Leita í fréttum mbl.is

Össur vildi ekki kíkja í pakkann

halldor blondal
Það kemur æ skýrar í ljós með degi hverjum að viðræður ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur við ESB voru strandaðar löngu áður en ríkisstjórnin ákvað að hægja á þeim í ársbyrjun 2013 að kröfu VG að sagt var. Í raun höfðu viðræðurnar steytt á skeri bæði á árinu 2011 og 2012 vegna landbúnaðarmála og sjávarútvegsmála þegar menn treystu sér ekki til að leggja fram nauðsynleg gögn eða afstöðu.
 
Krafa ESB-aðildarsinna um kosningar um áframhaldandi aðildarviðræður er því ekkert annað en ósvífni, sjá m.a. hér
 
Halldór Blöndal fyrrverandi forseti Alþingis og fyrrverandi samgönguráðherra ritar um þetta grein sem Morgunblaðið birtir í dag. Grein Halldórs er svohljóðandi og birt hér örlítið stytt (leturbr. Heimssýnar):
 
 
„Um helgina hitti ég frænku mína sem mér þykir vænt um. Til orðaskipta kom milli okkar vegna þess að hún vill ljúka samningum um aðild að Evrópusambandinu til að sjá hvað er »í pakkanum«. Ég svaraði því til, að engar sérlausnir stæðu okkur til boða. Þess vegna eru þessar línur skrifaðar til að skýra þessi mál fyrir sjálfum mér.

Ég hygg að þorri Íslendinga hafi skoðun á því, hvort þeir vilji ganga í Evrópusambandið eða ekki. Flestir, þar á meðal Össur Skarphéðinsson, telja, að úr því geti ekki orðið nema Evrópusambandið bjóði »Íslandi sérlausnir í sjó«, en því fer víðs fjarri að það standi til boða ef marka má dagbókarfærslur utanríkisráðherrans fyrir árið 2012.

Hinn 9. febrúar talaði Össur um tregðu innan framkvæmdastjórnar ESB til að opna samninga um sjávarútvegsmál. Samningsafstaða okkar sé að verða til en ekki bóli á því að ESB bjóði í samningadans. - »Vaxandi vísbendingar, þ.ám. ferð Einars ráðuneytisstjóra í frönsku kansellíin benda til að Frakkar séu að snúast nokkuð þétt gegn opnun kaflans og við aðra viðra þeir skilyrði sem við munum aldrei ljá máls á.«

Þetta er sá rauði þráður, sem gengur í gegnum dagbókarfærslur Össurar. Evrópusambandið setur skilyrði fyrir opnun sjávarútvegskaflans. Sum ríki vegna makríldeilunnar, önnur af grundvallarástæðum. »...slík skilyrði verða túlkuð sem rautt spjald af okkar hálfu,« segir Össur kotroskinn, »það jafngildir því að ESB sé að stöðva viðræðurnar.«

Nú voru aðildarviðræðurnar við Evrópusambandið hornsteinninn að ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur. Þær voru lagðar þannig upp, að það væri ekki á valdi Íslendinga hvenær einstakir kaflar yrðu opnaðir, eins og skýrt kemur fram í dagbókarfærslum Össurar. Við gátum á hinn bóginn hafnað þeim skilyrðum, sem Evrópusambandið setti fyrir opnun kaflans. Og sú varð þrautalending Össurar. Ég tel að honum beri pólitísk og siðferðileg skylda til að upplýsa hver skilyrði Evrópusambandsins fyrir opnun sjávarútvegskaflans og annarra erfiðra kafla voru á hverjum tíma. Af hverju vildi hann ekki opnar umræður um kaflana, af hverju vildi hann ekki að við Íslendingar fengjum að kíkja í pakkann?

Þorsteinn Pálsson hefur haft stór orð um, að Bjarni Benediktsson hafi brugðist kjósendum Sjálfstæðisflokksins með því að ljúka ekki aðildarviðræðum við Evrópusambandið. Þorsteinn var í aðalsamninganefnd Össurar Skarphéðinssonar, vafalaust sem fyrrverandi formaður Sjálfstæðisflokksins, forsætisráðherra og sjávarútvegsráðherra. Eins og hann hefur talað er óhjákvæmilegt að inna hann eftir því, hvort hann var sammála Össuri Skarphéðinssyni um að opna ekki erfiðustu kaflana vegna þeirra skilyrða sem Evrópusambandið setti. Vildi hann ganga lengra til móts við kröfur Evrópusambandsins en Össur eða taldi hann að viðræðurnar væru komnar í sjálfheldu? Yfir hvaða upplýsingum býr hann sem gera það líklegt að Evrópusambandið muni slá af kröfum sínum nú svo að forsendur skapist fyrir því að opna erfiðustu kaflana?

Össur tekur það fram a.m.k. tvívegis í dagbókarfærslum sínum að Þorsteinn Pálsson hafi málfrelsi um hvaðeina, enda ógjörningur að hugsa sér að Þorsteinn hefði að öðrum kosti tekið sæti í aðalsamninganefndinni. Honum er því ekkert að vanbúnaði að skýra sín sjónarmið.“

 

Hvernig væri það nú að þeir fjölmiðlar sem mest fjalla um Evrópusambandið færu af heilindum í að skoða og birta efni um það hvernig samningaviðræðurnar gengu raunverulega fyrir sig og hvers vegna þær voru raunverulega strand þegar árið 2011?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Heimssýn

Heimssýn

hreyfing sjálfstæðissinna í Evrópumálum, eru þverpólitísk samtök þeirra sem telja hagsmunum Íslendinga best borgið með því að halda áfram að vera sjálfstæð þjóð utan Evrópusambandsins.

 

Sími 895 5334 (Haraldur Ólafsson, formaður)


Nánar um Heimssýn

Vertu með!

Frjáls framlög

Eldri færslur

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (14.11.): 277
  • Sl. sólarhring: 348
  • Sl. viku: 1860
  • Frá upphafi: 1162029

Annað

  • Innlit í dag: 257
  • Innlit sl. viku: 1672
  • Gestir í dag: 247
  • IP-tölur í dag: 247

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband