Leita í fréttum mbl.is

Vegir ástarinnar

Ákafamönnum um innlimun Íslands í Evrópusambandið er tíðrætt um ást sína á lýðræði.  Því oftar sem um hana er rætt, því ljósara verður hið gagnstæða.

Það hefði verið hægur vandi að hafa þjóðaratkvæðagreiðslu um bókun 35 og orkupakka 3.  Það var ekki gert, enda sýndu kannanir að þjóðin var á móti.  Evrópulýðræðið er nefnilega þannig vaxið að það ræður bara ef niðurstaðan er "rétt". Ef hætta er á "rangri" niðurstöðu, er ekki talið tilefni til að kjósa.

Nú sér ríkisstjórnin að hún kemst ekki lengra með Ísland inn í bandalagið, án frekara umboðs.  Hvað er þá betra en að skella í eina þjóðaratkvæðagreiðslu með óljósri spurningu sem hefur það eina markmið að vera nógu jákvæð til að möguleiki sé á að hún verði samþykkt?

Í framhaldinu má svo túlka niðurstöður að vild og byrja að ausa tugmilljörðum í vonlaust aðildarferli og rannsóknir á innihaldi pakka sem vitað er hvað er í.

 


Frá Húnaflóa til Brussel – reglugerðanetið gleypir allt

Í Brussel eru fiskarnir okkar ekki bara á markaði, heldur flæktir í reglugerðir. Sjávarútvegsstefna ESB er ekki hugmynd á blaði, heldur ferli sem tekur ákvarðanir um kvóta, reglur og ráðgjöf. Aðild að ESB þýðir að ákvarðanir sem varða okkar fiskistofna færast til Brussel.

Haukur Arnþórsson, stjórnsýslufræðingur, fór nýverið yfir regluverk sjávarútvegsstefnunnar í grein í Morgunblaðinu. Hann leggur áherslu á að kerfið sé ítarlega reglusett, með skýrum viðmiðum og stofnanakerfi ESB sem taki ákvarðanir með lagalegri nákvæmni: reglugerðir, stofnanir, skiptingu kvóta og svonefnda ICES-ráðgjöf. Niðurstaðan er skýr: aðild þýðir að ákvarðanir um íslenskan sjávarútveg færast til Brussel.

Í Brussel er enginn fiskur of smár til að rata inn í reglugerð, hvort sem það eru deilistofnar í Norður-Atlantshafi eða heimakærar grásleppur í Húnaflóa.

Hér er ekki um að ræða túlkunaratriði eða grátt svæði í fræðunum. Þetta stendur svart á hvítu í grunnlöggjöf ESB. Það má vel vera að fallegar sögur séu á kreiki um undantekningar, sérlausnir eða sérstakar aðstæður, en engin dæmi eru til um slíkar varanlegar undanþágur í aðildarsamningum. Það er lágmark að nálgast umræðu um þennan málaflokk út frá staðreyndum.

Niðurstaðan blasir við: Viljum við leggja þorskinn okkar og þar með fiskimiðin í ylvolgan faðm kommisjónarinnar í Brussel?


Áhrifakapphlaup á norðurslóðum - djöflatertan er tilbúin, kremið vantar

Danska ríkissjónvarpið DR greindi nýlega frá því að menn með tengsl við Donald Trump hefðu reynt að grafa undan tengslum Grænlands og Danmerkur. Þar var safnað listum yfir stuðningsmenn og andstæðinga, þrýst á innri pólitík og jafnvel teiknuð upp framtíð þar sem Grænland yrði hluti af Bandaríkjunum. Danski utanríkisráðherrann kallaði bandarískan erindreka á teppið og talaði um óásættanlegt inngrip í innri málefni. Þetta er hrá og augljós valdbeiting - enginn pastellitur, bara hamar og nagli.

En Brussel nýtir aðrar aðferðir. Þar er uppskriftin snyrtilegri: reglugerðir í gegnum EES-samninginn, styrkir til rannsókna og svæðisbundinna verkefna og norðurslóðastefna sem skilgreinir Ísland sem "viðkvæmt svæði". Nýlega bættist svo við öryggis- og varnarsamstarf sem opnar dyr að íslenskum innviðum, fyrir undirskrift utanríkisráðherrans okkar.

Sundum birtast áhrifin þó með öðrum hætti, til dæmis í gegnum fræðasamfélagið. Hjörtur J. Guðmundsson skrifar á www.stjornmalin.is um nýlegt dæmi þar sem prófessor í stjórnmálafræði kallaði Brexit "skot í fótinn". Sá hinn sami er formaður Evrópuhreyfingarinnar og nýlegur handhafi Jean Monnet-styrks frá ESB. Það er líklega ekkert glæpsamlegt við það, en er það ekki líka dæmi um "mjúka valdbeitingu" þegar styrkir tryggja að ákveðnar raddir fái meira vægi í opinberri umræðu en aðrar?

Munurinn liggur ekki í markmiðinu, heldur í leiðinni þangað. Hjá Bandaríkjunum er uppskriftin þrýstingur, listamenn og bein aðkoma að einstaklingum. Í tilviki ESB eru það reglugerðir, fjármögnun og "mjúk valdbeiting" sem virðist saklaus en þjónar pólitískum tilgangi.

Annað kemur með hamarinn, hitt með styrkjabréfin. En bæði eru botnar í sömu kökunni - tveimur sykurlausum djöflatertubotnum sem þurfa bragðgott krem. Það er óþægileg tilhugsun að einhver muni á endanum sleikja á sér puttana.


Rennibraut fyrir lýðræðishalla


Í leiðara Morgunblaðsins sl. miðvikudag er bent á að svo virðist sem hvorki rök né samstaða séu til staðar innan ríkisstjórnarinnar þegar kemur að fyrirhugaðri aðildarumsókn Íslands að Evrópusambandinu. Meðan forsætisráðherra segir þetta ekki forgangsmál hafa Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, utanríkisráðherra og formaður Viðreisnar, auk Dags B. Eggertssonar þingmanns Samfylkingar, rætt um að hraða umsókninni.

En þetta er alls ekki séríslenskt fyrirbrigði heldur vel þekkt mynstur í þeim löndum sem hafa gengið í Evrópusambandið síðustu 20-30 árin.

Í fræðunum ber þetta heitið lýðræðishalli ("democratic deficit"). Giandomenico Majone (1998) og Follesdal & Hix (2006) hafa sýnt fram á að ákvarðanir um framsal valds til Brussel eru iðulega teknar langt frá fólkinu sjálfu. Þjóðaratkvæðagreiðslur eru notaðar til skrauts eftir á. Það eru stjórnmálamenn og embættismenn sem stýra ferlinu í samstarfi við Brussel.

Þegar íslenskir ráðherrar tala út og suður, forsætisráðherra segir þetta "ekkert aðkallandi mál" en utanríkisráðherra talar um að "hraða umsókn", þá er það ekki merki um séríslenskan óstöðugleika. Það er dæmigert fyrir aðildarferli: ríkisstjórnir eru ósamstíga, þjóðin er klofin, en ferlið heldur engu að síður áfram, knúið af kolavélunum í Brussel og innlendum elítum. Þetta er einmitt kjarninn í lýðræðishallanum, að ferlið er drifið áfram ofan frá, en ekki af opnum og sameiginlegum ákvörðunum þjóðarinnar.

Rannsóknir á aðildarferli landa í Mið- og Austur-Evrópu (Schimmelfennig & Sedelmeier, 2005) sýna að ríkisstjórnir þar notuðu aðild til að styrkja stöðu sína innanlands, tryggja fjármagn frá Brussel og forðast átök með því að færa ákvarðanir út fyrir vettvang innlendra stjórnmála.

Það sem blasir við er því einfalt. Aðildarferlið er ekki samstillt lýðræðisverkefni heldur elítudrifið ferli. Þegar íslenskir stjórnmálamenn tala nú um að endurræsa ferlið eins og það snúist um "að rökstyðja betur" eða "byggja upp samstöðu", þá á sá málflutningur ekkert skylt við opna og lýðræðislega umræðu, heldur líkist hann fremur þurrum brauðhleif með smjörkremi og kökuskrauti.


Spilaborg Evrunnar og íslenska fáfræðin

Evrunni hefur verið líkt við spilaborg: hún getur staðið um hríð, en er dæmd til að falla þegar næsta hviða skellur á. Þetta eru ekki frasar úr kaffistofuslagnum hér heima heldur mat manns sem þekkir myntina út í hörgul, Otmar Issing, fyrrverandi aðalhagfræðings Seðlabanka Evrópu. Hann hefur bent á að uppbygging Evrunnar sé einfaldlega gölluð; sameiginleg mynt án sameiginlegrar fjármálastefnu og ríkisfjármála getur ekki annað en velt sér áfram frá einni krísu til þeirrar næstu.

Joseph Stiglitz, nóbelsverðlaunahafi, tekur í sama streng. Hann bendir á að Evrunni hafi frá upphafi fylgt fjöldi efnahagskreppa og slakur árangur. Hún var pólitísk draumsýn, ekki hagfræðileg nauðsyn.

En svo kemur utanríkisráðherrann okkar, hún Þorgerður Katrín, og segir (allavega fyrir kosningar): "Við getum ekkert tekið upp stöðugan gjaldmiðil ef það er allt í steik heima hjá okkur. Við verðum að ná tökum á ríkisfjármálunum."

Já, nú dámar mér. Þessi setning afhjúpar mótsögnina í sinni tærustu mynd. Hún viðurkennir með þessu að stöðugleiki næst aðeins með því að taka fyrst til heima fyrir. Samt er Evrunni stillt upp sem lausn allra mála. Það er nákvæmlega eins og að segja: "Ég get ekki haldið jafnvægi á reiðhjóli, svo ég ætla að stíga upp á mótorhjól sem fer þrisvar sinnum hraðar."

Og sagan heldur áfram. Sem sannur evrutrúboði kemur hún svo heim frá Brussel með nýjar skuldbindingar og reikninga í ferðatöskunum, rétt eins og slíkt sé svarið við íslenskum ríkisfjármálum. Þetta er eins og að mæta heim með veskið fullt af reikningum og reyna að raða þeim upp í lausn á heimilisbókhaldinu.

Evran er ekki stöðugur gjaldmiðill heldur viðvarandi björgunarverkefni. Hún var hönnuð fyrir pólitískt bandalag stórvelda, drauga Stál- og kolabandalagsins en ekki smáríki á norðurslóðum. Að halda áfram að prédika evruna fyrir Ísland er ekki framsýni heldur fáfræði sem verður dýrkeypt ef hún nær að villa um fyrir þjóðinni.


Lesa menn ekki heimspressuna í stjórnarráðinu?

Ólafur heitir maður Sigurðsson. Hann er einn reyndasti fréttahaukur landsins og hefur fylgst með alþjóðastjórnmálum frá því áður en sum þeirra sem nú stýra landinu fæddust.

Í grein í Morgunblaðinu sl. laugardag rekur hann efni greinar sem birtist nýlega í Project Syndicate, eftir Villy Sövndal, fyrrverandi utanríkisráðherra Danmerkur (2011-2013) og nú þingmann á Evrópuþinginu, og Roderic Kefferputz, starfsmann í Brussel-deild Heinrich-Böll-Stiftung, sem styður hnattrænar umræður um græna pólitík og stefnumótun.

Sövndal og Kefferputz segja þar berum orðum: Von der Leyen hefur þegar sett stækkun í norður á dagskrá. Stækkunin þangað snýst ekki aðeins um geopólitík, heldur einnig peninga. ESB vinnur að því að taka inn tíu fátækustu lönd Evrópu og þá vantar auðvitað einhvern sem borgar brúsann. Þar koma Ísland og Noregur til sögunnar, lönd sem eru meðal ríkustu landa heims. Við eigum að borga.

Á sama tíma hefur ESB kotroskið ákvæði um öryggismál í sáttmála sínum en réttir á sama tíma fram betlistafinn sinn í Washington. Hvernig getur ESB, sem kallar eftir samstöðu á norðurslóðum í nafni öryggis og stöðugleika, verið jafnframt háð hernaðarlegum stuðningi frá Bandaríkjunum? Hvers konar stórveldi er það?

Færeyingar og Grænlendingar hafa þegar svarað þessu með því að halda sig utan dyra. Þeir ætla ekki að láta Brussel stýra fiskimiðum sínum eða gera sig að gjaldmiðli í samstöðu sem þjónar fyrst og fremst öðrum. Ísland á að draga lærdóm af því.

Það sem Ólafur bendir á er skýrt: Þetta snýst ekki um "aukinn stöðugleika" heldur um flutning valds og að lokum reikninginn. Spurningin er hvort við ætlum að afhenda auðlindir okkar á altari kommisjónarinnar í þeirri trú að Brussel sé skjól, þegar reynslan sýnir hið gagnstæða.


Draghi reynir hjartastuðsaðferðina á Brussel

Mario Draghi, fyrrverandi forsætisráðherra Ítalíu og seðlabankastjóri Evrópu, talaði á Rimini-ráðstefnunni þann 22. ágúst. Þetta er ein stærsta árlega ráðstefna Evrópu um stjórnmál og samfélag, sem dregur til sín leiðtoga úr stjórnmálum, viðskiptum og menningu. Þar lýsti Draghi þeirri skoðun sinni að Evrópusambandið hefði ekki lengur næg áhrif á heimsmálin. Lausnin að hans mati: "Við verðum að bregðast við eins og eitt ríki."

Og hann bætti við: "Við verðum að bregðast hratt við, því tíminn vinnur gegn okkur. Evrópska hagkerfið stendur í stað á meðan heimurinn stækkar."

Þetta er sami Draghi og skrifaði Draghi-skýrsluna. Þar lýsti hann ESB föstu í reglubyrði, þunglamalegum ferlum og langt á eftir í kapphlaupinu um gervigreind og nýsköpun. Nú stígur hann skrefinu lengra og lýsir sambandinu áhrifalausu í núverandi mynd og kallar eftir skjótum viðbrögðum.

Á sama tíma tala íslenskir aðildarsinnar um "örugga framtíð" með Brussel. En Draghi sjálfur segir að eini möguleikinn til að halda lífi sé að breyta sambandinu í stórríki.

Spurningin er einföld: Viljum við verða hluti af ríkjasamsteypu sem þarf hjartastuð til að halda sér vakandi?


Forsætisráðherra gefur þjóðinni róandi

Forsætisráðherra fullyrðir í Morgunblaðinu í gær að hún "eyði ekki tíma í Evrópusambandið". Þetta hljómar eins og sagt til að róa þjóðina eftir atburði sumarsins. Hvort sem það er yfirlýsing um að fylgja utanríkisstefnu ESB og þar með þátttaka í refsiaðgerðum og hernaðarbrölti, samstarf í sjávarútvegsmálum (sem þó er líkast til dulmál sem eftir er að brjóta kóðann á), hótanir ESB um tolla í trássi við EES samninginn sem það þurfti að bakka með 18. ágúst sl., nú eða fundir með æðstu ráðamönnum sambandsins.

Það er heldur ekki bara tíminn sem fer í Brussel heldur líka peningarnir. Milljarðar úr ríkissjóði, sem enginn minntist á í fjármálaáætluninni í sumar. Milljarðar sem hefðu mátt fara í það aðhald sem fjármálaráðherrann boðar.

Hljóð og mynd fara einfaldlega ekki saman. Og þegar menn vakna upp af Brussel-óráðinu situr þjóðin eftir með timburmennina, líklega þó örðuvísi en eftir venjulega Menningarnótt á ágústkvöldi. Það verða timburmenn af reikningunum sem koma upp úr ferðatösku utanríkisráðherra á Saga Class.

Já, hér er boðið upp á róandi frá Stjórnarráðinu og hausverk frá Brussel.


Næsta síða »

Heimssýn

Heimssýn

hreyfing sjálfstæðissinna í Evrópumálum, eru þverpólitísk samtök þeirra sem telja hagsmunum Íslendinga best borgið með því að halda áfram að vera sjálfstæð þjóð utan Evrópusambandsins.

 

Sími 895 5334 (Haraldur Ólafsson, formaður)


Nánar um Heimssýn

Vertu með!

Frjáls framlög

Eldri færslur

Ágúst 2025
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (31.8.): 279
  • Sl. sólarhring: 293
  • Sl. viku: 2613
  • Frá upphafi: 1253535

Annað

  • Innlit í dag: 229
  • Innlit sl. viku: 2326
  • Gestir í dag: 214
  • IP-tölur í dag: 214

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband