Fimmtudagur, 16. júlí 2015
Nú þegar við heyrum stöðu Grikkja og samskiptin við ESB er með hreinum ólíkindum að nokkrum heilvita íslenskum stjórnmálamanni skuli hafa dottið í hug að leggjast á hnén og biðja um inngöngu í ESB sumarið 2009. Tökum gilda þá afsökun þeirra að hafa ekki vitað hvað þeir voru að gera. Þá er nú kominn tími fyrir forystumenn ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur að biðjast fyrirgefningar á því voðaverki, þeirri yfirsjón sem Evrópusambandsumsóknin var.
Svo segir Jón Bjarnason, formaður Heimssýnar og fyrrverandi ráðherra, í grein sem birt er í Fréttablaðinu í dag.
Þar segir Jón einnig:
Nú síðast í vor var forysta fjögurra stjórnmálaflokka á Alþingi enn blinduð í ESB-trúnni. Formenn Samfylkingar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata fluttu tillögu um framhald umsóknarinnar sem þeir þó vissu að var stopp vegna krafna frá ESB og fyrirvara frá Alþingi sem ekki var heimilt að víkja frá.
Og enn fremur segir Jón:
Í ljósi hörmulegrar stöðu Grikkja er enn ríkari ástæða til að allir stjórnmálaflokkar sameinist um þann skilning að umsókn Íslands um aðild að ESB sé afturkölluð og engin áform um að sótt verði um aðild að nýju. Það er ekkert til sem heitir "að kíkja í pakkann" hjá ESB. Það fá nú Grikkir að reyna.
Þá er vert að benda á þetta atriði í grein Jóns:
Í skjóli laga og reglna Evrópusambandsins var grísku þjóðinni komið í þá erfiðu stöðu sem þeir eru nú í. Það var ljóst fyrir nokkrum árum að stefndi í hreinan ófarnað hjá gríska ríkinu. Valdið til að grípa inn í var framselt til stofnana Evrópusambandsins sem alls ekki reynast færar um að takast á við slíka stöðu. Það eina sem Evrópusambandið getur boðið eru hertar sultarólar almennings, svipuhögg og hótanir en kapítalið og valdið vilja fá sitt.
Athugasemdir
Í hvaða flokki er þessi "heilvita íslenski stjórnmálamaður", Jón Bjarnason í dag? Vg, Framsókn eða Íhaldið.
Haukur Kristinsson (IP-tala skráð) 16.7.2015 kl. 15:47
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.