Leita í fréttum mbl.is

Þetta sögðu þau um ESB í kvöld!

Umræðurnar um ESB-málin í kosningasjónvarpinu áðan voru um margt áhugaverðar. Fram kom að Birgitta og Píratar geta ekki gert upp hug sinn, Þorgerður og Viðreisn reyna að láta líta út fyrir að vera ekki alveg viss um hvort þau vilji í ESB, og Össur og Samfylking vilja ennþá inn í þetta brennandi hús eins og Jón Baldvin kallar það. Það voru bara Guðlaugur Þór og Vésteinn Valgarðsson, fulltrúar Sjálfstæðisflokks og Alþýðufylkingar, sem sögðu það alveg skýrt að það væri algjörlega andstætt hagsmunum Íslendinga að ganga í ESB. Fulltrúar annarra flokka skýra sjónarmið sín síðar.

Guðlaugur Þór Þórðarson, Sjálfstæðisflokki, sagði það mikilvægt að ræða um ESB-málin í fullri alvöru. Hann sagði að við vissum hvað ESB væri því það væri til staðar fyrir augum okkar. Eins gætum við séð hvernig samninga væri hægt að fá með því að skoða samninga aðildarríkja. Hann sagði að þau skref til frelsis í viðskiptum sem stigin hefðu verið hér á landi að undanförnu hefðu ekki getað verið stigin hefðum við verið í ESB – og hann bætti því við að værum við í ESB þyrftum við að hækka tolla, auka við umsvif tollgæslunnar og auka skrifræðið. Þá sagði Guðlaugur að það væri mikilvægt að skoða og ræða hvernig það gengi í ESB-löndunum með mikilvægt mál eins og atvinnu en gífurlegt atvinnuleysi væri hjá ungu fólki í ESB-löndum (það er um 50% á Spáni og víðar). Þá sagði Guðlaugur að tækifæri myndu opnast fyrir Íslendinga vegna Brexit. Að lokum sagði Guðlaugur að krónan hefði komið Íslendingum vel til sveiflujöfnunar og til að draga úr atvinnuleysi – en hins vegar væri mikið atvinnuleysi í evrulöndunum.

Vésteinn Valgarðsson, Alþýðufylkingu, sagðist vera fortakslaus andstæðingur ESB. Hann sagði evruna ekki leysa neinn vanda. Ísland væri sjálfstætt hagkerfi með eigin hagsveiflu (sem er óháð og ólík hagsveiflu evrulanda að jafnaði) og því þyrftu Íslendingar að vera með eigin gjaldmiðil. Vésteinn sagði að ef við hefðum haft evruna við fjármálahrunið hefðu Íslendingar tekið skellinn í formi fjöldaatvinnuleysis og það hefði orðið töluvert verra fyrir alþýðu og allan þorra manna. Íslenska krónan hefði bjargað því sem bjargað varð. Þá sagði Vésteinn að ESB væri ólýðræðislegt samband (minna má t.d. að það eru embættismenn frá Brussel, sem hafa ekkert lýðræðislegt aðhald, sem nú eru að víla og díla um málefni alþýðunnar í Grikklandi). Enn fremur sagði Vésteinn að ESB verndaði stórauðvaldið og stuðlaði að markaðsvæðingu félagsmála. Hann sagði að hann og hans flokkur vildi halda í fullveldið af því að það væri hægt að nota þjóðinni til hagsbóta. Og varðandi viðræðurnar við ESB sem sigldu í strand sagði Vésteinn að ESB hefði sjálft stöðvað þær af því að það gat ekki fellt sig við þá fyrirvara sem Alþingi setti (m.a. um auðlindamál). Því þyrfti að afnema þá fyrirvara ef halda ætti áfram viðræðum - sem hann taldi greinilega mikið óráð.

Össur Skarphéðinsson reyndi að halda því fram að það ætti að vera auðvelt að ná „hagstæðum“ samningum við ESB. Hann heldur greinilega að þjóðin sé búin að gleyma því þegar hann og hans fólk sögðu að það ætti ekki að taka nema 12-18 mánuði að ljúka samningum þegar hann sótti um aðild árið 2009. Honum tókst hins vegar að sigla samningunum í strand á um tveimur árum með þeim samningsskilmálum sem hann og Alþingi settu sem lágmarkshagsmunaviðmið fyrir Íslendinga. Það er því ljóst að ef Össur ætlar í samningaviðræður núna þá verður það ekki gert öðruvísi en að skilyrði Alþingis um viðræður verði algjörlega hunsuð. Hann er svo ólmur í því að halda áfram að hann er núna tilbúinn til þess, segir hann, að leyfa þjóðinni að taka afstöðu til þess hvort halda eigi áfram viðræðum. Eins og kom fram hjá öðrum í kvöld þýðir það nýja umsókn og í raun að fallið verði frá lífsnauðsynlegum fyrirvörum Íslendinga sem Alþingi setti. Þá vitnaði Össur í skýrslu Seðlabankans þar sem kemur fram að Íslendingar geti vel haldið áfram með krónuna – en gangi þeir í ESB þurfi Íslendingar að taka upp evru.

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, Viðreisn, sló úr og í að þessu sinni. Hún var alveg búin að gleyma myntráðinu, líklega vegna þess að hún veit að það fiskast engir kjósendur á það. Þorgerður þóttist ekki geta svarað því hvort hún vildi í ESB, heldur vildi hún bara að þjóðin yrði spurð um áframhaldandi viðræður. Hún veit það sem einlægur ESB-aðildarsinni að eina leiðin til að teyma þjóðina inn í ESB er að koma þessum aðlögunarviðræðum (sem Jón Torfason fjallar svo skilmerkilega um í bók sinni um Villikettina í VG) í gang að nýju.

Birgitta Jónsdóttir, Pírötum, sagðist vilja upplýsta umræðu um ESB, t.d. um það hvað aðildarviðræður þýða, hvaða áhrif þær hafa á stjórnsýsluna og fleira. Það þyrfti að skoða reynsluna úr þeim viðræðum sem strönduðu. Hún sagði að það væri mjög skiptar skoðanir hjá Pírötum um aðild að ESB. Sumir vildu að Ísland gerðist aðili, aðrir væru á móti því og svo væru sumir, eins og hún, sem hefðu ekki gert upp hug sinn.

Ef það gæti orðið til að aðstoða Birgittu að gera upp hug sinn þá má minna hana á að viðræður við ESB eins og þær eru stundaðar í dag – og reyndar síðasta áratuginn nánast – eru þannig að gengið er út frá því að þau lönd sem vilji hefja viðræður vilji gerast aðilar – að þau vilji inn í sambandið. Þess vegna þurfa umsóknar- og viðræðulönd að skuldbinda sig til að aðlaga lög og reglur að því sem gildir í ESB áður en af aðild verður – eða að löndin verði í það minnsta búin að skýra nákvæmlega frá því hvernig það verði gert í þeim tilvikum sem það næst ekki fyrir aðild. Þess vegna notar ESB svokallaða IPA-styrki (sem sumir kalla mútur) til að flýta fyrir aðlögun landanna (Instrument for Pre-Accession Assistance: IPA) – til að auðvelda aðlögun (sjá m.a. bók Jóns Torfasonar um Villikettina).

Það verður fróðlegt að fylgjast með umræðum annarra framboða um þetta efni síðar í vikunni.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ég nennti ekki að horfa á þessa vitleysu til enda en var nokkur ESB sinni spurður:

"Hvað eigum við að gefa eftir í viðræðum okkar við ESB, fiskimiðin"?

Nei, enginn vill svara því.

Fréttamenn eru ekki starfi sínu vaxnir.

Örn Johnson ´43 (IP-tala skráð) 18.10.2016 kl. 22:46

2 identicon

Það veit engin hvernig samningur við ESB verður fyrr en að aðildarviðræðum er lokið.

Auðvitað eigum við að skoða möguleika okkar hjá ESB.

Nú þarf að hvetja unga fólkið á kjörstað og kjósa einhvern af þeim flokkum sem lofa þjóðaratkvæðagreiðslu um áframhaldandi viðræður við ESB.

Þetta snýst um framtíð þeirra!!

Og Örn Johnson, það er fyrir löngu búið að stela fiskinum frá þjóðinni. Þeir sem kjósa núverandi stjórnarflokka styðja þann þjófnað.

Snorri (IP-tala skráð) 19.10.2016 kl. 12:12

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Heimssýn

Heimssýn

hreyfing sjálfstæðissinna í Evrópumálum, eru þverpólitísk samtök þeirra sem telja hagsmunum Íslendinga best borgið með því að halda áfram að vera sjálfstæð þjóð utan Evrópusambandsins.

 

Sími 895 5334 (Haraldur Ólafsson, formaður)


Nánar um Heimssýn

Vertu með!

Frjáls framlög

Eldri færslur

Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (29.3.): 199
  • Sl. sólarhring: 226
  • Sl. viku: 2311
  • Frá upphafi: 1112353

Annað

  • Innlit í dag: 170
  • Innlit sl. viku: 2078
  • Gestir í dag: 167
  • IP-tölur í dag: 166

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband