Leita í fréttum mbl.is

Evrópa er annað og meira en Evrópusambandið

HjorleifurGuttormsson170615Hjörleifur Guttormsson, náttúrfræðingur, fyrrverandi ráðherra og alþingismaður, skrifaði ágæta grein sem Morgunblaðið birti í gær þar sem hann fjallar um tilraun Evrópusambandsins til þess að leggja eignarhald á Evrópunafnið. Í greininni segir Hjörleifur meðal annars: ,,Með því m.a. að líta til Evrópuráðsins sést hversu fráleitt það er af hálfu Evrópusambandsins að láta sem það tali fyrir Evrópu alla."

Grein Hjörleifs er birt hér með góðfúslegu leyfi höfundar:

,,Í skólum er okkur kennt að Evrópa sé ein af fimm heimsálfum sem takmarkist af Úralfjöllum í austri og Atlantshafi ásamt Íslandi í vestri. Á hverjum degi klingir hins vegar í eyrum okkar af hálfu forystumanna Evrópusambandsins að ESB sé í raun það sama og Evrópa. Þetta á ekki síst við um þýska stjórnmálamenn og fjölmiðlar þar endurkasta slíkri orðnotkun dag hvern. Þannig talaði Merkel kanslari í aðdraganda G-20-fundarins ítrekað um að „Evrópa verði að taka örlög sín í eigin hendur“. Þar var hún að svara Trump Bandaríkjaforseta sem eins og forverar segist tala fyrir munn „Ameríku“. Keppinautur Merkel um kanslaraembættið, sósíaldemókratinn Martin Schulz, kemur beint úr forsetastóli „Evrópuþingsins“. Í viðtali við Der Spiegel 3. júní sl. gerði hann engan greinarmun á Evrópu og ESB. Hér er ekki um neina tilviljun að ræða heldur þaulhugsaða viðleitni af hálfu ráðamanna ESB að leggja undir sig hugtakið Evrópa sem fram á okkar daga hefur verið notað í landfræðilegri merkingu. Samkvæmt því er Rússland einnig í Evrópu, sem og ríkin Sviss, Noregur og Ísland sem öll standa utan ESB. Og hvað verður svo um Bretland í þessu samhengi eftir Brexit?

Evrópuráð og Mannréttindadómstóll ótengd ESB

Spyrja má hvort til einhvers sé að reisa rönd við þessum áróðurshernaði ESB með nafngiftir. Að mínu viti er það bæði rétt og skylt og þótt fyrr hefði verið, þó ekki væri nema til upplýsingar fyrir almenning í álfunni allri. Með því að líta til Evrópuráðsins sést hversu fráleitt það er af hálfu ESB að láta sem það tali fyrir Evrópu alla. Evrópuráðið með aðsetur í Strassborg er alþjóðasamtök 47 stórra og smárra Evrópuríkja. Til þess var stofnað árið 1949, nærri áratug áður en fyrsti vísir að 6-ríkja Evrópubandalagi varð til 1957. Meðal fyrstu verkefna Evrópuráðsins var samþykkt um Mannréttindasáttmála Evrópu og tilkoma sérstaks dómstóls til að fylgja honum eftir. Ísland hefur frá 1950 verið þar þátttakandi og dómstólinn ber oft á góma í fréttum hérlendis vegna þess að margir snúa sér til hans í von um leiðréttingu sinna mála. Alþingi kýs fulltrúa á þing Evrópuráðsins og Ísland á sæti í ráðherraráði þess. Ástæða er til að ítreka að Evrópuráðið er ótengt Evrópusambandinu. Það síðarnefnda hefur þrjár meginstoðir: Framkvæmdastjórn í Brussel, dómstól með aðsetur í Lúxemborg og Evrópuþingið sem kemur saman ýmist í Brussel eða Strassborg.

Evrópusamband með óvissa framtíð

Málefni Evrópu sem heimshluta hafa verið á mikilli hreyfingu í tíð núlifandi kynslóða, einkum eftir lok kalda stríðsins. Evrópusambandið var á mikilli siglingu um og eftir aldamótin með tilkomu nýrra aðildarríkja í austanverðri álfunni og stofnun 16-ríkja myntbandalags með evru sem gjaldmiðil. Sjálft er það nú í mikilli óvissu um hvert stefna skuli. Ástæður þessa eru margþættar. Lissabonsáttmálinn sem undirbúinn hafði verið 2005 og átti að færa ESB í stóru skrefi í átt að ríkisheild mætti mikilli andstöðu en komst loks til framkvæmda í útvatnaðri mynd 2009. Þá var fjármálakreppan skollin á og misvægið innan evrusvæðisins jókst stig af stigi með sterkum efnahag Þýskalands en gífurlegu atvinnuleysi og skuldsetningu í mörgum aðildarríkjum og djúpstæðri kreppu sem enn varir í Grikklandi. Sameiginlegi gjaldmiðillinn sem öllu átti að bjarga hefur reynst hengingaról sem mörg aðildarríki hefðu nú kosið að vera laus við. Nýlegar tillögur frá Brussel um hertar útgjaldareglur og sameiginlega fjármálastjórn aðildarríkja evrusvæðisins mæta áfram mikilli andstöðu, einnig í Þýskalandi. Flóttamannastraumurinn úr suðurátt er jafnframt tifandi tímasprengja sem engin samstaða er um að taka á sameiginlega. Ofan í þetta ástand kom síðan sem reiðarslag fyrir forystu ESB sú ákvörðun meirihluta breskra kjósenda að segja landið úr sambandinu.

Uppgjör og stefnumörkun framundan

Ísland á að hafa lært sína lexíu um Evrópusambandið eftir aðildarviðræðurnar 2009-2013. Til þeirra var stofnað á fölskum forsendum, m.a. þeim að unnt væri að semja um varanlegar undanþágur frá grundvallarreglum ESB. Frekar en að standa frammi fyrir þeirri blekkingu var málinu stungið undir stól við lok kjörtímabils fyrir fjórum árum. Síðan hefur enn hallað undan fyrir ESB sem endurspeglast í spurningunni „Lifir ESB út áratuginn?“ (Viðskiptablaðið 13. júlí 2017.) Þrátt fyrir þetta finnast hér enn stjórnmálamenn í ábyrgðarstöðum sem knýja á um ESB-aðild Íslands og veifa þá einkum evru sem tálbeitu. Uppgjöri við þá blekkingu verður best náð með víðtækri fræðslu um stöðu og innviði ESB og hvaða áhrif aðild hefði fyrir smáþjóð eins og Íslendinga. Gott samstarf lands okkar við Evrópusambandið sem og aðrar þjóðir er eftir sem áður sjálfsagt markmið, en því þarf að finna annan farveg en nú er innan Evrópska efnahagssvæðisins. Á næsta ári verður öld liðin frá því Ísland öðlaðist fullveldi. Þeirra tímamóta verður best minnst með því að draga fram það sem áunnist hefur og marka áherslur um framsýna stefnu óháðs Íslands í samfélagi þjóðanna. Þá er og rétt að hafa í huga að Evrópa er annað og meira en ESB."


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Heimssýn

Heimssýn

hreyfing sjálfstæðissinna í Evrópumálum, eru þverpólitísk samtök þeirra sem telja hagsmunum Íslendinga best borgið með því að halda áfram að vera sjálfstæð þjóð utan Evrópusambandsins.

 

Sími 895 5334 (Haraldur Ólafsson, formaður)


Nánar um Heimssýn

Vertu með!

Frjáls framlög

Eldri færslur

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (27.1.): 313
  • Sl. sólarhring: 476
  • Sl. viku: 2394
  • Frá upphafi: 1188530

Annað

  • Innlit í dag: 274
  • Innlit sl. viku: 2170
  • Gestir í dag: 260
  • IP-tölur í dag: 257

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband