Leita í fréttum mbl.is

Munu innfluttu skuldaviðmiðin hans Daða Más þrengja að íslenskum heimilum?

Reynslan frá Eystrasaltsríkjunum sýnir að þegar Brussel þrengir að, lendir höggið á heimilunum.

Með fjárlagafrumvarpi næsta árs hefur Daði Már Kristófersson dirfst að taka skref sem enginn fjármálaráðherra á Íslandi hefur áður tekið - að stilla skuldaviðmið íslenska ríkisins eftir leikreglum frá Brussel. Þetta er ekki formsatriði heldur pólitísk ákvörðun sem snertir hvert einasta heimili í landinu.

Skuldir og fjárlagahalli bitna alltaf á fólki. Þegar skuldir ríkissjóðs hlaðast upp vegna halla á rekstri ríkisins verður afleiðingin á endanum sú að kaupmáttur rýrnar, vextir hækka og útflutningur veikist. Þetta verður þá ekki spurning fyrirheit í fjárlögum heldur um buddu heimilanna: minni þjónustu, hærri skatta og lakari lífskjör.

Eystrasaltsríkin sýna hvað gerist í reynd. Eftir fjármálahrunið 2008 voru Lettland og Eistland knúin af ESB og Alþjóðagjaldeyrissjóðnum til að fylgja Maastricht-viðmiðunum. Það leiddi til þess að atvinnuleysi rauk upp í tveggja stafa tölur, fór yfir 20% í Lettlandi. Tugir skóla voru sameinaðir eða lagðir niður, kennarar misstu vinnuna og laun þeirra lækkuðu um tugi prósenta. Opinber þjónusta var skorin niður og laun opinberra starfsmanna lækkuð. Þetta var ekki kennslustund í bókhaldi frá Brussel heldur raunverulegt högg á venjulegt fólk.

Frá Kýpur og Möltu má greina sömu sögur. Eftir bankahrunið á Kýpur 2013 þurfti landið neyðarlán frá ESB og AGS. Þá var hluti af björgunaraðgerðunum að "skera niður" innistæður (svo kallað bail-in), lækka laun í opinbera geiranum og draga úr þjónustu til að halda ríkissjóði innan fjármálareglna frá Brussel. Á Möltu stendur ríkisstjórnin nú frammi fyrir þrýstingi um að minnka hallarekstur ríkissjóðs sem þýðir hærri skattar og skerðingar í litlu samfélagi.

Það sem virkar á stærri hagkerfi getur orðið óbærilegt fyrir lítil hagkerfi.
Eftir hrunið 2008 var ríkissjóður Íslands rekinn með miklum halla. En með tímabundinni skuldaaukningu var samfélaginu haldið gangandi. Hefðum við þá þurft að glíma samtímis við skuldaviðmið ESB hefði farið á annan veg. En vegna sveigjanleika okkar tókst Íslandi að komast fyrr út úr áfallinu og er því í sterkari stöðu nú en mörg smáríki ESB sem urðu að fylgja þessum stífu reglum.

Það er sjálfsagt að reka ríkissjóð af aga. En ef við hengjum okkur í skuldarammanna frá Brussel eru fjárlögin ekki lengur á forræði Alþingis. Þá verður þrengt að á forsendum annarra þegar áföll skella á – og áföll munu alltaf koma aftur rétt eins og svartir svanir.

Reikningurinn sem Daði Már undirritar lendir ekki í Brussel heldur á íslenskum heimilum og fyrirtækjum, birtur sem krafa í heimabankanum eða á launaseðlinum. Þetta eru því ekki innantóm orð á blaði heldur skuldbindingar sem þröngva Ísland nær aðlögun að ESB.


Lykilmaðurinn Daði Már

Formaður Viðreisnar hefur hvergi leynt trausti sínu á varaformann sinn, Daða Má Kristófersson. Hún færði honum eitt öflugasta ráðuneytið í ríkisstjórninni á silfurfati við ríkisstjórnarmyndunina og ekki verður betur séð en hann muni launa það ríkulega. Hann hefur nú tekið sér hlutverk lykilmanns í aðlögun Íslands að Evrópusambandinu, jafnvel í málum sem engum hefði dottið í hug að yrði borið niður í á þessu stigi aðildarferlisins, sem öllum má vera ljóst að er hafið á ný.

Í fjárlagafrumvarpi næsta árs miðar Daði Már skuldaviðmið Íslands ekki lengur við ákvæði laga um opinber fjármál heldur við viðmið Evrópusambandsins. Þau eru sett fyrir umsóknarríki í aðildarferli og eiga ekkert erindi inn í íslenskan rétt nema menn séu í raun að hefja aðlögun að ESB.

Á sama tíma hyggst hann breyta íslensku tollskránni þannig að túlkun Alþjóðatollastofnunarinnar (WCO) verði tekin upp þegar ESB krefst þess. Í nýlegu bréfi til ESA lýsir hann því beinlínis yfir að það sé stefna stjórnvalda hér. Þetta gerir hann þrátt fyrir að til þess standi ekki nokkur nauðsyn – og aðeins eru tvö ár síðan íslenskur fjármálaráðherra tilkynnti WCO að þetta væri ekki hægt í þessu tiltekna máli, í ljósi niðurstöðu íslenskra dómstóla. Með öðrum orðum: dómstólar segja eitt, en Brussel og Daði Már ætla að eiga síðasta orðið.

Þetta eru ekki tilviljanakennd smámál heldur mál sem sýna hvernig lykilráðherra Viðreisnar er að leggja grunninn að aðildarferli án þess að þjóðin hafi sagt sitt álit. Aðlögun fer fram bakdyramegin - í fjárlögum, í tollskrá, í skuldbindingum sem aldrei voru ræddar við kjósendur.

Það að leggja önnur viðmið til grundvallar við meðferð framkvæmdavalds en leiða af íslenskum lögum, heldur vinna í samræmi við viðmið erlends ríkjabandalags, er stranglega tiltekið í andstöðu við stjórnarskrá og er því þegar af þeirri ástæðu stjórnarskrárbrot.


Þorgerður ræður þó lofthelginni ennþá

Það er eitthvað undarlega huggulegt við það að vera smáríki í Evrópusambandinu. Huggulegt í þeim skilningi að ganga má að því vísu að það þýðir lítið að opna munninn. Það sparar tíma og gerir óþarft að dvelja við ranghugmyndir t.d. um að Ísland gæti haft raunveruleg áhrif á reglur sem eru sniðnar að járnbrautalestum milli Berlínar og Brussel - nema auðvitað ef þær kynnu að gilda um Borgarlínuna margumræddu.

Hjörtur J. Guðmundsson dró nýlega fram ummæli Cyrus Engerer, þingmanns Möltu, um að ESB skilji ekki veruleika fámennra eyríkja. Og það þarf varla að vera sérfræðingur í alþjóðastjórnmálum til að sjá að Engerer hefur rétt fyrir sér. Þegar Brussel ákveður að refsa fólki fyrir að fljúga en hvetja það þess í stað til að ferðast með lestum, þá er það sennilega gert í fullkominni trú á að heimurinn sé einn stór lestarlína. Eyjar? Afskekkt lönd? Það er eitthvað sem má setja í ferðamannabæklinga en ekki aðstæður þeirra í reglugerðir.

Atkvæðavægi eða að vera með í myndinni?

Ef Ísland yrði aðili að ESB yrðum við fámennasta ríkið í allri "fjölskyldunni". Og hvað myndi það þýða? Jú, við fengjum smá sneið af atkvæðakökunni - svona eins og þegar börnin fá plastdisk á kaffiboði með hálfum kleinuhring. Allir hinir fá tertusneið eða hið minnsta heilan kleinuhring.

Jaðarríki með sérþarfir (sem enginn nennir að ræða)

Það blasir við að ESB á erfitt með að skilja að jaðarríki hafi hagsmuni sem eru ekki alveg eins og í Berlín, París eða Róm. Ísland lifir ekki á lestaferðum og kolaverum heldur á flugi, fiski og þarf að kljást við veðursveiflur sem meginlandsbúar þyrftu að googla til að skilja. Það reyndu finnskir bændur vel þegar það var fyrst eftir heimsókn reglugerðasmiða frá Brussel sem þeir skildu að það er snjór og klaki yfir landbúnaðarlandi á veturna norður undir heimskautsbaug.

Stórasta lofthelgin

Íslensk aðild að ESB væri ekki annað en formfesting á því að landið okkar væri smáríki sem yrði "sett í skrúfuna" í Brussel. Þegar valkosturinn er að standa áfram sjálfstæð með lofthelgi svo víðáttumikla að við getum jafnvel sett "farbann" á ísraelska ráðherra, er með öllu óskiljanlegt að betri kostur sé að sitja yfir glasahringlinu hjá kommisjóninni sem á erfitt með að koma sér saman um jafn einfaldan hlut og hverjir mega ferðast um lofthelgina heima hjá sér.

Það getur Þorgerður þó ennþá.


Undan pilsfaldi forsætisráðherra

Þingflokksformenn eru lykil samstarfsmenn flokksformanna sinna. Einn slíkur er Guðmundur Ari Sigurjónsson, þingflokksformaður Samfylkingarinnar. Fyrir rúmum tveimur vikum sagði hann í þættinum Spurnarmálum að aðildarspurningin og þjóðaratkvæðagreiðsla um hana yrðu ekki á dagskrá Alþingis í vetur. Þessi mál yrðu alls ekki rædd þar; fyrst ætti þjóðin að ræða þau (það þurfti ekki mikið ímyndunarafl til að sjá að jafnvel þingflokksformann Viðreisnar, sem var í sama þætti, rak í rogastans við þessi ummæli).

Það þarf engum að blandast hugur um að Guðmundur Ari talaði ekki af eigin frumkvæði þarna. Hann kom fram sem sendisveinn Kristrúnar Frostadóttur forsætisráðherra.

Ábyrgðarleysi eða klókindi?

Forsætisráðherra hefur tæpast áður sýnt jafn skýrt á spilin að hún ætli sér ekki sjálf að vaða forina í aðildarmálinu heldur senda aðra á undan. Þess vegna hefur hún engar athugasemdir gert né mun væntanlega gera við sporgöngu utanríkisráðherra í málinu. Hún gerir heldur engar athugasemdir við frumkvæði fjármálaráðherra um að taka fjármálaviðmið ESB upp í fjárlagafrumvarpinu sem nú liggur fyrir þinginu.

Sumum kann að virðast þetta vera veikleiki, jafnvel að með þessu sé hún að takast á við frumhlaup Viðreisnar en muni á endanum stöðva málið. En þetta er í reynd stjórntæki.

Með því að geyma málið í hliðarherbergi fær þjóðin engar raunverulegar upplýsingar um hvað stjórnvöld eru að gera eða hvert þau stefna, heldur lítur þetta allt út fyrir að vera óskipuleg sjálftaka í boði Viðreisnar.

En það er ekki forysta að "geyma" stærsta mál þjóðarinnar afsíðis og leyfa Viðreisn og fjölmiðlum að leiða umræðuna. Það er vanvirðing við kjósendur. Að halda umræðunni frá þingsölum Alþingis, hvort sem er af hentisemi eða pólitískum klækjum, er ekki að stýra - heldur flótti.


Dagur gengur um með hauspoka

Dagur B. Eggertsson játaði sl. föstudag í pallborði við kynningu á skýrslu samráðshóps utanríkisráðherra um inntak og áherslur stefnu Íslands í varnar- og öryggismálum, að "hrollur" hefði farið um hann þegar hann spurði yfirmann NATO hvort Ísland ætti að stofna her, því hann vissi ekki hvað hann hefði gert við svarið ef það hefði verið já.

Þarna sjáum við inn í kvikuna á sýndarmennskunni. Fólk sem ber ábyrgð á mótun og framkvæmd utanríkisstefnu Íslands valsar um lönd og álfur, spyr spurninga sem það veit að það gæti ekki tekist á við ef svörin færu á annan veg en óskað er undir niðri. Eitt af því sem gott uppeldi gengur út á er að kenna börnum að bjóða ekki upp á væntingar sem þau geta ekki staðið við.

Hér er nákvæmlega sama mynstrið og í umræðunni um skuldbindingu Íslands við utanríkis- og öryggisstefnu ESB. Þar er talað um "samræmingu" og "samráð", en þegar spurt er hvað það þýði í reynd, hverjir beri ábyrgð, hvaða skuldbindingar fylgi og hvert fullveldið fari, þá er þögnin allsráðandi.

Það er ekki utanríkisstefna að spyrja spurninga sem þú þorir ekki að heyra svarið við. Það er ekki forysta að setja spurningar út í bláinn - það er ábyrgðarleysi.


Þorgerður leggur þjóðaratkvæðagreiðslumálið til hliðar – af hentisemi einni saman

Staksteinum í gær var vitnað í orð utanríkisráðherra, Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur. Haft er eftir henni að hún hefði metið það svo, út frá eigin reynslu, að best væri að hafa aðildarspurninguna og þjóðaratkvæðagreiðslu um hana ekki á dagskrá Alþingis í vetur því hún myndi draga athyglina frá "fjölmörgum góðum málum" sem ríkisstjórnin vildi leggja fram.

En ef málið er svo stórt nú eða þá "gott" að það skyggir á allt annað er það ekki einmitt ástæðan til að ræða það og hafa á dagskrá? Ráðherrann lofar jafnframt FJÖLMIÐLUM að "örvænta eigi", málið muni koma fram síðar.

En þetta er ekki einkamál ráðherrans og fjölmiðlanna. Þetta er mál þjóðarinnar og umræða um það á heima á Alþingi. Ráðherrann og ríkisstjórnin með forsætisráðherra í fararbroddi geta ekki gefið þjóðinni langt nef með þessum hætti.

Að leggja málið til hliðar af hentisemi er ekki forysta. Það er afvegaleiðing.


Tiltekt, verðmætasköpun, einföldun og einangraður utanríkisráðherra

Ríkisstjórnin vill tiltekt, verðmætasköpun og einföldun á regluverki.

Ráðherra utanríkismála ætlar að leggja fram bókun 35.

Bókun 35 er ekki tiltekt, hún er óreiða.  Flókið samfélag er dýrt samfélag.  Bókin 35 flækir bætir nýrri forgangsreglu í stjórnkerfið og dregur með því úr verðmætasköpun.  Bókun 35 er allt annað en einföldun á regluverki.  Bókun 35 færir vald til ókjörinna og vandalausra manna í útlöndum.

Bókun 35 gengur þess utan gegn stjórnarskrá og meirihluti þjóðarinnar er andsnúinn henni.

Getur verið að utanríkisráðherra hafi verið í einangrun?

 

  


Besta fyrirkomulagið

Öðru hvoru berast fréttir af því að Ísland sé best í heimi í einhverju.  

Það er vitaskuld gaman að fréttum af þessu tagi og þá má lengi velta fyrir sér hvernig og hvers vegna samfélög manna eru eins misjöfn og raun ber vitni. 

Í viðhengdri frétt segir frá því að Ísland sé friðsælast í heiminum. Sé það rétt, er líklega eitthvað rétt gert á Íslandi.  Með því er ekki sagt að ekki sé hægt að gera enn betur.

Getur verið að það sé ekki svo slæmt fyrirkomulag, að Íslendingar stjórni sér sjálfir?

Heldur einhver í alvöru að það sé hægt að gera betur með því að afhenda vandalausum völdin í landinu?

https://www.visir.is/g/20252769055d/island-enn-fridsaelast-i-sifellt-versnandi-heimi


Næsta síða »

Heimssýn

Heimssýn

hreyfing sjálfstæðissinna í Evrópumálum, eru þverpólitísk samtök þeirra sem telja hagsmunum Íslendinga best borgið með því að halda áfram að vera sjálfstæð þjóð utan Evrópusambandsins.

 

Sími 895 5334 (Haraldur Ólafsson, formaður)


Nánar um Heimssýn

Vertu með!

Frjáls framlög

Eldri færslur

Sept. 2025
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (17.9.): 335
  • Sl. sólarhring: 375
  • Sl. viku: 2907
  • Frá upphafi: 1259485

Annað

  • Innlit í dag: 323
  • Innlit sl. viku: 2685
  • Gestir í dag: 308
  • IP-tölur í dag: 305

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband