Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Evrópumál

Íslandsvinur spáir að Ítalía verði næsta stórvandamál ESB

larsÍslandsvinurinn Lars Christensen spáir því í Fréttablaðinu í dag að Ítalía muni verða næsta stórvandamál ESB. Hann segir að ein af ástæðum lítils hagvaxtar á Ítalíu sé sú að landið sé í myntbandalagi ESB og með evru - sem landið hefði aldrei átt að taka upp.

Daninn og hagfræðingurinn Lars Christensen segir þetta m.a. í grein sinni: 

Ítalía gæti vel orðið næsti höfuðverkur ESB

Fjármálamarkaðir heimsins virðast vera að ná sér eftir fyrsta áfallið vegna niðurstöðunnar úr þjóðaratkvæðagreiðslu Breta um Evrópusambandið .... Hvað varðar Evrópusambandið er hins vegar alltof snemmt að álykta að við séum laus allra mála. Reyndar gæti verið að Brexit sé ekki stærsta áhyggjuefni ESB. Næsta stóra áhyggjuefni gæti verið Ítalía.

Ítalía - 15 ár án hagvaxtar

Ítalía er án nokkurs vafa eitt af þeim hagkerfum í Evrópu sem hafa staðið sig langverst síðasta áratuginn. Undanfarið hefur ótti vegna ástands ítalska bankageirans enn á ný komið upp á yfirborðið og í kjölfar Brexit-krísunnar hefur ítalski forsætisráðherrann Matteo Renzi lagt til meiri háttar björgunaraðgerðir fyrir ítalska bankageirann.

En slíkar áætlanir myndu sennilega stangast á við nýjar reglur ESB sem þýða í raun að slíkar björgunaraðgerðir skuli fyrst og fremst fjármagnaðar af sparifjáreigendum og lánardrottnum frekar en skattgreiðendum, svo að í bili lítur úr fyrir að Renzi geti ekki fengið samþykki frá ESB fyrir nýjum bankabjörgunarpakka. Það breytir hins vegar ekki þeirri staðreynd að ítölsku bankarnir eru í alvarlegum vanda og að hlutabréf í ítölskum bönkum hafa rýrnað um meira en helming að verðgildi á þessu ári.

... Ítalski bankageirinn er í vanda af sömu ástæðu og ítölsk ríkisfjármál eru í klandri – skortur á hagvexti.

Þannig hefur ekki orðið neinn raunverulegur bati í ítalska hagkerfinu síðan 2008. Raunar er verg landsframleiðsla núna að raunvirði næstum 10% minni en hún var í upphafi árs 2008 og það sem er jafnvel enn verra – raunvirði vergrar landsframleiðslu er núna það sama og það var fyrir 15 árum. Fimmtán ár án hagvaxtar – það er raunveruleiki ítalska hagkerfisins.

Það eru ýmsar ástæður fyrir hagvaxtarleysi Ítalíu. Ein er sú staðreynd að Ítalía er í myntbandalagi – evrusvæðinu – sem landið hefði aldrei átt að ganga í. Hin djúpa kreppa á Ítalíu krefst mikillar slökunar á peningamálastefnu – það er að segja Ítalía þarfnast mun veikari „líru“, en Ítalía hefur ekki lengur líruna og þess vegna eru peningamarkaðsskilyrðin of stíf fyrir Ítalíu.

Auk þess er Ítalía þjökuð af alvarlegum kerfisvandamálum – til dæmis stífum vinnumarkaðsreglum og neikvæðri mannfjöldaþróun. Afleiðingin er sú að útlitið er býsna dökkt hvað hagvöxt varðar.

Og þótt hagvöxtur hafi aðeins tekið við sér síðasta árið er ekki hægt að segja að hann sé tilkomumikill og nýjasti órói á mörkuðunum hefur sennilega skaðað ítalskan hagvöxt enn frekar og Ítalía gæti auðveldlega lent í samdrætti á ný á komandi mánuðum ef bankavandamálin stigmagnast.

Á meðan enginn hagvöxtur er til staðar er erfitt að sjá að skuldir einstaklinga og hins opinbera lækki að nokkru marki og þess vegna er mjög líklegt að við munum fljótlega sjá endurnýjaðar áhyggjur af bæði ítalska bankageiranum og ríkisfjármálum. Þess vegna gæti næsti höfuðverkur Evrópusambandsins vel orðið Ítalía.


Hollendingar andsnúnir ESB-samruna

markRutteMark Rutte, forsætisráðherra Hollands, segir að ef ESB héldi áfram í blindni að þróa ESB í átt til samruna og að bandaríkjum Evrópu væru forystumenn sambandsins í afneitun gagnvart þeirri afstöðu margra í Evrópu að ríkin ættu að stjórna áfram evrópskum málefnum. 

En skoðanir um þetta eru skiptar. Sumir telja að ESB muni líða undir lok ef það þróast ekki í átt til sambandsríkis á meðan aðrir segja að þá ætti það dauðan vísan.

Skyldi nokkurn undra þótt Juncker hafi allt á hornum sér.


mbl.is Sakar útgöngusinna um uppgjöf
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Heimssýn ályktar um vanda ESB og afturköllun umsóknar

islenskifaninnHeimssýn, hreyfing sjálfstæðissinna í Evrópumálum, bendir á að niðurstaða þjóðaratkvæðagreiðslunnar um útgöngu Breta úr ESB sýni í hnotskurn hinn mikla vanda sem ESB eigi við að etja. Þær aðstæður sem nú hafa skapast, ásamt samþykkt svissneska þingsins um að draga umsókn Sviss formlega og tryggilega til baka, knýi á um að Íslendingar dragi sína umsókn formlega og tryggilega til baka.

Þetta kemur fram í samþykkt framkvæmdastjórnar Heimssýnar frá 29. júní síðastliðnum. Þar segir:

 

Heimssýn, hreyfing sjálfstæðissinna í Evrópumálum, bendir á að niðurstaða þjóðaratkvæðagreiðslunnar um útgöngu Breta úr ESB sýnir í hnotskurn hinn mikla vanda sem ESB á við að etja. Mikil óánægja er um alla Evrópu með ýmislegt í þróun Evrópusambandsins, ekki síst vegna þess samruna sem hefur átt sér stað og þess að völd hafa í æ ríkara mæli verið flutt frá þjóðríkjunum til stofnana ESB í Brussel.

Við þessar aðstæður ætti öllum að vera ljóst hversu fráleitt það er að umsókn Íslands að ESB frá árinu 2009 skuli ekki hafa verið dregin tryggilega til baka líkt og Svisslendingar hafa nýverið gert. Þess vegna hvetur framkvæmdastjórn Heimssýnar til þess að Alþingi Íslendinga, sem hóf þessa vegferð án þess að spyrja þjóðina, samþykki, líkt og svissneska þingið nýlega, að draga umsóknina formlega og tryggilega til baka.

 

 


Útganga Bretlands úr ESB getur haft víðtæk áhrif í norðanverðri Evrópu

hjorleifur guttormssonÞað kanna svo að fara að innan tíðar opnist nýjar leiðir um efnahgagssamstarf milli Norðurlandanna allra og Bretlands, segir í grein eftir Hjörleif Guttormsson, fyrrverandi þingmannog ráðherra, í Morgunblaðinu 30. júní síðastliðinn. 

Greinin er birt í heild sinni hér:

Útganga Bretlands úr ESB getur h aft víðtæk áhrif í norðanverðri Evrópu.

Árið 1994 var stofnuð á Bretlandi stjórnmálahreyfing sem bar nafnið Referendum Party, sem setti á oddinn aðeins eitt baráttumál, þ.e. þjóðaratkvæðagreiðslu um tengsl Stóra-Bretlands við Evrópusambandið. Að baki þessum hópi  stóðu gagnrýnin öfl á þróun ESB í kjölfar Maastricht-sáttmálans, fremstur í flokki James Goldsmidt (1993-1997), óvenjulegur athafna- og hugsjónamaður sem dó fyrir aldur fram. Flokkurinn bauð fram í þingkosningum á Bretlandi 1997 og fékk um 800 þús. atkvæði, en vegna kosningakerfisins dugði það ekki til þingsætis. Undirritaður sat þing Referendum Party í Brighton haustið 1996 ásamt með liðsoddum frá öðrum Norðurlöndum sem barist höfðu gegn aðild að Evrópusambandinu, þeirra á meðal Kristen Nygaard sem fór fyrir Nei til EU, fjöldahreyfingunni í Noregi sem átti mestan þátt í að fella aðildarsamning Noregs við ESB 1994. – Um svipað leyti kom fram á sjónarsviðið í Bretlandi Sjálfstæðisflokkurinn UKIP (UK Independence Party) sem lengi vel fór lítið fyrir, en undir forystu Nigel Farage frá og með 2009 hefur hann sótt fram hröðum skrefum, fékk 27,5% og 24 þingmenn í kosningum til Evrópuþingsins 2014, og er á þeim vettvangi orðinn stærri en gömlu og grónu stjórnmálaflokkarnir.

 

Atburðurinn sem ekki átti að geta gerst

Þetta er rifjað upp hér þegar fyrir liggur niðurstaða þjóðaratkvæðagreiðslunnar í Bretlandi frá 23. júní sl. sem leiddi í ljós meirihluta fyrir því að Bretland segði sig úr Evrópusambandinu. Minnt skal á að sumar skoðanakannanir dagana fyrir þessar kosningar sýndu meirihlutafylgi við úrsögn, en svo rótfast var það sjónarmið að þetta hvorki ætti né mætti gerast að niðurstaðan úr atkvæðagreiðslunni varð óvænasti stjórnmálaviðburður í sögu ESB til þessa. Forysta Evrópusambandsins hefur alla tíð hatast við þjóðaratkvæðagreiðslur. Í þau fáu skipti sem þær hafa farið fram í aðildarríkjunum, hefur niðurstaðan gengið gegn tillögum frá Brussel, nú síðast í Hollandi í apríl í ár þegar 64% greiddu atkvæði gegn samningi ESB um nánari tengsl við Úkraínu. Ráð Brusselforystunnar og hlýðinna ESB-sinna  við slíkum úrslitum hefur að jafnaði verið að láta endurtaka atkvæðagreiðslur eftir lítilsháttar breytingar. Kröfur um slíkt eru þegar komnar fram í Bretlandi, en í þetta sinn verður tæpast á þær hlustað. Útganga Bretlands er orðin staðreynd.  Leitað er logandi ljósi að skýringum á niðurstöðunni, m.a. fullyrt að kjósendur hafi verið blekktir, en hinu er ekki haldið á loft hvernig ráðamenn austanhafs og vestan, með Obama forseta og Stoltenberg framkvæmdastjóra Nató í fararbroddi, kröfðust þess að Bretar sýndu ESB áfram hollustu. Segja má að mestallur heimurinn að frátöldum þeim Trump og Pútín hafi lagst í víking gegn Brexit!

 

ESB sem ólýðræðisleg valdablokk

Bresku kosningarnar hafa staðfest það rækilega sem öllum mátti vera ljóst, að Evrópusambandið er ólýðræðisleg valdablokk fjármagns og stórfyrirtækja sem færir völd og áhrif burt frá þjóðríkjunum í hendur yfirþjóðlegra stofnana, þar sem raunveruleg völd eru í  höndum gömlu meginlandsríkjanna. Þetta sýndu ljóslega fyrstu viðbrögðin við úrsögn Breta þegar kvaddur var saman leiðtogafundur Þjóðverja, Frakka og Ítala en hin aðildarríkin 24 máttu standa álengdar og bíða frétta. Evrópusambandið átti í miklum erfiðleikum fyrir, einkum ríkin 16 sem búa við evruna sem sameiginlega mynt. Viðbrögð við vanda myntsambandsins hafa birst í kröfum um hertan samruna, m.a. um sameiginlega fjármálastjórn aðildarríkjanna. Slíkar hugmyndir eru nú fjær því að hljóta brautargengi en áður. Engin sameinandi leið hefur verið mörkuð um viðbrögð við flóttamannastraumnum og Schengen samstarfið er í miklu uppnámi.  Leynimakkið kringum TTIP-viðskiptasamning ESB og Bandaríkjanna hefur sætt mikilli gagnrýni og enn aukið á tortryggni almennings. Það eru því framundan afar erfiðir tímar innanvert í ESB í aðdraganda þess að ganga þarf formlega frá útgöngu Breta í kjölfar þjóðaratkvæðagreiðslunnar og semja um framtíðarsamskipti.

 

Fjölgar í hópi EFTA-ríkjanna?

En óvissa er ekki aðeins bundin við þróun innan ESB. Hún hvílir einnig yfir Bretlandi í kjölfar kosninganna. Báðar hefðbundnu stjórnmálablokkirnar, Íhaldsflokkurinn og Verkamannaflokkurinn eru í sárum eftir úrslitin og tekist verður á um forystu í þeim báðum á næstunni. Samhliða blasir við það stóra verkefni að finna þessu gamla efnahagsveldi nýjan stað í samskiptum við umheiminn. Bretar sögðu skilið við fríverslunarsamtökin EFTA og gengu í þáverandi Evrópubandalag 1973, sama árið og Danmörk. Nú er eftir að sjá hvort Bretland hallar sér að EFTA á nýjan leik sem jafnframt gæti leitt til endurskoðunar EES-samningsins, sem telja verður óboðlegt samskiptaform til lengri tíma litið. Vaxandi óánægja er með ESB-aðild Í Danmörku, Svíðþjóð og Finnlandi. Það kann því svo að fara að innan tíðar opnist nýjar leiðir um efnahagssamstarf milli Norðurlandanna allra og Bretlands í kjölfar aðskilnaðar á síðasta þriðjungi 20. aldar.

 

Hjörleifur Guttormsson


ESB-marineruðum kerfiskrötum líkar ekki lýðræðið!

arniPOkkur andstæðingum aðildar Íslands að ESB hefur verið legið á hálsi fyrir að hafa haldið því fram að ríki gæti ekki sagt sig úr ESB eftir að það er einu sinni komið inn. Þetta er ekki alls kostar rétt. Samþykktir ESB hafa verið misjafnar í gegnum tíðina hvað þetta varðar en eftir samþykkt Lissabonsáttmálans voru sett inn ákvæði um úrsögn í margrumræddri 50. grein.

Vissulega gengu Grænlendingar úr sambandinu eftir að Danir höfðu ákveðið að ganga þangað inn. En útgönguferlið var Grænlendingum þungt og langdregið. Og nú hafa Bretar samþykkt í þjóðaratkvæðagreiðslu að nýta sér téða 50. grein til útgöngu. En þá rísa upp ESB-marineraðir kerfiskratar og íhaldsmenn í Bretlandi og víðar og segja að nú verði þingið að taka málið til sín. Það sé ekki hægt að láta þjóðina ákveða í einfaldri atkvæðagreiðslu svona stórt og flókið mál. Þessir aðilar, sem eru t.d. virkir í Verkamannaflokknum, segja nú m.a. að ekki hafi verið búið að samþykkja lög og móta þá leið sem fara eigi við útgöngu! 

Í svipaðan streng tók Árni Páll Árnason,fyrrverandi formaður Samylkingarinnar, í viðfestri grein úr mbl.is. 

Hvað er að þessu fólki? Árni Páll og ýmsir breskir kratar virðast telja vafasamt að láta þjóðir kjósa um jafn stóir mál og aðild að ESB eða úrsögn úr því eftir atvikum. Þessir ESB-marineruðu kerfiskratar vilja að aðeins stjórnmálamenn og embættismenn sem hafa hlotið hæfilega Brussel-skólun fái að vega og meta kosti og galla ESB-aðildar og ákveða leiðir.

Það hefur lengi verið talað um lýðræðishallann í ESB út frá ýmsum forsendum. Síðustu daga hefur lýðræðishallinn náð nýjum hæðum í huga Árna Páls og annarra ESB-krata.

 


mbl.is Breska þjóðaratkvæðið „furðuflipp“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Áráttuhegðun innan ESB

Það er undarleg þessi árátta ESB-aðildarsinna að segja mönnum að hunskast í burtu. Juncker forseti framkvæmdastjórnar sagði breskum fulltrúum á þingi ESB að koma sér heim og nú heimtar íhaldsmaðurinn Cameron að kratinn Corbyn hunskist heim til sín. Kannski þarf að senda sáttasemjara frá SÞ á svæðið?


mbl.is „Í guðs bænum, farðu!“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Munchau: Íslenska leiðin er best eftir Brexit!

Wolfgang Munchau, þekktur fréttaskýrandi um Evrópumál, skrifar í Financial Times í dag að Bretar eigi að velja norsku leiðina í Evrópusamstarfi eftir Brexit. Hann minnist hvergi á Ísland sem er þó í sömu stöðu og Noregur. Það er kannski of erfitt fyrir breska stórblaðið Financial Times að nefna Ísland sem fyrirmynd eftir leikinn í gær?


Til hamingju Ísland!

lididÁrangur íslenska karlalandsliðsins er frábær.

Ætli Englendingar heimti nokkuð að leikurinn verði endurtekinn! :-)

Til hamingju Ísland!


mbl.is Áttuðu sig ekki á íslensku geðveikinni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Til hamingju, Guðni Th. Jóhannesson!

gudniVið óskum Guðna Th. Jóhannessyni, nýkjörnum forseta Íslands, til hamingju með kjörið. Jafnframt óskum við honum velfarnaðar í starfi, þjóð og landi til heilla. 


Misskipting auðs í ESB

Vaxandi misskipting auðs í ESB-löndum er ein af ástæðum þess hversu margir eru óánægðir með sambandið. Jón Bjarnason, fyrrverandi ráðherra og formaður Heimssýnar, kom inn á þetta í viðtali í hádegisfréttum Ríkisútvarpsins rétt í þessu. 

Viðtalið var tekið í tilefni af úrsögn Breta úr ESB en Jón sagði að sú niðurstaða væri sigur lýðræðisins gegn hinu miðstýrða bandalagi. Þá sagði Jón að misskipting auðs væri gífurleg í ESB-ríkjunum.  

Jón sagði sagði rétt fyrir Íslendinga að draga þá ályktun af kosningunni í Bretlandi að Alþingi samþykkti að draga umsóknina frá 2009 að ESB formálalaust til baka.

Því má svo bæta við hér að það er ekki bara misskiptingin innan ESB-ríkja sem er vandamálið, heldur ekki síður það að auðurinn hefur færst frá jaðarlöndunum í suðri til Þýskalands og fáeinna annarra ríkja. Fyrir vikið hefur skuldasöfnun, atvinnuleysi og efnahagsbasl aukist í jaðarríkjunum í suðri sem þekkt er.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Heimssýn

Heimssýn

hreyfing sjálfstæðissinna í Evrópumálum, eru þverpólitísk samtök þeirra sem telja hagsmunum Íslendinga best borgið með því að halda áfram að vera sjálfstæð þjóð utan Evrópusambandsins.

 

Sími 895 5334 (Haraldur Ólafsson, formaður)


Nánar um Heimssýn

Vertu með!

Frjáls framlög

Eldri færslur

Sept. 2025
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.9.): 7
  • Sl. sólarhring: 427
  • Sl. viku: 2315
  • Frá upphafi: 1261465

Annað

  • Innlit í dag: 6
  • Innlit sl. viku: 2167
  • Gestir í dag: 6
  • IP-tölur í dag: 6

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband