Leita í fréttum mbl.is

Rökum ESB-aðildarsinna svarað

euprobFyrir stuttu var hér fjallað um tólf ástæður til að forðast aðild Íslands að Evrópusambandinu. Aðildarsinnar greindu nýverið frá tíu ástæðum sem þeir töldu mæla með aðild. Hér verður þeim málflutningi aðildarsinna svarað lið fyrir lið:

 

 

  1. Lægra matvælaverð á Íslandi?

ESB-sinnar nefna að verð á landbúnaðarvörum gæti í einhverjum tilvikum lækkað örlítið ef vörurnar væru fluttar inn frá ESB þar sem þær eru verksmiðjuframleiddar á risabúum á 500 milljóna manna markaði. Þeir gleyma hins vegar að taka með í reikninginn hin fjölmörgu störf sem myndu tapast hér á landi og minna fæðuöryggi og aukna sjúkdómahættu sem þessu myndi fylgja. Kosturinn við okkar litla markað er meðal annars mun vistvænni framleiðsla. Upplýst hefur verið að notkun sýklalyfja í Þýskalandi og á Spáni, svo dæmi séu tekin, sé 40-60 sinnum meiri en hér á landi. Landbúnaðarstefna ESB hefur haft gífurlega neikvæð áhrif á landbúnað og ýmis héruð bæði í Svíþjóð og Finnlandi. Sænskir bændur eru nú að skera upp herör gegn kerfi ESB og ætla að taka málin aftur í sínar hendur.

 

  1. Ísland öðlast raunverulegt fullveldi?

ESB-aðildarsinnar segja að Ísland öðlist raunverulegt fullveldi með því að ganga í ESB því við höfum lítið um þær ákvarðanir að segja sem eru teknar innan ESB og settar eru í löggjöf hér á landi. ESB-aðildarsinnar gleyma því þó að Íslendingar gætu haft meiri áhrif á upphafsstigum reglusetningar í ESB. Jafnframt gleyma þeir því að Íslendingar fengju aðeins 5 atkvæði af 750 á ESB-þinginu og aðeins 3 atkvæði af 350 í ráðherraráðum, þar sem mikilvægustu ákvarðanir eru teknar. ESB-aðildarsinnar vilja heldur ekki skilja að það eru stóru þjóðirnar sem ráða för í flestum veigamiklum málum í ESB og þá langt út fyrir hlutfallslegt vægi þeirra. Tilskipanir frá Brussel um ríkisfjármál aðildarlandanna og aðgerðir varðandi málefni flóttamanna sýna m.a. hið skerta fullveldi ríkja í ESB. Árangursleysið við að ná markmiðum um opinberar skuldir og verðbólgumarkmiðum sýnir svo getuleysi ESB í efnahagsmálum.  Svipað má segja um ringulreiðina í flóttamannamálum.

 

  1. Lægri vextir?

ESB-aðildarsinnar héldu lengi fram þeirri firru að allir vextir yrðu með svipuðum hætti í ESB og lægri en ella. Staðreyndin er að vextir í sumum löndum sem verst urðu úti í evrukreppunni ruku upp úr öllu valdi þar sem fáir vildu lána þeim um tíma. Staðreyndin er einnig sú að vextir hafa verið mjög mismunandi til neytenda, hvort sem er á húsnæðislánum eða öðru, í hinum ýmsu evrulöndum. Staðreyndin er einnig sú að ástæðan fyrir mjög lágum vöxtum víða á evrusvæðinu nú er sú að hagkerfið hefur verið í frosti, framleiðsla allt of lítil, eftirspurn of lítil og atvinnuleysi víða ógnvænlega mikið. Þrátt fyrir talsvert langt tímabil með lágum vöxtum hefur ekki tekist að blása almennilega í glæður atvinnulífs í ESB og hagvöxtur að meðaltali verið nálægt núllinu.

Það má svo ekki gleyma einu skýrasta dæminu um skaðsemi evrunnar og meðaltalsvaxtastefnunnar á evrusvæðinu. Það dæmi er Írland. Írar fengu allt of lága vexti eftir að landið tók upp evruna. Fyrir vikið jókst skuldasöfnun gífurlega á Írlandi og bólumyndun í hagkerfinu sem endaði með miklum skelli. Seðlabanki Evrópu krafðist þess svo að skattborgarar tækju á sig ábyrgð á skuldbindingum einkabankanna. Fyrir það munu Írar lengi líða.

 

  1. Nothæfur gjaldmiðill?

Gjaldmiðill greiðir fyrir viðskiptum. Flestir gjaldmiðlar eru þjóðargjaldmiðlar og eru einkum notaðir í viðkomandi löndum en minna í alþjóðlegum viðskiptum. Svo eru til gjaldmiðlar sem eru einnig notaðir í alþjóðlegum viðskiptum. Þar er Bandaríkjadalur langsamlega öflugastur, en einnig er stuðst við jen, sterlingspund og evru. Það er ekkert markmið í sjálfu sér fyrir ríki að gjaldmiðill þess keppi við stærstu alþjóðlegu viðskiptagjaldmiðlana.

Gengi annarra gjaldmiðla en krónunnar hefur einnig sveiflast talsvert. Það á undanfarið við um evru, Bandaríkjadal og aðra miðla. Værum við með evru myndi gengið sveiflast talsvert gagnvart Bandaríkjadal sem er viðmiðun í stórum hluta viðskipta.

Það er alger fásinna að möguleg upptaka evru myndi flýta losun fjármagnshafta. Því var haldið fram af fulltrúum ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur að umsókn um aðild að ESB myndi flýta afnámi hafta. Staðreyndin er að umsóknin hafði engin áhrif á þá þróun. Það mál verður leyst af okkur hér innanlands.

ESB-aðildarsinnum er tamt að tala um kostnaðinn við krónuna. Þeir gleyma hins vegar því að með krónunni hafa Íslendingar farið úr því að vera ein fátækasta þjóð í Evrópu á fáeinum mannsöldrum í það að vera ein sú ríkasta.

Jafnframt gleyma ESB-aðildarsinnar hinum gífurlega kostnaði sem evran veldur víða í ESB-löndunum sem felst í því hvernig evran hefur stuðlað að hinum mikla atvinnuleysi á jaðarsvæðum álfunnar. Það er nú kominn tími til að ESB-aðildarsinnar átti sig á þeim kostnaði en reyni ekki að slá ryki í augu fólks.

Það er enn fremur fjarri lagi að verðtrygging yrði úr sögunni þótt evra yrði tekin upp. Sömu verðtryggðu samningar myndu gilda áfram, sumir til áratuga, hvort sem það eru útlán til húsnæðiskaupa eða verðtryggð skuldabréf sem eru stór hluti eignar lífeyrissjóða, svo dæmi sé tekið.  Hins vegar er hægt að draga úr verðtryggingu eins og að einhverju leyti hefur verið gert að undanförnu.

 

  1. Lægri skólagjöld í breskum háskólum?

Það er óvíða ódýrara að mennta sig en á Íslandi og gæði menntunar eru bara nokkuð góð. Hægt er að afla sér ódýrrar framhaldsmenntunar á Norðurlöndum og mun víðar. Breska skólakerfið er svo sem ágætt en skarar ekki fram úr öðrum löndum nema örfáir skólar. Breskir skólar hafa sóst eftir því að fá framúrskarandi nemendur frá Íslandi og boðið þeim góða styrki til framhaldsmenntunar. Lægri skólagjöld fyrir aðra íslenska nemendur í breskum háskólum skipta vissulega máli, en þau vega ekki mikið þegar allir hagsmunir eru teknir saman og reynt að vega og meta hvað sé hagkvæmast fyrir íslensku þjóðina og námsmenn í heild til lengri tíma litið.

 

  1. Niðurfelling tolla?

Við getum fellt niður þá tolla sem við teljum hagkvæmt. Þróunin hefur verið í þá átt að lækka og fella niður tolla gagnvart viðskiptalöndum okkar, meðal annars á matvælum. Hins vegar getur verið hagkvæmt fyrir okkur að hafa tolla á tilteknum vörum til að vernda mikilvæga framleiðslu hér á landi sem á í samkeppni við verksmiðjubúskap á meginlandi álfunnar. Við höfum gert fjölmarga viðskiptasamninga við önnur ríki, t.d. Kína og Færeyjar sem færa okkur margvíslegan ávinning. Slíkir samningar og aðrir sem við höfum gert falla niður við aðild að ESB. ESB-aðild þýðir því niðurfellingu tolla að einu leyti en að öðru leyti förum við inn fyrir tollmúra ESB (t.d. á áli). ESB leggur nefnilega tolla á ýmsar vörur sem þegar eru tollfrjálsar hér á landi. Það er raunar athyglisvert hvað íslensk stjórnvöld gera lítið úr mikilvægi tollverndar og hafa verið tilbúin að fella þá niður einhliða.

 

  1. Erlendar fjárfestingar – aukin atvinnutækifæri?

ESB-aðildarsinnar halda því fram að með inngöngu í Evrópusambandið og upptöku evru yrði auðveldara að laða að erlenda fjárfesta til Íslands, sem myndi þá vonandi skila sér í því að erlend fyrirtæki myndu setjast hér að í auknum mæli og skapa þannig atvinnu fyrir Íslendinga. Hér á landi hefur á undanförnum áratugum verið talsverð erlend fjárfesting. Vissulega hefur stór hluti hennar verið tengdur við arðbæran orkuiðnað og líklega varhugavert að hraða erlendum fjárfestingum um of í þeim geira. Þrátt fyrir krónuna hafa fjárfestar frá ýmsum nágrannalöndum fjárfest einnig í eignum, fyrirtækjum og verðbréfum hér á landi, meira að segja undanfarin ár, því þrátt fyrir fjármagnshöftin eru ekki settar teljandi hömlur á fjárfestingar erlendra aðila hér á landi. Til lengri tíma eru það framleiðsluþættirnir sem skipta máli þegar meta á það hversu arðbært er að fjárfesta í tilteknu landi. Þar skipta mestu auðlindir landsins, innviðir hagkerfisins og færni vinnuaflsins. Gjaldmiðillinn skiptir þar litlu máli. Þjóðin hefur ekki viljað heimila algjört frelsi í fjárfestingum í sjávarútvegi og það hefur verið takmarkaður pólitískur áhugi á því að heimila erlendar fjárfestingar í orkuiðnaði. Almenningur á Íslandi vill halda opinberum yfirráðum yfir stórum hluta orkuframleiðslunnar. Það verður því ekki ætlað annað en að ESB-aðildarsinnar vilji óheftar fjárfestingar erlendra aðila í auðlindum landsins, bæði tengdum sjávarútvegi og orkuframleiðslu. Með því er hætt við að arðurinn af fjárfestingunum færi úr landi í ríkari mæli.

 

  1. Fyrir landsbyggðina?

ESB-aðildarsinnar halda því fram að við fengjum einhverja styrki til byggðamála í gegnum ESB. Staðreyndin er sú að vegna styrks íslensks hagkerfis yrðu Íslendingar sjálfir að greiða þessa styrki í gegnum skatta sem lagðir yrðu á almenning. Auk þess myndi aðild að ESB grafa undan landsbyggðinni með því að vega að framleiðslu í sveitum landsins með óheftum innflutningi á matvælum.

 

  1. Stærsta viðskiptablökk í heimi?

Með aðild Íslands að ESB yrðum við  hluti af stærstu viðskiptablökk í heimi og hefðum áhrif á mótun hennar, segja ESB-aðildarsinnar. Í fyrsta lagi virðast aðildarsinnar vera búnir að gleyma því að við erum aðilar að evrópska efnahagssvæðinu og njótum þar með í veigamiklum atriðum sama fjórfrelsis og ESB-þjóðir almennt. Þeir virðast einnig gleyma því að með aðild að ESB myndum við tapa samningssjálfstæði í mörgum málum, ekki síst sjávarútvegsmálum. Værum við hluti af ESB hefði Brussel úthlutað okkur kvóta, þar með talið í makríl, og við myndum auk þess tapa sæti okkar við samnings- og fundarborðið í margs konar alþjóðlegu samhengi.

 

  1. Friður, frelsi og jafnrétti?

ESB-aðildarsinnar segja að markmið Evrópusambandsins hafi frá upphafi verið að stuðla að friði. Ekki skal gert lítið úr þeim markmiðum en heldur hefur ESB tekist óhönduglega til þar sem það hefur komið nærri. Nægir að nefna stríðið á Balkanskaga, deilur á Sri Lanka og átök í Vestur-Afríku. Hefur ESB stuðlað að auknum jöfnuði eða jafnrétti? Samkvæmt nýlegri könnun Eurostat, Hagstofu ESB, eiga 120 milljónir Evrópubúa á hættu að lenda í fátækt og félagslegri útskúfun. Ójöfnuður af því tagi getur verið jarðvegur fyrir átök. Það er því ekki skrýtið að ESB skuli stefna að því að koma sér upp her. Og fyrir hvern hefur ESB stuðlað að frelsi? Ekki hefur frelsi þeirra tugmilljóna manna sem misst hefur vinnuna aukist. Ekki hefur frelsi þeirra kvenna aukist sem hafa misst vinnuna í þjónustu hjá hinu opinbera en þurfa í staðinn að aðstoða aldraða og sjúka ættingja sína ókeypis. Það er nefnilega þannig að efnahagsþrengingarnar sem evran veldur hefur víða farið verst með konur. Jöfnuður og jafnrétti hefur minnkað, frelsið verið skert og friðurinn hangir víða á bláþræði í álfunni, t.d. vegna þess hve óhönduglega hefur tekist til í málefnum er varða flóttamenn.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Heimssýn

Heimssýn

hreyfing sjálfstæðissinna í Evrópumálum, eru þverpólitísk samtök þeirra sem telja hagsmunum Íslendinga best borgið með því að halda áfram að vera sjálfstæð þjóð utan Evrópusambandsins.

 

Sími 895 5334 (Haraldur Ólafsson, formaður)


Nánar um Heimssýn

Vertu með!

Frjáls framlög

Eldri færslur

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (14.11.): 389
  • Sl. sólarhring: 444
  • Sl. viku: 1972
  • Frá upphafi: 1162141

Annað

  • Innlit í dag: 353
  • Innlit sl. viku: 1768
  • Gestir í dag: 326
  • IP-tölur í dag: 326

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband