Hin leiðin er að innleiða orkupakkann í íslenskan rétt en með lagalegum fyrirvara um að ákvæði hans um grunnvirki yfir landamæri öðlist ekki gildi, enda (sé) slíkum grunnvirkjum ekki fyrir að fara hér á landi. Þessi leið þýðir í raun að gildistöku hluta orkupakkans er frestað uns Ísland hefur tengst orkumarkaði ESB/EES um sæstreng. Það er hefðbundið undanhald og tæplega hægt að tala um það lengur sem skipulagt.
Áfangar undanhaldsins eru margir og meira eða minna þekktir. Þannig hafa nú allir leyfi til að fjárfesta í íslenskum bújörðum og sanka að sér náttúrulegum auðlindum í krafti þeirra réttinda. Girðingar, sem settar voru 1995, voru teknar niður þegar athugasemdir og hótanir um kærur bárust um og eftir aldamótin síðustu. Með sambærilegum hætti hafa varnir íslensks landbúnaðar hrunið. Það eru sem sagt ýmsar leiðir sem íslensk stjórnvöld hafa kosið sem áfanga í undanhaldi sínu. Sú síðasta er sú hefur nú valdið stökkbreytingu innan þingflokks Sjálfstæðisflokksins.
Álitsgerðin
Álitsgerð Stefáns Más Stefánssonar og Friðriks Árna Friðrikssonar Hirst er athyglisverð fyrir margra hluta sakir. Hún er að mínu mati vönduð. Þó vekur hún spurningar, sem hún svarar ekki. Ég sný mér fyrst að þeim.Það sem vekur athygli mína, og jafnframt vonbrigði, er að álitsgerðin skuli fjalla af nokkru tómlæti um þátttöku Íslands í Evrópska efnahagssvæðinu (EES) eins og um væri að ræða þátttöku í hverri annarri alþjóðastofnun. ESB er pólitísk stofnun, tollabandalag, sem hefur lengi velkst í vafa um hvort það eigi að stefna í átt til einnar ríkisheildar eða ekki. Sú umræða er enn óútkljáð. Í nokkrum rykkjum hefur þó ESB þróast í átt til aukins miðstjórnarvalds. Orkutilskipanir ESB eru hluti af þessari þróun.
Það er ekki hægt að ræða um Bandaríkin sem alþjóðastofnun, þótt það ríki byggist á mörgum ríkjum. Það er ekki heldur hægt að rugla Sovétríkjunum sálugu, né heldur Rússneska sambandsríkinu saman við alþjóðastofnun. Hvaða tilgangi þjónar það þá að rugla með þetta hugtak í álitsgerð sem þessari, sem á ekki að grafa undan eigin faglegu yfirbragði með svo augljósum hætti? Hugtakaruglingurinn er þeim mun bagalegri, sem hann hefur greinilega náð að rótfesta sig í utanríkisráðuneytinu (sbr. svar utanríkisráðherra við fyrirspurn frá Óla Birni Kárasyni, þingskjal 1315).
Þegar fræðimenn hugleiða stöðu Íslands gagnvart umheiminum, sjálfstæði þjóðarinnar og það svigrúm sem stjórnarskrá lýðveldisins veitir eða veitir ekki til að færa valdheimildir undan stjórnvöldum, þá hlýtur að skipta máli, hvort slíkt afsal valds er til viðurkenndrar alþjóðlegrar stofnunar, ellegar til annars ríkis, eða pólitísks bræðings á borð við ESB. Evrópusambandið víkur til hliðar flestum viðmiðum sem tiltekin eru sem grundvöllur lýðræðisríkja. Það hlýtur því að vera sérstök ástæða til að vanda til athugunar á því hvort íslenska stjórnarskráin veitir yfirleitt nokkuð svigrúm til valdaafsals til annars ríkis eða fjölþjóðlegs tollabandalags, sem hagar sér að flestu leyti sem ígildi ríkis.
Reglurnar sem tollabandalagið ESB setur eru ekki algildar. ESB víkur oft frá þessum reglum af pólitíkum ástæðum. Vel þekkt dæmi eru um þetta. Hef ég áður vikið að því að reglur um ríkisfjármál og viðskiptahalla hafi vikið fyrir pólitískum þrýstingi frá Þýskalandi og Frakklandi. Reglunum var hins vegar beitt af hörku gagnvart smærri ríkjum, einkum þó gegn Grikkjum og öðrum þjóðum Suður-Evrópu.
Stjórnmálamenn undir pilsfaldi sérfræðinga
Það liggur í augum uppi að sérfræðingarnir verða að forðast það sem heitan eldinn að blanda sér í stjórnmál. Það er annarra að meta framlag þeirra sem grundvöll stjórnmálaákvarðana.Hinni lausninni fylgir hins vegar verulegur meinbugur. Hún byggist á þeirri grunnforsendu að orkupakkinn leggi ekki skyldur á Ísland til að koma á fót grunnvirkjum yfir landamæri, heldur sé ákvörðun um það alfarið á forræði Íslands.
Takmarkað vald en talsverður vilji
Þó kemur það hvergi fram í álitsgerðinni að íslensk stjórnvöld hafi vald til að setja sig á móti því að komið verði á tengingu um sæstreng við raforkumarkað ESB/EES. Um slíkt svigrúm fjalla engar samþykktar undanþágur. Þar er einungis gefið í skyn að þriðji orkupakkinn leggi ekki þá skyldu á íslensk stjórnvöld að koma á fót grunnvirkjum yfir landamæri. Það er hins vegar andi allrar orkulöggjafar ESB að koma á fót sameiginlegum orkumarkaði aðildarlandanna og flytja orku yfir landamæri til að fullgera þann markað.
Upplausn stjórnmálaflokka
Nú berast tíðindi víða að um óstöðugleika stjórnmálaflokka. Þótt sú upplausn eigi sér eflaust ýmsar skýringar, er ekki hægt að líta fram hjá því að innan Evrópu hafa þær allar tengsl við Evrópusambandið. Það hendir oftar en ekki að stjórnmálaforkólfar draga sjálfa sig upp úr töfrahatti og þá dagar svo uppi við sólarupprás.
Hávær en tvíræð lofgjörð um stökkbreytinguna
Þess er með ýmsum hætti freistað að gera lítið úr málflutningi þeirra sjálfstæðismanna, sem vara við því að samþykkja þriðja orkupakkann. Það vekur hins vegar athygli hve mikil þögn ríkir af hálfu forystu flokksins um fögnuð þeirra, sem klufu Sjálfstæðisflokkinn vegna andstöðu hans við inngöngu í ESB.Þó ganga þessir síðastnefndu lengst í að bera lof á Sjálfstæðisflokkinn fyrir framgöngu hans í málinu og lofa fullum stuðningi við afgreiðslu orkupakkans. Þeir fagna hækkuðu orkuverði til almennings og atvinnulífs. Einn þeirra gengur jafnvel svo langt að bera lof á utanríkisráðherra Íslands fyrir að draga, með rökum Björns Bjarnasonar, gervallan þingflokk Sjálfstæðisflokksins eins og hverja aðra kanínu upp úr töfrahatti loddarans. Fagnar Þorsteinn Pálsson þessum meintu töfrabrögðum og lofsyngur þingflokk Sjálfstæðisflokksins fyrir að auðvelda eftirleikinn fyrir þeim sem berjast fyrir aðild Íslands að ESB.
Óljóst er enn þegar þetta er ritað, hvort drengskapur fyrrverandi formanns Sjálfstæðisflokksins auðveldar þingflokki Sjálfstæðisflokksins að standa sem einn maður að innleiðingu orkupakka ESB.
Lokaorð
Það er sannarlega kominn tími til að Íslendingar sæki fram í stað þess að hörfa. Það er mikill misskilningur að það skapi okkur skjól og auki virðingu viðsemjenda okkar að hörfa sífellt og fara með veggjum, hlýðnir og auðmjúkir. Það hlutverk var okkur ætlað í Icesave-málinu. Það vannst vegna þess að einarður málflutningur fór fram gegn uppgjöf ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur og forsetinn vísaði málinu til þjóðarinnar.
Höfundur er fv. alþingismaður og ráðherra.
Athugasemdir
Virkilega skýr og góð grein og vona ég bara að forista sjálfstæðisflokksins vakni upp af þessum þyrnirósa svefni dreymandi um stöðu hjá Landsvirkjun eða ESB.
Valdimar Samúelsson, 27.4.2019 kl. 18:40
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.