Leita í fréttum mbl.is

Eina lausnin fyrir evruna?

ESB var á sínum tíma draumsýn og það var evran líka. Nú hefur hvort tveggja orðið að veruleika, sem er þó allt annar veruleiki en vonast hafði verið eftir, einkum varðandi evruna. Evru-draumsýnin er reyndar orðin að martröð. Samt er allt kapp lagt á að eysa vandræði evrunnar sjálfrar og koma í veg fyrir að hnökrar hennar íþyngi íbúum Evrópu um of. ESB og Seðlabanki Evrópu leita nokkuð hefðbundinna leiða í þeim efnum, en það eru ekki allir trúaðir á að lausnir þeirra dugi til lengdar. Það þurfi miklu róttækari leiðir til að leysa vandann.

Einn þeirra sem vill leita róttækra lausna er belgíski félagsvísindamaðurinn, heimspekingurinn og hagfræðiprófessorinn Philippe van Parys sem hefur verið verðlaunaður fyrir framlag sitt til umræðu um þjóðfélagsmál í heimalandi sínu og víðar.

Í stuttu máli segir hann að vandamál evrunnar sé aðallega af tvennum toga. Í fyrsta lagi sé hreyfanleiki vinnuafls of lítill í Evrópu til þess að það geti jafnað sveiflur í framboði og eftirspurn eftir vinnuafli á mismunandi svæðum í álfunni. Ástæðan er einkum mörg tungumál og ólík menning. Þetta sé annar helsti munurinn á Evrópu og Bandaríkjunum. Hinn munurinn sé sá að opinber og miðstýrð fjárframlög til ólíkra héraða sé margfalt meiri í Bandaríkjunum en í Evrópu, eða 20-40 sinnum meiri, og því geti Bandaríkjamenn á þann hátt brugðist betur við mismunandi hagsveiflum einstakra fylkja. Þetta skýrist af því að alríkið í Bandaríkjunum hefur talsvert umleikis, en styrkur ESB í hlutfalli af styrk einstakra ríkja er almennt mjög lítill og fjárveiting ESB til aðildarríkja og héraða sé örsmá í þeim samanburði og allt of lítil til að geta brugðist við og jafnað ólíkar hagsveiflur héraðanna. Fræðimaðurinn taldi að ekki væri útlit fyrir að breyting yrði á þessum tvennu.

Eina lausnin, segir van Parys, er að koma upp kerfi fyrir jöfn og ótekjutengd framlög til allra einstaklinga á evrusvæðinu. Þar yrði um að ræða ákveðið framlag til hvers einstaklings - sem yrði það sama hverjar sem tekjur eða aðstæður viðkomandi væru. Þannig væri hægt að jafna kjör allra að vissu marki, koma í veg fyrir skort, jafna eftirspurn og neyslu og draga úr þeim endalausa vanda sem blasað hefur við evrunni. Þessi framlög yrðu fjármögnuð með virðisaukaskatti.

Philippe van Parys kynnti þessar hugmyndir sínar í opnunarerindi á árlegri ráðstefnu bandarískra félagsfræðinga sem haldin var í Denver í Colorado í Bandaríkjunum um síðustu helgi. Fræðimaðurinn gerir sér aðspurður grein fyrir því að þessi hugmynd hans er draumsýn og að ekki séu margir í ESB-stofnunum sem aðhyllast þessar skoðanir hans. Hann fylgir máli sínu þó eftir með því að segja að allar nýjar stofnanir hafi verið draumsýn á sínum tíma - og því geti hans draumsýn allt eins orðið að veruleika og aðrar. Með því að deila sama ótekjutengda framlaginu niður á alla íbúa álfunnar yrði stuðlað að grunnframfærslu, vissum jöfnuði og væntanlega félagslegri sátt.

Hugmynd fræðimannsins er athyglisverð, en hún er þó mjög fjarri því að verða að veruleika. Miðað við að hann segi að evran standist ekki við núverandi aðstæður og að örfáir deili draumsýn hans um lausn mála virðist sem evran eigi sér litla von sem stendur.  Lausnin virðist ekki í sjónmáli. Fram kom í máli manna á göngum ráðstefnunnar að ýmsir telja að á meðan svo er sé skynsamlegra fyrir íslensku þjóðina að bíða í það minnsta átekta og fresta öllum áformum um inngöngu í þetta samband sem nú stendur á ansi veikum fótum. - SJS


mbl.is Ræða framtíð Grikklands
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Heimssýn

Heimssýn

hreyfing sjálfstæðissinna í Evrópumálum, eru þverpólitísk samtök þeirra sem telja hagsmunum Íslendinga best borgið með því að halda áfram að vera sjálfstæð þjóð utan Evrópusambandsins.

 

Sími 895 5334 (Haraldur Ólafsson, formaður)


Nánar um Heimssýn

Vertu með!

Frjáls framlög

Eldri færslur

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (10.1.): 90
  • Sl. sólarhring: 221
  • Sl. viku: 2063
  • Frá upphafi: 1182827

Annað

  • Innlit í dag: 86
  • Innlit sl. viku: 1806
  • Gestir í dag: 85
  • IP-tölur í dag: 85

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband