Miðvikudagur, 30. júlí 2025
Bara ef Úrsúla réði á Íslandi
Úrsúla von der Leyan og Donald Trump hafa samið. Engar fréttir eru um að Úrsúla hafi haft ríkisstjórn Möltu með í ráðum, enda vita allir að þannig var það ekki.
Evrópusambandsliðið ætlar að fjárfesta í BNA og kaupa meira þaðan. Talað er sérstaklega um orku og vopn. Það rímar ágætlega við að sambandið ætlar að taka himinhátt lán til að kaupa hergögn.
Í staðinn lækka tollar á vörur frá Evrópu, þó ekki niður í þá prósentu sem gildir fyrir Ísland.
Ef Íslendingar væru í þessu samkvæmi fengju þeir að borga himinháar upphæðir fyrir vörur sem þeir þurfa ekki og fá að launum mun verri viðskiptakjör en þeir hafa í dag.
Alltaf verður skrýtnara og skrýtnara að nokkur maður á Íslandi skuli vilja Ísland inn í Evrópusambandið.
Sunnudagur, 27. júlí 2025
Gulli neglir
Ástæða er til að vekja athygli lesenda á viðtali Arnþrúðar Karlsdóttur við Guðlaug Þór Þórðarson á Útvarpi sögu.
Guðlaugur Þór fer yfir nokkur mikilvæg atriði sem hvert um sig ætti að duga til að allar hugmyndir um innlimun Íslands í Evrópusambandið hyrfu úr umræðunni. Guðlaugur Þór segir, sem er, að Evrópusambandið sé í raun samband embættis- og stjórnmálamanna. Það skýrir líklega að miklu leyti hversu vinsælt sambandið hjá þeim sömu stéttum, en óvinsælt meðal almennings. Almenningur borgar nefnilega.
Eftir sem áður er stærsta atriðið líklega að aðild að Evrópusambandinu er stórfelld tilfærsla á valdi frá kjörnum fulltrúum til embættismanna í útlöndum sem þurfa ekki að útskýra neitt fyrir kjósendum, því embættismennirnir verða ekki kosnir burt.
https://utvarpsaga.is/gudlaugur-thor-loford-um-betri-efnahag-innan-esb-byggist-a-blekkingum/
Laugardagur, 26. júlí 2025
Út fyrir ramma skynsemi og raunsæis
Evrópusambandið á í blóðugu stríði við Rússa. Búið er að drepa eða limlesta á aðra milljón manna og ekki sér fyrir endann á hildarleiknum.
Evrópusambandið hefur tekið við stríðsrekstri sem BNA hafa að mestu gefist upp á, og hafa þau að matri sumra skipt um lið. Evrópusambandið vill gefa í, með gamla liðinu.
Evrópusambandið á í tollastríði við BNA, þau sömu Bandaríki sem eru langvoldugasta herveldi heims sem telur Ísland á sínu áhrifasvæði og er með sérstakan samning við Ísland sem mótast af þeirri staðreynd.
Við þessar aðstæður dettur forsætis- og utanríkisráðherra í hug að "öryggi" og "vörnum" Íslands sé svo ábótavant að nauðsynlegt sé að semja um eitthvað við ESB i þeim málum. Lengra út fyrir ramma skynsemi og raunsæis verður varla komist.
Föstudagur, 25. júlí 2025
Óheilindi í stjórnmálum
Ýmis undarlegheit hafa átt sér stað í samskiptum Íslands og Evrópusambandsins að undanförnu. Allt bendir það til þess að ætlunin sé að koma Íslandi í sambandið með hraði, án þess að vitræn umræða eigi sér stað um málið.
Það gefur tilefni til að rifja upp stefnu stjórnarflokkanna fyrir síðustu kosningar.
Flokkur fólksins var spurður eftirfarandi spurningar:
Mun flokkurinn á næsta kjörtímabili styðja það að tekin verði skref í áttina að inngöngu í Evrópusambandið, til dæmis með þjóðaratkvæðagreiðslu um hvort sótt verði á ný um aðild að sambandinu?
Svar Flokks fólksins: Nei.
Samfylkingin setti Evrópuaðild meðvitað á ís og uppskar við það verulega fylgisaukningu.
Viðreisn talaði í sífellu um Evrópusambandsaðild og var með lítið fylgi í könnunum. Flokkurinn tónaði Evrópumál niður fyrir kosningar og lagði þess í stað aðrar áherslur, m.a. á geðheilbrigðismál. Það skilaði sér í verulegri fylgisaukningu.
Hefði ekki verið heiðarlegra að segja fyrir kosningar að viðkomandi flokkur vildi gera allt sem í hans valdi stæði til að flytja stjórnavaldið til Evrópusambandsins, ef það var í raun ætlunin?
Fimmtudagur, 24. júlí 2025
Flugbraut handa Von der Leyen
Evrópuþjóðir hafa lengi horft til Íslands sem lykillands í norðri. Áhugi þeirra birtist nú í gegnum Evrópusambandið, sem vill tryggja sér ítök á norðurslóðum. Í því samhengi lítur það til Íslands. Ekki sem lítils ríkis sem sækir um aðild, heldur sem flugbrautar til norðurs: lykillands á mörkum Norður-Atlantshafsins og Norður-Íshafsins.
Hagsmunakort Evrópusambandsins
Öllum er ljóst að þegar siglingaleiðir um Norður-Íshafið styttast til Asíu, eykst mikilvægi Íslands sem brúar milli Evrópu og Norður-Ameríku. Þegar kemur að öryggis- og varnarmálum í norðri, gegnir landfræðileg staða Íslands lykilstöðu fyrir aðgerðir, viðveru og áhrif. Og þegar ESB þarf orku, hráefni og flutningsleiðir sem liggja ekki í gegnum pólitísk óróa svæði, þá skiptir Ísland með sína lögsögu og auðlindir meira máli en margur vill viðurkenna.
Séð í þessu ljósi snýst áhugi ESB á því að halda „umsókn Íslands“ lifandi ekki um lýðræðislegan vilja íslensku þjóðarinnar heldur um áhrif. Ísland er þar ekki þátttakandi í viðræðum heldur hluti af stærri heildarsýn, þar sem hagsmunir annarra ráða för.
Hvað stendur til?
Að öllu jöfnu koma aðilar að viðræðum um samskipti þjóða fram á jafningjagrunni. En þegar Brussel er farið að segja okkur til um hvort tiltekið ferli hafi verið stöðvað eða ekki, er hlutunum snúið á hvolf og íslenskir hagsmunir settir til hliðar. Þetta var aldrei né verður neitt samtal.
Styrkleiki ESB er hins vegar augljós. Þar á bæ hafa menn lært landafræði og gera sér grein fyrir því hvar þarf að tryggja áhrif til framtíðar. Kannski snýst þetta bara um staðsetningu. Og kannski ætti þjóð sem á sjálfa sig að gera sér grein fyrir því, áður en hún lætur „kaupa sig“ inn á flugstjórnarsvæði sem hún fær hvorki að stjórna né koma með eigin hagsmuni að borðinu.
Þegar öllu er á botninn hvolft snýst þetta allt kannske mest um GPS punkta og landafræði.
Við erum ekki að tala um framtíðarsýn Íslands, heldur hvernig Ísland smellpassar á hagsmunakort annarra.
Miðvikudagur, 23. júlí 2025
Árið er ekki 2009!
Í umræðum um ESB og mögulega aðild Íslands sést iðulega gripið til þess að vísa í þingsályktun sem Alþingi samþykkti árið 2009 (á 136. löggjafarþingi) um að sækja um aðild að ESB. Sú vísun þjónar því hlutverki að reyna að réttlæta núverandi nálgun ríkisstjórnarinnar í samskiptum við ESB.
Þingsályktun er ekki lög samþykkt í þremur umræðum sem er send forseta til undirritunar sem lög frá Alþingi heldur er þingsályktun viljayfirlýsing Alþingis á ákveðnum tímapunkti samþykkt við tvær umræður. Hún skuldbindur hvorki framtíðarþing né ríkisstjórnir til að fara nákvæmlega sömu leið, m.ö.o. er ekki lagalega skuldbindandi.
Frá og með árinu 2009 hafa farið fram sex þingkosningar og fimm ríkisstjórnir setið, hver með sínar áherslur og stefnu. Umheimurinn hefur breyst og Ísland með. Samt er því haldið fram að sextán ára gömul viljayfirlýsing gildi enn líkt og hún hafi lagalegt gildi.
Leikrit eða stjórnskipuleg villa?
Í kjölfar fundar utanríkismálanefndar Alþingis með utanríkisráðherra vegna heimsóknar Ursulu von der Leyen, forseta framkvæmdastjórnar ESB, sagði Guðlaugur Þór Þórðarson, fyrrverandi utanríkisráðherra, í viðtali við Morgunblaðið í gær (22. júlí) að það liggi ljóst fyrir að íslensk stjórnvöld hefðu ákveðið hvaða skilaboðum hún ætti að koma á framfæri í heimsókninni.
Sú atburðarás er vel þekkt og þarfnast ekki ítarlegrar umfjöllunar hér.
"Það eru tíu ár síðan við drógum umsóknina til baka og nú er verið að segja okkur að hún sé í gildi," sagði hann ennfremur. "Ég var utanríkisráðherra í fimm ár og þetta mál kom aldrei upp. Ísland er ekki á lista yfir umsóknarríki ESB."
Þessi gagnrýni byggir fyrst og fremst á raunverulegri stjórnskipulegri stöðu málsins.
Þingsályktanir eru ekki bindandi fyrir síðar kjörin þing eða ríkisstjórnir. Þær endurspegla pólitíska afstöðu á tilteknum tímapunkti, en fela ekki í sér lögbundin fyrirmæli. Þegar ríkisstjórn Íslands ákvað árið 2015 að draga aðildarumsóknina til baka, var það gert innan ramma framkvæmdarvaldsins. Bréf þess efnis var sent til ESB og sambandið sjálft tók þátt í að móta orðalag þess.
Þrátt fyrir seinni tíma túlkanir (eða jafnvel útúrsnúninga) getur engum dulist að markmið ríkisstjórnarinnar árið 2015 var að hætta umsóknarferlinu. Það kom skýrt fram í aðdraganda málsins og efni bréfsins. Guðlaugur Þór Þórðarson, fyrrverandi utanríkisráðherra, hnykkir á þessu í fyrrnefndu viðtali við Morgunblaðið, þar sem hann bendir á að tíu ár séu frá því að umsóknin var dregin til baka en nú eigi allt í einu að halda því fram að hún sé enn í gildi.
Þriðjudagur, 22. júlí 2025
Merkimiðapólitík Viðreisnar grefur undan lýðræðislegri umræðu
Undanfarið hefur gagnrýni á umræðu um Evrópusambandsaðild Íslands í auknum mæli verið mætt með merkimiðum í stað málefnalegrar umræðu. Þeim sem spyrja krefjandi spurninga eða vara við þróun mála er ekki mætt með rökum heldur eru þeir útmálaðir sem heimóttarlegir, hræddir eða fastir í gamla tímanum.
Í viðtali við hlaðvarp Eyjunnar, sem DV greindi frá í gær, lét Sigmar Guðmundsson, alþingismaður Viðreisnar, að því liggja að þeir sem gagnrýna umræðuna um Evrópusambandsaðild geri það vegna þess að þeir hafi ekki áttað sig á því að tímarnir hafi breyst og að umræðan þurfi að færast á annan grundvöll.
Með öðrum orðum: Þau sem gagnrýna umræðuna um Evrópusambandsaðild gera það ekki á málefnalegum grundvelli, heldur vegna skorts á aðlögun að nýjum tímum!
Svipuð aðferð kom fram í orðum Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur nýverið, þegar hún vísaði til andstæðinga sinna sem með orðunum nöldur og tilfinningasemi. Með þessum aðferðum er athyglinni vísvitandi beint frá málinu sjálfu yfir á persónuleg einkenni þeirra sem tjá sig og því haldið fram að gagnrýnin sé sjálf merki um veikleika.
Þegar utanríkisráðherra og fleiri stjórnarliðar beita þessum aðferðum væri eðlilegt að forsætisráðherra stigi fram. En Kristrún Frostadóttir kýs þögnina. Hún leyfir orðræðunni að þróast í þessa átt, í stað þess að taka afstöðu, verja lýðræðislega umræðuhefð og kalla eftir málefnalegri nálgun.
Forsætisráðherra ber að tryggja að umræða um jafnþýðingarmikil mál og mögulega aðild að Evrópusambandinu byggist á ábyrgð og virðingu fyrir lýðræðislegri umræðu. Þegar hún hvorki mótar stefnu né bregst við orðræðu ráðherra sinna, þá ber hún meðábyrgð í þögn sinni.
Spurningin er ekki hvort tímarnir hafi breyst, heldur hvort tiltekin stefna sé æskileg. Og þá á að fjalla um hana af heiðarleika, ekki með því að merkja gagnrýni sem vandamál í sjálfu sér. Aðeins þannig verður mögulegt að taka upplýsta og heiðarlega umræðu um stór mál.
Bandaríski fræðimaðurinn Cass Sunstein hefur bent á að það grafi undan lýðræðislegri umræðu þegar pólitískir aðilar merkja andstæðinga með orðræðu sem dregur úr trúverðugleika þeirra í stað þess að svara efnislega. Slík framganga veikir bæði umræðu og ákvarðanatöku og getur leitt til þess að mikilvægar raddir og gagnrýni gleymist í hávaðanum, (sem er ef til vill ætlunin?). Samkvæmt Sunstein byggist lýðræðisleg samræðuhefð ekki aðeins á því sem sagt er, heldur einnig á því hvernig umræðan fer fram, í hvaða tilgangi og við hvaða aðstæður. Þar með verður ábyrgð leiðtoga á opinberri orðræðu bæði siðferðileg og pólitísk. Aðeins þannig getur umræðan orðið nægilega skýr, heiðarleg og upplýst ef meint þjóðaratkvæðagreiðsla um ESB-aðild á að hafa raunverulegt lýðræðislegt gildi.
(1) Hugtakið merkimiðapólitík er íslenskun á enska hugtakinu labelling eða labelling as political strategy. Það vísar til þeirrar aðferðar að setja einfaldan, gjarnan neikvæðan stimpil á andstæðing í stað þess að takast á við rök hans. Slíkar aðferðir eru gagnrýndar í lýðræðiskenningum, meðal annars hjá Cass Sunstein, fyrir að grafa undan málefnalegri umræðu og draga úr getu lýðræðisins til að takast á við flókin pólitísk álitamál.
Mánudagur, 21. júlí 2025
Með öðrum orðum: Aðlögun!
Heimsókn Ursulu von der Leyen, forseta framkvæmdastjórnar ESB í síðustu viku, virðist leynt og ljóst vera liður í því að færa Ísland í átt að aðildarferli að sambandinu. Þetta er þó vitaskuld hvergi sagt. Í orðum og yfirlýsingum er þess í stað sífellt vísað til "samstarfs", "viljayfirlýsinga" og talað um "sameiginlegra framtíðarsýn".
Sú spurning vaknar því hvort hér sé farið af stað einhvers konar "aðlögunarsamstarf". Þegar utanríkisráðherra bregst svo við gagnrýni með því að kalla hana heimóttarskap er hún ekki að taka á efnisatriðum heldur leitast við að setja neikvæðan merkimiða á gagnrýnendur sína. Þannig reynir hún að beina umræðunni frá kjarna málsins í dóm yfir þann sem tjáir sig.
Þetta er ekki nýtt fyrirbrigði. Í stað þess að færa rök fyrir pólitískum breytingum, er stundum farin sú leið að breyta einfaldlega orðræðunni sjálfri. Merking hugtaka er færð til en stefna og ákvarðanir haldast óbreyttar undir yfirborðinu.
Í þessu samhengi er áhugavert að rifja upp orð franska heimspekingsins Michel Foucault, sem rannsakaði tengsl tungumáls, valds og þekkingar. Hann rammaði þetta inn með eftirfarandi hætti: "Það eru ekki menn sem stjórna, heldur orðræðan sjálf."
Með því átti hann við að vald birtist ekki aðeins í skipunum eða lagasetningu, heldur líka í því hvernig við tölum um hluti, hvaða orð eru notuð, hver fær að skilgreina umræðuna og hvaða merking orðanna verður "sú rétta".
Þegar ráðherrar segja að ekkert sé verið að gera nema "styrkja samstarf", á sama tíma og gerðir eru nýjir samningar um mál sem heyra ekki undir EES-samninginn, þá er ekki bara verið að taka skref í átt til aðildar, heldur einnig verið að breyta því hvernig slík skref eru tekin og túlkuð. Þetta er orðræðustjórnun en ekki tilviljanir.
Fundur utanríkismálanefndar Alþingis í dag snýst því ekki aðeins um efnisatriði þessara viðræðna og samninga, heldur líka um þessa nýju pólitísku tækni, það er að færa umræðuna yfir á nýtt svið þar sem ekki má lengur segja "aðildarferli" aðeins "framtíðarsýn" og "samráð".
Er ekki tímabært að spyrja: Hvert á þessi orðræða að leiða?
Nýjustu færslur
- Bara ef Úrsúla réði á Íslandi
- Gulli neglir
- Út fyrir ramma skynsemi og raunsæis
- Óheilindi í stjórnmálum
- Flugbraut handa Von der Leyen
- Árið er ekki 2009!
- Merkimiðapólitík Viðreisnar grefur undan lýðræðislegri umræðu
- Með öðrum orðum: Aðlögun!
- Það er ekki hræðsluáróður að krefjast heiðarleika
- Ursula tekur sér dagskrárvald
- Rétt hjá Guðrúnu enginn þjóðarvilji liggur fyrir Þorgerður
- Vonir utanríkisráðherra
- Íslandsskattur
- Hin æpandi þögn um blákaldan raunveruleika
- Trump, tollar og ótroðnar slóðir
Eldri færslur
- Júlí 2025
- Júní 2025
- Maí 2025
- Apríl 2025
- Mars 2025
- Febrúar 2025
- Janúar 2025
- Desember 2024
- Nóvember 2024
- Október 2024
- September 2024
- Ágúst 2024
- Júlí 2024
- Júní 2024
- Maí 2024
- Apríl 2024
- Mars 2024
- Febrúar 2024
- Janúar 2024
- Desember 2023
- Nóvember 2023
- Október 2023
- September 2023
- Ágúst 2023
- Júlí 2023
- Júní 2023
- Maí 2023
- Apríl 2023
- Mars 2023
- Febrúar 2023
- Janúar 2023
- Desember 2022
- Nóvember 2022
- Október 2022
- September 2022
- Ágúst 2022
- Júlí 2022
- Júní 2022
- Maí 2022
- Apríl 2022
- Mars 2022
- Febrúar 2022
- Janúar 2022
- Desember 2021
- Nóvember 2021
- Október 2021
- September 2021
- Ágúst 2021
- Júlí 2021
- Júní 2021
- Maí 2021
- Apríl 2021
- Mars 2021
- Febrúar 2021
- Janúar 2021
- Desember 2020
- Nóvember 2020
- Október 2020
- September 2020
- Ágúst 2020
- Júlí 2020
- Júní 2020
- Maí 2020
- Apríl 2020
- Mars 2020
- Febrúar 2020
- Janúar 2020
- Desember 2019
- Nóvember 2019
- Október 2019
- September 2019
- Ágúst 2019
- Júní 2019
- Maí 2019
- Apríl 2019
- Mars 2019
- Febrúar 2019
- Janúar 2019
- Desember 2018
- Nóvember 2018
- Október 2018
- September 2018
- Ágúst 2018
- Júlí 2018
- Júní 2018
- Maí 2018
- Apríl 2018
- Mars 2018
- Febrúar 2018
- Desember 2017
- Nóvember 2017
- Október 2017
- September 2017
- Ágúst 2017
- Júlí 2017
- Maí 2017
- Apríl 2017
- Mars 2017
- Febrúar 2017
- Janúar 2017
- Desember 2016
- Nóvember 2016
- Október 2016
- September 2016
- Ágúst 2016
- Júlí 2016
- Júní 2016
- Maí 2016
- Apríl 2016
- Mars 2016
- Febrúar 2016
- Janúar 2016
- Desember 2015
- Nóvember 2015
- Október 2015
- September 2015
- Ágúst 2015
- Júlí 2015
- Júní 2015
- Maí 2015
- Apríl 2015
- Mars 2015
- Febrúar 2015
- Janúar 2015
- Desember 2014
- Nóvember 2014
- Október 2014
- September 2014
- Ágúst 2014
- Júlí 2014
- Júní 2014
- Maí 2014
- Apríl 2014
- Mars 2014
- Febrúar 2014
- Janúar 2014
- Desember 2013
- Nóvember 2013
- Október 2013
- September 2013
- Ágúst 2013
- Júlí 2013
- Júní 2013
- Maí 2013
- Apríl 2013
- Mars 2013
- Febrúar 2013
- Janúar 2013
- Desember 2012
- Nóvember 2012
- Október 2012
- September 2012
- Ágúst 2012
- Júlí 2012
- Júní 2012
- Maí 2012
- Apríl 2012
- Mars 2012
- Febrúar 2012
- Janúar 2012
- Desember 2011
- Nóvember 2011
- Október 2011
- September 2011
- Ágúst 2011
- Júlí 2011
- Júní 2011
- Maí 2011
- Apríl 2011
- Mars 2011
- Febrúar 2011
- Október 2010
- September 2010
- Júlí 2010
- Júní 2010
- Maí 2010
- Apríl 2010
- Mars 2010
- Febrúar 2010
- Janúar 2010
- Nóvember 2009
- Október 2009
- September 2009
- Ágúst 2009
- Júlí 2009
- Júní 2009
- Maí 2009
- Apríl 2009
- Mars 2009
- Febrúar 2009
- Janúar 2009
- Desember 2008
- Nóvember 2008
- Október 2008
- September 2008
- Ágúst 2008
- Júlí 2008
- Júní 2008
- Maí 2008
- Apríl 2008
- Mars 2008
- Febrúar 2008
- Janúar 2008
- Desember 2007
- Nóvember 2007
- Október 2007
- September 2007
- Ágúst 2007
- Júlí 2007
- Júní 2007
- Maí 2007
- Apríl 2007
- Mars 2007
- Febrúar 2007
- Janúar 2007
- Desember 2006
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (31.7.): 33
- Sl. sólarhring: 317
- Sl. viku: 1784
- Frá upphafi: 1241212
Annað
- Innlit í dag: 31
- Innlit sl. viku: 1633
- Gestir í dag: 31
- IP-tölur í dag: 31
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar