Leita í fréttum mbl.is

Fullveldi er forsenda skynsamlegrar lagasetningar

HarOlÁramótapistill formanns Heimssýnar

Á árinu 2018 var 100 ára afmæli fullveldis Íslendinga fagnað. Eins og við mátti búast gripu ýmsir tækifærið til tala niður fullveldið. Það er jafnan gert með orðræðu um að heimurinn sé orðinn svo flókinn og viðskipti mikil að fullveldi og þjóðríki þvælist fyrir og best sé að vald sé fært til erlendra stofnana sem stjórnað er af nafnlausum her embættismanna sem enginn veit hver velur og því síður hvernig má losna við, ef það er yfirhöfuð hægt. Að baki liggur líka sú sérkennilega hugmynd, sem að vísu er sjaldan viðruð opinberlega, að hinir erlendu valdamenn hugsi meira og skýrar og séu betri en íslenskir valdamenn. Ekkert haldbært styður hugmyndir af þessu tagi sem eru í raun réttri birtingarmynd kynþáttahyggju, þótt flestir sem í hlut eiga séu svipaðir á litinn.

Fullveldi er forsenda skynsamlegrar lagasetningar

Fullveldi þjóðar er ekki bara rómantísk hugmynd fólks sem hefur gaman af að flagga þjóðfána á tyllidögum, heldur er fullveldi forsenda skynsamlegrar lagasetningar sem tekur mið af raunverulegum aðstæðum og þörfum samfélagsins, en ekki aðstæðum og þörfum annarra ríkja sem um margt eru ólík Íslandi, þótt þau séu líkt um sumt. Deila má um að hve miklu leyti samfélög eru ólík hvert öðru, en ljóst er að Ísland er í veigamiklum atriðum ólíkt hinum stóru samfélögum gömlu evrópsku nýlenduveldanna. Í fyrsta lagi er Ísland lítið og tiltölulega einsleitt samfélag, sem getur notast við einföld kerfi sem henta ekki endilega stórum og flóknari samfélögum. Þá er Ísland lítið málsamfélag sem hlúa þarf betur að en hinum stærri. Landfræðilega er Ísland í stöðu sem er ólík flestum öðrum Evrópuríkjum, bæði hvað varðar staðsetningu, veður- og vatnafar og þéttbýli. Þá byggir íslenskt samfélag nánast að öllu leyti á nýtingu náttúrunnar, hvort heldur litið er til orku, fiskveiða eða ferðamennsku. Síðast en ekki síst eru flest samfélög gegnsýrð af hugmyndafræði hernaðarhyggju, en hún lýsir sér í því að Evrópubúar eru sífellt að mylja púður til að geta skotið meinta óvini. Íslendingar hafa verið blessunarlega lausir við slíka hugsun síðastliðnar 7 aldir og rúmlega það.

Rándýrt framsal valds

Ástæða er til að gleðjast yfir því að vanhugsuð umsókn um innlimun Íslands í Evrópusambandið dagaði uppi á sínum tíma, en horfast verður í augu við að þeir sem hatast við innlent vald sitja enn við sinn keip. Fyrst ekki gekk að koma valdinu í einu lagi úr landi skal nú sækja það smærri bitum. Sé biti of stór má alltaf skera hann niður þangað til hann rennur niður. Þannig runnu lög um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga óhugnanlega lipurt í gegn á Alþingi þrátt fyrir að í þeim fælist framsal valds til Evrópusambandsins. Ljóst er að framkvæmd laganna kostar íslenskt samfélag himinháar upphæðir. Engin umræða var um hvort sú forgangsröðun við ráðstöfun fjár væri rétt og lögin aðkallandi. Þess í stað var því mest haldið á lofti að sambandið langaði reiðinnar býsn til þess að Íslendingar samþykktu þau. Allt var það mál hið einkennilegasta og ekki fullreynt að það standist stjórnarskrá.

Þorri landsmanna gegn framsali valds til ESB í orkumálum - samkvæmt skoðanakönnun Heimssýnar

Á árinu stefndi í að ríkisstjórnin legði fram frumvarp á Alþingi um framsal til Evrópusambandsins á valdi í orkumálum. Sterk andstaða myndaðist gegn málinu og í eftirminnilegri skoðanakönnun sem Heimssýn lét framkvæma síðastliðið vor kom í ljós að allur þorri landsmanna er algerlega andvígur því að vald í orkumálum verði fært til Evrópusambandsins. Er andstaðan sérstaklega sterk meðal stuðningsmanna ríkisstjórnarflokkanna, eða nánast 100%. Stór meirihluti stuðningsmanna þeirra flokka sem þó eru hallir undir aðild Íslands að Evrópusambandinu er líka andvígur. Boðað hefur verið að orkubálkurinn verði lagður fram á árinu 2019 svo allt stefnir í eitilharða rimmu. Þar mun Heimssýn ekki láta sitt eftir liggja.

Allt kennir þetta okkur að barátta fyrir fullveldi er sífelluverkefni. Alltaf verða einhverjir sem sjá sér hag í að varpa fullveldinu fyrir róða í nafni sérhagsmuna, stundargróða, gremju í garð innlendra stjórnvalda eða tísku í stjórnmálum. Þeir þurfa að mæta ókleifum vegg fjöldahreyfingar í aðför sinni að fullveldinu.

Haraldur Ólafsson
formaður Heimssýnar

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Bjarni Jónsson

Í þessum áramótapistli er varpað ljósi á, hvers vegna samtök á borð við Heimssýn eru nauðsynleg hérlendis á aldarafmæli fullveldis.

Bjarni Jónsson, 27.12.2018 kl. 10:41

2 Smámynd: Halldór Jónsson

"Ljóst er að framkvæmd laganna kostar íslenskt samfélag himinháar upphæðir. Engin umræða var um hvort sú forgangsröðun við ráðstöfun fjár væri rétt og lögin aðkallandi. Þess í stað var því mest haldið á lofti að sambandið langaði reiðinnar býsn til þess að Íslendingar samþykktu þau. Allt var það mál hið einkennilegasta og ekki fullreynt að það standist stjórnarskrá."

Berjast þarf fyrir breytingu eða afnámi þessara laga sem eru hin óþörfustu og til lítils gagns fyrir skattgreiðendur.

Halldór Jónsson, 27.12.2018 kl. 13:07

3 Smámynd: Halldór Jónsson

 Ég vil gerast félagi í Heimssýn ef ég er ekki þegar skráður

Halldór Jónsson, 27.12.2018 kl. 13:08

4 Smámynd:   Heimssýn

Við lítum nú þegar á þig sem félaga, Halldór - en skulum jafnframt kanna þetta formlega.

Heimssýn, 27.12.2018 kl. 22:43

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Heimssýn

Heimssýn

hreyfing sjálfstæðissinna í Evrópumálum, eru þverpólitísk samtök þeirra sem telja hagsmunum Íslendinga best borgið með því að halda áfram að vera sjálfstæð þjóð utan Evrópusambandsins.

 

Sími 895 5334 (Haraldur Ólafsson, formaður)


Nánar um Heimssýn

Vertu með!

Frjáls framlög

Eldri færslur

Des. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (25.12.): 39
  • Sl. sólarhring: 72
  • Sl. viku: 2002
  • Frá upphafi: 1176856

Annað

  • Innlit í dag: 36
  • Innlit sl. viku: 1824
  • Gestir í dag: 36
  • IP-tölur í dag: 36

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband