Leita í fréttum mbl.is

Aðeins 18,6% Norðmanna vilja í ESB

Stuðningur við aðild að Evrópusambandinu hefur aldrei mælst minni í Noregi. Samkvæmt nýrri skoðanakönnun vilja aðeins 18, 6 prósent Norðmanna aðild að Evrópusambandinu en 70,8 prósentu eru á móti og rúm tíu prósent óákveðin.

Í sex og hálft ár hafa mælingar sýnt meirihluta Norðmanna á móti aðild.

Norðmenn hafa í tvígang fellt aðildarsamning í þjóðaratkvæðagreiðslu, árin 1972 og 1994.


50% afsláttur til Grikkja,hvað með Spán, Írland og Portúgal?

,,Sjálfviljug" afskrift banka á 50 prósent af ríkisskuldum Grikkja er krafa Evrópusambandsins sem annars hótar að setja Grikki í gjaldþrot - og þá fá bankarnir ekki neitt. Fyrir utan þá ömurlegu aðstöðu sem Grikkland er í, að vera leiksoppur í slagsmálum stórvelda við fjármálamarkaði, vaknar sú spurning hvað verður um ríkisskuldir annarra stórskuldugra evru-ríkja.

Afskriftir á ríkisskuldum Grikkja undir forræði Evrópusambandsins skapar fordæmi fyrir önnur evru-ríki með óviðráðanlegar skuldir.

Neyðarfundur evru-ríkja á miðvikudag verður kannski helst sögulegur fyrir að búa til ný vandamál.

 


mbl.is Bankar gefi Grikkjum 50% afslátt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lýðræðishalli: 29% flokkur stjórnar ESB-leiðangrinum

Jóhanna Sigurðardóttir er formaður í flokki sem fékk rúm 29 prósent atkvæðanna í síðustu alþingiskosningum. Í landsfundarræðu í gær viðurkennir Jóhanna að án svika Vinstri grænna við kjósendur sína og stefnuskrá hefði umsóknin um aðild að Evrópusambandinu aldrei verið send til Brussel. Jóhanna sagði

Við skulum líka átta okkur á því að þrátt fyrir andstöðu innann VG við aðild að ESB hefði aðildarumsókn um ESB ekki orðið að veruleika, nema á grundvelli þessa stjórnarsamstarfs. Af yfirlýsingum forystumanna Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks blasir við að umsóknin yrði dregin  til baka kæmust þeir aftur til valda.

Þegar það liggur fyrir að stjórnmálaflokkar með 60 prósent fylgi í síðustu kosningum eru andvígir því að Ísland verði aðili að Evrópusambandinu er það ekki beinlínis lýðræðislegt að einangruð Samfylking ráði ferðinni og haldi umsóknarferlinu  áfram.


mbl.is Jóhanna ein í formannskjöri
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Füle: Ísland ekki með samningsmarkmið í sjávarútvegsmálum

Í viðtali við Fréttablaðið segir Stefan Füle, stækkunarstjóri Evrópusambandsins, að samninganefnd Íslands hafi ekki enn sett fram samningsmarkmið í sjávarútvegsmálum. Füle segir að sjávarútvegsmál verði að leysa innan lagaramma ESB sem kveður á um að framkvæmdastjórnin í Brussel fá óskoruð yfirráð yfir landhelgi Íslands.

Björn Bjarnason skrifar á Evrópuvaktinni:

Allt er á huldu um hvenær viðkvæmustu málin í aðildarviðræðum fulltrúa Íslands og ESB verða tekin til umræðu. Af fréttum um fundi með stækkunarstjóra ESB í Reykjavík 19. og 20. október er ljóst að það er lagt í mat framkvæmdastjórnar ESB að ákveða hvenær viðræður hefjast um landbúnað og sjávarútveg. ESB vill ekki að það sé gert fyrr en betur hafi verið búið í haginn fyrir aðild með áróðri gagnvart almenningi á Íslandi.

...og Evrópusambandið mun opna ,,upplýsingaskrifstofu" hér á landi innan fárra vikna.


Koníaksaðferðin

Það er fróðleg umfjöllun í norska dagblaðinu Dagens Næringsliv um stöðu evrunnar og ESB. Dálkahöfundurinn Kjetil Wiedswang skrifar þar nýlega pistil sem hann kallar koníaksaðferðina. Þar lýsir hann því hvernig hugmyndir koníakssölumannsins og sendifulltrúans Jean Monnets (1888-1979), sem gat sér gott orð í frönsku viðskipta- og stjórnmálalífi, hafi lagt grunn að skrifræði Evrópusambandsins en um leið girt fyrir áframhaldandi möguleika evrunnar þar sem hún þurfi annars konar umhverfi og vinnubrögð en skrifræðisstofnanir sambandsins geta veitt.

Aðferð koníakssalans Monnets, sem fylgt hefur verið í mörgum málum í ESB, var að pakka ákvörðunum saman í það sem Wiedswang kallar teknokrati og byrokrati (tækniræði og skrifræði), láta síðan stjórnmálamenn taka ákvörðun um eitthvað sem þeir hafa ekki fullan skilning á, hvað þá kjósendur þeirra. Eftir stuttan tíma verður slík ákvörðun orðin viðbót í evrópsku stjórnarbygginguna, þ.e. ef enginn mótmælir hressilega, og þá er hægt að endurtaka leikinn og halda áfram, koll af kolli. Á ákveðnum tímapunkti verður stjórnarbyggingin orðin svo umfangsmikil að það verður ekki aftur snúið.

Monnet vildi frið og frjálsa verslun í Evrópu og notar til þess það sem Wiedswang kallar franska skrifræðismenningu (Monnet átti samstarf við franska utanríkisráðherrann Schuman og framlag þeirra er þekkt sem Schuman-áætlunin). Það má segja að honum hafi tekist vel upp á fyrri stigum, en þegar kom að evrunni gilti allt annað.  Aðferð Monnets, koníaksaðferðin, tekur tíma. Hana verður að taka í smáum og hægum skrefum, líkt og þegar dreypt er á koníaki. Evran, gjaldeyrismarkaðir og aðrir markaðir, krefst hins vegar skjótari lausna.  Þar er það spurning um klukkustundir eða daga, ekki mánuði eða fleiri ár eins og reynst hefur með yfirstandandi kreppuviðbrögð Evrópusambandsins.  Sambandið getur ekki tekist á við skammtímavandamál á sviði efnahagsstjórnar.  Það og sú staðreynd að evrusvæðið hefur ekki reynst hagkvæmt gjaldmiðilssvæði hlýtur að fela í sér ófyrirséðar og miklar breytingar á núverandi stöðu ESB og evrunnar svo vitnað sé til annars Norðmanns í sama blaði, Victors Normans, prófessors í þjóðhagfræði við Norges Handelshöyskole.

Bretar hafa oft gagnrýnt frönsku koníaksaðferðina, Norðmenn hafa hafnað henni í tvígang og Svíar og Danir og fleiri hafa spyrnt við fótum. Miðevrópska embættismannaelítan með rætur í Brussel, París og víðar þráast hins vegar við. Spurningin er bara hvort þeim tekst að bjarga evrunni. Hvort sem það tekst eða ekki er ljóst að kerfisgallar í evrusamstarfinu þar sem ríki hafa á síðustu árum færst hvert í sína áttina,  - þar sem Þýskaland hefur unnið hvern slaginn á fætur öðrum í viðskiptum en jaðarríkin á borð við Ítalíu og Grikkland orðið að lúta í lægra haldi og safnað skuldum -, að þessir kerfisgallar munu hafa mjög alvarlegar afleiðingar fyrir íbúa í Evrópu, og  jafnvel víðar ef kreppan dreifist til annarra heimshluta. Það væri óskandi að þessum hremmingum færi að ljúka, en það sem við sjáum í Grikklandi í dag er líklega bara forsmekkurinn að því sem á eftir að koma í ljós.

Evran tapar stuðningi Delors

Hann er kallaður faðir Evrópusambandsins og ekki að ástæðulausu. Jacques Delors var forseti framkvæmdastjórnarinnar 1985-1995. Í hans valdatíð var Maastricht samningurinn saminn; EBE lagt niður og ESB stofnað,  innri markaðurinn varð til, fjórfrelsið, Schengen undirritaður og tólf-stjörnu fáninn tekinn upp, svo sumt af því helst sé nefnt. Og svo auðvitað evran.

 Gefur ESB falleinkunn

Delores varð fyrsti forseti framkvæmdastjórnar ESB, þegar það kom í stað gamla Efnahagsbandalagsins í nóvember 1993. Enginn hefur efast um stuðning Delors við „Evrópuverkefnið", en nú er hann sjálfur farinn að efast. Svo mjög að hann gefur stjórnendum ESB falleinkunn, segir þá skorta bæði ráð og framtak. Þeir ráða ekki við verkefnið. Hann vill bjarga ríkjum undan evrunni og segir Evruland standa á hengiflugi.

Frelsum ríki undan evrunni

Delores vill að samningum sé breytt þannig að ríki geti komist út úr myntsamstarfinu, losað sig við evruna og tekið aftur upp alvöru gjaldmiðil. Grikkir setja hugmyndir Delors í dramatískan búning, að þær gangi út á að reka ríki úr evrunni. Hugmyndir föður ESB eru um leið aðvörun til annarra jaðarríkja um að vaða ekki út í evrusvaðið.

Íslenskir kratar í eigin heimi

Á meðan halda íslenskir kratar áfram að telja sjálfum sér trú um dásemdir Sambandsríkisins ESB, eins og þeir séu ekki í neinu sambandi við umheiminn og veruleikann. Árni Páll lætur ekkert tækifæri ónotað til að tala niður krónuna og dásama evruna, sem nú ógnar efnahagslífi alls heimsins. Ótrúlegt!

(Tekið héðan.)


Björn Bjarnason talar okkar máli í Brussel

Björn Bjarnason fyrrverandi dómsmálaráðherra er í Brussel þessa dagana að kynna málstað andstæðinga aðildar Íslands að Evrópusambandinu. Í viðræðum Björn við embættismenn Evrópusambandsins kemur fram að veikt umboð ríkisstjórnarinnar til að semja við Evrópusambandið hamlar framgangi aðlögunarviðræðnanna, svo að nærri lætur að þær stöðvist. Alþingi hefur ekki veitt heimild til utanríkisráðherra að aðlaga Ísland laga- og regluverki Evrópusambandsins. En eina leiðin inn í sambandið er leið aðlögunar.

 Björn skrifar

Augljóst er að utanríkisráðherra Íslands hefur áhuga á að fundin sé leið til þess að hindra stöðvun viðræðna við Íslendinga vegna þess að þeir standist ekki aðlögunarkörfurnar. Í þessu augnamiði hafa viðræðunefndir Íslands og ESB komið sér saman um aðferðafræði sem dugar í senn til að friða þá innan ríkisstjórnar Íslands sem segjast andvígir aðlögun og gerir ESB kleift að segja að reglur þess séu ekki brotnar.

Eins og áður segir eru því takmörk sett hve langt er unnt að ganga í þessu efni af hálfu ESB. Takmörkin byggjast bæði á efnislegri hlið málsins en ekki síður á tímamörkum. Knýi Íslendingar á um að hraða viðræðunum þrengist svigrúmið til að krefjast ekki aðlögunar.

Þegar um þetta er rætt við sérfróða menn í Brussel er augljóst að þeir átta sig á því að hér eru menn á þunnum ís. Þá verður jafnframt sífellt skýrara eftir því sem lengra miðar í viðræðunum að í þessum efni ríkir ákveðin tvöfeldni sem samrýmist ekki kröfunum um gegnsæi.

Björn Bjarnason er trúverðugri fulltrú íslensku þjóðarinnar en sitjandi utanríkisráðherra. Þegar embættismenn í Brussel heyra um sterka andstöðu á Íslandi við inngöngu landsins í Evrópusambandið beint frá margreyndum stjórnmálamanni leggja þeir minni trúnað á samfylkingarspunann frá Össuri Skarphéðinssyni.


Össur og leikhús fáránleikans

Evrópusambandið krefst aðlögunar umsóknarríkja að reglum og lögum sambandsins og að það gerist í umsóknarferlinu. Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra er ekki með heimild frá alþingi að aðlaga íslenskt stjórnkerfi Evrópusambandinu. Í stað þess að viðurkenna staðreyndir og annað tveggja draga umsóknina tilbaka eða fá nýtt umboð frá alþingi þverskallast Össur og gerir í leiðinni starfsmenn utanríkisráðuneytisins að kjánum.

Eftirfarandi er úr frétt RÚV

ESB telur Ísland hins vegar ekki í stakk búið að hefja viðræður um byggðamál og vill tímasetta áætlun um innleiðingu byggðastefnu sambandsins áður en viðræður hefjast. Við þessu verður brugðist, segir Stefán Haukur. Það þurfi einfaldlega að fara í greiningarvinnu og setja fram tímasettar áætlanir um hvernig Íslendingar myndu setja upp þessa ferla og laga stjórnsýsluna að þeim skyldum sem þurfi að undirgangast og til þess að geta notið þess ávinnings sem felist í aðild á þessu sviði þannig að Íslendingar verði tilbúnir á fyrsta degi aðildar.

Dagsettar áætlanir um upptök regluverks ESB eftir inngöngu eru óhugsandi án þess að inngöngudagur liggi fyrir. Og inngöngudagur liggur ekki fyrir vegna þess að dagsettar áætlanir eru ekki fyrir hendi.

Össur býður upp á leikhús fáránleikans með starfsmenn utanríkisráðuneytisins í helstu hlutverkum.

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Heimssýn

Heimssýn

hreyfing sjálfstæðissinna í Evrópumálum, eru þverpólitísk samtök þeirra sem telja hagsmunum Íslendinga best borgið með því að halda áfram að vera sjálfstæð þjóð utan Evrópusambandsins.

 

Sími 895 5334 (Haraldur Ólafsson, formaður)


Nánar um Heimssýn

Vertu með!

Frjáls framlög

Eldri færslur

Okt. 2011
S M Þ M F F L
            1
2 3 4 5 6 7 8
9 10 11 12 13 14 15
16 17 18 19 20 21 22
23 24 25 26 27 28 29
30 31          

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (8.7.): 23
  • Sl. sólarhring: 284
  • Sl. viku: 1573
  • Frá upphafi: 1234342

Annað

  • Innlit í dag: 16
  • Innlit sl. viku: 1310
  • Gestir í dag: 15
  • IP-tölur í dag: 15

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband