Leita í fréttum mbl.is

Evran skapaði falska öryggiskennd

Jaðarríkin á evrusvæðinu eru í spennitreyju myntbandalagsins sem skapaði um tíma öryggiskennd sem því miður reyndist fölsk.

Um þetta fjallar meðal annars pistill Harðar Ægissonar, blaðamanns í viðskiptakálfi Moggans í dag.

Hörður segir:

„Það er merkilegt að fylgjast með þróun mála á evrusvæðinu. Gengi evrópskra hlutabréfa - jafnvel í kauphöllum margra jaðarríkja evrusvæðisins - hefur hækkað talsvert á síðustu mánuðum. Evran hefur sömuleiðis meira og minna haldið verðgildi sínu gagnvart helstu alþjóðlegu myntum. Vísbendingar um aukna áhættusækni fjárfesta á mörkuðum berast á sama tíma og hagtölur sýna samdráttarskeið.

Hvað veldur þessu? Ljóst er að þrátt fyrir að dregið hafi úr umróti á evrópskum fjármálamörkuðum - og minni líkur séu nú taldar á uppbroti myntbandalagsins - þá fer því fjarri að evrukreppan sé að líða undir lok. Sá djúpstæði vandi sem stefnusmiðir myntbandalagsins glíma við á alls ekki rætur sínar að rekja til fjármálakreppunnar sem braust út haustið 2008. Bankakreppa evrusvæðisins er aðeins birtingarmynd kerfislægra galla evrunnar.

Samtímis því að hafist var handa við að koma evrunni á fót um miðjan tíunda áratug síðustu aldar varð samleitni í vaxtakjörum þeirra ríkja sem stefndu að upptöku evrunnar. Varnarorð um að slík skipan mála gæti aldrei staðið til lengdar án pólitísks sambandsríkis og ríkisfjármálabandalags voru virt að vettugi.

Óeðlilegt árferði

Það sem fylgdi í kjölfarið kom því ekki á óvart. Nánast ótakmarkað lánsfé á lágum vöxtum kynti undir ósjálfbærri lánsfjárbólu í jaðarríkjunum. Í krafti þess að ríkisstjórnum og einkaaðilum bauðst að sækja sér lánsfé á meira og minna sömu kjörum og Þýskaland gat niðurstaðan að lokum aldrei orðið með öðrum hætti. Í þessu mjög svo óeðlilega árferði á fjármagnsmörkuðum, sem upptaka evrunnar átti ekki síst þátt í að skapa, varð til gríðarlegt ójafnvægi á greiðslujöfnuði innan evrusvæðisins og samkeppnishæfni margra jaðarríkjanna fór hratt þverrandi gegn kjarnaríkjunum í Norður-Evrópu. Við venjulegar aðstæður myndi slíkt ójafnvægi leiðréttast af sjálfu sér með gengislækkun. Í spennitreyju myntbandalags er það hins vegar ekki valkostur.

Evran skapaði falska öryggiskennd. Þrátt fyrir að ójafnvægi á greiðslujöfnuði innan myntbandalagsins hafi verið til staðar allt frá því að evran var kynnt til sögunnar þá varð þetta ekki að vandamáli fyrr en með alþjóðlegu fjármálakreppunni. Frá og með árinu 2008 stöðvaðist innstreymi lánsfjármagns til verst stöddu evruríkjanna. Bankar og fyrirtæki þurftu í kjölfarið að snúa sér til peningamálayfirvalda í viðkomandi ríkjum sem fjármögnuðu viðskiptahallann í gegnum greiðslumiðlunarkerfi Evrópska seðlabankans - betur þekkt sem Target2. Seðlabankar kjarnaríkja evrusvæðisins, fyrst og fremst Þýski seðlabankinn, eiga um 800 milljarða evra kröfu á Evrópska seðlabankann sem aftur byggist á kröfum á seðlabanka jaðarríkjanna.

Á síðustu misserum hafa sést vísbendingar um hægfara aðlögun á þessari skekkju í greiðslumiðlunarkerfi Evrópska seðlabankans. Skuld jaðarríkjanna í gegnum Target2-kerfið hefur til að mynda minnkað um 200 milljarða. Sú þróun helst í hendur við hratt minnkandi viðskiptahalla. Samkvæmt nýjustu spá Alþjóðagjaldeyrissjóðsins verður jafnvægi á greiðslujöfnuði flestra jaðarríkjanna á næsta ári.

Atvinnuleysi eða viðskiptahalli?

Er þetta til marks um að verst stöddu evruríkjunum sé að takast að endurreisa samkeppnisstöðu sína með lækkun á hlutfallslegum launakostnaði og kerfislægum efnahagsbótum? Tæplega. Ástæðurnar eru fremur efnahagssamdráttur í kjölfar aðhaldsaðgerða sem hefur orsakað hrun í innlendri eftirspurn og um leið minnkandi innflutning einkageirans. Aukið atvinnuleysi endurspeglar þá staðreynd að tekist hefur snúa viðskipahallanum yfir í afgang sökum efnahagssamdrátts.
Rétt eins og hagfræðingurinn Gavyn Davies hefur bent á þá þýðir þetta - miðað við óbreytta stefnu Þýskalands sem lánveitanda til þrautavara á evrusvæðinu - að stefnusmiðir jaðarríkjanna standa frammi fyrir vali á milli þess að viðhalda áfram miklu atvinnuleysi eða auknum viðskiptahalla sem mun reynast sífellt erfiðara að fjármagna. Hvorugur kosturinn getur talist góður. Viðvarandi atvinnuleysi og efnahagsstöðnun blasir við jaðarríkjunum út þennan áratug. Að lokum munu kjósendur snúast gegn þessari ósjálfbæru skipan mála. “


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Já, þeir hefðu betur haft krónuna blessaðir! Þá hefðu allir verið á tánum ...

Gunnar Halldórsson (IP-tala skráð) 16.5.2013 kl. 15:33

2 Smámynd:   Heimssýn

Þér til upplýsingar, Gunnar, þá stóð þeim ekki til boða sú króna sem þú ert sjálfsagt með í huga. Hins vegar er það umhugsunarefni að Danir hafa haldið sinni krónu, Svíar hafa haldið sinni krónu og Tékkar eru enn með sína „koruna“.

Heimssýn, 16.5.2013 kl. 15:43

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Heimssýn

Heimssýn

hreyfing sjálfstæðissinna í Evrópumálum, eru þverpólitísk samtök þeirra sem telja hagsmunum Íslendinga best borgið með því að halda áfram að vera sjálfstæð þjóð utan Evrópusambandsins.

 

Sími 895 5334 (Haraldur Ólafsson, formaður)


Nánar um Heimssýn

Vertu með!

Frjáls framlög

Eldri færslur

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.11.): 507
  • Sl. sólarhring: 508
  • Sl. viku: 2864
  • Frá upphafi: 1165781

Annað

  • Innlit í dag: 451
  • Innlit sl. viku: 2477
  • Gestir í dag: 423
  • IP-tölur í dag: 419

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband