Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Evrópumál

Evrópusambandið og fallbyssufóðrið

heimssyn-fallinn-hermadur

Flestum er í fersku minni þegar umsókn um aðild Íslands að Evrópusambandinu var samþykkt á Alþingi 16. júlí 2009.  Þar voru í fararbroddi stjórnmálahreyfingar sem hafa löngum talið sér skylt að veita friðar- og afvopnunarmálum brautargengi.  Ekki vildu allir á þeim bæjum horfast í augu við hið hernaðarlega eðli Evrópusambandins og mösuðu þess í stað í sífellu um að þeir hefðu oft komið til Evrópu og aldrei séð Evrópusambandshermann.

Nú, rúmum áratug síðar stingur Evrópusambandið sér á bólakaf í blóðuga styrjöld í Evrópu. Sambandið kaupir og afhendir vopnin.  Ekki er þörf á að kaupa menn til að bera þau, því einn styrjaldaraðila útvegar þá með því að afnema ferðafrelsi og þvinga menn nauðuga í veg fyrir byssukjaftana.  Það er gamall evrópskur siður sem Evrópusambandið kippir sér lítið upp við, og kannski ekki heldur vinir þess á Íslandi.

https://ec.europa.eu/commission/presscorner/detail/en/statement_22_1441


Evrópumenning er ýmislegt

heimssyn-ukraina

Það fór þá svo að ógæfan sem menn óttuðust helltist yfir í Austur-Evrópu.  Það er dapurlegt, en kemur því miður ekki á óvart. 

Stjórnendur ríkis telja sér ógnað af öðru ríki og reyna að skipta þar um stjórn með hólkum og púðri.  Þeir sem fyrir sitja á fleti bregðast við eins og venja hefur verið í flestum löndum Evrópu í aldaraðir, með því að loka hálfa þjóðina inni og þvinga hana í veg fyrir fallstykkin. Mörg ríki Evrópu telja sér skylt að útvega þessu fólki púður og blý sem ljóst er að hefur þann tilgang helstan að auka blóðstreymið og fylla kjötkvarnirnar.  Allt er þetta ríkur þáttur í menningu mjög margra, ef ekki flestra Evrópuríkja. 

Hlutur Íslendinga í þessum leik er að reyna að tala um fyrir mönnum þar sem því verður við komið og umfram allt að gæta þess eins og framast er unnt að ekkert þeirra ríkja og engin þeirra þjóða sem þarna eiga hlut að máli á fái nein völd á Íslandi.


Arnar og Ögmundur

arnar-ogmundur2-1536x747Á sínum tíma óskuðu íslensk stjórnvöld eftir innlimun Íslands í Evrópusambandið.  Fór sú áætlun út um þúfur eins og við mátti búast, enda var allt það upphlaup við annarlegar aðstæður sem gengu hratt yfir.  Líklegt verður að telja að kynslóðir framtíðar munu líta á þessa ósk íslenskra stjórnvalda eins og afglöp ölóðs manns og að bankahrunið 2008 hafi verið ölið. 

Í ölæði umsóknarinnar náðu smámál á borð við gengisskráningu, fjármögnun skóla og smásöluverð á áleggi stundum að fljóta upp í umræðu sem að öllu eðlilegu hefði átt að eiga sér stað um grunngildi samfélagsins og stjórnskipun.  Líkur á innlimun Íslands í Evrópusambandið eru nánast að engu orðnar, en engu að síður er ástæða til að fagna umræðu um fullveldismál.   Að öðrum ólöstuðum hafa þeir Arnar Þór Jónsson og Ögmundur Jónasson lagt drjúgt til í þeim málum.  Það er óhætt að mæla með samtali þeirra um lýðræði, fullveldi, ábyrgð og fleira á Útvarpi sögu 18. janúar sl.

https://www.utvarpsaga.is/fullveldid-er-thyrnir-i-augum-theirra-sem-adhyllast-althjodavaedingu-fjarmagnsins/


Við vissum það reyndar

600px-Deutscher_Bundestag_logo.svg

Það er ekkert launungarmál að Þjóðverjar og Frakkar ráða í Evrópusambandinu.  Hinir dingla með.  Í þessum tveimur löndum er það heldur ekki feimnismál, þótt víða annars staðar sé það svo.  Það er því eðlilegt að í sáttmála þýsku ríkisstjórnarinnar sé tekið á því hvernig fara skuli með Evrópusambandið, enda er það gert.  Í Evrópukaflanum er fjallað um að stefnt skuli að öflugu sambandsríki Evrópu.  Færa skuli Evrópuþinginu meiri völd en það hefur nú og opna á fjölþjóðleg framboð til þingsetu.  Ljóst er að það mun leiða til þverrandi áhrifa smáríkja sem nú hafa fyrirfram ákveðinn fjölda þingsæta.  Annað væri ólýðræðislegt og það sér þýska ríkisstjórnin auðvitað.  

Við vissum þetta reyndar allt saman, en það er ágætt að fá það staðfest eina ferðina enn, í þetta sinn frá æðsta ráði höfuðbólsins.

 

Hjörtur á fullveldi.is gefur gott yfirlit um sitthvað tengt ríkisstjórnarsáttmálanum.


Áramót

heimssyn-flugeldarVið áramót er viðeigandi að staldra við, líta yfir farinn veg og horfa fram á við.

Það er ljúft og skylt að viðurkenna að staða fullveldismála er nú betri en hún hefur stundum áður verið.  Fáir tala fyrir innlimun Íslands í Evrópusambandið og þeir sem á það hlusta virðast ekki vera mikið fleiri.  Ástæða er til að gleðjast yfir því.  Þrátt fyrir allt hefur upplýst umræða um gildi lýðræðis og fullveldis þjóðarinnar skilað árangri.  Þau fáu rök sem sumum tókst að finna fyrir því að best væri að farga fullveldinu til að geta verið með í að styrkja völd gömlu evrópsku nýlenduveldanna á taflborði heimsins hafa gufað upp eins og dögg á heiðríkum morgni.  Flestir vita nú orðið að Evrópusöngvakeppnin er ekki hluti af skemmtidagskrá Evrópusambandsins og að Mannréttindadómstóll Evrópu er ekki útibú frá Evrópusambandinu, hvaða skoðun sem menn kunna annars að hafa á þessum stofnunum.   

En hvað gerir þjófur sem kemur að læstum dyrum?  Reynir hann ekki við bakdyrnar? Sú hefur því miður verið raunin að Evrópusambandið, sem hefur komið að læstum aðaldyrum í Noregi og á Íslandi, hefur laumast að bakdyrunum og smám saman tekið til sín aukið vald í einum málaflokki í einu í gegnum samninginn um evrópska efnahagssvæðið.  Sú sérkennilega skoðun er nefnilega nokkuð algeng að erfitt væri að draga fram lífið á Íslandi án þessa samnings og þess vegna sé rétt að gera nánast hvað sem er til að minnka líkurnar á því að hann líði undir lok.  Í skugga ótta af þessu tagi samþykkti meirihluti Alþingis að framselja vald í orkumálum á Íslandi til Evrópusambandsins.  Fleiri málaflokkar hafa lent í hliðstæðu valdaframsali og er ekki séð fyrir endann á slíku.  Það verður viðfangsefni komandi árs og ára að stöðva hið hálf-sjálfvirka valdaframsal stjórnvalds í gegnum EES-samninginn og að hefjast handa við að endurheimta vald sem tapast hefur.

Að svo mæltu óskar Heimssýn landsmönnum öllum og öðrum íbúum jarðarinnar gleðilegs nýs árs.


Arnar Þór á það skilið

Óhætt er að segja að í brjóstum flestra landsmanna búi fullveldissinni.  Þeir hafa hver sitt göngulag eins og háttar í mannlífinu.  Sumir fara hljóðlega, en aðrir ríða röftum.  Flestir láta duga að ræða málin við vini og vandamenn, en aðrir ávarpa þjóðina.  Einn þeirra síðarnefndu er Arnar Þór Jónsson, fyrrverandi dómari. Ávörp Arnars Þórs hafa vakið verðskuldaða athygli vegna þess hversu rökföst þau eru og vel ígrunduð.  Arnar Þór er hugsjónamaður og lóð hans í fullveldisumræðunni er þungt sem blý. 

Sjaldnast fá menn þakkir fyrir framlag sitt í opinberri umræðu, stundum bara skítkast.  Núna gefst fullveldissinnum tækifæri til að þakka Arnari Þór með því að kjósa hann manneskju ársins hjá ruv.is

https://www.ruv.is/frett/2021/12/26/hver-er-manneskja-arsins-2021arnar-thor-fb


Jólakveðja

Heimssýn óskar landsmönnum öllum, til sjávar og sveita, gleðilegra jólaimage


Evrópumenn brýna kutana

heimssyn-her-srb

Fréttir berast nú úr fleiri en einum stað í Evrópu að í undirbúningi sé að leiðrétta landamæri.  Það væri uppgerð að láta slíkt koma sér á óvart, því við þetta hafa Evrópumenn fengist, lengur en þeir hafa kunnað að lesa og skrifa.  Íslendingar hafa verið blessunarlega lausir við leiki af þessu tagi, þótt ýmsir einstaklingar hér á landi hafi í gegnum tíðina viljað hvetja áfram það ríki, sem í illverkum sínum hafði skárri málstað, en andstæðingurinn í sínum illverkum.

Best er að Íslendingar komi þarna sem minnst nálægt, en reyni að róa menn, gefist færi til þess.  Umfram allt ber svo að gæta þess að þetta óróafólk fái engin völd á Íslandi, hvort sem er undir yfirskini réttlætis, velsældar, friðar eða einhvers annars sem vel kann að hljóma hverju sinni.


103 ára

heimssyn-sambandslog_stor_030718

Sambandslagasamningur Íslendinga og Dana á afmæli í dag.  Þótt samningurinn hafi tekið gildi í skugga pestar og vetrarmyrkurs er óhætt að segja að 1. desember 1918 hafi verið einn af bjartari dögum í sögu Íslendinga.  Með samningnum öðluðust Íslendingar að heita má fullt vald í öllum helstu málum sem vörðuðu stjórn landsins og hann var tvímælalaust stærsta skrefið í aldarlangri sjálfstæðisbaráttu sem hefð er að telja að hafi lokið með stofnun lýðveldis á Þingvöllum 17. júní 1944.

En það er því miður ekki svo að sjálfstæðisbaráttunni hafi lokið í rigningunni á Þingvöllum sumarið 1944.  Stjórnmálaþróun síðustu ára og áratuga segir okkur það helst að sjálfstæðisbaráttan er sífelluverkefni.  Sífellt er sótt að fullveldi þjóðarinnar.  Það gerist ekki í einum stórum áfanga, heldur er nagað í einn málaflokk í einu uns allt er upp étið.  Þess er skemmst að minnast að Alþingi framseldi nýverið vald í orkumálum til erlends ríkjasambands, án þess að nokkur gæti svarað því hvers vegna það væri gert.  Í undirbúningi er sérstakur skattur á ferðamenn sem koma til Schengensvæðisins og mun sá skattur leggjast mun þyngra á íslenskt atvinnulíf en aðra sem aðila eiga að því samstarfi.  Þá má minnast á dóm sem bannar íslenskum stjórnvöldum að takmarka innflutning á hráu, ófrosnu kjöti, jafnvel þótt óumdeilt sé að þar sé mál sem snúist fyrst og fremst um heilbrigði þeirra sem landið byggja.  Svona mætti lengi telja. 

Það er full ástæða til að gleðjast yfir gömlum sigrum á 103 ára afmælinu, en mikilvægast er þó að horfast í augu við að baráttan fyrir fullveldi Íslands stendur enn.

  

 

 


Þótt náttúran sé lamin með lurk

breskur-herkall

Árátta Breta og þeirra ríkja sem nú stjórna Evrópusambandinu hefur öldum saman verið að eiga í striði.  Þar hafa menn lítið dregið af sér, sprengt svo mikið og drepið svo marga að ekki verður tölu á komið.   Á Íslandi hafa menn fengist við aðra iðju undanfarnar 7-8 aldir og að mestu leyti hefur hermennska ekki verið stunduð á Íslandi frá upphafi vega, ef frá er talin tímabundin óöld fyrir um 800 árum.   Líklega bera Íslendingar í sér hjarðónæmi gegn hernaði og styrjöldum. Það yrði a.m.k. hlegið að þeim sem gæfu sig fram í herför gegn meintum óvinum ríkisins.  Í mörgum löndum Evrópu er ekki hlegið að svoleiðis fólki.  Það fær orður og yfir sig bautasteina. 

Stundum hafa verið löng friðartímabil í Evrópu, en þótt náttúran sé lamin með lurk, þá leitar hún út um síðir.  Gott er að hafa það í huga áður en erlendum ríkjum eru fengin meiri völd en þau nú þegar hafa á Íslandi.

 

https://www.theguardian.com/uk-news/2021/nov/14/uk-must-be-ready-for-war-with-russia-says-armed-forces-chief


« Fyrri síða | Næsta síða »

Heimssýn

Heimssýn

hreyfing sjálfstæðissinna í Evrópumálum, eru þverpólitísk samtök þeirra sem telja hagsmunum Íslendinga best borgið með því að halda áfram að vera sjálfstæð þjóð utan Evrópusambandsins.

 

Sími 895 5334 (Haraldur Ólafsson, formaður)


Nánar um Heimssýn

Vertu með!

Frjáls framlög

Eldri færslur

Sept. 2025
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (18.9.): 23
  • Sl. sólarhring: 344
  • Sl. viku: 2851
  • Frá upphafi: 1259521

Annað

  • Innlit í dag: 20
  • Innlit sl. viku: 2646
  • Gestir í dag: 20
  • IP-tölur í dag: 20

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband