Ég vil líta öðruvísi á hlutina. Við höfum ekkert í þetta samband að gera. Við höfum gnægð af orku, hreinu vatni og fiski í sjónum. Þeir sem eru hræddir um að við einangrumst geta verið alveg rólegir. Bandaríkin, sem eru ekkert annað en Ameríkusamband, hafa ekki útilokað sig frá erlendum mörkuðum. Þau halda áfram að stunda viðskipti við umheiminn, þ.m.t Ísland. Það sama á við um ESB. Evrópa getur ekki einangrað sig frá umheiminum þó svo að álfan hafi sameinast í eitt bandalag. Við höfum hreina vatnið sem þá mun vanta eftir nokkur ár. Við höfum fiskimiðin og við höfum óheyrilegt magn af grænni orku sem bíður þess að vera sett til vinnu. Þetta er allt eitthvað sem ESB mun arðræna okkur um ef við göngum í sambandið. Ég vil ekki taka þátt í þessu.
Jón Jónsson Aðils gaf út bók árið 1903 en það var samansafn af fyrirlestrum sem hann hafði haldið. Ég tel að það rit ætti að gefa aftur út núna 110 árum seinna því það á jafn mikið við okkur í dag og það gerði þá. Hann taldi það vera frumskyldu hvers Íslendings að verja frelsi þjóðarinnar. Það tel ég líka. Hann taldi að lykillinn að velmegun þjóðarinnar, bæði í lengd og bráð, væri sjálfstæði hennar. Það tel ég líka. Ég leyfi mér að vitna beint í orð hans en mér finnst þau einkar lýsandi fyrir þá sundrung sem á sér stað í íslensku þjóðfélagi í dag. ... og þegar þjóðin er... búin að bylta sér í trygðrofum, níðingsverkum og flokkadráttum, fyllir hún loks mæli sinna með því að ofurselja sjálfa sig og frelsi sitt útlendu stjórnvaldi. Hún afsalar sér sjálfsforræðinu, dýrasta hnossinu, sem hún á til í eigu sinni, og eftir það skiftir svo um, að það er eins og alt í einu sé tekið fyrir allan þroska, eins og lífæð þjóðarinnar sé stífluð.
Við eigum ekki að framselja sjálfstæði okkar til Brussel. Ef sá dagur kemur munum við öll þreytast á því að hafa ekkert um okkar hagi að segja og mun því allur kraftur þverra úr þjóðinni. Ég bið þá sem þessa grein lesa að íhuga vel afstöðu sína í Evrópumálum áður en gengið er til kosninga. Persónulega vil ég ekki að Össur Skarphéðinsson sé úti í Brussel meirihluta ársins, á kostnað skattgreiðanda, að reyna að semja um inngöngu Íslands. Það er nóg að hugsa til þess að síðustu samningar sem ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstri grænna fór fyrir endaði með því að það átti að binda komandi kynslóðir í skuldafjötra. Ég bið fólk að hugsa sig um áður en það treystir þeim aftur fyrir svo stóru hagsmunamáli.
Það sem þjóðin áður var, það getur hún að vonum aftur orðið. Ég hef fulla trú á þessum orðum Jóns Jónssonar Aðils en eingöngu ef við kjósum áframhaldandi sjálfstæði Íslands í næstu kosningum.
Athugasemdir
Vel mælt og þarft.
Valdimar Samúelsson, 26.4.2013 kl. 12:46
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.