Leita í fréttum mbl.is

Koníaksaðferðin

Það er fróðleg umfjöllun í norska dagblaðinu Dagens Næringsliv um stöðu evrunnar og ESB. Dálkahöfundurinn Kjetil Wiedswang skrifar þar nýlega pistil sem hann kallar koníaksaðferðina. Þar lýsir hann því hvernig hugmyndir koníakssölumannsins og sendifulltrúans Jean Monnets (1888-1979), sem gat sér gott orð í frönsku viðskipta- og stjórnmálalífi, hafi lagt grunn að skrifræði Evrópusambandsins en um leið girt fyrir áframhaldandi möguleika evrunnar þar sem hún þurfi annars konar umhverfi og vinnubrögð en skrifræðisstofnanir sambandsins geta veitt.

Aðferð koníakssalans Monnets, sem fylgt hefur verið í mörgum málum í ESB, var að pakka ákvörðunum saman í það sem Wiedswang kallar teknokrati og byrokrati (tækniræði og skrifræði), láta síðan stjórnmálamenn taka ákvörðun um eitthvað sem þeir hafa ekki fullan skilning á, hvað þá kjósendur þeirra. Eftir stuttan tíma verður slík ákvörðun orðin viðbót í evrópsku stjórnarbygginguna, þ.e. ef enginn mótmælir hressilega, og þá er hægt að endurtaka leikinn og halda áfram, koll af kolli. Á ákveðnum tímapunkti verður stjórnarbyggingin orðin svo umfangsmikil að það verður ekki aftur snúið.

Monnet vildi frið og frjálsa verslun í Evrópu og notar til þess það sem Wiedswang kallar franska skrifræðismenningu (Monnet átti samstarf við franska utanríkisráðherrann Schuman og framlag þeirra er þekkt sem Schuman-áætlunin). Það má segja að honum hafi tekist vel upp á fyrri stigum, en þegar kom að evrunni gilti allt annað.  Aðferð Monnets, koníaksaðferðin, tekur tíma. Hana verður að taka í smáum og hægum skrefum, líkt og þegar dreypt er á koníaki. Evran, gjaldeyrismarkaðir og aðrir markaðir, krefst hins vegar skjótari lausna.  Þar er það spurning um klukkustundir eða daga, ekki mánuði eða fleiri ár eins og reynst hefur með yfirstandandi kreppuviðbrögð Evrópusambandsins.  Sambandið getur ekki tekist á við skammtímavandamál á sviði efnahagsstjórnar.  Það og sú staðreynd að evrusvæðið hefur ekki reynst hagkvæmt gjaldmiðilssvæði hlýtur að fela í sér ófyrirséðar og miklar breytingar á núverandi stöðu ESB og evrunnar svo vitnað sé til annars Norðmanns í sama blaði, Victors Normans, prófessors í þjóðhagfræði við Norges Handelshöyskole.

Bretar hafa oft gagnrýnt frönsku koníaksaðferðina, Norðmenn hafa hafnað henni í tvígang og Svíar og Danir og fleiri hafa spyrnt við fótum. Miðevrópska embættismannaelítan með rætur í Brussel, París og víðar þráast hins vegar við. Spurningin er bara hvort þeim tekst að bjarga evrunni. Hvort sem það tekst eða ekki er ljóst að kerfisgallar í evrusamstarfinu þar sem ríki hafa á síðustu árum færst hvert í sína áttina,  - þar sem Þýskaland hefur unnið hvern slaginn á fætur öðrum í viðskiptum en jaðarríkin á borð við Ítalíu og Grikkland orðið að lúta í lægra haldi og safnað skuldum -, að þessir kerfisgallar munu hafa mjög alvarlegar afleiðingar fyrir íbúa í Evrópu, og  jafnvel víðar ef kreppan dreifist til annarra heimshluta. Það væri óskandi að þessum hremmingum færi að ljúka, en það sem við sjáum í Grikklandi í dag er líklega bara forsmekkurinn að því sem á eftir að koma í ljós.

Evran tapar stuðningi Delors

Hann er kallaður faðir Evrópusambandsins og ekki að ástæðulausu. Jacques Delors var forseti framkvæmdastjórnarinnar 1985-1995. Í hans valdatíð var Maastricht samningurinn saminn; EBE lagt niður og ESB stofnað,  innri markaðurinn varð til, fjórfrelsið, Schengen undirritaður og tólf-stjörnu fáninn tekinn upp, svo sumt af því helst sé nefnt. Og svo auðvitað evran.

 Gefur ESB falleinkunn

Delores varð fyrsti forseti framkvæmdastjórnar ESB, þegar það kom í stað gamla Efnahagsbandalagsins í nóvember 1993. Enginn hefur efast um stuðning Delors við „Evrópuverkefnið", en nú er hann sjálfur farinn að efast. Svo mjög að hann gefur stjórnendum ESB falleinkunn, segir þá skorta bæði ráð og framtak. Þeir ráða ekki við verkefnið. Hann vill bjarga ríkjum undan evrunni og segir Evruland standa á hengiflugi.

Frelsum ríki undan evrunni

Delores vill að samningum sé breytt þannig að ríki geti komist út úr myntsamstarfinu, losað sig við evruna og tekið aftur upp alvöru gjaldmiðil. Grikkir setja hugmyndir Delors í dramatískan búning, að þær gangi út á að reka ríki úr evrunni. Hugmyndir föður ESB eru um leið aðvörun til annarra jaðarríkja um að vaða ekki út í evrusvaðið.

Íslenskir kratar í eigin heimi

Á meðan halda íslenskir kratar áfram að telja sjálfum sér trú um dásemdir Sambandsríkisins ESB, eins og þeir séu ekki í neinu sambandi við umheiminn og veruleikann. Árni Páll lætur ekkert tækifæri ónotað til að tala niður krónuna og dásama evruna, sem nú ógnar efnahagslífi alls heimsins. Ótrúlegt!

(Tekið héðan.)


Bloggfærslur 20. október 2011

Heimssýn

Heimssýn

hreyfing sjálfstæðissinna í Evrópumálum, eru þverpólitísk samtök þeirra sem telja hagsmunum Íslendinga best borgið með því að halda áfram að vera sjálfstæð þjóð utan Evrópusambandsins.

 

Sími 895 5334 (Haraldur Ólafsson, formaður)


Nánar um Heimssýn

Vertu með!

Frjáls framlög

Eldri færslur

Júlí 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30 31    

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (8.7.): 27
  • Sl. sólarhring: 285
  • Sl. viku: 1577
  • Frá upphafi: 1234346

Annað

  • Innlit í dag: 20
  • Innlit sl. viku: 1314
  • Gestir í dag: 19
  • IP-tölur í dag: 19

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband