Leita í fréttum mbl.is

ESB-aðildarsinnar snúa sérhagsmunagæsluumræðunni gjörsamlega á hvolf

bjorn_bjarnason

Það er dálítið sérstakt að fylgjast með ummælum sumra þingmanna Samfylkingar og Bjartrar framtíðar um almannahagsmuni og sérhagsmuni í ESB-málunum. Í Heimssýn starfar fólk úr mjög ólíkum áttum í samfélaginu. Það er þó almennt þeirrar skoðunar að það sé almannahagsmunum hér á landi fyrir bestu að Ísland verði utan ESB.

Björn Bjarnason fjallaði um þessi atriði í nýlegum pistli á Evrópuvaktinni.

Þar segir Björn:

Í umræðum á alþingi um tillöguna um afturköllun ESB-umsóknarinnar sagði hinn eldheiti ESB-aðildarsinni Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar: „Ég þakka hv. þingmanni fyrir mjög góða ræðu og ég held að hann hafi hitt naglann á höfuðið. Við erum að fjalla um peningalega hagsmuni þröngra sérhagsmunahópa.“ Hinn „hv. þingmaður“ sem Sigríður Ingibjörg fagnaði er Guðmundur Steingrímsson, formaður Bjartrar framtíðar, sem þann kost helstan við aðild að ESB að þá yrðu sérhagsmunir undir á Íslandi.

Þetta er sérkennileg kenning. Hvernig stenst hún til dæmis þá staðreynd að hvergi í Evrópu eru hagsmunaverðir (lobbyistar) fleiri en í Brussel? Þar hópast hagsmunaverðirnir saman í þeim tilgangi að gæta hagsmuna umbjóðenda sinna, með öðrum orðum sérhagsmuna. Einn helsti spillingarvandi ESB-stofnana snýst um ásakanir í garð starfsmanna þeirra sem fljóta á milli þessara stofnana og fyrirtækja eða frjálsra félagasamtaka utan þeirra sem hafa hag af því að reglur ESB séu sniðnar að sérhagsmunum þeirra.

Þeir sem prédika ESB-aðild eða eru sannfærðir um ágæti hennar til varnar gegn sérhagsmunum eru á villigötum. Almennt lenda menn ekki í slíkri villu af ásetningi heldur af því að þeir vita ekki betur. Ber ekki að gera kröfu til alþingismanna sem setið hafa á þingi frá því að ESB-umsóknin var samþykkt að þeir viti betur en kemur fram í þessum orðum? Átta þessir tveir þingmenn sig ekki á hve sérhagsmunagæsla er snar þáttur í starfi ESB?

Þegar þingmenn sem flytja ESB-mál sitt með rökum Guðmundar Steingrímssonar og Sigríðar Ingibjargar Ingadóttur rökstyðja skoðanir sínar benda þau á íslenskan landbúnað og sjávarútveg. Hinar hefðbundnu atvinnugreinar í landinu sem hafa allt frá upphafi skapað grunn mannlífs í landinu.

Aðalfundur fyrirtækisins Össurar var haldinn föstudaginn 14. mars. Fyrirtækið er skráð á markað í Danmörku og hér á landi fyrir harðfylgi Kauphallarinnar. Niels Jacobsen er stjórnarformaður fyrirtækisins. Ólafur Stephensen, ritstjóri Fréttablaðsins og eindreginn stuðningsmaður ESB-aðildar, fjallar um ræðu Jacobsens í leiðara blaðs síns laugardaginn 15. mars og segir meðal annars:

„Jacobsen bætti raunar heldur í gagnrýni sína í gær; sagði að Ísland hefði sótt um aðild að Evrópusambandinu og það hefði verið helzta von Össurar um að komast út úr erfiðum aðstæðum óhagstæðs gjaldmiðils og ófyrirsjáanlegs lagaumhverfis. “Því miður eru áhyggjur mínar enn gildar þar sem íslensk stjórnvöld hafa í hyggju að binda enda á umsóknarferlið án þess að sagt hafi verið frá neinni varaáætlun,„ sagði Jacobsen.“

Skýrara dæmi um sérhagsmunagæslu fyrirtækis í tengslum við ESB-aðild Íslands er ekki unnt að nefna en það sem birtist í fréttum af aðalfundi Össurar og túlkunum ESB-aðildarsinna á þeim. Jón Sigurðsson, forstjóri Össurar, hefur ekki heldur legið á liði sínu í baráttunni fyrir ESB-aðild. Annað fyrirtæki, Marel, hefur undanfarin ár einnig verið rekið undir þeim formerkjum að það njóti sín ekki til fulls nema Ísland verði hluti af ESB. Á dögunum komst Árni Oddur Þórðarson, forstjóri Marels, í fréttir þegar hann lokaði fyrirtækinu til að starfsmenn gætu farið á Austurvöll til að berjast í þágu ESB-aðildar.

Þegar þingmenn vega að atvinnugreinum og flokka þær sem sérhagsmuni en líta fram hjá raunverulegri sérhagsmunagæslu einstakra fyrirtækja og nota svo innantóman áróður til að sannfæra sjálfa sig um ágæti ESB-aðildar vega þeir að eigin trúverðugleika. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Heimssýn

Heimssýn

hreyfing sjálfstæðissinna í Evrópumálum, eru þverpólitísk samtök þeirra sem telja hagsmunum Íslendinga best borgið með því að halda áfram að vera sjálfstæð þjóð utan Evrópusambandsins.

 

Sími 895 5334 (Haraldur Ólafsson, formaður)


Nánar um Heimssýn

Vertu með!

Frjáls framlög

Eldri færslur

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (24.11.): 0
  • Sl. sólarhring: 509
  • Sl. viku: 2409
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 2091
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband