Í ár bregður svo við að staða Íslands sem umsóknarland er afgreidd með einni setningu sem í lauslegri þýðingu hljóðar svo: Í kjölfar ákvörðunar ríkisstjórnar Íslands hafa aðildarviðræður legið niðri síðan í maí 2013 (following a decision of the Icelandic government, accession negotiations have been put on hold since May 2013). Þessar skýrslur framkvæmdastjórnarinnar undanfarin ár eru ein meginheimild stöðu og framgangs viðræðnanna á hverjum tíma. Einnig má lesa í þeim á hverju strandar á hverjum tíma varðandi framgang viðræðnanna í þeim köflum sem viðræður höfðu verið opnaðar.
Það má þó öllum vera ljóst að viðræður Íslands og ESB voru komnar í strand löngu fyrr. Erfitt er kannski að benda á nákvæma tímasetningu en sú staðreynd að ESB hefur aldrei lagt fram rýniskýrslu sína um sjávarútveg talar sínu máli. Rýnifundur með ESB þar sem íslensk stjórnvöld kynntu íslensku löggjöfina um sjávarútveg var haldinn dagana 28. febrúar til 2. mars 2011 eða fyrir fjórum og hálfu ári. Engin dæmi eru um að ESB hafi dregið svo lengi, án sjáanlegra skýringa, að leggja fram svo mikilvæga rýniskýrslu. Rýniskýrslan er lykilgagn í hverjum samningskafla og greinir frá því hvort eða hvaða kröfur ESB setur fram fyrir frekari framgangi viðræðnanna. Ágúst Þór Árnason, aðjúnkt við Háskólann á Akureyri og höfundur Viðauka I við Hagfræðistofnun Háskóla Íslands sem bar heitið: Aðildarumsókn Íslands og stækkunarstefna ESB, benti á þetta í yfirgripsmiklu erindi sem hann hélt á aðalfundi Heimssýnar hinn 9. október sl. Afleiðingin var sú að aðildarviðræðurnar hlutu að sigla í strand. Ótal spurningar vakna í þessu samhengi og svörin við þeim liggja yfirleitt ekki á lausu heldur verður að leiða líkur að hinu líklega samhengi hlutanna.
Ágúst reifaði í þessu samhengi kafla úr fyrrnefndum Viðauka I um grundvallarskilyrði fyrir stækkun en þar segir orðrétt í kafla 5: »Að því er varðar efnisleg atriði er almennt viðurkennt að umsóknarríkin gangast undir ákveðin grundvallarskilyrði fyrir stækkun (principles of enlargement) sem eru í meginatriðum að þau samþykki sáttmála ESB, markmið þeirra og stefnu og ákvarðanir sem hafa verið teknar síðan þeir öðluðust gildi. Grundvallarskilyrðin eru fjögur: í fyrsta lagi snýst stækkun um aðild að stofnun sem er fyrir hendi en ekki að til verði ný stofnun, í annan stað þarf umsóknarríki að samþykkja réttarreglur bandalagsins, acquis communautaire, í einu og öllu, í þriðja lagi skulu umbreytingafrestir (e. transitional periods) vera takmarkaðir og ekki fela í sér undanþágur frá grunnsáttmálunum og þeim meginreglum sem bandalagið byggir á. Í fjórða lagi er um að ræða skilyrðasetningu, sem á ensku hefur verið nefnt conditionality. Hið síðastnefnda varð hluti af aðildarferlinu vegna stækkunar sambandsins 2004 og 2007. Fyrstu þrjú skilyrðin voru þegar hluti af stækkun sambandsins árið 1973. Þessi grundvallarskilyrði eru almennt viðurkennd þótt þau séu ekki talin í áðurnefndri 49. gr. SESB.«
Fjórða skilyrðið þýðir í raun að orðið er til eins konar foraðildarferli. Hér á landi hefur hart verið tekist á um hvort ESB-viðræðurnar hafi snúist um aðlögun. Því verður tæpast á móti mælt að þetta skilyrði sýni svo ekki verður um villst að til að eiga möguleika á aðild verður umsóknarlandið að aðlagast tiltekinni stöðu fyrirfram. Markmiðið er að viðkomandi land verði þess fullbúið að uppfylla kröfur sem gerðar eru til aðildarríkis og að innleiða löggjöf og regluverk sambandsins með skilvirkum hætti.
Ef litið er til greinargerðarinnar sem fylgdi með þingsályktun alþingis um að sækja skyldi um aðild að ESB sést að Ísland var í raun að gera kröfur um frávik eða breytingar á sjávarútvegsstefnu sambandsins. Ef ESB hefði átt að verða við þeim hefði þurft að víkja frá fyrsta skilyrðinu sem þarna er nefnt. Það þarf því ekki mikið ímyndunarafl til að segja sér að rýniskýrsla ESB myndi einmitt gera kröfur til Íslands til að aðlagast sameiginlegu sjávarútvegsstefnunni rétt eins og gert var í rýniskýrslu fyrir landbúnað þar sem sett var fram krafa um tímasetta aðgerðaáætlun.
Greinargerðin með þingsályktun alþingis felur í sér upptalningu á alls konar skilyrðum fyrir aðild. Af þessum fjórum skilyrðum sem ESB setur fyrir aðild má ráða að aðildarsamningur á þeim forsendum er í raun óhugsandi. Þetta á ekki bara við um sjávarútveg þótt hagsmunirnir séu mestir þar, heldur einnig landbúnað og fleiri atriði. Niðurstaða Ágústar Þórs var því að óhugsandi sé að halda áfram með eða kannski öllu heldur taka upp að nýju viðræður um aðild Íslands að ESB á grundvelli samþykktar alþingis frá 16. júlí 2009. Umsókn Íslands um aðild að ESB ber því að kalla heim hið snarasta.
Athugasemdir
Algjörlega sammála og takk fyrir þessa grein.
Ingibjörg Guðrún Magnúsdóttir, 28.10.2014 kl. 23:00
Er þetta ekki hagfræðingur bændasamtakanna?
Eiður Svanberg Guðnason, 29.10.2014 kl. 09:07
Eiður, skiptir einhverju máli hvert starf þessarar manneskju er? Á ég kannski að hætta að taka mark á nokkru sem þú skrifar, vegna þess að þú ert LANDRÁÐAFYLKINGARMAÐUR???????
Jóhann Elíasson, 29.10.2014 kl. 12:14
Hvert er umrææðan komin þegar maður er kallaður landráðamaður?
Eiður Svanberg Guðnason, 29.10.2014 kl. 17:04
Við skulum hafa umræðuna málefnalega. Það þjónar ekki upplýstri umræðu að vera að uppnefna fólk. Skoðum hvað fólk hefur að segja, vegum það og metum.
Heimssýn, 29.10.2014 kl. 17:11
Er ekki í lagi með þig Eiður???? Þú ættir að vita það, sem mikill málvöndunarmaður, að landráðamaður er EKKI það sama og LANDRÁÐAFYLKINGARMAÐUR............
Jóhann Elíasson, 29.10.2014 kl. 21:13
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.