri einfaldlega ólyðræðislegt!

 

https://www.fullveldi.is/?p=35431


Næsta síða »

Heimssýn

Heimssýn

hreyfing sjálfstæðissinna í Evrópumálum, eru þverpólitísk samtök þeirra sem telja hagsmunum Íslendinga best borgið með því að halda áfram að vera sjálfstæð þjóð utan Evrópusambandsins.

 

Sími 895 5334 (Haraldur Ólafsson, formaður)


Nánar um Heimssýn

Vertu með!

Frjáls framlög

Eldri færslur

Des. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (25.12.): 1
  • Sl. sólarhring: 110
  • Sl. viku: 1964
  • Frá upphafi: 1176818

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 1789
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband