Leita í fréttum mbl.is

Útgjöld og laun í sama gjaldmiðli!

arnipallÁrna Páli Árnasyni nýkjörnum formanni Samfylkingarinnar hefur verið tíðrætt um að fólk hér á landi fái laun í öðrum gjaldmiðli en meginútgjöld þeirra eru í, en þar á hann einkum við skuldir. Þetta er mjög undarleg framsetning hjá formanninum því krónan er sami gjaldmiðillinn hvort sem hún er notuð til að reikna verðtryggt eða óverðtryggt lán. Lagalega og hagfræðilega er það svo og því verður ekki trúað að Árni sé búinn að gleyma allri lögfræði sem hann hefur lært.

Það er hins vegar vert að skoða efnislega það sem er kveikjan að þessu nýjasta slagorði Samfylkingarinnar og þeirra sem fylgja henni að máli í Evrópumálunum. Þá þarf að skoða tvennt. Í fyrsta lagi þarf að skoða hlutfall verðtryggingar í útgjaldaliðum heimilanna (eða fyrirtækjanna). Í öðru lagi þarf að skoða þróun launabreytinga annars vegar og almennrar verðbreytingar hins vegar, en verðtryggð lán eru jú tengd við almennar verðbreytingar eins og þær eru mældar með vísitölu neysluverðs. Hér verður gerð tilraun til þess.

Útgjöld vegna húsnæðislána tæplega þriðjungur útgjalda hjá flestum heimilum

Þegar þetta er skoðað kemur tvennt í ljós: Í fyrsta lagi eru verður ekki annað séð en að stærstur hluti heimila verji innan við þriðjungi ráðstöfunartekna sinna í afborganir af verðtryggðum lánum. Nánar tiltekið þá sýndi víðtæk könnun Þorvarðar Tjörva Ólafssonar og Karenar Á. Vignisdóttur frá árinu 2009 að um 74% heimila hefði þá varið innan við 30% ráðstöfunartekna sinna í að borga afborganir og vexti af íbúðalánum en 12% heimila þurftu að verja yfir helmingi ráðstöfunartekna sinna í greiðslubyrði íbúðalána. Reikna má með að stór hluti íbúðalána á þessum tíma hafi verið verðtryggður, en ekki allur, þannig að þessar tölur eru í raun lægri.  Þótt gengisbundin lán yrðu tekin með myndi það ekki breyta heildarmyndinni að marki.

Út frá þessu séð er sú alhæfing Árna Páls Árnasonar að útgjöld verðtryggð röng í meginatriðum.

Til að gæta sanngirni er hins vegar rétt að skoða það hvernig laun hafa almennt hækkað í samanburði við verðtryggðar skuldir. Samt er rétt að hafa í huga að aðeins lítill hluti ráðstöfunartekna fer almennt í að greiða af verðtryggðum lánum eins og áður sagði.

Sú leið sem eðlilegt er að fara til að skoða það hvort verðtryggðar skuldir hækki meira en laun er að bera saman annars vegar þróun vísitölu neysluverðs, sem skuldir eru miðaðar við, og hins vegar launavísitölu. Þegar þessar vísitölur eru reiknaðar saman fæst kaupmáttur launa.

Hækki almennt verð meira en laun til lengri tíma litið styður það að vissu leyti sjónarmið Árna Páls, jafnvel þótt aðeins lítill hluti ráðstöfunartekna fari í afborganir af verðtryggðum lánum. Hækki hins vegar laun að jafnaði meira en almennt verð til lengri tíma litið, þ.e. aukist kaupmáttur launa að jafnaði, þá grefur það undan ofangreindum sjónarmiðum Árna Páls.

Hin almenna vitneskja segir að Árni Páll hafi rangt fyrir sér

Nú þurfa menn ekki að vera mjög reyndir né lærðir í hagfræði eða tölfræði til að vita að almennt séð hefur kaupmáttur launa aukist í gegnum tíðina, hvort sem er síðustu áratugi eða aldir. Það er einnig almennt vitað að inn á milli geta komið fáein ár, þegar laun hækka minna en almennt verð. Það breytir þó ekki þeirri heildarmynd að til lengri tíma litið hækka laun meira en verð; þ.e. kaupmáttur launa eykst að jafnaði yfir tíma. Út frá þessari almennu þekkingu má því draga þá ályktun að fullyrðingar Árna Páls standist ekki.

Tölfræðin staðfestir að Árni Páll fer með fleipur

Sé litið á tölurnar sem hægt er að sækja á vef Hagstofunnar þá sést að frá 1990 til og með 2012 hafa laun nær fjórfaldast að jafnaði. Þau hafa hækkað um 273%. Á sama tíma hefur verð nær þrefaldast, eða hækkað um 173%. Þegar þetta er vegið saman fæst út að kaupmáttur launa á þessu tímabili hefur aukist um 36%. Þetta má reyndar sjá beint með því að skoða þróun vísitölu kaupmáttar launa. Almennt fékk fólk 36 prósentum meira fyrir launin sín árið 2012 en árið 1990.

Það eru tvö stutt tímabil á þessu skeiði þegar verð hefur hækkað meira en laun, þ.e. þegar kaupmáttur launa hefur dregist saman. Það var í þrjú ár í efnahagsþrengingunum upp úr 1990 og svo aftur í þrjú ár eftir bankahrunið, en á síðara tímabilinu var samdrátturinn öllu meiri. Kaupmátturinn hefur hins vegar aukist aftur á síðustu þremur árum og er nú álíka mikill og hann var árið 2005.

Vissulega hefur kaupmáttarskerðingin eftir hrunið komið sér illa fyrir ýmsa. En það breytir ekki þeirri heildarmynd að allajafna hækka laun hlutfallslega meira en skuldir.

Hvað þýðir þetta þá allt saman? Í fyrsta lagi þá sést af þessu að það er að jafnaði lítill hluti útgjalda heimila sem er bundinn af verðtryggingu. Í öðru lagi þá hækka laun að jafnaði meira en verð, sem þýðir aftur að greiðslubyrði lána verðtryggðra lána minnkar að jafnaði í gegnum tíðina. Það skiptir nokkru máli í þessu sambandi að á umræddu tímabili voru verðtryggð húsnæðislán í vaxandi mæli svokölluð jafngreiðslulán sem merkir að raungildi greiðslu vaxta og afborgana helst það sama. Aukist kaupmáttur launa, líkt og sést beint af tölum Hagstofunnar, þá fer smám saman minni hluti launa í að greiða af þessum lánum.

Með öðrum orðum: Það stenst ekkert af því sem Árni Páll er að reyna að halda fram í þessum efnum! Það sem meira er: Það má segja að laun séu almennt betur "verðtryggð" en endurgreiðslur af lánum því launin hækka almennt hlutfallslega meira.

Í þessu eins og öðru sem snýr að umræðunni um Evrópumál þarf að skoða heildarmyndina. Áróður aðildarsinna beinist gjarnan að afmörkuðum þáttum sem gætu rökstutt þeirra mál. Það á við í þessu "tveggjagjaldmiðlatali" Árna Páls. Hann og Evrópusinnarnir einblína á þau fáu ár þegar laun hækka minna en verð almennt, en líta algjörlega fram hjá því að almennt hækka laun meira en verð og almennt eykst kaupmáttur launa yfir tímann. Sem sagt: Laun eru betur "verðtryggð" en lán.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Kjartan Eggertsson

"Það má segja að laun séu almennt betur "verðtryggð" en endurgreiðslur af lánum því launin hækka almennt hlutfallslega meira".

Á greiðsluseðli húsnæðislánsins míns sem var tekið árið 2005 stendur að uppreiknaður höfuðstóll sé 68% hærri en við töku láns. Á sama tíma hefur kennaralaunataxtinn minn hækkað um 34%. Hækkun afborgana miðast við uppreiknað verðmæti eftirstöðva höfuðstóls, því stenst þessi fullyrðing ykkar ekki skoðun.

Kjartan Eggertsson, 18.3.2013 kl. 08:58

2 Smámynd:   Heimssýn

Kjartan, ég bið þig um að taka eftir því sem sagt er í pistlinum um heildarmyndina. Hagstofan skoðar heildarmyndina. Þú nefnir sjálfan þig sem dæmi og afmarkar við fáein ár - þar inni í eru helstu undantekningarárin frá megin þróuninni. Það þýðir ekki að skoða mjög afmarkað dæmi og alhæfa út frá því yfir heildina. Hagstofan segir að laun hafi hækkað að jafnaði um 36% meira frá 1990 til 2012. Þetta er í raun það sama og segja að laun hafi almennt 36% meira en endurgreiðslur af verðtryggðum jafngreiðslulánum.

Heimssýn, 18.3.2013 kl. 09:13

3 Smámynd: Gunnar Heiðarsson

Það er hætt við eð fleiri hafi sömu sögu að segja og Kjartan, hér fyrir ofan. Staðreyndin er að kennarar, verkafólk og yfirleitt það fólk sem er neðarlega í launakerfi "heildarmyndarinnar", fær ekki þá launaþróun sem "heildarmyndin" skilar.

Það er sjálfsagt að skoða "heildarmyndina", eða meðaltalið eins og flestir kalla það, en það má ekki gleyma þeim sem falla undir þeirri mynd. Fjöldi þeirra er mun meiri en þeirra sem falla ofan "heildarmyndarinnar".

Það er staðreynd að meðan lán eru almennt verðtryggð, en laun ekki, eru tvær mynntir í þjóðfélaginu. Það fer svo eftir því hvar í launastiganum fólk er, hvort launakrónan er óhagstæðari en lánakrónan. Þeir sem eru ofarlega í þeim stiga hafa gjarnan náð hærri launabótum en þeir sem neðarlega eru.

Það er svo annað mál hvað Árni Páll er að fara. Hann sér bara evru. Í hans huga hverfa öll heimsins vandræði við upptöku þess gjaldeyris.

Einfaldara er að afnema verðtryggingu og taka upp sama kerfi í bankamálum hér á landi og dugir öllum öðrum siðuðum þjóðum.

Það mun auðvitað ekki leysa þann vanda sem þegar er kominn en hugsanlega koma í veg fyrir að annað áfall skelli á þjóðinni.

Gunnar Heiðarsson, 19.3.2013 kl. 06:19

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Heimssýn

Heimssýn

hreyfing sjálfstæðissinna í Evrópumálum, eru þverpólitísk samtök þeirra sem telja hagsmunum Íslendinga best borgið með því að halda áfram að vera sjálfstæð þjóð utan Evrópusambandsins.

 

Sími 895 5334 (Haraldur Ólafsson, formaður)


Nánar um Heimssýn

Vertu með!

Frjáls framlög

Eldri færslur

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (24.11.): 341
  • Sl. sólarhring: 417
  • Sl. viku: 2750
  • Frá upphafi: 1166124

Annað

  • Innlit í dag: 280
  • Innlit sl. viku: 2371
  • Gestir í dag: 263
  • IP-tölur í dag: 258

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband