Leita í fréttum mbl.is

Árétting Heimssýnar vegna orkusambands Evrópusambandsins

virkjun

Aðild að Orkustofnun Evrópusambandsins, ACER gæti brotið í bága við stjórnarskrá Íslands og því ættu þingmenn að íhuga að hafna þingsályktunartillögu eða frumvarpi um innleiðingu Þriðja orkumarkaðslagabálks Evrópusambandsins í EES-samninginn.

 

Aðragandi

Árétting þessi er rituð í andmælaskyni við minnisblað frá Ólafi Jóhannesi Einarssyni, lögmanni og fyrrum framkvæmdastjóra hjá Eftirlitsstofnun EFTA, ESA, til ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, sem bað um minnisblaðið á fundi þeirra, 10. apríl 2018. Minnisblaðið er dagsett 12. apríl 2018, og það ber heitið:

„Nokkur atriði tengd upptöku þriðja orkupakka ESB inn í EES-samninginn“.

 

Þróun EES-samningsins

Samkvæmt stjórnarskrárígildi Evrópusambandsins, Lissabonsáttmálanum frá 2009, skulu aðildarríkin þróa með sér sameiginlega yfirstjórn á tilteknum málaflokkum. Einn þeirra er orkumál, og er ætlunin með þessari yfirstjórn að koma í veg fyrir staðbundinn orkuskort í löndum Evrópusambandsins og að hraða orkuskiptum. Til daglegrar yfirstjórnar á þessum málasviðum hefur framkvæmdastjórn Evrópusambandsins valið þá leið að koma á laggirnar stofnunum, sem sinna stjórnvaldshlutverkum, hver á sínu málasviði. Á orkusviðinu er um að ræða ACER (Agency for the Cooperation of Energy Regulators), sem nefna má Orkustofnun Evrópusambandins. Hún hefur á sínum snærum útibú í hverju landi, sem er algerlega óháð stjórnvöldum viðkomandi lands og hagsmunaaðilum. Hlutverk útibúsins (sem í Noregi er nefnt RME-Reguleringsmyndighet for energi) er t.d. að gegna eftirhlutsverki með raforkuflutningsfyrirtækjum landsins, hér Landsneti, og gefa út allar tæknilegar og viðskiptalegar reglugerðir, sem í raun stjórna starfsemi fyrirtækisins. Útibúið lýtur alfarið boðvaldi ACER. Þetta fyrirkomulag brýtur alfarið í bága við tveggja stoða fyrirkomulagið, sem var forsenda EES-samstarfsins á sinni tíð. Til að draga fjöður yfir stjórnarskrárbrot, sem þetta hefur í för með sér í EFTA-löndum EES, var gripið til þess úrræðis, sem engu breytir í raun, að stilla ESA upp sem millilið ACER og útibúsins, en ESA hefur samt engar heimildir fengið til að breyta ákvörðunum ACER í einu né neinu. Þetta stjórnskipulega atriði er næg ástæða til að hafna upptöku Þriðja orkumarkaðslagabálks Evrópusambandins í EES-samninginn. Við mótmælum því, að „[u]pptaka þriðja orkupakkans [hafi] einungis í för með sér óverulegar breytingar“ á „fyrirkomulagi leyfisveitinga og stjórnsýslu“, því að leyfisveitingar á raforkuflutningssviði verður að grundvalla á reglum frá útibúi ACER á Íslandi, sem verður í raun stjórnvald á Íslandi, óháð lýðræðislega kjörnum yfirvöldum í landinu. Ágreiningi um úrskurði innlenda leyfisveitingavaldsins verður ekki skotið til innlendra dómstóla, heldur til ESA og EFTA-dómstólsins.

  

Um valdheimildir ACER

Við mótmælum því, að „[s]amkvæmt reglum þriðja orkupakka ESB [séu] heimildir ACER til að taka bindandi ákvarðanir að meginstefnu bundnar við ákvæði, sem eiga við, þegar um er að ræða grunnvirki, þ.e. sæstrengi, línur og jarðstrengi, sem ná yfir landamæri.“

Evrópusambandið hefur samið kerfisáætlun fyrir raforkuflutninga. Á meðal yfir 170 verkefna, sem þar eru tilgreind til að auka raforkuflutninga yfir landamæri úr núverandi 10% af raforkunotkun upp í 15% árið 2030, er Ice Link, um 1200 MW sæstrengur á milli Íslands og Skotlands. Allar aðildarþjóðir að Orkusambandi Evrópusambandsins eru skuldbundnar til að styðja við framkvæmd þessarar kerfisáætlunar, og það er engum vafa undirorpið, að þráist íslenzk stjórnvöld við að samþykkja umsókn sæstrengsfélags um leyfi fyrir slíkum sæstreng, eða jafnvel synji strengfélaginu um lagnar-, tengi- og rekstrarleyfi, þá munu ACER og Framkvæmdastjórnin taka það óstinnt upp fyrir íslenzkum yfirvöldum og kæra þau til ESA og, ef nauðsyn krefur, EFTA-dómstólsins. Það er þannig alveg út í hött að halda því fram, að í núverandi rafmagnslegu einangrun Íslands felist einhver viðspyrna fyrir stjórnvöld til að verja fullveldið.

 

Stjórnskipulegi fyrirvarinn

Þótt ekkert fordæmi sé um slíkt, fer ekki á milli mála, að þjóðþing EFTA-landanna hafa hvert um sig synjunarvald gagnvart samþykktum Sameiginlegu EES-nefndarinnar í Brüssel, er varða breytingar á gildandi EES-samningi. Það er jafnframt niðurnjörvað í samninginn til hvaða aðgerða Evrópusambandið má grípa, þegar svo ber undir. Aðgerðirnar takmarkast við að fella úr gildi ákvæði, sem lagabálkurinn, sem synjað hefur verið, hefði haft áhrif á, þ.e.a.s. orkumálahlutann í þessu tilviki og þá sennilega Annan orkumarkaðslagabálkinn, en sameiginlega EES-nefndin verður að ræða þá tillögu og samþykkja hana einróma. Refsiaðgerðir á viðskiptasviðinu mundu þar af leiðandi verða taldar vera brot á EES-samningnum fyrir ESA og EFTA-dómstólnum.

Það er lýðræðisleg skylda löggjafans að vega og meta gaumgæfilega, hvort hagsmunum Íslands verður betur borgið í bráð og lengd innan eða utan Orkusambands Evrópusambandsins. Ef Alþingismenn komast að þeirri niðurstöðu, að veikburða aðild Íslands (án atkvæðisréttar) að Orkustofnun Evrópusambandsins, ACER, og völd hennar á Íslandi, brjóti í bága við stjórnarskrá lýðveldisins, þá eiga þeir ekki að hika eitt andartak við að hafna þingsályktunartillögu eða frumvarpi um innleiðingu Þriðja orkumarkaðslagabálks Evrópusambandsins í EES-samninginn.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Heimssýn

Heimssýn

hreyfing sjálfstæðissinna í Evrópumálum, eru þverpólitísk samtök þeirra sem telja hagsmunum Íslendinga best borgið með því að halda áfram að vera sjálfstæð þjóð utan Evrópusambandsins.

 

Sími 895 5334 (Haraldur Ólafsson, formaður)


Nánar um Heimssýn

Vertu með!

Frjáls framlög

Eldri færslur

Des. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (25.12.): 39
  • Sl. sólarhring: 72
  • Sl. viku: 2002
  • Frá upphafi: 1176856

Annað

  • Innlit í dag: 36
  • Innlit sl. viku: 1824
  • Gestir í dag: 36
  • IP-tölur í dag: 36

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband