Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Evrópumál

Árið er ekki 2009!

Í umræðum um ESB og mögulega aðild Íslands sést iðulega gripið til þess að vísa í þingsályktun sem Alþingi samþykkti árið 2009 (á 136. löggjafarþingi) um að sækja um aðild að ESB. Sú vísun þjónar því hlutverki að reyna að réttlæta núverandi nálgun ríkisstjórnarinnar í samskiptum við ESB.

Þingsályktun er ekki lög samþykkt í þremur umræðum sem er send forseta til undirritunar sem lög frá Alþingi heldur er þingsályktun viljayfirlýsing Alþingis á ákveðnum tímapunkti samþykkt við tvær umræður. Hún skuldbindur hvorki framtíðarþing né ríkisstjórnir til að fara nákvæmlega sömu leið, m.ö.o. er ekki lagalega skuldbindandi.

Frá og með árinu 2009 hafa farið fram sex þingkosningar og fimm ríkisstjórnir setið, hver með sínar áherslur og stefnu. Umheimurinn hefur breyst og Ísland með. Samt er því haldið fram að sextán ára gömul viljayfirlýsing gildi enn líkt og hún hafi lagalegt gildi.

Leikrit eða stjórnskipuleg villa?

Í kjölfar fundar utanríkismálanefndar Alþingis með utanríkisráðherra vegna heimsóknar Ursulu von der Leyen, forseta framkvæmdastjórnar ESB, sagði Guðlaugur Þór Þórðarson, fyrrverandi utanríkisráðherra, í viðtali við Morgunblaðið í gær (22. júlí) að það liggi ljóst fyrir að íslensk stjórnvöld hefðu ákveðið hvaða skilaboðum hún ætti að koma á framfæri í heimsókninni.

Sú atburðarás er vel þekkt og þarfnast ekki ítarlegrar umfjöllunar hér.

"Það eru tíu ár síðan við drógum umsóknina til baka og nú er verið að segja okkur að hún sé í gildi," sagði hann ennfremur. "Ég var utanríkisráðherra í fimm ár og þetta mál kom aldrei upp. Ísland er ekki á lista yfir umsóknarríki ESB."

Þessi gagnrýni byggir fyrst og fremst á raunverulegri stjórnskipulegri stöðu málsins.

Þingsályktanir eru ekki bindandi fyrir síðar kjörin þing eða ríkisstjórnir. Þær endurspegla pólitíska afstöðu á tilteknum tímapunkti, en fela ekki í sér lögbundin fyrirmæli. Þegar ríkisstjórn Íslands ákvað árið 2015 að draga aðildarumsóknina til baka, var það gert innan ramma framkvæmdarvaldsins. Bréf þess efnis var sent til ESB og sambandið sjálft tók þátt í að móta orðalag þess.

Þrátt fyrir seinni tíma túlkanir (eða jafnvel útúrsnúninga) getur engum dulist að markmið ríkisstjórnarinnar árið 2015 var að hætta umsóknarferlinu. Það kom skýrt fram í aðdraganda málsins og efni bréfsins. Guðlaugur Þór Þórðarson, fyrrverandi utanríkisráðherra, hnykkir á þessu í fyrrnefndu viðtali við Morgunblaðið, þar sem hann bendir á að tíu ár séu frá því að umsóknin var dregin til baka en nú eigi allt í einu að halda því fram að hún sé enn í gildi.


Merkimiðapólitík Viðreisnar grefur undan lýðræðislegri umræðu

Undanfarið hefur gagnrýni á umræðu um Evrópusambandsaðild Íslands í auknum mæli verið mætt með merkimiðum í stað málefnalegrar umræðu. Þeim sem spyrja krefjandi spurninga eða vara við þróun mála er ekki mætt með rökum heldur eru þeir útmálaðir sem heimóttarlegir, hræddir eða fastir í gamla tímanum.

Í viðtali við hlaðvarp Eyjunnar, sem DV greindi frá í gær, lét Sigmar Guðmundsson, alþingismaður Viðreisnar, að því liggja að þeir sem gagnrýna umræðuna um Evrópusambandsaðild geri það vegna þess að þeir hafi ekki áttað sig á því að tímarnir hafi breyst og að umræðan þurfi að færast á annan grundvöll.

Með öðrum orðum: Þau sem gagnrýna umræðuna um Evrópusambandsaðild gera það ekki á málefnalegum grundvelli, heldur vegna skorts á aðlögun að nýjum tímum!

Svipuð aðferð kom fram í orðum Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur nýverið, þegar hún vísaði til andstæðinga sinna sem með orðunum nöldur og tilfinningasemi. Með þessum aðferðum er athyglinni vísvitandi beint frá málinu sjálfu yfir á persónuleg einkenni þeirra sem tjá sig og því haldið fram að gagnrýnin sé sjálf merki um veikleika.

Þegar utanríkisráðherra og fleiri stjórnarliðar beita þessum aðferðum væri eðlilegt að forsætisráðherra stigi fram. En Kristrún Frostadóttir kýs þögnina. Hún leyfir orðræðunni að þróast í þessa átt, í stað þess að taka afstöðu, verja lýðræðislega umræðuhefð og kalla eftir málefnalegri nálgun.

Forsætisráðherra ber að tryggja að umræða um jafnþýðingarmikil mál og mögulega aðild að Evrópusambandinu byggist á ábyrgð og virðingu fyrir lýðræðislegri umræðu. Þegar hún hvorki mótar stefnu né bregst við orðræðu ráðherra sinna, þá ber hún meðábyrgð í þögn sinni.

Spurningin er ekki hvort tímarnir hafi breyst, heldur hvort tiltekin stefna sé æskileg. Og þá á að fjalla um hana af heiðarleika, ekki með því að merkja gagnrýni sem vandamál í sjálfu sér. Aðeins þannig verður mögulegt að taka upplýsta og heiðarlega umræðu um stór mál.

Bandaríski fræðimaðurinn Cass Sunstein hefur bent á að það grafi undan lýðræðislegri umræðu þegar pólitískir aðilar merkja andstæðinga með orðræðu sem dregur úr trúverðugleika þeirra í stað þess að svara efnislega. Slík framganga veikir bæði umræðu og ákvarðanatöku og getur leitt til þess að mikilvægar raddir og gagnrýni gleymist í hávaðanum, (sem er ef til vill ætlunin?). Samkvæmt Sunstein byggist lýðræðisleg samræðuhefð ekki aðeins á því sem sagt er, heldur einnig á því hvernig umræðan fer fram, í hvaða tilgangi og við hvaða aðstæður. Þar með verður ábyrgð leiðtoga á opinberri orðræðu bæði siðferðileg og pólitísk. Aðeins þannig getur umræðan orðið nægilega skýr, heiðarleg og upplýst ef meint þjóðaratkvæðagreiðsla um ESB-aðild á að hafa raunverulegt lýðræðislegt gildi.

(1) Hugtakið merkimiðapólitík er íslenskun á enska hugtakinu labelling eða labelling as political strategy. Það vísar til þeirrar aðferðar að setja einfaldan, gjarnan neikvæðan stimpil á andstæðing í stað þess að takast á við rök hans. Slíkar aðferðir eru gagnrýndar í lýðræðiskenningum, meðal annars hjá Cass Sunstein, fyrir að grafa undan málefnalegri umræðu og draga úr getu lýðræðisins til að takast á við flókin pólitísk álitamál.


Með öðrum orðum: Aðlögun!

Heimsókn Ursulu von der Leyen, forseta framkvæmdastjórnar ESB í síðustu viku, virðist leynt og ljóst vera liður í því að færa Ísland í átt að aðildarferli að sambandinu. Þetta er þó vitaskuld hvergi sagt. Í orðum og yfirlýsingum er þess í stað sífellt vísað til "samstarfs", "viljayfirlýsinga" og talað um "sameiginlegra framtíðarsýn".

Sú spurning vaknar því hvort hér sé farið af stað einhvers konar "aðlögunarsamstarf". Þegar utanríkisráðherra bregst svo við gagnrýni með því að kalla hana heimóttarskap er hún ekki að taka á efnisatriðum heldur leitast við að setja neikvæðan merkimiða á gagnrýnendur sína. Þannig reynir hún að beina umræðunni frá kjarna málsins í dóm yfir þann sem tjáir sig.

Þetta er ekki nýtt fyrirbrigði. Í stað þess að færa rök fyrir pólitískum breytingum, er stundum farin sú leið að breyta einfaldlega orðræðunni sjálfri. Merking hugtaka er færð til en stefna og ákvarðanir haldast óbreyttar undir yfirborðinu.

Í þessu samhengi er áhugavert að rifja upp orð franska heimspekingsins Michel Foucault, sem rannsakaði tengsl tungumáls, valds og þekkingar. Hann rammaði þetta inn með eftirfarandi hætti: "Það eru ekki menn sem stjórna, heldur orðræðan sjálf."
Með því átti hann við að vald birtist ekki aðeins í skipunum eða lagasetningu, heldur líka í því hvernig við tölum um hluti, hvaða orð eru notuð, hver fær að skilgreina umræðuna og hvaða merking orðanna verður "sú rétta".

Þegar ráðherrar segja að ekkert sé verið að gera nema "styrkja samstarf", á sama tíma og gerðir eru nýjir samningar um mál sem heyra ekki undir EES-samninginn, þá er ekki bara verið að taka skref í átt til aðildar, heldur einnig verið að breyta því hvernig slík skref eru tekin og túlkuð. Þetta er orðræðustjórnun en ekki tilviljanir.

Fundur utanríkismálanefndar Alþingis í dag snýst því ekki aðeins um efnisatriði þessara viðræðna og samninga, heldur líka um þessa nýju pólitísku tækni, það er að færa umræðuna yfir á nýtt svið þar sem ekki má lengur segja "aðildarferli" aðeins "framtíðarsýn" og "samráð".
Er ekki tímabært að spyrja: Hvert á þessi orðræða að leiða?


Það er ekki hræðsluáróður að krefjast heiðarleika

Heimsókn forseta framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins í síðustu viku vakti athygli ekki síst þar sem yfirlýsingar hennar og undirritun viljayfirlýsingar ríkisstjórnarinnar um samstarf við ESB áttu sér stað við það tilefni.

Þarf eitthvað að draga í efa hver ætlun ríkisstjórnarinnar er eða hið minnsta utanríkisráðherra? Það samstarf sem rammað var inn í heimsókn framkvæmdstjóra ESB er af mörgum talið geta stuðlað að því að auðvelda aðildarviðræður síðar. Engan þarf að undra að þetta sæti gagnrýni og óskað sé eftir fundi í utanríkismálanefnd Alþingis.

Í umræðunni nú er því enn og aftur líkt við hræðsluáróður að benda á einfaldar staðreyndir þegar kemur að því að aðlaga Ísland að regluverki ESB. Það er enginn sérstakur samningur í boði til að skoða áður en aðildarferli hefst. Ferlið lýtur reglum sem ESB hefur þegar skilgreint.

Engar hefðbundnar samningaviðræður eiga sér stað heldur aðlögunarferli, eins og fyrr segir þar sem farið er í gegnum kaflaskipta vinnu þar sem regluverk Íslands og ESB á fyrirfram skilgreindum málefnasviðum er borið saman og Ísland fær eftir atvikum leiðsögn um hverju þarf að breyta til að aðlögun (alignment) geti orðið sem felur í sér að Ísland tekur upp regluverk sambandsins.

Það er því ekki rétt að hægt sé að kjósa fyrst um hvort eigi að "kíkja í pakkann" og síðan aftur seinna þegar ljóst er hvað er í honum. Kjósendur þurfa í raun að veita samþykki fyrir aðildarferli áður en nokkur "pakkaleikur" getur átt sér stað.

Þessi hringavitleysa er því ekki til marks um vandaða, opna umræðu heldur leið til að láta sem ekkert sé að gerast á meðan aðlögunin á sér stað í gegnum aðrar leiðir. Þeir sem benda á þetta eru ekki að beita hræðsluáróðri heldur að krefjast heiðarleika í því sem nú stendur yfir.


Ursula tekur sér dagskrárvald

Það var engin tilviljun að Ursula von der Leyen kom til Íslands í sömu viku og ríkisstjórnin undirritaði viljayfirlýsingu við Evrópusambandið. Það var heldur engin tilviljun að hún endurtók þá fullyrðingu að aðildarumsókn Íslands væri enn gildi. Þetta var meðvituð yfirlýsing, og með henni tekur framkvæmdastjórn ESB sér dagskrárvald í íslenskri pólítík.

En hvernig stendur á því að umsókn sem íslensk stjórnvöld lýstu lokinni árið 2015, með bréfi sem Evrópusambandið tok sjálft þátt í að semja, skuli enn talin í gildi? Hjörtur J. Guðmundsson rifjar upp í grein á visir.is, „Sleppir ekki takinu svo auðveldlega aftur“ að tilgangur bréfs Gunnars Braga, þáverandi utanríkisráðherra, var einmitt sá að draga umsóknina til baka. Um þat ríkti skýr samstaða þeirra sem að málinu komu.

Fljótlega snerist þetta þó við. Embættismenn sambandsins neituðu því síðar að bréfið hefði haft þau áhrif sem að var stefnt. Þetta var pólítísk túlkun, ekki formsatriði. ESB kaus einfaldlega að virða ekki yfirlýsingu íslenskra stjórnvalda.

Í alþingiskosningunum 2013 var ríkisstjórn þeirra flokka sem höfðu aðild að ESB á sinni dagskrá skipt út. Ný ríkisstjórn lýsti því yfir að hún hygðist ekki halda umsókninni til streitu og brást við með því að tilkynna þat formlega til Brussel. Að halda því nú fram að Ísland sé enn umsóknarríki gengur því bæði gegn pólítískum veruleika þess tíma og formlegri ákvörðun rétt kjörinnar ríkisstjórnar.

Í ljósi þessa er serkennilegt að sjá núverandi ríkisstjórn, með utanríkisráðherra í broddi fylkingar, ganga að því sem vísu að Ísland sé enn í umsóknarferli. Þjóðin á nú að kjósa um að halda áfram viðræðum sem framkvæmdastjórn ESB virðist telja að aldrei hafa verid stöðvaðar. Með þessu hefur framkvæmdastjóri ESB, án nokkurs lýðræðislegs umboðs á Íslandi, tekið sér dagskrárvald í innlendri pólítík og hundsar þar með skýran vilja ríkisstjórnar Íslands eins og hann birtist árið 2015.

ESB aðild var ekki á dagskrá í síðustu alþingiskosningum og engin ný ákvörðun hefur verid tekin á Alþingi um endurvakningu umsóknarinnar.

Hver ræður eiginlega förinni núna?


Rétt hjá Guðrúnu – enginn þjóðarvilji liggur fyrir Þorgerður

Guðrún Hafsteinsdóttir hefur rétt fyrir sér. Þjóðin hefur ekki lýst yfir vilja til að hefja aðildarviðræður við Evrópusambandið. Engin þjóðaratkvæðagreiðsla hefur farið fram, engin umræða hefur verið leidd á Alþingi og þetta var ekki í kosningastefnu ríkisstjórnarflokkanna. Þó heldur utanríkisráðherra því fram að þjóðin vilji þetta.

Þegar forseti framkvæmdastjórnar ESB Ursula von der Leyen fullyrðir að aðildarumsókn Íslands sé enn gild og ríkisstjórnin undirritar viljayfirlýsingu við ESB um haf og fiskveiðisamstarf, þá er verið að stíga pólitísk skref. En þau eru ekki studd neinu skýru umboði.

Í raun er verið að leiða þjóðina áfram án þess að hún hafi fengið að segja sitt. Og þegar utanríkisráðherra talar fyrir hönd þjóðarinnar án þess að hafa fengið samþykki hennar, þá má minnast á klassíska reglu lýðræðisins. Þú getur ekki talað í nafni annarra nema þeir hafi beðið þig um það.


Vonir utanríkisráðherra

Utanríkisráðherra vonar að "evróputengd mál" verði á dagskrá með haustinu.  Ótalmargt hefur tengingu við önnur lönd Evrópu, svo líklegt er að ósk ráðherra verði uppfyllt.

Það mætti t.d. ræða hvað það hefði kostað Íslendinga að lenda í tollastríðið BNA og ESB - ef Íslendingar hefðu verið í Evrópusambandinu.  Þar færu tugir milljarða króna árlega rakleitt úr vösum Íslendinga í sjóði BNA og Evrópusambandsins. 

Þá mætti ræða hervæðingarvíxilinn sem Evrópusambandið er búið að ákveða að taka til að styðja við hergagnaiðnaðinn í aðallöndum Evrópusambandsins. Hlutur Íslands þar gæti verið um 200 milljarðar króna - ef Ísland væri í bandalaginu.  

Utanríkisráðherra ræðir náttúruhamfarir.  Hann mun sjálfsagt halda til haga að Íslendingar eru gefendur, fremur en þiggjendur í vísindum sem lúta að jarðskorpunni, ís, veðri og veðurfari.  Framlag íslenskra vísindamanna er mikið og miklu fleiri útlendingar læra þessi fræði í Háskóla Íslands, en Íslendingar í útlöndum. 

 

 


mbl.is Vonar að Evróputengd mál verði ofarlega á blaði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Íslandsskattur

Svo virðist að fáir hafi áttað sig á að tollar sem Evrópusambandið leggur á innflutning frá löndum utan bandalagsins lenda að langmestu leyti í sjóðum bandalagsins. 

Íslendingar kaupa mun meira af Bandaríkjamönnum, en meðaljón í Evrópu.  Þeir mundu því fóðra sjóði Evrópusambandsins af mun meiri dugnaði en flestir, ef ekki allir aðrir, ef Íslandi væri í bandalaginu og það vaæri í tollastríði af því tagi sem nú er í uppsiglingu. 

Þar væri kominn enn einn Íslandsskatturinn.  Og voru þeir þó nokkrir fyrir. 

 


Hin æpandi þögn um blákaldan raunveruleika

Stjórnvöld í BNA ætla að hækka tolla á vörur frá Evrópusambandslöndum verulega, strax eftir hálfan mánuð. 

Ef Ísland væri í Evrópusambandinu, væri nú efnahagslegt uppnám á Íslandi. 

Ef Ísland væri í Evrópusambandinu, væru Íslendingar ekki í neinni stöðu til að semja um eitt eða neitt við Bandaríkin. Íslendingar gætu sent bænaskjal til Brussel.  Víst er að það færi ofan í skúffu.

Líklegt er að mótleikur Evrópusambandsins verði tollar á bandarískar vörur. Ef Ísland væri í Evrópusambandinu rynnu þeir tollar að langmestu leyti í sjóði Evrópusambandsins - EKKI Í RIKISSJÓÐ ÍSLANDS. Þannig magnaðist enn frekar hið efnahagslega uppnám á Íslandi.

Er ekki tímabært að yfirvöld á Íslandi horfist í augu við þennan raunveruleika og hætti að reyna að koma Íslandi í Evrópusambandið?

 

Að svo mæltu færum við Frökkum bestu óskir á þjóðhátíðardeginum. 

 


Trump, tollar og ótroðnar slóðir

Donald Trump hefur tilkynnt að hann hyggist leggja 30% toll á vörur frá Evrópusambandinu frá og með 1. ágúst. Þetta undirstrikar hve grunnt er á því góða á milli ESB og Bandaríkjanna, sem virðast ekki geta komið sér saman um grundvallarmálefni með áhrif víðs vegar um heiminn. Þetta á við bæði um viðskipti og öryggismál.

Fyrr í sumar beitti Trump aðildarríki NATO þrýstingi til að auka framlög til varnarmála og nýju tollarnir minna á það sem margir í Evrópu vilja forðast að horfast í augu við: að bandalagið stendur veikt, bæði gagnvart bandamönnum og keppinautum.

Í þessu samhengi hyggjast íslensk stjórnvöld boða þjóðina til atkvæðagreiðslu um að "halda áfram" viðræðum um inngöngu í þetta sama samband án þess að skilgreina markmið, ramma eða stefnu.

Slíkt er ekki stefnumótun heldur innantómt uppátæki sem gæti kostað þjóðina háar fjárhæðir og var ekki boðað í síðustu alþingiskosningum.

Það verður fróðlegt að sjá hvernig þessi "kássa" verður borin á borð fyrir þing og þjóð á næstu mánuðum.


Næsta síða »

Heimssýn

Heimssýn

hreyfing sjálfstæðissinna í Evrópumálum, eru þverpólitísk samtök þeirra sem telja hagsmunum Íslendinga best borgið með því að halda áfram að vera sjálfstæð þjóð utan Evrópusambandsins.

 

Sími 895 5334 (Haraldur Ólafsson, formaður)


Nánar um Heimssýn

Vertu með!

Frjáls framlög

Eldri færslur

Júlí 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30 31    

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (24.7.): 45
  • Sl. sólarhring: 193
  • Sl. viku: 2237
  • Frá upphafi: 1239130

Annað

  • Innlit í dag: 43
  • Innlit sl. viku: 1986
  • Gestir í dag: 43
  • IP-tölur í dag: 42

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband