Leita í fréttum mbl.is

Ríkisstjórnin skreytir pakkann!

Hjörleifur Guttormsson, fyrrverandi ráðherra, segir í grein, sem Morgunblaðið birti eftir hann um þriðja orkupakka ESB fyrir nokkrum dögum, að ríkisstjórnin sé að fegra þann pakka og segi ekki heiðarlega frá álitum lögfræðinga um málið. Jafnframt varar Hjörleifur við því að ESB verði færð yfirráð yfir auðlindum landsins í gegnum orkupakkann. Hjörleifur hefur veitt Heimssýn leyfi til að endurbirta greinina hér:

HjorleifurGuttormsson170615

Hjörleifur Guttormsson

29. mars 2019

Afhendum ekki ESB völdin yfir íslenskum auðlindum með orkupakka 3

 

EES-samningurinn var samþykktur á Alþingi árið 1993 með 33 atkvæðum gegn 23, en sex þingmenn sátu hjá, þar á meðal var helmingur þingflokks Framsóknar og þrír Sjálfstæðismenn á móti. Samtök um óháð Ísland söfnuðu  undirskriftum 34.378 kosningabærra manna gegn samningnum og afhentu þær Salóme Þorkelsdóttur þá forseta Alþingis. Jafnframt beindust áskoranir að Vigdísi forseta um að hún skrifaði ekki undir lögin um EES, þannig að málið færi í þjóðaratkvæðagreiðslu eins og ítrekað hafði verið krafist innan og utan þings. Vigdís varð ekki við þeirri áskorun, en ljóst var að hún tók málið nærri sér og íhugaði að segja af sér embætti af þessu tilefni (Mbl, 9. júlí 1996). Skömmu áður eða 1992 hafði EES-samningurinn farið í þjóðaratkvæði í Sviss og verið felldur, og enn býr Sviss að þeirri niðurstöðu.

Í febrúar 1992 flutti ég á Alþingi tillögu til þingsályktunar „Um EES-samning og íslenska stjórnskipan.“ Meðflutningsmenn að tillögunni voru Steingrímur Hermannsson, Anna Ólafsdóttir Björnsson og Ólafur Ragnar Grímsson. Þar sagði í upphafi:

 Alþingi ályktar að setja á fót nefnd sex sérfróðra manna sem athugi hvort aðild að Evrópsku efnahagssvæði í því formi sem fyrir liggur í samningsdrögum nú eða síðar brjóti með einhverjum hætti gegn íslenskri stjórnskipun eða hvort gera þurfi breytingu á stjórnarskrá lýðveldisins vegna fyrirhugaðs EES-samnings.

Tillögunni var að umræðu lokinni vísað til utanríkismálanefndar, þar sem ekki reyndist meirihluti fyrir afgreiðslu hennar. Nú er það löngu viðurkennt af fjölda sérfróðra að EES-samningurinn eins og frá honum var gengið af Alþingi 1993 hafi þá þegar verið á gráu svæði gagnvart stjórnskipun okkar og síðan ítrekað brotið gegn henni eins og hann hefur þróast. Nú brennur á þingi og þjóð svonefndur orkupakki 3, og honum tengist spurningin, hvort nú sé ekki mælirinn fullur.

Furðuleg fréttatilynning ráðherra

Þann 22. mars sl. sendu utanríkisráðuneytið og atvinnuvega- og nýsköpunarrráðuneytið frá sér fréttatilkynningu með fyrirsögninni: „Ríkisstjórnin samþykkir að leggja þriðja orkupakkann fyrir Alþingi.“ Tilkynning þessi er hið furðulegasta plagg, bæði margt af því sem þar kemur fram og þó enn frekar valið úrtak með tilvitnunum í lögfróða umsagnaraðila, þar sem ekki er hálf saga sögð af aðvörunum þeirra og fyrirvörum, sérstaklega lögmannanna Friðriks Árna Friðrikssonar og Stefáns Más Stefánssonar. Svo langt er gengið í gyllingu á ágæti væntanlegrar tillögu ríkisstjórnarinnar að staðhæfa eftirfarandi: „Um er að ræða orkupakka á íslenskum forsendum. Hann er tekinn upp í íslenskan rétt á þeirri forsendu að Ísland er ekki tengt við raforkumarkað ESB.“  Þegar þessi fullyrðing er borin saman við álitsgerð nefnda lögmanna sem skiluðu þann 19. mars sl. álitsgerð um „stjórnskipuleg álitamál tengd framsali ríkisvalds til stofnana ESB/EFTA vegna þriðja orkupakka ESB“ kemur í ljós hve óheiðarlega er hér gengið til verks. Í stað þess að birta álitsgerðir lögmannanna sem lágu á borði ráðherra dögum áður en málið var borið upp til afgreiðslu í ríkisstjórn, eru umsagnir þeirra með fjölda aðvarana og álitaefna um orkupakka 3 faldar fyrir þingmönnum og almenningi.

Enn á að skauta framhjá stjórnarskránni

Utanríkisráðherra ætlar Alþingi samkvæmt ofangreindu að innleiða orkupakka 3 með þeim fyrirvara að viðkomandi bindandi reglur hans komi ekki til framkvæmda nema þingið heimili lagningu sæstrengs til raforkuflutnings frá Íslandi og „þá þarf jafnframt að taka á nýjan leik afstöðu til þess hvort reglurnar standist stjórnarskrá.“  Með þessu á að læða í gegn staðfestingu Alþingis á orkupakka 3, sem augljóslega stríðir gegn stjórnarskrá lýðveldisins og óumdeilanlega yrði virkur ekki síðar en með lagningu sæstrengs.  Um þá framkvæmd á síðan orustan að snúast, ef ekki yrði þá þegar búið að breyta stjórnarskránni.

 Friðrik og Stefán Már minna á það í álitsgerðinni að „það er réttur EES/EFTA-ríkjanna  samkvæmt EES-samningnum að neita upptöku gerða í EES-samninginn og eftirfarandi innleiðingu á viðkomandi gerðum ... Slíkt kallar hins vegar á sáttameðferð  á vettvangi sameiginlegu EES-nefndarinnar.“ (s. 38) Þeir benda jafnframt á annmarka á boðuðum fyrirvara vegna sæstengs: „Þessi lausn er þó ekki gallalaus“. Lögmennirnir taka fram (s. 24) að hyggist Alþingi aflétta fyrirvara við fyrirliggjandi ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnnar frá 5. maí 2017 „ber þinginu m.a. að gæta að því, hvort þær ESB-gerðir, sem ákvörðunin tekur til, samræmist stjórnarskrá lýðveldisins Íslands nr. 33/1944.“  Þótt sæstrengur sé enn ekki til staðar, „breytir það því þó ekki, að þriðji orkupakkinn verður ekki tekinn upp í íslenskan landsrétt nú nema hann standist stjórnarskrána.“  Ákvörðun Alþingis um að innleiða þriðja orkupakkann í landsrétt verður „að miðast við þá forsendu að grunnvirkjum  yfir landamæri verði komið á fót hér á landi ...“ (s. 24). – Lögmennirnir vekja jafnframt athygli á, að við undirritun EES-samningsins hafði þáverandi Rómarsamningur engin sérstök ákvæði haft að geyma um raforku. Því sé álitamál, hvort unnt sé að taka valdheimildir á því sviði upp í EES-samninginn án samsvarandi breytinga á honum sjálfum. (s. 9). Í þessu samhengi er mjög athyglisverð umfjöllun þeirra um dóm EFTA-dómstólsins gagnvart Noregi í svonefndu Heimfallsmáli. (s. 10) Þar var tekist á um það, hvort ákvæði norskra laga um vatnsréttindi féllu utan við gildissvið EES-samningsins, eins og Norðmenn héldu fram, en þeirri rökssemd þeirra var hafnað.  

Orkupakkinn og yfirþjóðlegar valdheimildir

Með tilskipun 96/92/EB um fyrsta orkupakkann, sem varð hluti EES-samningsins 1999, var kveðið á um samkeppni í raforkuvinnslu. Þá sótti Ísland um og fékk undanþágu á grundvelli þess að hér væri lítið og einangrað kerfi. Þessi undanþáguheimild var víðtæk og bauð upp á að sótt yrði um ýmsar fleiri efnislega mikilvægar undanþágur frá ákvæðum pakkans. Á það var hins vegar ekki látið reyna af Íslands hálfu heldur var orkupakki 2 innleiddur hér að fullu vegna hugmynda um að koma hér á samkeppnismarkaði fyrir raforku. Þegar svo kom að orkupakka 3 og reynt var að fá tilteknar undanþágur, strandaði það m.a. á vanrækslu og fyrri ákvörðunum íslenskra stjórnvalda. „Sambandsstofnunin“ ACER (sbr. reglugerð 713/2009) er ótvírætt yfirþjóðleg stofnun með afar víðtækar heimildir, hefur m.a. vald til að taka lagalega bindandi ákvarðanir á ýmsum tilteknum sviðum, „sem vekja spurningar um hvort viðkomandi ákvæði reglugerðarinnar standist stjórnarskrá ...“ (s. 20 í álitsgerð lögmanna). Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) hefur hér vissu hlutverki að gegna í samvinnu við ACER, en lögmennirnir vekja sérstaka athygli á ráðandi hlutverki ACER í þeim samskiptum. (s. 22-23).

Átakamál um framtíð og þjóðarhagsmuni

Málið sem ríkisstjórnin nú hyggst knýja Alþingi til að samþykkja á galopnum forsendum og gegn ákvæðum stjórnarskrár okkar varðar yfirráð yfir náttúruauðlindum, íslenskum fallvötnum, nýtingu þeirra og verndun. Það er hliðstætt spurningunni um hvort afhenda ætti útlendingum sjávarauðlindir okkar. Sótt er að Landsvirkjun með einkavæðingu í huga og fyrirtæki eins og HS Orka og Arctic Hydro kemba nú landið undir merkjum smávirkjana, með góðfúslegu leyfi Orkustofnunar. Þessir aðilar leggjast nú bak við tjöldin fast á sveif með hagsmunaöflum, innlendum og erlendum, um að tengja Ísland við orkumarkað Bretlands og meginlandsins. Íslensk náttúra og almenningur greiða reikninginn með stórhækkuðu raforkuverði og umturnun á friðsælum dölum og heiðum, sem sloppið hafa við umrót virkjana fram að þessu. Hvað segir íslensk æska og kjörnir alþingismenn um slíka framtíðarsýn?

Hjörleifur Guttormsson

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Heimssýn

Heimssýn

hreyfing sjálfstæðissinna í Evrópumálum, eru þverpólitísk samtök þeirra sem telja hagsmunum Íslendinga best borgið með því að halda áfram að vera sjálfstæð þjóð utan Evrópusambandsins.

 

Sími 895 5334 (Haraldur Ólafsson, formaður)


Nánar um Heimssýn

Vertu með!

Frjáls framlög

Eldri færslur

Des. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (26.12.): 190
  • Sl. sólarhring: 246
  • Sl. viku: 1929
  • Frá upphafi: 1177102

Annað

  • Innlit í dag: 173
  • Innlit sl. viku: 1750
  • Gestir í dag: 170
  • IP-tölur í dag: 167

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband