Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Evrópumál

Froða umboðsmannanna

Þessa dagana talar lítill, en hávær, hópur í sífellu um að Íslendingar séu svo líkir íbúum Evrópusambandsins, að sambandið þurfi að ráða Íslandi. 

Í fyrsta lagi er það svo að þótt margir Íslendingar séu svipaðir á svipinn, eða litinn, og margir í Evrópusambandinu og hafi jafnvel svipaðar hugmyndir um lífið og tilveruna, að einhverju leyti, felast ekki í því nein rök fyrir því að Evrópusambandið eigi að ráða yfir Íslandi. 

Í öðru lagi er ekki augljóst að íbúar Rúmeníu og Búlgaríu, sem eru í Evrópusambandinu, séu að neinu leyti líkari Íslendingum en t.d. Norðmenn, Bretar, eða íbúar N-Ameríku, sem ekki eru þegnar sambandsins.  Raunar er það svo að meirihluti íbúa Evrópusambandsins er ósammála Íslandingum um grundvallaratriði á borð við hernað í A-Evrópu.  Svo er atvinnulíf á Íslandi verulega frábrugðið helstu atvinnuvegi í iðnríki á borð við Þýskaland, sem mestu ræður í sambandinu.

Allt er þetta froða umboðsmanna hins erlenda valds sem Halldór Kiljan Laxness ræddi eftirminnilega og Jón Bjarnason rifjar upp:

https://timarit.is/page/4306959#page/n0/mode/2up

https://jonbjarnason.blog.is/blog/jonbjarnason/entry/2316845/


Málefnalegt? Já, ef málefnin skipta engu máli

Málefnalegt? Já, ef málefnin skipta engu máli!

Ný grein Vilhjálms Bjarnasonar sýnir hvernig hægt er að stilla upp "málefnalegri" umræðu um ESB-aðild, en forðast kjarna málsins.

Málefnalegheit sem leiða á villigötur
Sumir bera orðið málefnalegt eins og heiðursmerki, jafnvel þegar farið er í ferðalag í langt í burtu frá meginatriðum. Vilhjálmur fær hrós fyrir yfirvegun og ró, en þegar textinn er rýndur sést að hann víkur umræðunni í allar áttir nema þær sem mestu skipta.

Frá frjálsri verslun… til alls annars

Greinin hefst á almennum vangaveltum um frjálsa verslun. Þar er þægilegt að ræða mjólkuriðnað, veitingarekstur, bankastarfsemi og happdrætti, án þess að fara í það hvað ESB-regluverk þýðir í raun fyrir þessa geira.

Hornsteinn ESB er fjórfrelsið, frjáls för vöru, þjónustu, fólks og fjármagns en bandalagið er líka tollabandalag með sameiginlega ytri tolla og viðskiptastefnu gagnvart ríkjum utan þess. Aðild myndi þýða að Ísland afsalaði sér sjálfstæðri ákvörðun um viðskiptastefnu. Jafnframt féllu niður fríverslunarsamningar við önnur lönd eins og t.d. Kína, við aðild.

Villurök um eftirgjöf fullveldis

Vilhjálmur heldur því fram að aðild að ESB jafngildi þeirri eftirgjöf fullveldis sem Ísland hefur þegar samþykkt gagnvart alþjóðastofnunum. Þetta stenst ekki. Aðild að hefðbundnum stofnunum, eins og Sameinuðu þjóðunum eða Alþjóðaviðskiptastofnuninni, felur í sér afmarkaðar skuldbindingar og ríkið heldur fullri stjórn á öðrum sviðum. Aðild að ESB er hins vegar víðtæk og kerfisbundin: löggjafarvald á fjölmörgum málefnasviðum flyst til ESB-stofnana og Ísland yrði bundið af meirihlutaákvörðunum, jafnvel gegn eigin vilja. Þetta er gjörólíkt bæði að umfangi og fyrst og fremst eðli.

Rammað inn til að hljóma skynsamlega

Í greininni er andstaðan við tilteknar aðgerðir kölluð "klikkun". Það er þekkt aðferð að staðsetja eigin málstað sem skynsamlegan og mótmæli sem órökvísar tilfinningasprengjur. Þannig skapast huglægt samband milli ESB-andstöðu og þess að vera "út úr kortinu". En það er ekki röksemd heldur merkimiði.

Útúrdúrar sem taka fókusinn
Í stað þess að ræða áhrif aðildar á fullveldi, regluverk og samningsstöðu, fer greinin í löng dæmi úr innlendu lífi og óskyldan samanburð. Það hljómar málefnalega en snýr umræðunni frá kjarna málsins.

Af hverju þetta skiptir máli

Þegar umræðan er flutt frá meginatriðum yfir í vel pakkaðar útsnúningaröksemdir, missir almenningur af tækifæri til að vega og meta raunverulegar afleiðingar aðildar. Ef við ætlum að ræða aðild Íslands að ESB, verðum við að ræða hana á beinum forsendum: um regluverkið, fullveldið og samningsstöðuna og muna að ESB er bæði innri markaður með fjórfrelsið sem hornstein og tollabandalag með sameiginlega viðskiptastefnu gagnvart ríkjum utan þess.


Þrettán ára þögn segir meira en mörg orð

Formleg skjöl segja sína sögu, jafnvel þegar þau eru orðin gömul.

Síðustu rýniskýrslur ESB fyrir Ísland voru uppfærðar í mars 2012, að minnsta kosti samkvæmt (lögnu) óvirkri vefsíðu ESB um aðildarviðræður Íslands við sambandið. Síðan þá hefur ekkert nýtt skjalfest mat farið fram á því hvernig íslenskt regluverk passar við regluverk ESB.

Á þessum þrettán árum hefur ESB-regluverkið breyst verulega. Ef hefja ætti viðræður að nýju, þyrfti því að endurvinna flesta samningskafla frá grunni.

Þetta þýðir að hugmyndir um þjóðaratkvæði "til að klára viðræðurnar" byggja í raun á gömlum og úreltum forsendum. Slíkt þjóðaratkvæði væri ekki um að ljúka hálfkláruðu verki, heldur um að byrja nýtt aðildarferli.


Frá skuldagreiðslum til tollamúra – saga smáríkis

ESB er að innleiða CBAM, kolefnisgjöld á innflutning frá löndum utan tollabandalagsins. Á blaði er þetta loftslagsaðgerð, en í framkvæmd getur hún orðið tollaamúr. Nú er Brussel í ferli að leggja verndartolla á kísiljárn frá EFTA-ríkjum, þar á meðal Íslandi. Flestir telja það brjóta EES-samninginn, þó sambandið telji þetta "lögmæt" að eigin mati.

Þetta minnir óþægilega á Icesave-deiluna: réttlætt sem lögmæt aðgerð gagnvart smáríki, en í reynd notað til að knýja Ísland til eftirgjafar. Munurinn er sá að þá var krafist skuldagreiðslna, nú er þrýst með tollum sem skerða þjóðartekjur.

Þetta má orða á ýmsa vegu og skreyta með fallegum frösum, en í grunninn er málið einfalt: við erum sett til hliðar þrátt fyrir EES-samninginn. Ef þetta er virðingin sem samningurinn fær, verðum við að spyrja: viljum við halda áfram í leik þar sem reglurnar breytast þegar Brussel hentar?


Skiljanlegt? Nei – óafsakanlegt!

Evrópusambandið vinnur nú að því að setja fyrirhugaða verndartolla á kísiljárn frá EFTA-ríkjum, þar á meðal Íslandi. Málið er í ferli innan ESB og ekki orðið að endanlegri ákvörðun, en ef tollarnir verða samþykktir, myndi það teljast brot á EES-samningnum. Forsætisráðherra segir að þetta sé "viðkvæmt mál". Ekki vegna þess að tollarnir myndu brjóta EES-samninginn, heldur vegna þess að það sé "skiljanlegt" að sumum innan ESB finnist þetta góð hugmynd.

Hvernig er það góð hugmynd að gera engan greinarmun á Íslandi og Noregi, sem eiga aðild að innri markaði ESB í gegnum EES-samninginn og Kína sem stundar offramleiðslu á kísiljárni með ríkulegum ríkisstyrkjum. Aðalatriðið virðist því miður ekki vera að standa vörð um íslenska hagsmuni, heldur að vanda sig svo að sambandið taki ekki illa í gagnrýnina.

En hvað ef þetta væri Trump...

Það er erfitt að ímynda sér að forseti Bandaríkjanna, sérstaklega Donald Trump í núverandi hlutverki — hefði fengið svona mjúka meðferð. Þar hefði verið talað um brot á samningum af fullri hörku, ÞÁ eru skilkihanskarnir ekki settir upp. En þegar ESB brýtur á okkur, þá er allt í einu spurning um "mismunandi skoðanir innan sambandsins" og hvort málið "nái fram að ganga".

Af hverju við eigum ekki að sætta okkur við þetta?

Það sem blasir við er einfalt: þetta eru verndartollar sem skerða aðgang íslensks útflutnings að mörkuðum ESB og brjóta EES-samninginn enda ganga þeir gegn fjórfrelsinu. Verndartollarnir verða ekki minna alvarlegir þó að einhverjir innan ESB séu þeim sammála.

Það á að svara slíkum aðgerðum af hörku, ekki með yfirlýsingum sem hljóma eins og þær væru skrifaðar í Brussel. Íslensk stjórnvöld eiga ekki að vera fulltrúar ESB í Reykjavík. Þau eiga að verja hagsmuni Íslands, jafnvel þótt það kalli á að tala hreint út við vinina í Evrópusambandinu. Því miður stefnir Kristrúnarstjórnin í sama farveg og Jóhönnustjórnin sem stóð svo illa um að hagsmunagæslu fyrir Íslands hönd að forseti lýðveldisins þurfti að taka að sér gæsluna.

Ekki gefa eftir einn millimeter Kristrún, ekki einu sinni til að vera kurteis.


Landnám í hugmyndafræðilegum skilningi – frá Grænlandi til Íslands

Stækkunarstefna ESB á norðurslóðum speglar drauma Hvíta hússins, en með öðru sniði þó.

Árið 2019 vakti Donald Trump heimsathygli þegar hann ræddi við sína nánustu um að kaupa Grænland af Danmörku. Hugmyndin var afgreidd sem "fáránleg" af dönskum stjórnvöldum og olli pólitískum titringi, en hún var líka áminning um hvernig stórveldi líta á norðurslóðir: ekki fyrst og fremst sem heimkynni fólks og grunnur þeirra lífsafkomu heldur punkta á korti fyrir aðgang að norðurslóðum.

Fimm árum síðar birtir Der Spiegel (3. júlí 2025) umfjöllun sem sýnir að Evrópusambandið hugsar á svipaðan hátt, en notar aðrar aðferðir. Þar segir að ESB hyggi á stækkun í norðri, með áherslu að fá Grænland, Ísland og Noreg inn í sambandið og að sjávarútvegur sé í forgrunni stækkunarstefnu ESB í norðurhöfum.

Það er í þessu samhengi sem orð Ursulu von der Leyen, forseta framkvæmdastjórnar ESB, "passa" svo "frábærlega vel" þegar hún fullyrðir að aðildarumsókn Íslands sé enn í gildi. Með slíkri yfirlýsingu er Ísland sett í hóp "umsóknarríkja" án þess að Íslendingar hafi tekið nýja ákvörðun um aðildarferli, eins og lofað var í stjórnarsáttmálanum. Þetta gefur Brussel það pólitíska rými sem þarf til að tala um Ísland sem lykilsvæði í eigin stækkunarstefnu.

Þetta er ekki aðildarhugmynd í hefðbundnum skilningi. Þetta er stefna um landnám í hugmyndafræðilegum skilningi það er að innlima landfræðilega útstöð inn í stærra valdakerfi. Það er ekki gert með beinu kaupboði eins og hjá Bandaríkjunum, heldur með stækkunarferli, samningum og stefnumótun sem líta á staðsetningu sem lykilþátt.

Í Joint Communication frá 2021 segir ESB skýrt:
"The European Union is in the Arctic. As a geopolitical power, the EU has strategic and day-to-day interests..."
(Evrópusambandið er á norðurslóðum. Sem stórveldi í alþjóðapólitík hefur ESB bæði langtíma- og daglegra hagsmuna að gæta.)

Þetta er ekki óljós framtíðarsýn heldur fullyrðing um tilvist og markmið.

Á Íslandi hefur aldrei verið þjóðaratkvæði um aðild í þeim tilgangi að styðja stefnu ESB á norðurslóðum. Samt er landið sett á kortið í Brussel sem útstöð fyrir hagsmuni annarra. Spurningin er því ekki bara hvort við viljum ganga í ESB, heldur hvort við viljum láta sjá um okkur sem hluta af áætlun sem mótast inni miðri Evrópu þar sem gömlu nýlenduveldin ráða ríkjum.


Hvað ef álið er næst, Kristrún?

Fjórfrelsið, frjáls flutningur vöru, þjónustu, fjármagns og fólks hefur lengi verið kynnt sem órjúfanleg stoð viðskiptasamstarfs bæði innan Evrópusambandsins og í gegnum EES-samninginn.

En nú hafa stjórnendur í Brussel stigið á bremsuna. Framkvæmdastjórn ESB hefur tilkynnt verndartolla á innflutning á járnblendi frá Íslandi og Noregi. Þetta eru ekki bara einhverjir tollar. Þetta eru aðgerðir sem beinast að ríkjum sem hafa í þrjá áratugi tekið þátt í sameiginlega evrópska markaðnum á grunndvelli EES samningsins.

Fjórfrelsið í framkvæmd
Tollar sem þessir vekja óþægilegar spurningar. Er fjórfrelsið raunverulega skilyrðislaust eða aðeins í gildi þegar það þjónar hagsmunum stærri ríkja innan sambandsins?

Í rökstuðningi framkvæmdastjórnarinnar segir að um sé að ræða "tímabundna vernd" gegn "alvarlegri röskun" á innri markaði. En þegar slík aðgerð beinist gegn EES-ríkjum sem eiga að njóta sama markaðsaðgangs og aðildarríki, án þess að þau hafi haft raunveruleg áhrif á ákvörðunina, þá er hætt við að "sameiginlegi markaðurinn" reynist vera markaður á forsendum sumra en ekki allra.

Og hvað tekur við?
Járnblendi er stór útflutningsvara, en ál og afleiddar vörur vega enn þyngra í íslenskum útflutningi. Báðar greinarnar byggja á nýtingu endurnýjanlegrar orku og eru nátengdar íslenskri atvinnuuppbyggingu.

Á sama tíma og ESB beitir verndartollum á hráefni frá EES-ríkjum, innleiðir það nýja reglugerð um svokallaða kolefnisjöfnun við ytri mörk sameiginlega markaðarins, svonefnt CBAM-kerfi (Carbon Border Adjustment Mechanism).

Markmiðið er að jafna samkeppnisstöðu með því að leggja kolefnisgjöld á innflutning frá ríkjum utan ESB sem ekki lúta sama kolefnisverðkerfi og aðildarríki sambandsins. Í reynd getur slík löggjöf orðið að tækni- eða tollamúrum sem bitna á ríkjum eins og Íslandi, ríkjum sem þegar hafa innleitt nær alla umhverfislöggjöf ESB, en teljast samt "utan við mörkin".

Samningar tryggja ekki jafnræði
Verndartollarnir á járnblendi minna okkur á að formlegar skuldbindingar og loforð um jafnan markaðsaðgang duga skammt þegar ESB ákveður að verja eigin hagsmuni. Þó Ísland hafi fylgt reglum sambandsins um vöruflæði og tekið þátt í sameiginlegum markaði af ábyrgð, þá reyndist það litlu skipta þegar verndarhagsmunir stórra ríkja komu til álita.
Þetta er ekki fyrsta dæmið um að reglur ESB nýtist fyrst og fremst þeim sem hafa völdin til að móta þær. Það er áminning um að fjórfrelsi Evrópusambandsins á ekki að vera frjálst aðeins þegar það þjónar hagsmunum sambandsins sjálfs.

Og þegar hagsmunir stórra ríkja ráða för í trássi við gerða samninga, hvernig eigum við þá að leggja trú á "trúboðið" um að sérlausnir bíði handan við aðildarborðið?


Ákall elítu veitir ekki sjálfvirkt umboð

Í grein Ernu Bjarnadóttur á Vísir.is í dag, 6. ágúst, er bent á að engin ákvörðun hafi verið tekin af hálfu Alþingis eða ríkisstjórnar um áframhald umsóknar Íslands frá 2009. Skráning hennar hjá framkvæmdastjórn ESB felur ekki í sér lýðræðislegt umboð.

Greinin svarar beint áskorun sem sett var fram í grein Magnúsar Árna Skjöld Magnússonar 4. ágúst, þar sem hann hvetur stjórnvöld til að "klára það sem hófst 2009".

Engin ákvörðun, ekkert umboð
Á meðan hvorki hefur verið samþykkt þingsályktun, boðuð þjóðaratkvæðagreiðsla né tekin afstaða í ríkisstjórn, er enginn grundvöllur fyrir því að tala um virkt aðildarferli.

Eins og Erna bendir á, þarf íslensk ákvörðun að liggja að baki, óljós skráning í skruddum ESB færir ekki slíkt umboð.

Að halda öðru fram er dæmi um það sem fræðimenn hafa kallað elítudrifna samþættingu: að stefnumótun sé mótuð af þrýstingi að ofan fremur en lýðræðislegri umræðu og ákvörðun kjósenda.

Erna bendir einnig á að boðaðar "sérlausnir" í aðildarviðræðum séu ekki traustur grundvöllur. Þær eru háðar vilja annarra ríkja og eru hvorki varanlegar né lagalega bindandi.

Lýðræði krefst skýrleika en ekki formsatriða.


Samstarf á forsendum ESB er sjálf afþakkað

Frá Icesave til kísiljárnstolla: Hvernig Evrópusambandið beitir smáríki þrýstingi

Þótt Evrópusambandið tali um samráð og samstöðu, upplifa smáríki oftar en ekki allt annað í samskiptum sínum við sambandið. Þrýstingur kemur í stað samtals, og hótanir leysa af hólmi það sem kallað er "samvinna". Ísland þekkir þetta, bæði innan og utan formlegra samskipta.

Fullveldi sem hindrun
Síðustu áratugi hefur ESB beitt Íslandi þrýstingi í stórum málum: Icesave var eitt, makríldeilan annað og nýjasta dæmið núna er tollahótun vegna meintrar markaðsstöðu íslensks kísiljárns. Þar telur ESB sig þurfa að verja evrópskan markað gegn áhrifum frá fyrirtæki sem starfar innan 400.000 manna hagkerfis. Þetta er afhjúpandi. Þótt Ísland framleiði aðeins brot af heimsframleiðslu kísiljárns, er beitt verndarráðstöfunum gegn landinu líkt og við séum ógnun við efnahagslegt stórveldi.

Í öllum tilvikum hefur það verið fullveldi Íslands sem staðið í vegi fyrir "lausninni".

Óþægt smáríki sem kann ekki að þegja
ESB telur sig hafa rétt til að stýra en smáríki sem kunna að standa á rétti sínum eru óþæg. Það sýndi sig vel þegar þjóðin hafnaði Icesave-samningunum og EFTA-dómstóllinn staðfesti að við bærum enga ábyrgð. Það hefur einnig sýnt sig í makríldeilunni: ESB viðurkennir ekki að við eigum rétt á þeim fiskistofni sem hefur árum saman gengið inn í lögsögu okkar.

Í báðum málum voru hótanir, útilokanir og skilyrði í forgrunni alls ekki lausnamiðuð samvinna.

"Hefur ítrekað hótað okkur áður"
Eins og Hjörtur J. Guðmundsson bendir á í grein sinni "Hefur ítrekað hótað okkur áður" frá 2. ágúst sl., þá er þessi nýjasta hótun hluti af mynstri. Evrópusambandið hefur hótað Íslandi líklega oftar og harðar en nokkur önnur alþjóðastofnun eða ríki. Við höfum svarað með lýðræði, sjálfstæði og vörn hagsmuna okkar.

Við höfum valið að standa á rétti okkar áður og eigum að halda því áfram, í krafti fullveldis okkar.


Þar sem hann er kvaldastur

Þangað leitar klárinn sem hann er kvaldastur.  Fátt á betur við um Evróputrúboðið þessa dagana.

Ljóst er að ef Ísland væri enn hreppur í Danaveldi, og þar með Evrópusambandinu, hefði alþýða landsins fengið að borga Icesave upp í topp og varla fengið mikið meira en eina soðningu af makríl.  Raunar væri landhelgi Íslands hluti af landhelgi Evrópusambandsins og óvíst hversu marga sporða Íslendingar fengju af afla af Íslandsmiðum. 

Það eru nefnilega ríki í Evrópusambandinu sem hafa mörg hundruð ára veiðireynslu við Ísland og það eru ríkin sem ráða sambandinu.

Það gerist reglulega að í brýnu slær milli Íslands og Evrópusambandsins, eða einstakra ríkja innan sambandsins.  Þá hefur ævinlega reynst Íslendingum vel að vera ekki undir erlent stjórnvald settir.

 https://www.stjornmalin.is/?p=11566

 

 

 


Næsta síða »

Heimssýn

Heimssýn

hreyfing sjálfstæðissinna í Evrópumálum, eru þverpólitísk samtök þeirra sem telja hagsmunum Íslendinga best borgið með því að halda áfram að vera sjálfstæð þjóð utan Evrópusambandsins.

 

Sími 895 5334 (Haraldur Ólafsson, formaður)


Nánar um Heimssýn

Vertu með!

Frjáls framlög

Eldri færslur

Ágúst 2025
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (13.8.): 358
  • Sl. sólarhring: 463
  • Sl. viku: 2346
  • Frá upphafi: 1245373

Annað

  • Innlit í dag: 322
  • Innlit sl. viku: 2126
  • Gestir í dag: 311
  • IP-tölur í dag: 291

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband