Leita í fréttum mbl.is

Af hverju er ríkisútvarpið alltaf svona neikvætt?

evrAf hverjur er ríkisútvarpið alltaf svona neikvætt um þróunina á evrusvæðinu og í Evrópusambandinu þessa dagana? Svona spyrja sumir þeir sem hafa litið vonaraugum til ESB og evrunnar. Svarið er einfalt. Það er ekkert sérlega jákvætt að gerast á svæðinu og þess vegna flytur RUV okkur vondar fréttir þaðan.

Þannig sagði RUV frá í hádegisfréttum:

„Áfram er búist við miklu atvinnuleysi á evrusvæðinu á þessu ári og því næsta enda stefnir í að efnahagssamdrátturinn þar nemi 0,4% á árinu. Fjárlagahalli þriggja af fimm stærstu hagkerfum svæðsins verður umfram heimildir.

Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins birti í morgun hagspá sína og þótt hún sé kennd við vorið kveður þar við heldur kuldalegan tón. Í fyrsta lagi er búist við að efnahagssamdrátturinn verði meiri á þessu ári en búist var við, 0,4 prósent í stað 0,3 prósenta. Árið 2014 er búist við 1,2 prósenta hagvexti á evrusvæðinu en það er ekki talið nóg til að verulega dragi úr atvinnuleysi. Útlit er fyrir að tólf prósent vinnufærra manna verði án atvinnu í evruríkjunum á þessu ári.

Fjárlagahalli Ítalíu rétt innan marka

Athygli vekur að fjárlagahallinn í Frakklandi, Spáni og Hollandi, þremur af fimm stærstu hagkerfum evrusvæðisins, verður á þessu ári umfram þær heimildir sem ESB setur aðildarríkjunum, að hámarki þrjú prósent af landsframleiðslu. Ítalía er aftur á móti rétt innan þessara marka. Olli Rehn, efnahagsmálastjóri ESB, tilkynnti á blaðamannafundi í Brussel í morgun að Frakkar fengju tvö ár til viðbótar til að rétta þennan halla af, og kom sú yfirlýsing á óvart að mati dagblaðsins Financial Times.

Kýpverska hagkerfið dregst saman um 12,6%

Í hagspánni koma fram í fyrsta sinn útreikningar ESB á afleiðingum bankakreppunnar á Kýpur. Kýpverska hagkerfið dregst líklega saman um 8,7 prósent á þessu ári og 3,9 prósent á því næsta, samtals um 12,6 prósent. Grikkir geta aftur á móti vænst lítils háttar hagvaxtar árið 2014 eftir undangengin harðindaár.“


Evrukreppan er að ná til Danmerkur, Svíþjóðar og Hollands

„Fram að þessu hafa vandamál evruríkjanna fyrst og fremst verið við Miðjaðarhaf og á Írlandi. Grikkland, Spánn, Portúgal og Írland hafa þurft á neyðarlánum að halda og nú síðast Kýpur. Þó ber að taka fram að aðstoðin við Spán snýr til þessa eingöngu að spænskum bönkum.“

Svo segir Styrmir Gunnarsson á vef Evrópuvaktarinnar.

Hann segir ennfremur:

„Nú eru vaxandi umræður um að Ítalía eigi eftir að lenda í sömu stöðu og verði að leita neyðarláns og er bandaríska matsfyrirtækið Moody´s í hópi þeirra, sem það hafa sagt opinberlega. Jafnframt eru vaxandi áhyggur af efnahagslegri stöðu Frakklands.

En það sem þó vekur mesta athygli þessa dagana er að vandamálin eru að leita enn norðar en til Frakklands. Í gær á 1. maí var aðsúgur gerður að Helle Thorning-Schmidt, forsætisráðherra Danmerkur, þegar hún hugðist halda ræðu í tilefni af hátíðisdegi verkalýðsins, Forsætisráðherrann, sem jafnframt er leiðtogi danskra jafnaðarmanna varð að hætta við flutning ræðunnar vegna mótmæla, sem að henni beindust. Sú reiði, sem þarna braust fram beindist ekki bara að forsætisráðherranum heldur líka að öðrum fulltrúum ríkisstjórnarinnar, sem töluðu eða ætluðu að tala á 1. maí.

Þessi viðbrögð almennings hafa að vonum vakið mikla athygli í Danmörku og benda til þess að ekki sé allt með felldu í dönsku þjóðlífi. Evrukreppan sé líka farin að láta finna fyrir sér þar.

Hingað til hefur verið litið á Holland í sama flokki efnahagslega og Þýzkaland. Nú er upplýst í Daily Telegraph að svo er ekki og fullyrðir blaðið að Holland sé komið nálægt því að falla í svipaða kreppu skuldsetningar og verðhjöðnunar og hrjáð hefur Japan í tvo áratugi. Þetta þýðir að það er heldur ekki allt með felldu hjá Hollendingum og rétt að halda því til haga að bæði Danir og Hollendingar töluðu niður til Íslendinga haustið 2008.

Í fréttum Evrópuvaktarinnar í dag kemur fram, að þegar námufyrirtæki í Norður-Svíþjóð auglýsti 400 störf laus sóttu hvorki meira né mina en 22 þúsund manns um þau störf. Í ljós kemur að atvinnuleysi í Svíþjóð er komið í 8,8% sem þýðir að nær hálf milljón Svía er án atvinnu. Jafnvel í því mikla velmegunarríki Svíþjóð er nú svo komið að evrukreppan og fjármálakreppan í heild teygir anga sína þangað.

Evrukreppan er ekki lengur staðbundið vandamál Miðjarðarhafsríkjanna og Írlands. Hún er að breiðast út um allt evrusvæðið og til ESB-ríkja, sem ekki hafa tekið upp evru.

Það er gott fyrir Ísland að Samfylkingin mun ekki öllu lengur ráða ríkjum í utanríkisráðuneytinu.“


Evrusóttin breiðist út í Slóveníu

Moody's lánshæfismatsfyrirtækið staðfestir hér aðeins það mat sem áður hefur komið fram: Evrusóttin breiðist enn út á nýjum svæðum, og þótt hámarki hafi verið náð í öðrum löndum reynist sóttin þar einnig lífseig, því vírusinn - sem sagt evran - er enn til staðar í nægum mæli.


mbl.is Slóvenía í ruslflokk
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

ESB-daðri ASÍ-forystunnar mótmælt

esbneitakkFjölmargir andstæðingar aðildar Íslands að ESB tóku þátt í kröfugöngu verkalýðsfélaganna í dag og minntu þar með á þá ógn sem ESB-aðild gæti orðið fyrir íslenskt verkafólk. Atvinnuleysi hefur aukist samfleytt í 23 mánuði á evrusvæðinu. Tugþúsundir atvinnulausra bætast við í hverjum mánuði og heildarfjöldi atvinnulausra skiptir orðið tugum milljóna. Að meðaltali er atvinnuleysið á ESB svæðinu rúmlega 12 prósent, en mest á jaðarsvæðunum eins og í Grikklandi og á Spáni þar sem það er farið að nálgast 30 prósent.

Það fór því vel á því að eitt af kjörorðum verkalýðsfélaganna í dag var atvinna, því án atvinnu verður hvorki velferð né kaupmáttaraukning.

ESB-andstæðingar stóðu sig vel í göngunni og minntu ASÍ-forystuna á að Íslendingar vilja ekki innleiða evrópskt atvinnuleysi.

neiesbkrofuganga


mbl.is Mótmæltu hugsanlegri ESB-aðild
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Til hamingju, verkafólk!

Það er ástæða til þess að óska íslensku verkafólki til hamingju með daginn. Það er að rofa til í atvinnu- og efnahagsmálum. Atvinna vex og atvinnuleysi minnkar, kaupmáttur eykst og velferð batnar. Meira að segja forysta ASÍ áttar sig á stöðu mála og er hætt að líta til ESB sem fyrirmyndar.


Yfirskrift dagsins hjá Alþýðusambandinu er Kaupmáttur, atvinna, velferð. Miðað við skrif forseta ASÍ í tímaritinu Vinnunni í dag hefði röðin þó átt að vera Atvinna, velferð, kaupmáttur. Atvinna er jú algjör forsenda bæði velferðar og kaupmáttar. Þess vegna er mikilvægt að halda áfram að auka atvinnu hér á landi og draga áfram úr atvinnuleysi. Enn eru um tíu þúsund manns án atvinnu, um 6% vinnuafls, og þar af hefur um helmingur verið atvinnulaus lengur en í tvo mánuði samkvæmt upplýsingum Hagstofunnar.

Í samanburði við evrulöndin er atvinnuleysið fremur lítið hér á landi. Í ESB er atvinnuleysið að jafnaði um 12%, en nálgast óðfluga 30% á Spáni og Grikklandi þar sem um eða yfir helmingur ungs fólks er án atvinnu. Atvinnuleysi hefur aukist samfellt í 23 mánuði á evrusvæðinu og í þar síðasta mánuði einum bættust 62 þúsund manns á atvinnuleysisskrá á svæðinu.

Atvinna er forsenda velferðar

Atvinna er almenn forsenda velferðar og góðs kaupmáttar. Hverjar skyldu þá afleiðingar atvinnuleysis vera á velferð fólks. Það er almennt talað um þrenns konar afleiðingar atvinnuleysis á velferð fólks, og eru afleiðingarnar að jafnaði alvarlegri eftir því sem fólk er lengur án atvinnu.

Í fyrsta lagi eru það hinar fjárhagslegu afleiðingar, þ.e. kaupmátturinn hrapar í flestum tilvikum, lífskjörin versna og fólk getur oft ekki staðið undir útgjöldum vegna húsnæðis og fleiri þarfa.

Í öðru lagi eru það félagsleg áhrif, því tengsl atvinnulausra breytast, ekki aðeins við vinnufélaga, heldur einnig við fjölskyldu og vini. Atvinnulausir eiga það á hættu að einangrast. Hitt hefur þó einnig gerst, t.d. í niðurskurðinum í evrulöndunum, að álag á hluta kvenna hefur aukist þar sem þær þurfa ekki aðeins að búa við atvinnumissi heldur þurfa þær einnig að sinna öldruðum og sjúkum ættingjum sem hið opinbera telur sig ekki lengur fært að sinna.

Í þriðja lagi má greina áþreifanleg heilsufarsleg vandamál sem fylgja atvinnuleysi. Það getur verið sálrænt áfall fyrir marga að  missa vinnuna og það hefur sýnt sig að atvinnulausir eiga fremur á hættu að fá ýmsa líkamlega kvilla og að búa við örorku.

Í ljósi þessa er ánægjulegt að forysta Alþýðusambands Íslands skuli nú leggja aukna áherslu á atvinnu. Reyndar hlýtur almenn og góð velferð að vera markmið samtaka fólks á vinnumarkaði, en aukin og  bætt velferð er einnig óbeint markmið allrar efnahagsstarfsemi, í raun allrar starfsemi mannsins ef út í það er farið.

Aukin velferð samfara sjálfstæðum gjaldmiðli

Síðustu hundrað árin eða svo hefur velferð eins og hún er almennt mæld aukist gífurlega á Íslandi. Við þar síðustu aldamót vorum við eitt fátækasta ríki Evrópu, en eftir að við tókum upp eigin myntskráningu krónunnar urðum við, þess vegna og vegna fleiri þátta, smám saman í hópi þeirra ríkja í heiminum þar sem velmegun hefur verið hvað mest á marga mælikvarða. Þjóðartekjur á mann hafa þannig verið með því sem hæst gerist.

Eftir hrunið hefur atvinna, tekjur og kaupmáttur aukist á ný hér á landi. Evrulöndin búa hins vegar nú við viðvarandi og langan samdrátt sem dregur úr atvinnu, tekjum, kaupmætti og velferð. Það er ekki hvað síst vegna þess hvaða áhrif evrusamstarfið hefur á efnahag evrulandanna að svo er komið. Þau eru læst í gengissamstarfi og fyrir vikið safna Þjóðverjar og fáeinar aðrar þjóðir eignum á meðan jaðarþjóðirnar, einkum í suðri, safna skuldum og lífskjör versna.

Það er gott að ASÍ-forystan virðist vera farin að átta sig á þessu og að við verðum að búa við okkar sjálfstæðu efnahagsstefnu með eigin gjaldmiðil, því þannig getum við betur unnið okkur út úr vandanum til lengdar á okkar eigin forsendum.

Til hamingju með daginn, verkafólk!

 

 

Til viðmiðunar: Atvinnuleysi í ESB:

atvinnuleysiapr2013


Verkalýðsstéttin rís upp gegn ESB

Helsta krafa verkafólksins í Grikklandi á alþjóðlegum baráttudegi verkalýðs beinist gegn ESB. Grikkir telja aðgerðir sem boðaðar eru vegna kröfu ESB grafa undan lífskjörum í Grikklandi, eins og frétt mbl.is ber með sér.

Frá upphafi verkalýðsbaráttunnar hefur hún tekið á sig ýmsar myndir og andstæðingurinn verið í margs konar líki.

ESB er nú höfuðóvinur verkalýðsins.


mbl.is Allsherjarverkfall í Grikklandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða

Heimssýn

Heimssýn

hreyfing sjálfstæðissinna í Evrópumálum, eru þverpólitísk samtök þeirra sem telja hagsmunum Íslendinga best borgið með því að halda áfram að vera sjálfstæð þjóð utan Evrópusambandsins.

 

Sími 895 5334 (Haraldur Ólafsson, formaður)


Nánar um Heimssýn

Vertu með!

Frjáls framlög

Eldri færslur

Maí 2013
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (1.7.): 16
  • Sl. sólarhring: 192
  • Sl. viku: 766
  • Frá upphafi: 1232712

Annað

  • Innlit í dag: 12
  • Innlit sl. viku: 663
  • Gestir í dag: 12
  • IP-tölur í dag: 12

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband