Leita í fréttum mbl.is

Bágt ástand í Evrópu bitnar á Íslandi

Bágt efnahagsástand í Evrópu, sem er fylgifiskur evrunnar, bitnar á útflutningi frá Íslandi. Um það eru hagfræðingar sammála um.
 
RUV greinir svo frá  - en það vantar reyndar alveg evrutenginguna í þessa frétt. Grunnvandinn er misvægi í verðþróun sem magnast vegna sameiginlegs gjaldmiðlis, misvægi í verði á útflutningi, misvægi í utanríkisviðskiptum, skuldasöfnun og atvinnuleysi og auk þess harkalegur samdráttur - aftur að frétt RUV: 
 
 

Afar lítill hagvöxtur er fyrirsjáanlegur í helstu löndum Evrópusambandsins á þessu og næsta ári, þrátt fyrir tilraunir Evrópska seðlabankans til að auka fjármagn í hagkerfum evrulandanna. Ástandið hefur á endanum áhrif hér á landi, segja innlendir hagfræðingar.

Fyrir nokkrum dögum tilkynnti Mario Draghi, yfirmaður Evrópska seðlabankans að evrópskum bönkum stæði til boða fyrsti hlutinn af 400 milljarða evra lánapakka á nánast engum vöxtum. Markmiðið með þessu er að ýta undir lánveitingar til fyrirtækja - og reyna að koma hagvexti aftur af stað.

„Það þýðir það að þeir eiga í erfiðleikum með að koma eftirspurn af stað; þeir eiga í erfiðleikum með að ýta fjárfestingu af stað og eru farnir núna að grípa meira til þeirra ráða að prenta peninga, setja peninga út í hagkerfið eins og Bandaríkjamenn og Bretar hafa gert,“ segir Ásgeir Jónsson, dósent í hagfræði við Háskóla Íslands.

Gylfi Magnússon, dósent í hagfræði við Háskóla Íslands, er ánægður með aðgerðir Evrópska seðlabankans. „Það hefur verið til bóta og í sjálfu sér væri ástandið mun verra ef þeir hefðu ekki gert þetta. En það þarf eitthvað fleira til og ef einkageirinn, neytendur, halda að sér höndum og fyrirtækjarekendur þora ekki að fjárfesta, þá duga lágir vextir ekki til, þá þarf annað að koma til, hugsanlega aukin ríkisútgjöld eða einhverjar slíkar aðgerðir.“

Þjóðarframleiðsla á Evrusvæðinu dróst saman í fyrra, verðbólga er nánast engin og verðhjöðnun gæti átt sér stað. Evrópuþjóðirnar horfa gjarnan til Þýskalands - sem er öflugasta hagkerfið í álfunni.

„Þýskaland mætti gjarnan keyra upp eftirspurn,“ segir Gylfi. „Þýskir neytendur þyrftu að kaupa meira, meðal annars frá nágrönnum sínum á evrusvæðinu, en þeir halda að sér höndum, flytja bara út, flytja lítið inn og það er slæmt fyrir nágrannana og slæmt fyrir evrusvæðið.“ Og allt þetta skiptir á endanum máli fyrir íslenskt efnahagslíf. „Evrusvæðið, eða Evrópusambandið er okkar stærsti viðskiptaaðili, þannig að slæmt efnahagsástand þar er ekki góðar fréttir fyrir okkur, það er einfaldlega bara þannig.“

Ásgeir tekur undir að þetta geti haft áhrif hérlendis. „Þetta eru okkar helstu markaðir og ekki bara það. Ef við viljum fá erlenda fjárfestingu þá kemur hún þaðan, þannig að það skiptir okkur gríðarlegu máli að þeim gangi að leysa úr sínum málum.“ 

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Kreppa í Evrópu kemur niður á Íslandi þó að við séum ekki í ESB með evru. EES-samningurinn sér um það.

Kreppuáhrifin eru þó miklu meiri ef landið er ekki í ESB með evru vegna gengissveiflna krónunnar sem valda miklum óstöðugleika og draga úr samkeppnishæfi landsins.

Það er því ekki eftir neinu að bíða. Því fyrr sem Ísland gengur í ESB og tekur upp evru því betra.

Ásmundur (IP-tala skráð) 29.9.2014 kl. 20:53

2 Smámynd:   Heimssýn

Þú lítur alveg framhjá staðreyndum málsins, Ásmundur. Það hefur gengið mun betur hjá þeim löndum að ná sér upp úr kreppunni sem ekki eru með evru. Það á við um Svíþjóð, Ísland, Bretland, Noreg og fleiri lönd. Evrulöndin eru eins og bundin við sökkvandi stein - athafnalífið kemst ekkert í gang eins og RUV-fréttin greinir frá.

Heimssýn, 29.9.2014 kl. 21:20

3 Smámynd: Gunnlaugur I.

EURO svæðið með engan hagvöxt og minkandi framleiðslu ! 

ESB sinninn Ásmundur er ekki af baki dottinn því verr sem gengur hjá Sambandinu hans því æstari og ófyrirleitnari verður hann í að reka Ísland undir Brussel.

Hjá honum er heilaþvotturinn svo hátt stemdur að hörmungar ástand og volæðis fréttir af ESB eru í hans munni líka orðin sterk rök fyrir því að Ísland gangi sem snarast undir þessa pólitísku og efnahagslegu vesöld Brussel manna !

Að hans mati þýða þessar fréttir aðeins það að Ísland þurfi strax að skrá sig á fyrsta farrými þessa sökkvandi skips EURO TITANIC !

Allir vita að Ásmundur er reyndar alveg ekki alveg hlutlaus, því hann er alveg sérlegur "Euro aðdándi númer eitt" og hefur lengi opinberað einbeittan vilja sinn, þannig að þessi einbeitti brotavilji hans gegn landi og þjóð kemur auðvitað ekki á óvart, en ætti kannski enn frekar að sýna efasemdarmönnum hvert raunverulegt innræti hans er !  

Gunnlaugur I., 29.9.2014 kl. 21:53

4 identicon

Þetta er ekki rétt.

Þýskaland er td miklu betur statt en Bretland. Írland hefur tekið miklum framförum og nýtur mun meira trausts en Ísland.

Annars væri fróðlegt að vita hvaða mælikvarða þið miðið við. Ef við tökum atvinnuleysi þá eru þau fjögur lönd ESB þar sem atvinnuleysi er minnst öll með evru.

Þrátt fyrir gífurlegt atvinnuleysi í Grikklandi og á Spáni eru þau þrjú lönd þar sem atvinnuleysi er mest í Evrópu ekki í ESB.

Landsframleiðsla er hvergi meiri en í Lúxemborg sem er með evru. Hún er um 2.4 sinnum meiri en á Íslandi. Þar er kaupmáttur launa 70% hærri en hér og skuldir ríkisins á mann aðeins 15% af skuldum íslenska ríkisins.

Í ljósi þess að Lúx er af svipaðri stærðargráðu og Ísland og er alþjóðleg fjármálamiðstöð eins og Ísland stefndi að fyrir hrun, má spyrja sig hvort staða okkar í dag væri svipuð og Lúx ef við hefðum verið með ESB-aðild og evru í aðdraganda hrunsins.

Evrusvæðið er meira en Grikkland og Spánn.

Ásmundur (IP-tala skráð) 29.9.2014 kl. 21:59

5 Smámynd:   Heimssýn

Ásmundur! Ástæðan fyrir velgengni Þýskalands er sú að landið getur í gegnum evrusamvinnuna - hið fasta gengi - klifrað upp eftir bakinu á jaðarlöndunum, s.s. Spáni, Ítalíu, jafnvel Frakklandi, Grikklandi og fleiri löndum.

Heimssýn, 29.9.2014 kl. 22:34

6 identicon

Það vantar ekki skýringarnar hjá Heimssýn. Gallin er bara sá að þær eru alveg órökstuddar og í engu samræmi við upplifun þessara þjóða nema kannski þeirra sem geta ekki horfst í augu við eigin mistök.

En er ekki Lúxemborg vísbending um hve staða okkar hefði getað verið góð í dag ef við hefðum verið i ESB með evru í aðdraganda hrunsins?

Reyndar gengur öllum örríkjunum vel í ESB nema Kýpur af sérstökum ástæðum. Þau eru öll með evru.  Fyrir utan Lúx eru þetta Malta, Kýpur og Eistland. Velgengni þeirra er vísbending um að smæðin mun ekki há okkur.

Ásmundur (IP-tala skráð) 29.9.2014 kl. 23:00

7 Smámynd: Helga Kristjánsdóttir

Staðreyndir Heimssýnar! Og Ásmundur byrjar á ef og hefði. Þá má allt eins segja að við værum í enn betri málum,hefði Sjálfstæðisflokkurinn haldið völdum eftir hrun og þvinguð umsókn í ESb hefði aldrei orðið að veruleika. Smæð okkar í mannfjölda talið háir okkur ekki heldur,né letur okkur í staðfestri trú á okkur sjálf. Við eigum það sem ESB girnist,gjöfult land,það ætlum við að verja fyrir afkomendur okkar,--Svo hjálpi okkar trú.

Helga Kristjánsdóttir, 30.9.2014 kl. 03:48

8 Smámynd:   Heimssýn

http://heimssyn.blog.is/blog/heimssyn/entry/1276781/

Heimssýn, 30.9.2014 kl. 10:23

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Heimssýn

Heimssýn

hreyfing sjálfstæðissinna í Evrópumálum, eru þverpólitísk samtök þeirra sem telja hagsmunum Íslendinga best borgið með því að halda áfram að vera sjálfstæð þjóð utan Evrópusambandsins.

 

Sími 895 5334 (Haraldur Ólafsson, formaður)


Nánar um Heimssýn

Vertu með!

Frjáls framlög

Eldri færslur

Des. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (25.12.): 43
  • Sl. sólarhring: 76
  • Sl. viku: 2006
  • Frá upphafi: 1176860

Annað

  • Innlit í dag: 39
  • Innlit sl. viku: 1827
  • Gestir í dag: 39
  • IP-tölur í dag: 38

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband