Losun hafta og hugsanleg (misráðin) innganga í evrópska myntbandalagið eru tvö aðskilin mál. Reynsla Kýpverja, sem tóku upp evru 2008, er þar nærtækt dæmi en bankakerfi landsins riðaði til falls í ársbyrjun 2013. Gripið var til þeirra úrræða, með aðstoð sérfræðinga frá Seðlabanka Íslands, að setja víðtækar hömlur á úttektir af bankainnstæðum og fjármagnshreyfingum á milli landa. Þrátt fyrir tuga prósenta niðurskrift á ótryggðum bankainnstæðum dugði það ekki til. Evrópski seðlabankinn neitaði að gerast lánveitandi til þrautavara með því að fjármagna »ófjármagnaðar« fjármagnshreyfingar kýpverskra fjármálastofnana. Átján mánuðum síðar eru enn fjármagnshöft til staðar á Kýpur og óvíst hvenær hægt verður að aflétta þeim.
Ekkert styður því þá skoðun að staða Íslands hefði verið önnur með evru sem gjaldmiðil. Nauðsynlegt er að íslenskir stefnusmiðir hafi í huga þennan lærdóm af evrukreppunni í því skyni að réttar ákvarðarnir verði teknar við losun hafta. Það hefur komið í ljós, nokkuð sem hefði ekki átt að koma neinum á óvart, að allar evrur eru ekki jafnar þegar á reynir.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.