Leita í fréttum mbl.is

Magakveisan lagast ekki með því að afbaka pítsuna sem henni olli

Það er merkilegt að heyra þingmann Samfylkingar halda því fram að áhrif okkar á evrópska efnahagssvæðinu (EES) séu svo lítil í samanburði við það að vera fullgildur aðili að Evrópusambandinu að ef við gerumst ekki hundrað prósent aðilar að ESB sé eðlilegt að segja upp samningnum um evrópska efnahagssvæðið.

Það er margt við þessa framsetningu þingmannsins, Marðar Árnasonar, að athuga.

Í fyrsta lagi gerir hann ráð fyrir að mun stærri hluti lagasetningar sé ættaður frá ESB en er raunin. Það hefur oftsinnis verð sýnt fram á að þetta sé lítill minnihluti þeirra laga sem samþykkt eru, 10-20%. Hinu má heldur ekki gleyma að Íslendingar eru aðilar að fleiri alþjóðlegum samtökum og við þurfum að setja í lög samþykktir fleiri alþjóðlegra samtaka þar sem áhrif okkar eru hverfandi.

Í öðru lagi er það draumsýn þessa þingmanns að Íslendingar myndu hafa einhver áhrif sem máli skipta á reglusetningu ESB. Með fulltrúafjölda við lagasetningu ESB sem nemur aðeins hluta úr prósenti, eða 6 af rúmlega sjö hundruð, og tiltölulega lítið embættismannakerfi og sérfræðingaveldi er ljóst að jafnvel þótt okkar fólk væri frábærlega vel gert hefði það lítið afl gegn hagsmunum stórríkjanna og stórfyrirtækjanna í álfunni.

Í þriðja lagi þá vill þingmaðurinn að Íslendingar afsali sér yfirráðum yfir þeim málaflokki sem skiptir ennþá mestu fyrir lífsafkomu okkar. Hann vill að formleg yfirráð yfir fiskimiðunum færist til Brussel gegn sáralitlum og óljósum áhrifum á lagasetningu; sem sagt vald yfir lífsafkomu okkar gegn einhverju óljósu sem skiptir líklega ekki miklu máli þegar upp er staðið.

Í fjórða lagi vekur þessi umræða alltaf upp spurningar um það hvort þau sem vilja breyta stjórnarskránni með þessum formerkjum séu mörg hver ekki fyrst og fremst að hugsa um að auðvelda fulla aðild að ESB.

Í fimmta lagi þá er það þannig að jafnvel þótt okkur hafi orðið dálítið óglatt á regluverkinu sem fylgt hefur EES-svæðinu, þá er ekkert endilega víst að það einfaldasta eða besta væri að segja EES-samningnum upp þótt sjálfsagt sé að skoða það og ræða. Uppsögn samningsins myndi fylgja óvissa og óvissa er oft dýrkeypt. Hins vegar er ljóst, samanber lið númer sex, að velferð hér á landi hefði að líkindum verið jafngóð eða betri án EES-samningsins.

Í sjötta lagi er það staðreynd að heildaráhrifin af aðild okkar að evrópska efnahagssvæðinu eru bæði óljós og umdeilanleg. Það er hins vegar alveg ljóst að hið mikla bankahrun hér á landi hefði ekki verið mögulegt ef við hefðum ekki verið á EES-svæðinu. Þá hefðu forystumenn bankanna ekki haft nær ótakmarkað frelsi til útrásar í Evrópu. Þá hefði landsframleiðsla  hér á landi ekki dregist saman um 10% eftir bankahrunið.

Nettóáhrifin af EES-samningnum eru því örugglega neikvæð þegar litið er á þann mælikvarða sem oftast er notaður við velferðarmælingar, þ.e. framleiðsla eða tekjur á mann. En við lögum ekki þann skaða með því að yfirgefa EES-svæðið núna, ekki frekar en að við lögum magakveisu með því að endurgera matinn sem henni olli.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Heimssýn

Heimssýn

hreyfing sjálfstæðissinna í Evrópumálum, eru þverpólitísk samtök þeirra sem telja hagsmunum Íslendinga best borgið með því að halda áfram að vera sjálfstæð þjóð utan Evrópusambandsins.

 

Sími 895 5334 (Haraldur Ólafsson, formaður)


Nánar um Heimssýn

Vertu með!

Frjáls framlög

Eldri færslur

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (25.11.): 29
  • Sl. sólarhring: 499
  • Sl. viku: 2536
  • Frá upphafi: 1166296

Annað

  • Innlit í dag: 26
  • Innlit sl. viku: 2173
  • Gestir í dag: 25
  • IP-tölur í dag: 22

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband