Leita í fréttum mbl.is

Fyrrverandi Brexit-útgönguráðherra kynnir Íslendingum stöðuna

DavidJonesnyBretar vilja fá eigið fullveldi að nýju, sagði David Jones, fyrrum Brexit-útgönguráðherra á fundi Heimssýnar og stúdentafélaganna Ísafoldar og Herjans í Háskóla Íslands á fimmtudag í síðustu viku. Athygli vakti að sendiherra ESB á Íslandi, Michael Mann, mætti með fríðu föruneyti á fundinn til að takast á við Jones.

 

David Jones, fyrrverandi Brexit-útgönguráðherra, var hér á fundi í síðustu viku í boði Heimssýnar og stúdentafélaganna Herjan og Ísafold, en félögin héldu fund með Jones, sem er nú þingmaður fyrir Wales, í Háskóla Íslands fimmtudaginn 9. þessa mánaðar. Jones hélt erindi um aðdraganda þess að Bretar ákváðu í þjóðaratkvæðagreiðslu að segja skilið við ESB og greindi auk þess frá stöðunni í dag og þeim viðhorfum sem eru framundan.

 

Bretland hefur alltaf haft sérstöðu

Jones hóf mál sitt með því að rekja viðhorf forystumanna Evrópuþjóða á upphafsárum Evrópusamrunans, s.s. GeGaulle Frakklandsforseta, sem sagði að eðlilegt væri að Bretar væru utan Evrópusamvinnunnar þar sem Bretar væru eyþjóð umvafin hafi og hefði sín sérkenni og væri ólík öðrum Evrópuþjóðum. Jones bætti því við, kankvís á svip, að vissulega væru Bretar að ýmsu leyti ólíkir öðrum þjóðum í álfunni, enda hefðu þeir umferðina vinstra megin, þeir kynnu að fara í biðraðir og drykkju auk þess volgan bjór. Bretar  hefðu þó samþykkt að gerast aðilar að þessum samvinnuvettvangi Evrópuþjóða, en þó á allt öðrum grunni en væri í dag. Þeir hefðu viljað taka þátt í frjálsri verslun en ekki því pólitíska samrunabandalagi sem ESB væri orðið. Breytingin á ESB væri ástæðan fyrir því að Bretar væru nú að fara út. Þeir vildu taka sín mál í eigin hendur á nýjan leik.

 

Frelsi í viðskiptum meginatriðið

David Jones lagði áherslu á að Bretar væru hlynntir frjálsum viðskiptum landa á milli; Bretar hefðu jú samþykkt aðild að forvera ESB með það að markmiði en ESB væri hins vegar að þróast í átt að stjórnmálasambandi sem væri að taka æ meiri völd frá aðildarríkjunum. Þessi þróun ESB frá samvinnu um frjáls viðskipti yfir í pólitískt yfirsamband hefði valdið æ meiri óánægju og deilum í Bretlandi og leitt til mikillar sundrungar í Íhaldsflokknum og þess að Sjálfstæðisflokkurinn breski hefði verið stofnaður. Ekki nóg með það: Þetta hefði leitt til þess að breska þjóðin hefði klofnað í andstæðar fylkingar. Sú djúpa gjá og sú sundrung sem þetta hefði leitt yfir breskt þjóðlíf hefði á endanum knúið David Cameron til þess að boða til þjóðaratkvæðagreiðslu til þess að losa um þann hnút sem breska Evrópusamvinnan væri komin í.

 

ESB hefur sogað til sín völd og áhrif

David Jones fór fyrir Brexit-sinnum í Wales í aðdraganda þjóðaratkvæðagreiðslunnar, enda á hann rætur í Wales og er þingmaður fyrir Walesverja. Hann sagði að baráttan fyrir Brexit hefði verið fjörlegasta og eftirminnilegasta kosningabarátta sem hann hefði tekið þátt í vegna þess mikla áhuga sem kjósendur sýndu málefninu og það langt umfram venjulegar þingkosningar.  Hann sagði að almenningur í Bretlandi hefði upplifað baráttuna þannig að nú væri hann loksins að eygja möguleika á að fá að taka sín mál í eigin hendur að nýju. Stjórn á eigin málum var helsta baráttumálið eftir það hægfara valdaframsal sem ESB og forverar þess höfðu komið til leiðar. Bretar vildu fá eigið fullveldi að nýju.

 

Lýðræði ábótavant í ESB

David Jones sagði að mikið skorti á það lýðræði í ESB sem annars staðar þekktist. Allar helstu ákvarðanir þyrftu að koma frá framkvæmdastjórn sambandsins og ýmsum opinberum embættis- og starfsmönnum en kæmu ekki frá hinum kjörnu fulltrúum í þingi ESB. Sambandið væri því stærsta regluveldi (bureaucracy) í heimi. Vald framkvæmdastjórnarinnar væri gífurlegt en samt þekktu fáir til þeirra einstaklinga sem þar sætu fyrir aðildarríkin.

Jones sagði að þrátt fyrir að flestir stærstu og öflugustu fjölmiðlar Bretlands hefðu stutt áframhaldandi veru Bretlands í ESB hefðu breska þjóðin samþykkt með 52% atkvæða að segja skilið við ESB. Alls hefðu 17,4 milljónir Breta samþykkt útgöngu. Það væri stærsta lýðræðislega yfirlýsing þjóðarinnar til þessa. Cameron hefði sagt af sér í kjölfarið sem forsætisráðherra og formaður Íhaldsflokksins, enda hefði hann stutt áframhaldandi veru í ESB á þeim grunni sem samningar  höfðu náðst um. Theresa May tók þá við forystu Íhaldsflokksins og forsætisráðuneytinu og meðal hennar fyrstu verka var að stofna sérstakt útgönguráðuneyti úr ESB og nýtt utanríkisviðskiptaráðuneyti. Frummælandinn á fundi Heimssýnar, Herjans og Ísafoldar, David Jones, varð svo fyrst fyrir valinu hjá May sem útgönguráðherra.

 

Tilvistarkreppa ESB-forystunnar

Það var fróðlegt að heyra David Jones lýsa viðbrögðum forystumanna í ESB við niðurstöðu Brexit-kosninganna. Helstu forystumenn ESB hefðu orðið agndofa yfir niðurstöðunni og vægast sagt tekið henni fálega. Forysta ESB hefði í rauninni lent í tilvistarkreppu yfir því að eitt af stærstu og öflugustu ríkjum ESB hefði viljað yfirgefa sambandið. Theresa May, nýr forsætisráðherra Breta, hefði þá undirstrikað að Bretar væru ekki að yfirgefa Evrópu heldur aðeins ESB. Bretar væru alveg tilbúnir að eiga víðtæka samvinnu við Evrópu, t.d. í menntamálum, en þá með tvíhliða samningum.

 

ESB tregt í taumi

Fram kom að Bretar eru eina þjóðin sem hefur ákveðið að yfirgefa ESB fyrir utan Grænlendinga fyrir mörgum áratugum síðan . Það var talsvert átak fyrir Grænlendinga á sínum tíma og það er líka mikið, erfitt og flókið verkefni fyrir Breta að yfirgefa ESB núna. Þeir hefðu hins vegar ákveðið þetta í þjóðaratkvæðagreiðslu í júní 2016 og svo virkjað útgöngugreinina nr. 50 í Lissabon-sáttmálanum í mars í ár.

Jones sagði að ESB hefði verið tregt í taumi og ekki viljað ræða framtíðarsamning við Breta fyrr en búið væri að ganga frá málum er vörðuðu íbúa ESB í Bretlandi, ýmis fjármál við útgöngu og fleira, s.s. atriði er varða landamæri Norður-Írlands og Írlands. Aðstæður eru þannig að um 2,5 milljónum fleiri íbúar ESB búa í Bretlandi en íbúar Bretlands í ESB. Jones sagði að þótt kosningarnar sem May boðaði í ár hefðu ekki farið eins og hún hefði óskað væri þó alveg ljóst að ekki yrði aftur snúið. Ekkert pólitískt afl í Bretland, sem vert væri að nefna, vildi snúa af þessari þróun. Spurningin væri aðeins um leiðina út en ekki hvort farið yrði út. Þjóðin hefði talað í þeim efnum og því bæri að fylgja. May hefði sagt að Brexit þýddi Brexit – og að engir samningar væru betri en slæmir samningar – en þá yrðu samskipti Bretlands og ESB á grunni samninga Alþjóðaviðskiptamálastofnunarinnar, WTO.

Jones sagði að samningar Breta við ESB að loknu Brexit ættu að geta orðið álíka og þeir samningar sem ESB hefði þegar gert við Kanada. Þjóðverjar og fleiri ESB-þjóðir yrðu að hafa í huga að það væri þeim í hag að semja við Breta, m.a. í ljósi þess að Bretar keyptu mun meira af vörum frá ESB-löndunum en ESB-löndin frá Bretlandi. Því væri það hagur fyrir ESB að ná samningum við Breta.

 

Ekki EES eða EFTA

Í fyrirspurnum og umræðum að framsögu Jones lokinni kom m.a. fram að hann teldi samninginn um evrópska efnahagssvæðið eða aðild að EFTA ekki vera ákjósanlega fyrir Breta. EES-samningurinn væri aðeins hálfköruð ESB-aðild með hliðstæðu valdaframsali og ESB-aðild. Slíkt væri engin lausn fyrir Breta. Þeir yrðu þá áfram háðir regluverki ESB og það vildu þeir ekki. Lausn sú er Sviss hefði náð væri heldur ekki góð því það hefði kostað endalausar erjur á milli Sviss og ESB (sem kunnugt er urðu Svisslendingar svo þreyttir á framkomu forystu ESB að þeir ákváðu nýverið að draga formlega í gegnum þjóðþingið til baka áratugagamla umsókn sem í huga flestra, nema skriffinnanna í Brussel, var löngu dauð).

(Eins og fram kemur á öðrum stað á þessum bloggvef mætti sendiherra ESB á fundinn með David Jones, greinilega útsendur af ESB til þess að reyna að grafa undan málflutningi David Jones. Það var hin mesta sneypuför fyrir sendiherrann eins og hér er frá greint).


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Heimssýn

Heimssýn

hreyfing sjálfstæðissinna í Evrópumálum, eru þverpólitísk samtök þeirra sem telja hagsmunum Íslendinga best borgið með því að halda áfram að vera sjálfstæð þjóð utan Evrópusambandsins.

 

Sími 895 5334 (Haraldur Ólafsson, formaður)


Nánar um Heimssýn

Vertu með!

Frjáls framlög

Eldri færslur

Des. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (25.12.): 1
  • Sl. sólarhring: 98
  • Sl. viku: 1964
  • Frá upphafi: 1176818

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 1789
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband